Forseta sem rekur ríkisstjórnina?

Posted: febrúar 10, 2016 in Umræða

Sú hugmynd var viðruð fyrir síðustu forsetakosningar að það væri kjörið að fá forseta sem byði sig fram með það sem helstu stefnu að fara bókstaflega eftir stjórnarskránni. Mig minnir að bæði Daði Ingólfsson og Egill Helgason hafi fjallað um þetta, eflaust fleiri og ekki veit ég hvaðan hugmyndin er upphaflega komin.

En tilgangurinn var að sýna fram á hversu meingölluð stjórnarskráin er í raun og veru. Og það þýðir ekki að bera fyrir sig að hefðir trompi texta stjórnarskrárinnar. Fyrir það fyrsta, þá er það einmitt staðfesting á því að stjórnarskráin er ekki nægilega góð ef ekki er hægt að fara eftir henni. Hitt er að hefðir hafa reynst lítils virði gegn bókstaf þegar stjórnarskráin er annars vegar, eins og núverandi forseti sannreyndi þegar hann vísaði lagasetningu til þjóðaratkvæðagreiðslu.

En það má svo taka þessa hugmynd aðeins lengra. Í stjórnarskránni segir:

15. gr. Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim.

Væri góð hugmynd að einhver tæki þetta bókstaflega og byði sig fram til forseta með það aðal stefnumál að veita núverandi ráðherrum lausn og skipa aðra. Kannski mætti sá fyrirvari vera að núverandi stjórnarflokkar fái að sitja áfram ef þeir snúa við blaðinu og samþykki þá stjórnarskrá sem þjóðin samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu.

PS. Svo enginn misskilningur sé á ferð, þá er ég alls ekki að bjóða mig fram til verksins. Fyrir það fyrsta þá held ég að þetta sé ekkert sérstaklega skemmtilegt starf – en aðallega þá má ég ekkert vera að því að standa í kosningabaráttu. Í júní ætlum við að dóla okkur í Frakklandi, borða góðan mat, drekka úrvals rauðvín og horfa á fótbolta!

Athugasemdir
  1. Geir Guðmundsson skrifar:

    Svo má líka skoða 30. greinina sem er arfleifð frá einveldi Danakonungs. Danir hafa fellt þetta ákvæði út úr sinni stjórnarskrá fyrir löngu:
    „30. gr. Forsetinn veitir, annaðhvort sjálfur eða með því að fela það öðrum stjórnvöldum, undanþágur frá lögum samkvæmt reglum, sem farið hefur verið eftir hingað til.“
    Dómur Landsdóms gegn Geir Haarde tók af öll tvímæli um að það er orðanna hljóðan sem gildir í stjórnarskrá, en ekki hefðir. 30. greinin er því í fullu gildi og forseti getur beygt lög og reglurgerðir ef hann telur það henta.