Persónulegir frambjóðendur

Posted: apríl 25, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Það er oftast talað um það sem heilagan sannleik að það eigi að kjósa flokk eftir málefnum en ekki einstaklinga.

Og það er auðvitað rétt svo langt sem það nær.

Fyrir það fyrsta þá vitum við ekki fyrir kosningar nákvæmlega hvaða mál koma upp á komandi kjörtímabili. Þá er mikilvægt að hafa einstaklinga á þingi sem geta unnið rökrétt úr upplýsingum, skoða rök með og á móti, taka málefnalega afstöðu – og umfram allt, eru ekki á kafi í taka þátt í liðsskipun – alltaf með mínum og alltaf á móti hinum – eins og illa upp alin smábörn [með fullri virðingu fyrir illa upp öldum smábörnum, þannig séð]. Þessi í stað vil ég fólk sem getur skipt um skoðun þegar nýjar og betri upplýsingar koma fram.

Þá er heldur ekki ósennilegt að fólk sem hefur þessi eiginleika aðhyllist stefnu sem stenst skoðun og ég get verið sammála. Því hvað sem hægri / vinstri – frelsi / forsjárhyggju líður þá styð ég fyrst og fremst skynsemi.

Það hefur aðeins verið fjallað um athugasemdir við þá einstaklinga sem eru í framboði til þings. Gjarnan eru þetta kallaðar persónulegar árásir og afgreitt sem slíkt. Og, jú, stundum eru þetta bara innihaldslausar kjaftasögur til þess eins að gera lítið úr frambjóðanda.

En við skulum ekki gleyma því að það er allt í lagi að skoða og, ef tilefni er til, gagnrýna frambjóðendur, þá sem „sækja um vinnu“ á Alþingi. Þeir verða einfaldlega að þola að þeirra hegðun sé skoðuð og hvernig þeir vinna úr upplýsingum.

Á sínum tíma gat ég til dæmis ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn, meðal annars vegna þess að Árni Johnsen var í framboði fyrir flokkinn. Hann hafði samkvæmt fréttum ítrekað beitt fólk ofbeldi og þannig einstaklingur átti ekki erindi á þing að mínu viti. Og flokkur sem hafði ekki rænu á að hafna slíkum einstaklingi gat ekki fengið mitt atkvæði. Árni hefur eflaust sína kosti, þó þeir séu mér ekki ljósir, en þetta var næg ástæða fyrir mig. Og já, ég veit að þetta er stífni og ég þyki mjög erfiður að þessu leyti. En eru þetta ekki fínar lágmarkskröfur?

Sama gildir sem sagt um frambjóðendur sem geta engan veginn unnið úr upplýsingum og tekið málefnalega afstöðu – eru, svo ég tali nú hreint út, með hausinn fullan af rugli. Jafnvel þó ég sé viðkomandi einstaklingum sammála að mörgu leyti þá get ég ekki kosið þá.

Útstrikanir eru ágætis tæki. Stundum fælir það mig frá því að kjósa flokk ef hann hefur sýnt skelfilegt dómgreindarleysi við val á frambjóðendum. Og það fælir mig líka frá því að kjósa flokk ef einstaklingur sem ég vil ekki inn á þing gæti náð sæti sem jöfnunarmaður, það er nefnilega ekki hægt að strika út einstaklinga í öðrum kjördæmum.

En… punkturinn er. Kjósum samt, en strikum út þá einstaklinga sem ekki eiga erindi á þing.

Lokað er á athugasemdir.