Ég hef spjallað við fullt af vinum og kunningjum – og ég er ekki frá því að það sé þokkalegur samhljómur um hvernig flokk við myndum vilja kjósa í komandi alþingiskosningum – auðvitað með heiðarlegum undantekningum, aðallega hjá þeim sem starfa fyrir eða tilheyra öðrum framboðum.
Það er samt frekar skrýtið að þrátt fyrir fjórtán framboð í mínu kjördæmi þá er enginn valkostur sem virðist ganga upp – eiginlega ekki einu sinni nálægt því.
Hvað vil ég þá geta kosið?
Einhverjir myndu kalla þetta hægra megin við miðju og ofarlega á frjálslyndisskalanum, og hafa rétt fyrir sér að hluta, þeas. afskipti ríkisins takmörkuð og til þess að gera einfaldar almennar reglur. Miklu skiptir að atvinnulífið fái viðunandi skilyrði. Ríkið sinni fáum verkefnum en geri það vel. Almennar og einfaldar leikreglur fyrir fyrirtæki þar sem ábyrgð fylgir frelsi, fyrirtæki standa jafnt að vígi og vinatengsl skipta ekki máli. Draumórar? Getur verið, en ekki verri en hverjir aðrir.
Ég vil sjá nýja stjórnarskrá, breytt kvótakerfi, ekki vil ég ríkiskirkju, mér finnst fráleitt að afskrifa Evrópusambandið án þess að fá að vita hvað er í boði – og ég kaupi ekki töfralausnir í efnahagsmálum.
Þá vil ég sjá einstaklinga sem geta tekið þátt í málefnalegri umræðu, tekið mótrökum og skipt um skoðun ef svo ber undir. Og taka aldrei þátt í málþófi, útúrsnúningum eða skipa sér í lið með afstöðu sinni. Kannski ætti þetta að heita Skynsemisflokkur??
Mér finnst ég ekki einu sinni biðja um mikið…
Erum við að tala um bananalýðveldi?
Nei, og skil ekki samhengið.
Hjá mér er þetta spurning um að velja skásta kostinn og að kjósa andstæðinga þeirra sem ég vil ekki (lesist B og D) …þess vegna mun ég kjósa Samfylkinguna. Ég er nær alltaf sammála því sem þú skrifar 🙂
Takk, gaman að heyra, jú, þetta endar líkast til á Lýðræðisvaktinni hjá mér, Samfylkingin kom til greina.
Sammála hverju orði Valgarður
takk fyrir það