Besta kosningataktíkin?

Posted: apríl 25, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Það er oft talað um að kjósa taktískt. Oftast er þá átt við að „nýta“ atkvæði sitt með því að kjósa einhvern þeirra flokka sem eru líklegir til að ná 5% markinu sem þarf til að ná jöfnunarmanni á þing … svona eins langt og skoðanakannanir ná.

Ef marka má skoðanakannanir þá eru Dögun og Lýðræðisvaktin nokkuð undir 5% markinu eða nær 3%. Þetta er reyndar ekki svo mikið þegar fjöldi óákveðinni er hafður í huga.

Það er rétt að ítreka, í ljósi athugasemda, að þessi færsla fjallar eingöngu um úthlutun jöfnunarsæta. Sérstök dreifing atkvæða í einu kjördæmi getur auðvitað orðið til að flokkur nái manni án 5% reglunnar.

Þetta þýðir að mesta „verðmætið“ fæst mögulega fyrir atkvæðið með því að kjósa annan hvorn þessara flokka, eða þess vegna einhvern sem mælist með enn minna fylgi. Ef atkvæði er greitt einhverjum þeirra sem líklegir eru til að ná 5%, þá hjálpar eitt atkvæði í mesta lagi við að bæta einum þingmanni við hjá viðkomandi flokki. En hvert atkvæði getur jafnvel komið þremur þingmönnum inn ef það verður til þess að koma framboði yfir 5% múrinn. Það er líka rétt að ítreka að þetta er bara líklegur möguleiki og ekki hægt að gefa sér neitt um fjölda þingmanna.

Þannig er atkvæði greidd þessum flokkum mögulega verðmætustu atkvæðin ef til tekst. En auðvitað, ef ekki, þá fellur það dautt. En þá má líka hafa í huga að það falla líka talsvert mörg atkvæði dauð af þeim sem greidd eru „stórum“ flokkum. Í síðustu kosningum fóru til dæmis 7.217 atkvæði „til spillis“ af sem greidd flokkum sem náðu manni á þing en 5.255 atkvæði voru greidd þeim sem ekki náðu inn á þing.

Það er rétt að ítreka að dreifing atkvæða á milli kjördæma getur skekkt þessa mynd, sérstaklega ef einn flokkur fær miklu fleiri kjördæmakjörna þingmenn en hann á „innistæðu“ fyrir á landsvísu.

Ég bendi í þessu samhengi á færslur frá Viktor Orra Að nýta atkvæðið sem best og Einar Steingrímssyni á Að koma í veg fyrir meirihluta B+D.

PS. Ég breytti upphaflegu heiti á færslunni úr „Besta kosningataktík stuðningsmanna Samfylkingarinnar“, þar sem þetta á ekkert endilega sérstaklega við þá – þó svo að hugmyndin hafi komið fyrst upp þannig. Og þegar öllu er á botninn hvolft mæli ég auðvitað með því að fólk kjósi eftir sannfæringu. Færslan er svona í aðra röndina hugsuð sem mótvægi gegn þessum gegndarlausa áróðri að fólk eigi ekki að kjósa smáflokka vegna 5% reglunnar – og beint til þeirra sem hafa hugsað sér að kjósa gegn sinni sannfæringu.

Athugasemdir
 1. Svavar Kjarrval skrifar:

  Þessi 5% á landsvísu múr gildir eingöngu við úthlutun jöfnunarsæta. Ef listinn í kjördæminu fær nógu mörg atkvæði í einhverju kjördæmi, þá kemst þingmaður inn þar óháð hlutfalli á landsvísu.

  • já, þess vegna tek ég skýrt fram að þetta gildi við úthlutun jöfnunarsæta

   • Svavar Kjarrval skrifar:

    Færslan gefur ekki til kynna að svo sé.

    „Ef atkvæði er greitt einhverjum stóru flokkanna, eða einhverjum þeirra sem klárlega ná 5%, þá hjálpar eitt atkvæði í mesta lagi við að bæta einum þingmanni við hjá viðkomandi flokki. En hvert atkvæði getur komið þremur þingmönnum inn ef það verður til þess að koma framboði yfir 5% múrinn.“

    Þetta gefur til kynna að kjördæmasæti séu ekki úthlutuð fyrr en flokkur nær yfir svokallaðan 5% múr. Jafnvel þótt flokkur fengi 5% verður það ekki sjálfkrafa til þess að hann fái 3 jöfnunarmenn. Hann mun eingöngu vera í jöfnunarsætapottinum. Það er auðvitað mögulegt að það gerist en ekki algilt að flokkur sem rétt nær yfir 5% múrinn fái allt í einu 3 jöfnunarmenn.

    • hmmm, ég segi í upphafi „til að ná 5% markinu sem þarf til að ná jöfnunarmanni á þing“, held að það sé alveg skýrt að ég er fjalla um úthlutun jöfnunarsæta, en skal laga færsluna þannig að þetta sé enn skýrara.

     Það er rétt að það er ekkert sjálfgefið um 3 þingmenn, sagði bara “ getur komið þremur þingmönnum“ – og það „getur“ gerst.. en skal líka setja fyrirvara á þetta

 2. Matti skrifar:

  Ef atkvæði mitt yrði til þess að séra Örn Bárður kæmist á þing myndi ég segja að því væri hrikalega illa varið!

 3. Já, en það þyrfti óvæntasta snúning í gervallri kosningasögunni til að Örn komist inn á þing.

  Svo er þessi hugmynd um að strika óæskilega frambjóðendur út.

 4. Þetta snýst ekki bara um hvort atkvæði nýtist. Kosningar snúast líka um skilaboð. Viljum við virkilega senda þau skilaboð að stjórnarflokkarnir hafi staðið sig illa? Þeir hafa nefnilega staðið sig ansi vel. Það skiptir líka máli að það sé tiltölulega stór „vinstri“ flokkur sem mótvægi við íhaldsöflin. http://skodun.is/2013/04/25/stondum-saman-gegn-ihaldsoflunum-x-s/

  • Það er gott og gilt sjónarmið. Jú, það er rétt stjórnarflokkarnir stóðu sig að mörgu leyti vel í erfiðum aðstæðum. En svo eru mál eins og stjórnarskrármálið..

   Annars ætla ég að breyta fyrirsögninni, þetta á ekkert sérstaklega við um Samfylkinguna.

   Og svo því sé haldið til haga þá tel ég mig ekki vinstri mann…

   • Ég er mjög ósáttur við hvernig stjórnarskrármálið var afgreitt. Mjög! Málið er að ef xB og xD fá skýrt umboð frá þjóðinni og stjórnarflokkarnir koma mjög illa út getum við gleymt nýrri stjórnarskrá. Þannig er það. Svo er ég líklegast ekki „vinstri“ maður heldur í hefðbundnum skilningi. Frjálslyndur jafnaðarmaður með áherslu á bæði hugtökin 🙂

    • Ef bæði Lýðræðisvaktin og Dögun komast yfir 5% þá gæti það (reyndar eftir hvernig tölur falla í kjördæmum) skilað 6 þingmönnum. Þetta myndi breyta valdahlutfalli verulega á þingi. Við vitum auðvitað ekkert hvernig þingsæti myndu skiptast, en þetta myndi líkast til skila fleiri sætum en 2-3% viðbót myndu skila Samfylkingu eða Vinstri grænum.

     Aftur er rétt að ítreka að eins og kosningakerfið er, þá er ekkert hægt að fullyrða.