Bjórhátíð

Posted: febrúar 28, 2016 in Umræða

Við Iðunn mættum tvisvar á bjórhátíðina á Kex, við misstum af fimmtudeginum þar sem við Fræbbblar vorum með hljómleika og á föstudeginum vorum við frekar seint á ferð, náðum þó nokkrum bjórum í bláendann – og keyptum nokkra eftir að hátíðinni lauk.

En við mættum þokkalega tímanlega á laugardeginum og þá var hátíðin í kjallaranum, gamla Nýlistasafninu ef ég er ekki að rugla mikið. Brynja & Óskar og Rikki kíktu með okkur og við náðum, held ég, að smakka alla bjórana sem voru í boði. Fyrir minn smekk hafði PFriem vinninginn (vona að ég muni rétt) en margir aðrir voru mjög nærri lagi, margir frábærir, náði reyndar ekki að punkta hjá mér nöfnin á þeim – Surly, Sleipnir frá Ölvisholti, Garún frá Borg – og ég er örugglega að gleyma einhverjum sem ætti skilið að koma fram.

En frábært framtak hjá Kex og ótrúlegt að hugsa til þess að það er ekki svo langt síðan áfengis- drykkjumenningin snerist um Vodka í kók hjá þeim sem voru vandfýsnir og íslenskt brennivín hjá hinum.

Á þó ekki lengri tíma er kominn ótrúleg flóra af íslenskum eðal bjórum.. mis mikið spennandi fyrir minn smekk, eins og gengur – en ótrúlega margir sem eru með því besta sem ég fæ. Og höfum við þó flakkað um Belgíu og Holland og England og aðeins Bandaríkin og verið dugleg að prófa bjórframleiðslu viðkomandi svæðis, á bjórkynningum og hátíðum.

Ég stend við að margir íslensku bjóranna eru með því besta sem gerist í heiminum. Ótrúlegur árangur á ekki lengri tíma. Og frábært að fá svona kynningar. Takk fyrir gott boð…

Bjórhátíð - 1

Lokað er á athugasemdir.