Ef Ísland væri fyrirtæki og þú…

Posted: apríl 24, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

værir eigandinn, eða sætir í stjórn.

Rifjum aðeins upp, Fríða og Sæli voru framkvæmdastjórar árum saman.. Sammi kom reyndar aðeins að stjórn síðustu tvö árin en enginn virðist hafa hlustað á hann eða einu sinni leyft honum að vera með.

Að lokum var allt komið í kalda kol, gjaldþrot blasti við og grípa þurfti til neyðarráðstafana. Fríða og Sæli höfðu gert vel við vini og kunningja og þó að ytri aðstæður hafi verið erfiðar þá verður ekki litið framhjá glannaskap, kæruleysi, andvaraleysi, bruðli, hugsunarlausum lánum og almennum sofandahætti.

Þau Sammi og Vigga voru ráðin til að reyna að bjarga fyrirtækinu. Að mörgu leyti tókst vel til, tiltölulega stuttan tíma tók að koma rekstrinum í bærilegt horf og mörg önnur fyrirtæki í vandræðum litu til þeirra sem fyrirmyndar. Á móti kom að ekki tókst að klára mikilvæg verkefni.

Nú er ráðningatíminn liðinn og margir sækja um.

Sammi vill halda áfram á sömu braut og vill helst ekkert tala um þau verkefni sem ekki náðist að klára. Vigga virðast varla „hálfur maður“ lengur og farið að slá út í fyrir henni á köflum, hún er farin að tala um mikið eftirlit með starfsmönnum og að takmarka netnotkun

Fríða talar um að nota kylfuna til að berja á viðskiptavinum og hefur engar áhyggjur af framtíðarviðskiptum. Henni vefst tunga um tönn þegar hún er beðin að útskýra hvernig hún ætlar að láta stórkarlaleg loforðin ganga upp og á endanum getur hún ekki svarað einföldustu spurningum.

Sæli lofar og lofar en það fylgir ekki sögunni hvernig á að láta loforðin ganga upp. Þá er hann ósamkvæmur sjálfum sér, segir eitt í einu orðinu og annað í hinu. Þú manst svo auðvitað að hann hefur nú gefið þessi loforð áður en ekkert hefur gengið eftir. Sæli er í afneitun gagnvart því hversu hætt fyrirtækið var komið undir hans stjórn og sögur eru að heyrast af því að hann sé að mæta á samkomur hjá sértrúarsöfnuðum. Hann kemur reyndar til þín og ber sig aumlega og á talsvert bágt.

Það er svo fullt af öðrum umsækjendum. Þeir hafa eins og gengur bæði ágætar og spennandi hugmyndir og svo alveg fráleitar hugmyndir. Þar er fólk sem þú þekkir vel og hefur ekkert nema gott um að segja og svo aðrir sem þú myndir ekki treysta fyrir horn. Birta, systir Samma, er voða næs og kammó, en reynir bara að vera fyndin þegar þú spyrð hvað hún ætli að gera. Þú hefur líka einhverjar áhyggjur af því að þessir nýju umsækjendur hafi litla sem enga reynslu af stjórnun. En margir hafa ferskar og spennandi hugmyndir og kannski er það akkúrat það sem þarf á nýjum tímum.

Það væri alveg verjandi að mæla með að ráða einhvern af nýjum umsækjendunum. Það mætti jafnvel verja það að fara varlega og vilja halda Samma.

En þú getur ekki verið með öllum mjalla (öllum mjöllum?) ef þú ætlar að fara að ráða Fríðu og Sæla aftur.

Lokað er á athugasemdir.