Aftrompun.. 

Posted: maí 30, 2017 in Umræða

Ég neita því ekki að eitt það fyrsta sem ég athuga orðið vongóður á morgnana er hvort Trump hafi sagt af sér…

  • „mig langaði bara að sjá hversu lengi ég gæti dregið ykkur á asnaeyrunum“ væri einn möguleiki, bætir kannski „so long, suckers“ við og gefur puttann
  • „ég er veikur og get ekki meir“ væri önnur
  • „nú á að fara að kæra mig fyrir landráð, best að forða sér“ væri sá þriðji
  • „ég hef verið beðinn um að taka við af páfanum og þarf að drífa mig, bæ, bæ“.. er kannski líklegast

Ég er ekki svo illa innrættur að vona að einhver fari að „skjót’ann“, en kæmi mér svo sem ekki sérstaklega á óvart að lesa einn morguninn að hann hafi verið settur af. 

Ekki svo að skilja að það sé vænlegt lið sem bíður á hliðarlínunni og myndi taka við.

Í bridge er yfirleitt fínasta ráð að „aftrompa“ áður en mótherjar ná að eyðileggja samninginn.. 

En það er ekki bara að ég hafi skömm á stefnu mannsins, tilskipanir byggðar á rasisma, lækkuð fjárframlög til heilbrigðismála, lækkun skatta á þá ríkustu, lækkun útgjalda til vísinda, frámunaleg heimska þegar kemur að vísindum… svo eitthvað sé nefnt af handahófi. Eflaust myndi eftirmaður hans halda óbreyttri stefnu að mestu. Mér er meira að segja nokkurn veginn sama um ræfildóminn, getuleysið, lygarnar, aumkunarverðar yfirlýsingarnar og þvælukenndar afneitanir á staðreyndum – nema auðvitað þegar þetta hefur áhrif á stefnuna hans (ef það er yfirleitt hægt er að tala um „stefnu“).

Og meira að segja væri ég ekki eins smeykur ef Trump fyrir svona 15-20 árum væri forseti.

Ástæðan fyrir að ég vona innilega hann hrökklist frá völdum sem allra fyrst er að það eru ansi sterkar vísbendingar um að hann sé verulega veikur á geði. Ekki svo að skilja að það sé nokkuð til að skammast sín fyrir, en heldur ekki gæfulegt að maður sem ekki er heill á geði hafi örlög milljóna (milljarða?) mann í höndunum.

Auðvitað er ég ekki fagmaður þessu sviði og mögulega má deila um þær vísbendingar hefur verið bent á, en þær eru nægilega sterkar og vísindamenn hafa bent á nægilega sterk rök til að ég hef verulegar áhyggjur.

Þannig að vonandi verða Bandaríkin „aftrompuð“ sem allra fyrst.

Lokað er á athugasemdir.