[fyrir áhugasama, þá er viðbót neðst í færslunni á því hvers vegna titillinn breyttist úr „varla“ í „ekki“]
Mér hafa fundist Píratar að mörgu leyti áhugaverður kostur. Þarna kemur ný nálgun, þarna eru ferskar hugmyndir og umfram allt mikill vilji til að efla lýðræði og rétt einstaklingsins. Áhersla er lögð á að upplýsingar séu forsenda ákvörðunar, að mál séu rökrædd málefnalega áður en afstaða er tekin. Afdráttarlaus stuðningur við nýja stjórnarskrá vegur þungt. Þarna er svo mikið af „góðu fólki“, greindu og heiðarlegu með skýran vilja til að vinna að breyttu og betra þjóðfélagi, fólki sem ég vil gjarnan sjá á þingi. Eiginlega mætti halda að þetta væri skothelt.
En það hafa runnið á mig tvær, jafnvel þrjár, fjórar grímur síðustu vikur.
Ýmsar fullyrðingar á síðu Pírata eru frekar undarlegar og þarna er fólk ofarlega sem sem mér finnst ekki eiga meira erindi á þing en „vírherðatré“. Það læðist óneitanlega að mér grunur við frekari lestur á síðu Pírata að stefna þeirra sé ekki mjög vel ígrunduð, jafnvel skrifuð af fámennum hóp og mögulega hent upp á hlaupum án mikilla umræðna, sem væntanlega er ekki alveg í anda flokksins.
Og ég fór líka að velta fyrir mér hvort þeir væru nægilega samkvæm sjálfum sér þegar málið er skoðað betur.
Eitt af því sem mér finnst heillandi við Pírata er að þeir hafa svarað spurningum um stefnumál, td. í efnahagsmálum, þannig að það sé ekki kannski þeirra að taka endanlega ákvörðun, heldur eigi að ræða málin, koma með upplýsingar og röksemdir og leyfa fólki að velja. Mér finnst þetta góð og virðingarverð nálgun. En svo er flokkurinn á sama tíma að kynna mjög einstrengingslegar og undarlegar skoðanir á smáatriðum sem fullkomlega mætti afgreiða á sama hátt. Er þetta ekki ákveðin mótsögn, innbyrðis ósamræmi?
Þar fyrir utan, ef ég gríp nokkrar af handahófskenndu flakki:
- „Internetið er grunnþáttur hagvaxtar sem þarf að virkja markvisst til að auka fjárfestingu, styrkja fyrirtæki og skapa störf.“ Hmmm, netið er mikilvægt og býður upp á fjölmörg tækifæri, ekki spurning, en þetta er kannski full „hlaðin“ fullyrðing fyrir minn smekk.
- „Endurskipuleggja þarf hagkerfið til að tryggja stöðugleika þess þegar áframhaldandi vöxtur er útilokaður“, Fyrir það fyrsta efast ég nú um að áframhaldandi vöxtur sé útilokaður, að minnsta kosti ekki í sjáanlegri framtíð – og gæti meira að segja rifjað upp fullyrðinguna sem ég vísa til hér á undan, en gott og vel, aðallega er ég engu nær um hvernig hvað þetta þýðir eða hvernig endurskipulagningu er verið að tala um.
- „Óhefðbundnar lækningar fái sama vægi í kerfinu og hefðbundnar, takist að sýna fram á jákvæða virkni þeirra með vísindalegum hætti“. Ég veit ekki hvort þetta er tilraun til að vera með marklaust hjal til að friða einhverja rugludalla í flokknum. En þetta er fullkomlega merkingarlaus setning. Ef hægt er að sýna fram á jákvæða virkni meðferðar með vísindalegum hætti þá kallast það „hefðbundnar lækningar“. Þar fyrir utan sé ég ekki hvernig það samrýmist hugmyndafræði flokksins að vera með málamiðlanir á milli staðreynda og hindurvitna.
- „En þegar það kemur að því að setja hömlur á internetið, njósna um borgara og takmarka aðgengi þeirra að upplýsingum, þá er það undantekningalítið í nafni höfundarréttar“. Fyrirgefið, en hvaða rugl er þetta? Á hvaða upplýsingum byggja svona fullyrðingar? Er takmarkað aðgengi í Kína vegna höfundarréttar? Ég man líka eftir langri og hallærislegri og arfavitlausri umræðu um klám nýlega sem hafði ekkert með höfundarrétt að gera. Í þeirri umræðu stóðu forsvarsmenn eins flokks sig mjög vel, flokks sem kallar sig „Pírata“.
Höfundarréttur er eitt af mest áberandi atriðum hjá Pírötum. Ég er mjög ósáttur við ólöglegt niðurhal efnis. Hitt er staðreynd að þetta er eitthvað sem er vonlaust að koma í veg fyrir. Breytingar á höfundarréttarlögum eru nauðsynlegar.. en út frá réttum forsendum. Nafnið, sem við skulum koma að síðar, vísar í forsendur sem ég er ekki sáttur við. Og ætti ekki leyfa fólki að greiða atkvæði um lög um höfundarrétt?
Tjáningarfrelsi, frelsi einstaklingsins eru stórmál hjá Pírötum. Sem er gott. En ég sakna aðgerða, td. varðandi tjáningarfrelsi. Hitt er að þeir virðast vera nánast alfarið á móti heimildum lögreglu til að rannsaka mál. Ekki misskilja, þeim heimildum þurfa að vera settar strangar skorður og um þær eiga að gilda stífar reglur. En þær þurfa að vera til staðar. Því, eins og dæmin sanna, þá hafa ofbeldismenn og glæpahópar svipt fólk frelsi í skjóli þess að heimildir til rannsókna eru takmarkaðar. Ég er til dæmis ekki á móti vændi í sjálfu sér, en mér finnst sjálfsagt að meðhöndla þá sem stunda mansal (nánast) eins og morðingja. Heimildir lögreglu til rannsókna eru mikilvægar til að tryggja frelsi þeirra kvenna sem lenda í þessum glæpalýð.
Annað sem ég á hvað erfiðast með að komast yfir er að þrátt fyrir að mikið sé lagt upp úr að upplýsingar séu forsendur ákvarðana hafa margir forsvarsmenn Pírata talað fyrir skoðunum sem stangast á við þekktar upplýsingar.
Það er ekki undarlegar skoðanir sem stangast á við upplýsingar sem trufla mig. Jú, auðvitað talsvert, en það er ekki það versta. Það sem truflar mig er að flokkur sem leggur þá grunnlínu að upplýsingar séu bestu forsendur skuli flagga svo mörgum talsmönnum sem virðist fullkomlega ófærir um að vinna úr upplýsingum, styðja þess í stað hindurvitni, órökstuddar hugmyndir og það sem einu sinni var kallað „kellingabækur“ (og er ekki hugsað hér í einhverri kynja merkingu).
Þannig að áður en ég get mögulega kosið Pírata vildi ég gjarnan fá hvort einhver frambjóðandi, amk. sem er ofarlega á lista og í þingsætis eða varaþingsætisfæri, talar fyrir
- því að ekki skuli bólusetja börn
- banni við ræktun á erfðabreyttum matvælum
- kukli, svokölluðum „óhefðbundnum lækningum“
- því að kenningar um hlýnun jarðar af mannavöldum séu samsæri
- því að mögulega sé heiminum stjórnað af einhvers konar eðlufólki
Afsakið, en svona tal gengur ekki í flokki sem kennir sig við upplýsingar.
Og ég get einfaldlega ekki fjallað um Pírata án þess að koma að nafninu. Forsvarsmenn flokksins hafa vissulega svarað fyrir skelfilegt nafnið. En það truflar mig samt. Þetta virkar einfaldlega á mig svona eins og að kalla flokk „Þjófaflokkinn“ og bæta svo við, „en við erum reyndar hætt að stela“. Þetta vísar nefnilega til ólöglegs athæfis, hreinlega þjófnað á höfundarrétti. Þá er nafnið ofur hallærislegt – í rauninni miklu hallærislegra á íslensku en á öðrum tungumálum. Tilvísunin er skýrð með því að þetta vísi til „systurflokka“ erlendis en þetta eru einfaldlega nánast óþekktir flokkar hér á landi og tilvísunin sem slík því einskis virði. Þannig ber þetta val ekki vitni um góða dómgreind. Nafnið er vont, mjög vont, en gott og vel.. þetta er kannski ekki aðalatriðið, ég skal ekki láta þetta vera úrslitaatriði.
Já, og ég skal heldur ekki tala um kjánahrollinn sem ég fæ þegar þau tala um „kapteina“.
En þrátt fyrir öll þessi neikvæðu atriði, þá er ég ekki alveg viss – mögulega eru þetta „byrjunarörðugleikar“ – þeas. reynsluleysi – og kannski er gott að fá nýja og ferska hugsun.
[smá uppfærsla]
Eftir smá umhugsun og að skoða umræður þá fer atkvæði mitt annað að þessu sinni. Ég var reyndar mjög ánægður með mörg svaranna, Björn Leví, Jón Þór, Tómas og fleiri – Helgi að mestu leyti þó mig vanti nú eiginlega eitt svar. Þannig var ég nú kominn á það að kannski ætti atkvæði mitt heima hjá Pírötum eftir allt saman.
Á móti kom að ég fékk videó svar frá tveimur frambjóðendum sem var ekki bara byggt á því að fara rangt með það sem ég sagði, heldur einnig einhvers konar útúrsnúningum á umræðunni, svara einu málefni með því að tala um annað… Og minnti mig óþægilega á taktík gamalla „ræðuhunda“ á þinginu.
Píratar eru vissulega áhugaverður kostur og nálgun þeirra verður góð viðbót og tilbreyting á komandi þingi. Það stefnir í að þeir fái nokkur þingsæti, sem er gott. Ég er hins vegar á því að þar séu of margir sem ekki eru færir um að vinna eftir hugmyndum flokksins og eiga ekkert erindi á Alþingi. Ég ætla því að styðja annan valkost.
Líkar við:
Líka við Hleð...