Þjóðráð til kirkjunnar

Posted: febrúar 6, 2016 in Umræða

Nú er ekki svo að skilja að ég sé sérstakur stuðningsmaður kirkjunnar.

En ég er heldur ekki sá andstæðingur sem margir kirkjunnar menn vilja meina.

Vissulega finnst mér galið að trúarsöfnuður sé ríkisrekinn og vil losna við þá tengingu sem fyrst.

Og höfum líka á hreinu að ég gef ekki mikið fyrir boðskap kirkjunnar, svona þau atriði sem greina trúarboðskapinn frá almennri skynsemi og góðum siðum sem enga stoð þurfa í trú á yfirnáttúru.

En kirkjan má mín vegna vera til staðar fyrir þá sem áhuga hafa og vilja nota þjónustu hennar.

Það styttist auðvitað í að trúarbrögðin líði undir lok, þetta er óhjákvæmileg afleiðing betri upplýsinga og auðveldara aðgengis að upplýsingum. Væntanlega mælist þetta í fáum áratugum hér hjá okkur.

Einhver heldur eflaust að það hlakki í mér að horfa á örvæntingarfullar tilraunir kirkjunnar til að halda í gamla tíma. Því fer fjarri… Ég veit að þarna er fullt af góðu fólki sem vill vel og á betra skilið. En allt of margir forsvarsmenn og talsmenn kirkjunnar eru einfaldlega að mála hana út í horn og hafa ekki rænu á að hætta að grafa, svo ég vísi nú í gamla líkingu.

Mér datt í hug að láta nokkur ráð fylgja.. vel meint – í alvöru – og að ég held eina leiðin fyrir kirkjuna að þjóna þeim kynslóðum sem henni vilja fylgja á lokasprettinum.

  • svo ég tali nú íslensku, hættið þessu væli.. það má eflaust orða þetta á „penni“ og tillitsamari hátt, en þetta er nú samt það sem ég vildi sagt hafa..
  • hættið að sníkja peninga umfram það sem aðrir fá, það er holur hljómur í þessum bænum um stöðugt meira fé til „musterisbygginga“ og rímar illa við þann boðskap sem þið kynnið, til að mynda, fermingarbörnum
  • hættið að spila ykkur sem talsmenn þeirra sem minna mega sín á meðan þið njótið óhóflegra forréttinda og þeir sem minna mega sín sitja eftir
  • sleppið þessum markaðsátökum til að sækja fólk til kirkjunnar, þau eru gegnsæ og vinna gegn ykkur til lengdar, hugsið frekar um að vinna gott starf og þjóna þeim sem það vilja, það gæti meira að segja farið svo að þá vilji fleiri koma til ykkar, ekki bara sem óvirk kennitala í þjóðskrá, heldur hafi raunverulegan áhuga á að tilheyra kirkjunni
  • sleppið sérstaklega að sitja fyrir börnum, hvort sem er í skólum eða annars staðar, það er satt best að segja frekar ógeðfellt að sitja um fólk sem hefur kannski ekki þroska, menntun og reynslu til að taka afstöðu til þess sem þið eruð að boða
  • hættið að fara með rangt mál í umræðu um málefni kirkjunnar, það samrýmist ekki boðskap ykkar að gera þetta viljandi og það samrýmist (vonandi) ekki menntun ykkar að láta þetta fara óviljandi frá ykkur
  • hættið að líta á gagnrýni sem „barsmíðar“ og hættið að líta á þá sem eru ósammála ykkur að einhverju eða öllu leyti sem árásargjarna.

Nú, eða, hunsið þessi ráð og horfið á þetta líða enn fyrr undir lok…

 

Lokað er á athugasemdir.