Flóttafólk, í samhengi

Posted: júlí 25, 2017 in Umræða
Efnisorð:

Ég skrifaði fyrir nokkrum dögum færslu um að það væri fínasta nálgun, þegar flóttafólk er annars vegar, að miða við hvernig við myndum kjósa að tekið yrði á móti okkur í svipuðum aðstæðum.

Kveikjan að þeirri færslu voru reyndar örfáir einstaklingar sem virðast hafa fengið einstaklega ómannúðlega meðferð hjá íslenskum stjórnvöldum. Einstaklingar sem eru búnir að koma sér fyrir og eru hluti af samfélaginu, einstaklingar sem eru jafnvel í lifshættu vegna skoðana / kynhneigðar ef við sendum þá úr landi.

Margar athugasemdirnar sem voru gerðar við færsluna snerust um fjöldatölur, skattpeninga og verklag við að taka á móti fólki. Sumar góðar og gildar, en höfðu í rauninni lítið með færsluna mína að gera. Ég ákvað að sleppa því að skýra betur að ég hefði nú verið með örfá þekkt tilfelli í huga, enda á hugsunin svo sem við í flestum tilfellum.

Ég fór svo að hugsa þetta í samhengi við þann sið fyrr á tímum hér á landi (og væntanlega víðar) að bjóða ferðalöngum gistingu. Oftast held ég að þetta hafi verið án endurgjalds – eða að minnsta kosti ekki verið gerð krafa um greiðslu.

Þetta var (að ég held) einhvers konar þegjandi samkomulag fólks í harðbýlu landi þar sem fólk varð einfaldlega úti ef ekki fékkst húsaskjól. Án þess að hafa sagnfræði eða tölfræði til taks þá þykist ég vita að þetta hafi verið nánast undantekningarlaus siður, enda flest þeirra sem veittu húsaskjóli oft sjálf í þeirri aðstöðu að þurfa að ferða og þiggja gistingu. Ekki var hægt að panta gistingu á vefnum, ekki einu sinni hægt að hringja og kanna mögulega gistingu.

Ég veit ekki til að bændur hafi til að mynda reiknað sér fyrirfram hvað þeir gætu tekið á móti mörgum.

Og ég hef ekki frétt af neinum sem lokaði húsum sínum alfarið vegna þess að annars yrði allt fullt af ferðalöngum.

Svona rétt til að setja hlutina í samhengi.

Lokað er á athugasemdir.