Posts Tagged ‘útstrikanir’

Útstrikanir eru ágætis tæki fyrir kjósendur til að koma skoðunum sínum til skila og greiða atkvæði að sínu skapi og hafa áhrif á hverjir ná kjöri.

Það er þó einn galli á gjöf Njarðar. Útstrikanir virka aðeins innan kjördæmis. Kjósandi getur engin áhrif haft á hvernig atkvæði nýtast einstökum frambjóðendum við úthlutun jöfnunarsæta.

Tökum dæmi. Ég er Reykjavík og ef við gefum okkur að ég hefði viljað kjósa Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum, sem ég gerði ekki, en ekki viljað gefa Árna Johnsen mitt atkvæði þá hefði ekki getað gert neitt til að koma í veg fyrir að hann gæti nýtt atkvæði mitt fyrir jöfnunarsæti.

Það er sífellt verið að endurtaka ákveðinn grundvallar misskilning varðandi útstrikanir frambjóðenda af listum í komandi þingkosningum.

Það er að segja að útstrikanir skipti engu máli og þess vegna taki því ekki að vera að standa í að strika út þá frambjóðendur sem viðkomandi vill ekki að nái kjöri.

Það er rétt að það þarf mikið af útstrikunum til að þær telji. Hárrétt. En það þarf líka mikið til af atkvæðum til að þau telji. Þetta er nefnilega þannig að á endanum telur útstrikunin jafnmikið og atkvæðið.

Þessi endurtekna bábilja hefur hins vegar orðið til þess að það nýta sér ekki allir þennan möguleika, þrátt fyrir að vilja aðra frambjóðendur en þá sem framboðið stillir upp.

Þannig styður þessi bábilja sjálfa sig, kjósendum er talið trú um að það breyti engu að strika út frambjóðendur og láta það þess vegna vera. Sem verður til þess að sjaldnast eru nægilega margar útstrikanir til að skipta máli.

Það sama gildir auðvitað um endurröðun á lista.