Það er auðvitað til gagnslaust að rökræða við meðlimi sértrúarsafnaða.. ef þeir tækju rökum og ef þeir gætu unnið úr upplýsingum þá væru þeir auðvitað ekki meðlimir sértrúarsafnaðar.
Loftslagsbreytingafneitarar er sennilega mest áberandi sérstrúarsöfnuðurinn þessa dagana, kannski rétt á undan flatjarðarsinnum og hávaðinn og athyglin í öfugu hlutfalli við þekkinguna – en athygli er stöðug, sennilega vegna óþolandi vegna rænuleysis fjölmiðla sem þurfa hverja vitleysuna á fætur annarri til að halda áhorfi og / eða fá netumferð.
Það mætti reyndar hafa gaman af rökleysum afneitara ef málið væri ekki svona alvarlegt.
Þeir benda gjarnan á að einhver tiltekinn fjöldi vísindamanna afneiti hlýnun jarðar eða amk. telji hana ekki af mannavöldum. Oftar en ekki eru þessir vísindamenn ekki með neina sérþekkingu á loftslagsmálum, sem eru nefnilega nokkuð flókin og það kallar á mikla menntun og reynslu að skilja þetta.
En hvers vegna vísa þeir alltaf til þess að einhverjir „vísindamenn“ haldi einhverju fram? Er tilvísunin í „vísindamenn“ vegna þess að það sé svo mikið að marka „vísindamenn“. Gott og vel, hvers vegna ekki að taka þúsund sinnum meira marka meira en á þúsund sinnum fleiri vísindamönnum?
Og ef það er ekkert að marka vísindamenn, hvers vegna þá að tilgreina sérstaklega að það sé verið að vísa til „vísindamanna“?
Sumir afneitara þykjast svo vera vísindalega sinnaðir og séu að beita aðferðum vísindanna til að efast og gagnrýna… sem væri gott ef ekki væri búið að svara gagnrýni þannig að hafið er yfir vafa.. og svo væri líka gott ef þeir hinir sömu beittu sams konar gagnrýni og efa þegar þeir skoða gögn afneitunarbloggara og YouTubeAfneitara.
Ekki má gleyma þeim sem sjá risavaxið samsæri í kenningum um hlýnun jarðar af mannavöldum… ég skil ekki almennilega hvernig, en mér heyrist þetta snúast um að Al Gore hafi farið aftur í tímann og mútað nánast hverjum einasta vísindamanni jarðar. Ekki veit ég enn hvað þetta hefur kostað hann eða hvað hann á að hafa grætt á þessu tímaflakki sínu.
En afneitarar sjá ekki neina tengingu við nokkuð augljósa hagsmuni þeirra hafa sig hvað mest í frammi.
En gott og vel, rökræður við afneitara eru að mestu tilgangslausar.
En það er að minnsta kosti hægt að hætta að veita þeim athygli – ég hef óþægilegan grun um að margir þeirra nærist einmitt á athyglinni. Eða hver er tilgangurinn með að vera sí gjammandi í öllum fjölmiðlum? Eins og marg oft hefur verið bent á, þá eru nú fæstar þeirra aðgerða, sem stungið hefur verið upp á, annað en til bóta hvort sem er.
Þannig er sennilega besta ráðið að hætta að þrasa beint, hætta að vekja athygli á fáfræðinni og getuleysinu til að vinna úr upplýsingum, ekki setja inn á Facebook eða Twitter, ekki smella á tengla hjá fréttaveitum og slökka á (eða skipta af) sjónvarpsstöðvum og útvarpsrásum sem hleypa þeim gagnrýnislaust í loftið.