Posts Tagged ‘bardagaíþróttir’

Bardagaíþróttir

Posted: júlí 19, 2017 in Umræða
Efnisorð:,

Nú hef ég æft karate í nokkur ár – og líkar vel.  Ekki það að ég hafi nokkurn áhuga á slagsmálum og vonandi kemur aldrei til að ég þurfi að nýta mér það litla sem hefur skilað sér í þekkingu / þjálfun í raunverulegum bardaga. En að æfa karate er fínasta þjálfun, agi, einbeiting, samhæfing hugar og hreyfingar – að ógleymdum góðum félagsskap – gerir það að verkum að þetta er eina íþróttin sem ég hef enst eitthvað til að stunda… fyrir utan auðvitað fótbolta.

En ég datt aftur í að horfa á blandaðar bardagalistir um helgina og hef dottið í umræður þar sem fólk ruglar saman því að finnast einstaka íþrótt ekki geðfelld og því að gera lítið úr því íþróttafólki sem hana stundar. Þessu fylgir einhvers konar grautur af óþarfa æsingi, skítkasti og rökleysum dynja á þeim sem voga sér að finnast greinin ekki geðfelld.

Ég geri ekki lítið úr því að þetta er flott íþróttafólk sem við eigum, margir mættu taka þau sér til fyrirmyndar þegar kemur að þjálfun, einbeitingu og að ná árangri – að ógleymdu því hvað þau koma vel fyrir, hafa haldið haus og eru laus við allan hroka og yfirlæti… nokkuð sem æstustu stuðningsmenn þeirra mættu taka sér til fyrirmyndar.

En mér finnst eitthvað verulega ógeðfellt við greinar þar sem markmiðið er að sigra andstæðinginn með því að meiða og það er beinlínis hluti af keppninni að meiða. Þetta hefur ekkert með slysa- eða dánartíðni að gera.. það er einfaldlega eðli leiksins sem ég kann ekki við.

Og, nei, ég vil ekki banna þessar greinar, fullorðið fólk má ráða því sjálft hvaða áhættu það tekur.