Archive for the ‘Spjall’ Category

Punk eða ekki punk

Posted: júlí 31, 2016 in Spjall, Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég kíkti nýlega á upphitun fyrir punk hátíð.

Eins og svo oft áður þegar ég kíki á hljómsveitir sem kenna sig við punk þá fannst mér eiginlega ekkert rosalega gaman.

Jú, mikill kraftur, ekki vantaði hraðann, rosalega vel æft og spilamennskan var þétt og fumlaus. En… mér fannst bara samt ekkert gaman. Og mér finnst þetta eiginlega rauður þráður í því að mæta og hlusta á punk hljómsveitir. Nei, kannski ekki, það er fullt af skemmtilegum undantekningum – en allt of oft.

Ég hlustaði á tónlist sjöunda áratugarins þegar ég var krakki, aðallega voru það eldri systkini mín sem „fóðruðu“ mig á tónlist. Síðan kom ákveðinn öldudalur, að mér fannst, með svokölluðu „prog-rokki“ annars vegar – sem fyrir mér var uppfullt af tilgangslausum flækjum, sýndarmennsku og uppskrúfuðum tilraunum – og svo diskóinu hins vegar – sem var aftur dauðhreinsað, óspennandi, máttlaust og innihaldslaust.

Punkið heillaði mig, en eiginlega bara tónlistin og viðhorfið til hennar, alls ekki fatatískan og engan veginn ruglingsleg skilaboðin um breytt samfélag. Gott og vel, best að alhæfa ekki, það var langt frá því að öll tónlistin væri góð, stundum voru fötin skemmtileg og auðvitað kom fyrir að eitthvað væri til í skilaboðunum. En miklu oftar var það eiginlega fyrir utan mitt áhugasvið.

Tónlistin var hins vegar einhvers konar afturhvarf til sjöunda áratugarins, ekki endilega að allt hljómaði eins, heldur viðhorfið, tónlist átti að vera einföld, kraftmikil og skemmtileg, flutt af áhuga og ástríðu, en þurfti engan veginn að vera fullkomin í flutningi – kannski betra, en innan ákveðinna marka var það aukaatriði.

Í samanburði við það sem var alls ráðandi á þessum tíma þá kom punkið til sögunnar sem ofsalega „árásargjarnt“, því það var bæði hrátt og hratt og engan veginn dauðhreinsað af mistökum. Það var einfaldlega vegna þess að ráðandi tónlist var komin svo langt út í einhverja undarlegan jaðar að í samanburðinum virkaði þetta sem einkenni. Í framhaldinu urðu þessi einkenni svo einhverra hluta vegna aðaltriðið.. í stað þess að við fengjum meira að skemmtilegri tónlist þá fóru hljómsveitir sem vildu kenna sig við punk að ganga sífelld lengra í að vera harðari og hraðari – en steingleymdu upphaflegri nálgun – eða voru kannski aldrei að skilja.

Ég nefni sem dæmi, af handahófi, Ramones, Clash, Stranglers, Sex Pistols, Jam og Stiff Little Fingers. Ekkert af því sem ég heyri í dag og er kennt við punk, á nokkuð skylt við tónlist þessara hljómsveita.

Best að taka vonda líkingu…

Það má kannski líkja þessu við að mæta í húsnæði sem er illa þrifið og koldrullugt. Einhver nefnir að það megi nú kannski sópa, mæta með sápu og skúra og þrífa – sem er gert. Í framhaldinu er svo farið út fyrir öll mörk í sápu og húsnæðið er óhæft vegna þess að þar flýtur allt í sápu! [kannski ekki svo vond líking!]

Nú hef ég nýlega (einhverra hluta vegna) verið að velta fyrir mér aflandsfélögum, (sennilega) í kjölfar frétta af nokkurs konar hjarðhegðun fólks sem finnst víst erfitt að eiga peninga, amk. hér á landi.

Ég er auðvitað enginn hagfræðingur, en hver er það svo sem? En ég velti gjarnan fyrir mér hvernig hlutirnir líta út frá einu heimili eða litlu þorpi.

Ein saga hentar ágætlega til að heimfæra á lítið þorp. Einn þorpsbúinn sótti arf frá föður sínum, nokkuð miklar eignir sem voru til komnar eftir áratuga vinnu föðursins við að byggja upp fyrirtæki í þorpinu. Þorpsbúar höfðu tekið fyrirtækinu vel, enda lagði fyrirtækið áherslu á góða vöru og fyrsta flokks þjónustu og fyrirtækið blómstraði. Þorpsbúinn sótti sem sagt arfinn og ákvað að geyma peningana sína í öðru þorpi og leyfa þorpsbúum þar að njóta þeirra. Maki þorpsbúans virðist hafa verið (það sem kallað var) „eilífðarstúdent“ á þessum tíma og ekkert hafa haft til málanna að leggja.

En þetta er bara eitt lítið dæmi, þetta var orðin einhvers konar hjarðhegðun þeirra sem áttu peninga og önnur verðmæti sem höfðu verið sköpuð í þorpinu, í mörgum tilfellum með því að nýta sameiginlegar auðlindir þorpsbúa.

Þessir peningar voru flutt í önnur þorp og íbúum þeirra leyft að njóta, eigendunum virist finnast erfitt að eiga peninga í þorpinu. „Hvers vegna er það erfitt?“ – var spurt, en engin svör.

Í mörgum tilfellum voru miklir fjármunir geymdir í þorpum sem veittu svokölluð skattaskjól, en eigendurnir fullyrtu að þeir væru ekkert að leita eftir skattaskjóli og hefðu greitt sína skatta af eignunum. „Hvers vegna eruð þið þá að flytja peningana í skattaskjól ef þið eruð ekki að nýta ykkur að þetta er skattaskjól?“ – var spurt, en engin nothæf svör. Einhverjir gáfu þær skýringar að það gætu verið aðrar ástæður og aftur var spurt „Já, já, gott og vel, hverjar?“ – en engin svör.

Svo voru þeir sem fullyrtu að þorpið væri langbest, gjaldmiðillinn þeirra væri sterkastur, þar væri mestur uppgangur væri þar og bestu tækifærin. „Já, hvers vegna geymið þið þá ekki peningana ykkar hér og ávaxtið með sterkum gjaldmiðli og í hagkerfi í miklum uppgangi?“ – var spurt, en engin svör.

Margir sögðu að einhver bankamaðurinn hefði ráðlagt þeim að geyma peningana annars staðar. „Já, já, og hver rök voru fyrir ráðleggingu bankamannanna?“ – var spurt, en engin svör. „Voru þetta bara ráðleggingar út í bláinn sem þið fóruð hugsunarlaust eftir?“ – var spurt, en engin svör.

Bankamaðurinn reið reyndar á sama tíma um önnur héruð og þorp og lofaði íbúum þeirra gulli, grænum skógum og óhóflegum vöxtum ef þeir kæmu með peninga og leggðu inn í banka þorpsins. „Hvers vegna eruð þið þá að ráðleggja íbúum þorpsins að geyma og ávaxta peningana sína annars staðar?“ – var spurt, en engin svör.

Svo hrundi banki þorpsins og allir þorpsbúar þurftu að taka skellinn. Eftir það hófst uppbygging og allir þorpsbúar þurftu að leggja sitt að mörkum.

Hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir að bankinn færi á hausinn ef hjarðfólkið hefði geymt peningana sína og ávaxtað í þorpinu? Við vitum það auðvitað ekki, vegna þess að við vitum ekki hversu miklir peningar þetta voru.. en kannski er ekki ólíklegt að það hefði að minnsta kosti mildað áfallið verulega.

Hefðu peningarnir nýst vel við að byggja upp eftir hrun? Já, ég ætla að leyfa mér að fullyrða það.

Gott og vel, ég veit fullvel að það er nokkurn veginn hundrað prósent löglegt að geyma peninga í öðrum þorpum.

Siðlaust? Ég ætla ekki að alhæfa en mér finnst það að minnsta kosti orka tvímælist þegar um er að ræða eignir sem verða til í þorpinu.

Og.. ef einhver býður sig fram til hreppstjóra eða annarra forystustarfa í þorpinu á þeim forsendum að hann hafi tröllatrú á efnahagslífi og gjaldmiðli þorpsins, þá vil ég vita fyrir víst að hann hafi sýnt það í verki og sé ekki háður efnahag annarra þorpa.. og gildir einu hvort sú tenging er skráð á annan eða báða aðila í hjónabandi þar sem eignir eru sameiginlegar.

Og ég vil líka vita þegar einhver býður sig fram til þess að semja við önnur þorp og íbúa þeirra hvort viðkomandi á einhverra hagsmuna að gæta í öðrum þorpum. Það má vel vera að viðkomandi ætli sér ekki að láta þá hagsmuni hafa áhrif. Það gæti vel verið að ég treysti viðkomandi eftir að hafa fengið þessar upplýsingar. En á ég vil fá að vita og ég vil fá að meta.

Mér finnst nefnilega bæði siðlaust og óheiðarlegt að bjóða sig fram til starfa án þess að gera grein fyrir þessu og sé bara eina mögulega skýringu á því að halda þessu leyndu.

Þannig finnst mér að um leið og viðkomandi er gripinn í bólinu og í ljós kemur að hann hafi leynt upplýsingum fyrir kosningar, þá er kosning hans til starfa orðin marklaus í mínum huga.

Ég hef lengi verið talsmaður beins lýðræðis og þess að nýta möguleika tækninnar til að yfirvinna þær takmarkanir sem fyrr á öldum kölluðu á fulltrúa lýðræði.

En ég hef aðeins verið að fá bakþanka.. Reynslan hefur ekkert verið sérstaklega góð, fólk virðist kjósa út frá eigin veski (sem þarf ekki alltaf að vera slæmt) en aðallega út frá fáfræði og vanþekkingu.. þeas. án þess að kynna sér rök með og á móti. Sama gildir auðvitað um marga þingmenn í kerfi fulltrúa lýðræðisins. Og það sem verra er.. sumir þingmanna virðast kjósa gegn betri vitund vegna þess að flokkslínan segir svo.

En hvað er þá til ráða?

Hvaða aðferðir eru heppilegastar til að taka farsælar ákvarðanir?

Og hverjar þeirra eru viðráðanlegar í tíma, vinnuframlagi og kostnaði?

Er alvitlaus hugmynd að þeir sem vilja kynna sér hvert og eitt mál, þekki vel rökin með og á móti, fái einir að greiða atkvæði? Það má deila um hvort það nægi að þekkja aðalatriði málsins eða hvort það á að gera kröfu um að þekkja rökin til hlítar. Best væri sennilega að vægi atkvæða ráðist af þekkingu.

Þannig sé krafa að til að hafa áhrif á ákvörðun þurfi viðkomandi að hafa kynnt sér málið.

Þá mætti hafa áhrif á vægi atkvæða að geta sýnt fram á hæfileika til að hugsa rökrétt.

Svona fyrirkomulag þarf alls ekki að vera dýrara í framkvæmd en núverandi kerfi.

Og það á alls ekki að vera auðveldar að svindla eða misnota svona kerfi en mögulegt er í núverandi fyrirkomulagi.

Kallar þetta á mikla vinna hjá öllum? Nei, varla, svona fyrirkomulag kallar á eðlilegan áhuga og til lengri tíma, verkaskiptingu eftir áhuga og þekkingu.

Hvað með algengustu rökin gegn beinu lýðræði? Sem ganga út á að samþykkja hömlulaust útgjöld og/eða brjóta á mannréttindum.

Fyrir það fyrsta þá ætti krafan um þekkingu að koma í veg fyrir svoleiðis vitleysu.

En þar fyrir utan væri kjörið að hafa nothæfa stjórnarskrá.. Þar væri ákveðinn rammi sem kæmi í veg fyrir að hægt sé að samþykkja lög sem brjóta mannréttindi. Þar mætti líka vera krafa um að samþykkt útgjalda verði að fylgja hvernig tekjur koma á móti.

Er þetta ekki bara frábær hugmynd??

Hrægammar velkomnir…

Posted: apríl 14, 2015 in Spjall, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég get ekki gert að því að rifja upp…

Fyrir hrun fóru íslensku bankarnir fóru eins og stormsveipur út í hinn stóra heim og lofuðu gulli og grænum skógum (lesist „himinháum vöxtum“) þeim sem vildu fjárfesta og leggja inn á reikninga hjá þeim.

Ég ætla ekki að alhæfa, eflaust voru mismunandi forsendur, mismunandi vel staðið að kynningu og eflaust stóðu margir starfsmanna bankanna í góðri trú.. mögulega hefði meira að segja farið betur ef bara hefði verið farið örlítið hægar í sakirnar á köflum.. þeas. mér finnst óþarfi að fullyrða að öll viðskipti hafi verið glannaskapur.

Allir voru boðnir velkomnir, ekki litið niður á þessa væntanlegu viðskiptavini, hvað þá að talað væri um að berja á þeim. Aldrei heyrði ég talað um hrægamma á þessum tíma og fylgdist ég nú þokkalega vel með.

Og ég veit vel að þetta var tiltölulega fámennur hópur hér á landi sem stóð að þessum viðskiptum.. en þetta voru íslensk fyrirtæki rekin eftir íslenskum lögum.

En núna eftir hrun er sjálfsagt að úthúða þessum fjárfestum, kalla þá hrægamma og tala um að „berja á þeim“, réttur þeirra enginn… peningarnir eru farnir (eða búið að koma þeim í skjól), við getum ekki borgað og þetta eru bara „ljótir kallar“ sem sjálfsagt er að éti það sem úti frýs.

Ekki misskilja, ég hef enga sérstaka samúð með þeim sem hafa atvinnu af að fjárfesta og höfðu ekki fyrir að kanna betur í hverju þeir voru að fjárfesta.

En það truflar mig samt verulega að við komum fram eins og siðlausir tuddar. Við erum svolítið eins og einstaklingur sem fær lán, eyðir í snatri í alls kyns vitleysu og óþarfa.. neitar svo að borga og hótar öllu illu þegar reynt er að rukka.

Má bæta Facebook notkun?

Posted: apríl 13, 2015 in Spjall

Ég held að (því miður) séu ekki miklar líkur til að Tsú eða Google+ leysi Facebook af hólmi.

Það virðast fáir detta inn á Tsú – og ég fór sjálfur strax í baklás, eftir að hafa skráð mig og fengið nokkrum mínútum seinna tölvupóst þar sem átti að fara að selja mér eitthvað.

Google+ hefur sína kosti, en aftur virðist flokkun efnis langt á eftir Facebook.

Ég er svo sem enginn sérstakur Facebook aðdáandi, reyni að eyða ekki of miklum tíma í að þvælast þar og takmarka talsvert hvað ég nota.

Það er margt jákvætt við Facebook, til dæmis

 • er gaman að sjá öðru hverju fréttir af vinum, kunningjum, gömlum skólafélögum og ekki-nánustu fjölskyldu
 • hefur skilaboðakerfið reynst ágætlega í hópsamræðum
 • er vel þegið að fá að vita af viðburðum sem annars gætu farið fram hjá mér

En ég held að Facebook væri enn betra ef..

 • fólk hætti að skipta um mynd (profile picture) í fréttaskyni, það er miklu einfaldara að setja inn nýja stöðu
 • fólk sleppti frekar tilgangslausum athugasemdum eins og að bjóða góðan daginn eða annað álíka
 • fólki hætti að benda á YouTube myndskeið með einhverjum skoðunum – ef þær eru áhugaverðar, komið þeim frá ykkur í texta, YouTube myndskeiðin eru (að fenginni reynslu) oftar en ekki:
  • tímasóun, það er verið að segja hluti í löngu máli sem tæki örstutta stund að lesa
  • blekkingaleikur, það eru alls kyns tæknibrellur notaðar til að gera texta sennilegan sem getur ekki staðið einn og sér
  • drepleiðinleg með útúrdúrum og löngum „hugleiðingar“ myndskeiðum
 • þessi þú-verður-rosalega-hissa myndskeið hverfa, fyrir það fyrsta, þá hefur reynslan kennt mér að ég verð sjaldnast rosalega hissa, og ef þetta er áhugavert þá er miklu einfaldara að segja það beint út sem skiptir máli
 • myndskreyttir textar verði sjaldgæfari, texti verður ekkert betri eða verri við að vera settur upp með bakgrunni og áberandi leturgerð (kannski, jú, stundum verri)
 • fólk hætti að skipa mér fyrir, það fer amk. talsvert í taugarnar á mér þegar fólk setur inn einhverja hugleiðingu og bætir svo við „ræðið!“ eins og kennari að tala niður til nemenda.. það er í boði að ræða allar stöðu uppfærslur og óþarfi að vera með svona frekjutakta
 • auglýsingar fyrirtækja og tilheyrandi leikir detti út, ég hef akkúrat engan áhuga á að sjá þetta, þar sem hægt er ná í vinning ef fólki lætur sér líka vel við eitthvert fyrirtækið
 • fréttir af forsíðum helstu netmiðla hverfi, þetta er algjör óþarfi, þeir sem hafa á annað borð áhuga sjá þetta strax
 • fólk næði aðeins að hemja sig í stað þess að drita inn athugasemdum um allt og ekkert, ég hef tekið af „fylgi“ af fólki sem var svo duglegt að setja inn athugasemdir að ég sá orðið ekkert annað, það einokaði nánast Facebook yfirlitið mitt
 • þeir sem ætla ekki að mæta á viðburði hætti að segjast ætla að mæta, eflaust vill viðkomandi vera jákvæður, en þetta einfaldlega ruglar þá sem eru að skipuleggja
 • það væri hægt að loka á allar leikjabeiðnir

Nýtt trúarbragð

Posted: apríl 12, 2015 in Spjall, Trúarbrögð
Efnisorð:,

Ég er að velta fyrir mér að stofna nýja trúarhreyfingu.

Kenningin er að eftir dauðann þá upplifir hver einstaklingur allt sitt líf til hins óendanlega. Með öfugum formerkjum. Þeir sem koma vel fram við náungann fá sömu framkomu um alla eilífð – hlýju, ást, kærleika og allt það besta sem þeir hafa sýnt öðrum. En að sama skapi fá þeir sem koma illa fram við aðra að upplifa það á sjálfum sér óendanlega oft. Sá sem beitir ofbeldi og gengur í skrokk á öðrum upplifir stöðugt að það er verið að ganga í skrokk á honum, sá sem drepur upplifir að vera drepinn endalaust.

Nú eru engar sérstakar sannanir fyrir því að þetta verði svona. En það sama gildir auðvitað um öll (önnur) trúarbrögð.

Og ef við getum sannfært fólk um þetta þá er þetta öruggasta, einfaldasta og besta leiðin til að fá fólk til að tileinka sér betri hegðun – þeas. þeim sem ekki nægir heilbrigð skynsemi. Þetta er miklu betra en núverandi trúarbrögð því það eru enginn hvattur til að ráðast gegn öðrum og drepa „villutrúarmenn“.

Ferðamenn í barnaafmælum

Posted: apríl 8, 2015 in Spjall
Efnisorð:

Þegar synirnir voru yngri hafði skapast sú hefð, eða vani, að barnaafmæli væru frekar einföld en flestum skólafélögunum var boðið. Yfirleitt einföld veisla (ja, kannski allur gangur á því) og hvert barn gaf svona 500 til 1.000 krónur (ég man ekki upphæðina nákvæmlega).

Eitt skiptið gat einn sonurinn ekki mætt – ekki man ég hvers vegna – en afmælisbarnið spurði hvort hann ætlaði ekki samt að borga.

Það er varla hlustandi á fréttatíma eða umræðuþætti þessa dagana án þess að verið sé í öðru orðinu að tala um hversu mikilvægt sé að sinna ferðamönnum vel og hversu miklum tekjum þeir geti skilað í þjóðarbúið. En á sama tíma er stöðugt verið að spyrja hvort það sé ekki allt of mikið af ferðamönnum. Það er nánast hallærislegt hversu oft og mikið er staglast á þessari sömu spurningu.

Kannski endum við eins og barnið sem ég sagði frá hér að ofan, biðjum ferðamennina að vera heima, en spyrjum hvort þeir ætli ekki samt að borga.

Vínbúðirnar hafa um nokkuð langt skeið birt til þess að gera langar auglýsingar með (að þeim finnst væntanlega) skondnum tilraunum unglinga til að fá að kaupa áfengi án skilríkja. Það eru nokkrar útgáfur í gangi og ég er nokkuð viss um að þær hafa kostað sitt í framleiðslu. Þá er heldur ekki ókeypis að birta sjónvarpsauglýsingar þetta oft.

Ég efast um að þetta sé raunverulega stórt vandamál, þeas. að krakkar komi með fáránlegar afsakanir.. og svarið er (gef ég mér) auðvitað „nei“ og málið er leyst.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þessi auglýsingaherferð stendur ekki undir sér – það er að segja, hún skilar örugglega ekki þeim tekjum eða sparar þann kostnað í rekstri vínbúðanna að hægt sé að réttlæta þetta. Jafnvel þó skilríkjalausir einstaklingar séu margir, þá ætti að vera mun ódýrara og einfaldara að koma afdráttarlausum skilaboðum til væntanlegra kaupenda.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Jú, vegna þess að þetta er dæmi um niðurgreiddan rekstur ríkisins á verslun sem ríkisvaldið þarf ekkert að standa í að sinna. Á endanum koma þessir peningar úr ríkissjóði (eða það fer minna í hann) og við borgum brúsann.

PS. jú, ef bæði framleiðsla og birtingar hafa fengist gefins þá er sjálfsagt að éta þessar fullyrðingar ofan í mig.. eða ef hægt er að sýna fram á betri rekstur í kjölfarið..

Páskar

Posted: apríl 5, 2015 in Spjall, Trú, Umræða
Efnisorð:

Nú kann ég ekki að skýra sögu páskanna svo vel fari og það myndi eflaust kalla á gagnrýni og/eða leiðréttingar.. en þetta er auðvitað ekki sér kristin hátíð, þó auðvitað sé hún mikilvæg hátíð í augum kristinna.

Fyrir flestum kristnum sem ég þekki (með undantekningum þó) þá er kristnin – eins og flest önnur trúaarbrögð – rammi utan um ákveðin siðferðislegan grundvöll. Þeim fylgja svo ákveðnar hefðir og siðir („ritúöl?“) sem fá sína merkingu ýmist við að gera sér dagamun, hitta vini, fjölskyldu og kunningja, njóta tónlistar, hlusta á sögur og breyta út af vananum öðru hverju. Þá eru margar hátíðanna tilefni til að setjast niður rifja upp siðferði og kannski ákveða að reyna að gera betur.

Það er í sjálfu sér ekkert nema gott um þetta að segja, ég þarf svo sem ekki sérstaklega á þessu að halda, en það er mitt val. Og ég kann ómögulega við að þurfa að standa straum af kostnaði við siði annarra, en það er að breytast.

Ég á hins vegar sérstaklega erfitt með að skilja áráttu örfárra kristinna fyrir þessari þráhyggju að halda því fram að sögurnar séu bókstaflegar, að einhver hafi fæðst án þess að eiga líffræðilegan föður og að sá hinn sami hafi dáið og risið einhverjum dögum seinna upp frá dauðum. Það þarf ekki nema lágmarksmenntun til að vita að þetta stenst enga skoðun. Og það sem meira er, flestir kristinna þurfa ekkert á þessu að halda, trúin er þeim alveg jafn mikils virði án svona vitleysu, ef ekki meira.

Þannig að kannski er þjóðráð – og ég meina þetta vel – að sleppa því að gera kröfu á þá sem vilja teljast kristnir að þeir þurfi að játa trú á þessar sögur sem bókstaflegar staðreyndir. Hætta að hamra á sögunum sem raunverulegum atburðum, þetta er eiginlega hálf kjánalegt – og það vill enginn láta tengja sig við fáfræði.

Það er eins og umburðarlyndi gagnvart bæði hegðun og skoðunum falli í tvo ólíka flokka.

Nýlega kom kona í sjónvarpsfréttum og sagðist ekki hafa látið bólusetja barnið sitt vegna (órökstudds) ótta við einhverfu. Konan var (eðlilega) gagnrýnd harðlega, ekki bara fyrir órökstudda skoðun heldur fyrir stórhættulega hegðun.

Í langflestum tilfellum var sú gagnrýni málefnaleg og hófstillt – gekk út á að benda á hversu hættulegt þetta getur verið og hversu lítill fótur er fyrir afstöðu konunnar.. það má eflaust finna dæmi um að einhver hafi notað harkaleg lýsingarorð en það voru undantekningar og skipta litlu.

Samt tók þingmaður Pírata til máls á þingi og gagnrýndi umræðuna.. líkti umræðunni við viðbrögðin við ellefta-september. Hvernig viðkomandi þingmaður gat mögulega tengt ofsafengin viðbrögð ríkisstjórna út um allan heim við örfáar athugasemdir á Facebook og bloggfærslum er mér enn hulin ráðgáta.. en þetta er svona dæmigerð „guilt-by-association“ rökleysa. Nefna eitthvað ógeðfellt í sama orðinu og reyna að búa til einhvers konar tengsl.

Gefum okkur að konan hefði hagað sér jafn hættulega.. en sú hegðun hefði ekki verið byggð á einhvers kuklara speki. Segjum að konan hefði leyft ungum börnum sínum að leika sér með hlaðna skammbyssu (reykja sígarettur, keyra bíl, leika sér að eldi…) og réttlætt hegðun sína í sjónvarpsviðtali – hegðun sem stofnar börnum hennar og börnum annarra í hættu.

Gefum okkur að konan hefði fengið nákvæmlega sömu gagnrýni.

Ég velti fyrir mér hvort einhver þingmaður hefði tekið til máls og gagnrýnt umræðuna með tilvísun í ellefta-september?

Nei, ég þarf ekkkert að velta því fyrir mér.. ég er viss um að það hefði ekki gerst.