Archive for the ‘Uncategorized’ Category

Ég hef aldrei verið fastur í flokkslínum og allt of oft hef ég einfaldlega ekki komist til að kjósa vegna vinnu við kosningaútsendingu – enda kannski ekki verið nægilega sannfærður um hver ætti að fá atkvæðið mitt hverju sinni.

Ég játa líka að ég hef oft verið hallur undir ný framboð, hef verið hlynntur fjölbreytni – hef talið kostina fleiri en ókostina.

Í sveitarstjórnarkosningunum núna í vor ætla ég að kjósa Samfylkinguna í Reykjavík. Þar ræður úrslitum, þrátt fyrir nokkra álitlega valkosti, að ég vil umfram allt fá Skúla Helgason í borgarstjórn.

Ekki það að ég sé alltaf sammála honum í einu og öllu. Ég er ekki sammála neinum í einu og öllu. Varla sjálfum mér.

En Skúli er heiðarlegur, rökfastur og málefnalegur. Þá skiptir máli að hann hefur bæði gríðarlegan áhuga á þeim málum sem ég held að skipti hvað mestu – látum nægja að nefna menntamál – er vinnusamur og kemur hlutum í verk.

Það er rétt að taka fram að ég þekki Skúla persónulega, en það hefur ekki önnur áhrif en að styrkja mig í þeirri skoðun að hann eigi erindi í borgarstjórn. Ég myndi aldrei (vona ég) styðja einhvern í starf sem ég treysti ekki til að sinna vel.

Ég skal játa að ég get haft nokkuð margar skoðanir (!) á því hvernig á að bregðast við „vondum“ skoðunum.

Mál Snorra einu-sinni-Betel hefur vakið upp nokkrar erfiðar spurningar.

Það má segja að það gangi ekki upp að opinberar stofnanir brjóti lög. En mögulega eru ófullkomin lög samt vandamálið í þessu tilfelli.

Og það má segja að ekki sé verjandi að segja upp manni sem ekki hefur gerst brotlegur í starfi. Kannski eru kröfur til starfsins ekki nægilega skýrar.

Ég hef ekki mikla trú á því að banna skoðanir, hversu vondar eða vitlausar sem þær eru – oftast er betra að svara málefnalega og með upplýstri umræðu.

Og svo því sé haldið til haga þá gef ég ekkert fyrir að hatursáróður sé eitthvað skárri eða réttlætanlegri þó hann styðjist við trúarrit.

En hatursáróður gegn fólki vegna kynþáttar, kynhneigðar, litarháttar, háralitar – og í rauninni hvers kyns eiginleika – er oft ekkert skárri en ofbeldi. Og nóg er af dæmum þar sem svona kjaftæði leiðir einmitt til ofbeldis.

Það má vel vera að það sé erfitt að draga skýrar línur. En það þýðir ekki að það megi ekki reyna. Og það þýðir heldur ekki að við eigum að sætta okkur við hvað sem er.

Í þessu tilfelli er mitt svar einfaldlega „nei“, þeir sem stunda ofbeldi og/eða hatursáróður eiga ekki að vinna við uppeldisstörf. Það skiptir engu máli hversu vel þeir sinna starfinu.

Eva Hauksdóttir spurði nýlega í pistli Já, en hvað með börnin hvar mörkin ættu að vera og taldi sig ekki fá skýr eða heiðarleg svör í næsta pistli, Og auðvitað getur enginn svarað heiðarlega.

Eva er skemmtilegur pistlahöfundur, oft er ég henni sammála og oft ósammála, eins og gengur. Þessir tveir pistlar eru ágætir til umhugsunar, en falla í rauninni á „slippery slope“ rökvillunni. Það er allt í lagi að taka afstöðu til hvers máls fyrir sig.

Eva nefnir nokkur dæmi í upphaflegum pistli. Ég skal svara eins heiðarlega og ég get. Ég birti svörin í þeirri röð sem Eva setur spurningarnar fram.

– ekki hægt að svara, hér vantar einfaldlega betra dæmi, einstaklingur sem gerir lítið úr fötluðum eða langveikum börnum á ekki að sinna uppeldisstörfum en mögulega er viðkomandi að tala fyrir því að tilvonandi mæður eigi að hafa valkost, það þýðir ekki sjálfkrafa að verið sé að gera lítið úr fötluðum eða langveikum

– já, einstaklingur sem talar eitthvað óljóst um hvað ungar mæður gætu mögulega gert er ekki að gera lítið úr öllum ungum mæðrum

– já, einstaklingur sem telur slæðunotkun merki um kúgun er einfaldlega að benda á að tiltekið atriði hefur verið notað sem kúgunartæki og er ekki að fordæma múslima í heild, einungis tiltekna hegðun einstakra múslima

– ekki hægt að svara, fer eftir því hvernig viðkomandi einstaklingur hefur sett sína skoðun fram, hér þarf einfaldlega betra dæmi

– nei, ekki einstaklingur sem styður kúgun eftir kynþætti eða trúarbrögðum

– já, viðkomandi er einungis að lýsa skoðun á ákveðinni aðgerð, ekki að beina áróðri gegn öllum gyðingum, sem margir hverjir eru mótfallnir þessari stefnu

– já, það segir sig sjálft að Framsóknarflokkurinn er stórhættulegur

Útúrsnúningar ehf.

Posted: mars 28, 2014 in Uncategorized

Segið svo að ríkisstjórnin komi ekki hjólum atvinnulífsins í gang.. Ég var einmitt að fá alveg stórkostlega hugmynd að fyrirtæki eftir að lesa pistil Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra.

Ég ætla að stofna „Útúrsnúninga ehf.“. Kannski „Orðhengilsháttur ehf.“ væri betra. Nú eða eitthvað loðnara.

En hugmyndin er frábær. Ég ætla að aðstoða fólk við að snúa sig út úr gefnum loforðum og yfirlýsingum.

Tökum dæmi.

Vinur minn (nú, eða ekki vinur) fer til gamals frænda sem er þokkalega vel settur, ber sig aumlega og segir:

„Veistu frændi, mig bráðvantar bíl.. strætó gengur bara eiginlega ekki á vinnutíma hjá mér og þetta eru langar ferðir sem kosta mig stórfé í leigubíla“

„Geturðu lánað mér 300 þúsund?“.

„Ég ætti að geta borgað þér til baka eftir nokkra mánuði“

Frændinn lánar peningana en vinurinn fer á allsherjar fyllirí (í víðasta skilningi) og eyðir peningunum í allt annað en bíl.

Frændi verður saltvondur, húðskammar vininn og heimtar peningana til baka.

Og að öllu jöfnu verður vinurinn niðurlútur, reynir að finna peninga, selur jafnvel eitthvað sem hann á og reynir að borga til baka.

Hér koma „Útúrsnúingar ehf.“ til sögu. Eftir smá ráðleggingar stendur vinurinn keikur fyrir framan frænda og segir:

„Ég sagði aldrei að ég ætlaði að nota lánið til að kaupa mér bíl.“

„Ég sagði að ég ætti að geta borgað til baka, en ég sagðist aldrei ætla að gera það“

„Þetta eru bara ‘beinar lygar’ og ‘rakalaus spuni’ hjá þér frændi.“

Þarna spörum við vininum 300.000 (jafnvel auk vaxta), hann borgar mér svona kannski 50.000 fyrir ráðgjöfina. Og allir græða. Og allir sáttir.

Nema auðvitað frændi gamli.

Björn fattar ekki…

Posted: mars 24, 2014 in Uncategorized
Efnisorð:,

Björn Bjarnason spyr í pistli á laugardaginn á bjorn.is hvort einhver hafi spurt þá sem mæta á samstöðufundina á Austurvelli hvers vegna þeir mæti og í hvaða tilgangi þeir komi á fundinn.

Það er eiginlega með ólíkindum að einföld krafa fundarmanna hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá Birni.

Eitt eiga þeir sem mæta nefnilega sameiginlegt. Þeir vilja að fólk vill fá að kjósa. Eins og lofað var fyrir kosningar.

Það vill fá að taka sjálft afstöðu, meðal annars til þeirra atriða sem Björn nefnir í pistli sínum.

Og nefnilega margra annarra sem Björn nefnir ekki.

Því ef það er svona deginum ljósara að við eigum að slíta aðildarviðræðum, hvers vegna var þá verið að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar?

Þetta er nú ekki flókið.

PS. Nei, ég er ekki „á móti“ Birni og mér líkar engan veginn illa við hann. Hann gerði margt gott sem ráðherra, ég bara skil ekki þennan pistil.

Að rugla með tölur..

Posted: mars 24, 2014 in Uncategorized

Ég heyrði frétt um meinta ofnotkun símahlerana hér á landi í sjónvarpsfréttum RÚV. Misnotkun á hlerunum er auðvitað alvarlegt mál, ef rétt er, en gleymum því aðeins hvert tilefni fréttarinnar er og skoðum aðeins framsetninguna og upplýsingarnar sem komu fram í fréttinni.

Í fréttinni kom fram að lágt hlutfall þess að óskum sé hafnað bendi til þess að eitthvað mikið sé að. Það getur vissulega gert það, en til þess að draga svona ályktun – eða gefa í skyn – án þess að kynna önnur sjónarmið þarf að hafa í huga að það geta verið góðar og gildar ástæður.

Mögulega eru óskir einfaldlega færri og betur unnar hér en annars staðar. Ég veit það ekki því engar upplýsingar voru í fréttinni um hlutföll annars staðar. Þá gæti skipt máli hvort hægt er að sýna fram á að óskir hafi verið samþykktar án þess að tilefni væri til eða góðar og gildar ástæður. Það kom ekkert fram um þetta.

Þá hefði hjálpað til að meta gildi fréttarinnar ef einhverjar upplýsingar hefðu verið til dæmis um óskir á hverja þúsund íbúa. Þannig hefði mátt meta hvort beiðnir séu algengari, sjaldgæfari eða svipaðar og annars staðar.

Ég veit sem sagt ekki. Vegna þess að það voru engar upplýsingar í fréttinni, það voru engar marktækar tölur.

PS. En fyrir alla muni, hlífið mér við athugasemdum tilefnið – þeas. hlerarnir – þessi athugasemd mín snýr að ófullkominni framsetningu og skorti á upplýsingum.

Ég velti fyrir mér hvort reglur / lög um afnám verðtryggingar séu afleiðing þess sem kom fram í Pisa könnuninni.

Það er komin heil kynslóð sem kann ekki að reikna og skilur ekki einföldustu útreikninga.

Að bíða, Wow

Posted: janúar 19, 2014 in Uncategorized
Efnisorð:

Við vorum á leiðinni til Salzburg í gær…

Þegar nálgaðist Salzburg kom í ljós að ekki var hægt að lenda, að mér skilst vegna mikillar þoku og blindflug kom ekki til greina – án þess að ég skilji nákvæmlega hvers vegna, en hef engar athugasemdir við að ekki sé tekin áhætta ef ekki er hægt að lenda örugglega.

Ekki hvarflar að mér að áfellast ykkur fyrir veðurskilyrði og þaðan af síður dettur mér í hug að fara fram á að þið takið nokkra áhættu þegar öryggi farþega er annars vegar. Þá vil ég hrósa áhöfninni fyrir sína vinnu og góð viðbrögð – það hefði þó mátt vara farþega við hvernig hætt er við aðflug ef ekki tekst.

Í framhaldinu var flogið með okkur til Stuttgart, beðið þar í drykklanga stund á flugvellinum, síðan var reynt að fljúga aftur til Salzburg og reynt tvisvar að lenda og áður en flogið var aftur til Stuttgart. Upplýsingarnar sem við fengum í fluginu voru ekki miklar, helst að það biðu okkar rútur sem myndu flytja okkur til Salzburg.

Á flugvellinum í Stuttgart tók við mikil óvissa, langur biðtími og nákvæmlega engar upplýsingar. Þó höfðuð þið bæði símanúmer og tölvupóstfang. Það voru nokkur börn í hópnum og óvissan kom sér illa. Þetta virtist gilda um alla farþega, við spurðum nokkuð marga þeirra sem biðu með okkur á flugvellinum en enginn vissi neitt. Eftir talsverða bið var okkur fylgt á hótel við flugvöllinn og sagt að við fengjum gistingu og morgunmat en þyrftum að sjá sjálf um kvöldmat. Ekki fengust öruggar upplýsingar um framhald aðrar en óljós boð komu um að mæta daginn eftir á flugvöllinn ýmist klukkan hálf tíu eða tíu.

Við mættum á flugvöllinn morguninn eftir og okkur var fyrst sagt að flogið yrði klukkan ellefu. En þegar innritun var að ljúka komu boð frá þeim sem sáu um innritun þess efnis að fluginu myndi seinka, sennilega til þrjú / fjögur en allt væri óvíst.

Enn hafði enginn frá Wow haft samband við okkur.

Einhver farþeganna þekkti, að mér skilst, einhvern heima sem þekkti einhvern hjá Wow og gat grafið upp þær upplýsingar að lendingarbúnaður hefði bilað í vélinni og að viðgerð stæði yfir. Við kusum að bíða á flugvellinum, aðrir gáfust upp og tóku rútu á eigin vegum eða á vegum viðkomandi ferðaskrifstofu. Við náðum svo til Salzburg um hálf fimm, ríflega sólarhring eftir áætlaðan komutíma.

En það mætti vera í fyrsta forgangi að miðla upplýsingum. Bara „Við erum að vinna í málinu, nánari fréttir og upplýsingar fást …“ myndi muna miklu, sérstaklega ef raun upplýsingar eru aðgengilegar.

Flugfélag sem sendir mér auglýsingar og margarusl pósta í mánuði hlýtur að ráða við að senda mér mikilvægar upplýsingar um ferðina þar sem ég er strandaður á þeirra vegum.

PS. Lýsing uppfærð eftir fyrstu færslu

Viðbrögðin við breytingatillögu Margrétar Tryggvadóttur vegna stjórnarskrárinnar hafa gefið tilefni til orðskýringa í næstu útgáfu orðabókarinnar.

„Atkvæði verða greidd um stjórnarskrána í heild sinni – Vigdís Hauksdóttir orðlaus“ – þetta er ágætis skýring á oraðtiltækinu að slá tvær flugur í einu höggi.

„Mér finnst að þessu grunnplaggi íslenskrar löggjafar sé ekki mikil virðing sýnd með slíkri afgreiðslu“ sagði svo Magnús Orri Schram um sömu tillögu. Þetta er að sjálfsögðu rétt, en vandamálið er ekki tillaga Margrétar heldur vilja- og/eða getuleysi þingsins til að klára málið á fjórum árum. Hvaða orð skyldi þessi skýring eiga best við?

Í tilefni þess að nú eru liðin tíu ár frá því að íslenska þjóðkirkjan lagði sjálfa sig niður hefur verið ákveðið að reisa styttu af þáverandi biskup á lóð Landsspítala.

Flestmu er væntanlega enn í fersku minni þegar forsvarsmenn þjóðkirkjunnar, í ársbyrjun 2014, sáu að þeim fjármunum sem runnu til kirkjunnar væri mun betur varið til heilbrigðisþjónustu. Í kjölfarið ákvað þjóðkirkjan að leggja sjálfa sig niður og láta allar eigur og allar tekjur renna til Landsspítalans. Árið áður hafði kirkjan hafið söfnun fyrir spítalann og þegar þeim peningum var komið til skila kviknaði hugmyndin hjá biskup.

Á þessum tímamótum sagði biskup:

Við sáum einfaldlega hversu mikið verk var unnið á spítalanum og okkur blöskraði að sjá erfiðar aðstæður starfsfólks, úrelt tæki og skelfilega lág laun. Við ákváðum að líta aðeins í eigin barm og okkur varð fljótt ljóst að við höfðum úr allt of miklu að spila og í rauninni lítið af verkefnum. Við vissum í rauninni stundum ekkert hvað við áttum að gera við allt það fé sem ríkið mokaði til okkar. Við höfðum frekar lítið að gera og launin voru svimandi há. Það var helst þegar almannatengslafólkið okkar var uppáfinningasamt sem við náðum svona ríflega hálfum vinnudegi. Ég fékk svo hugljómun þegar ég vaknaði daginn eftir og rifjaði upp boðskapinn sem kirkjan var byggð á. Þá var þetta í rauninni auðveld ákvörðun, þetta var einföld og augljós aðferð til að hjálpa fólk og lina þjáningar.

Óháðir söfnuðir hafa hins vegar staðist tímans tönn og reka sig hjálparlaust á frjálsum framlögum og sóknargjöldum félaga, sem þeir ákveða og innheimta sjálfir.

Íslenska þjóðkirkjan hefur nú bjargað fleiri þúsundum barna á þessari öld frá þeirri vá að komast ekki í kirkju.

Rannsóknarnefnd kirkjunnar komst að því fyrir síðustu aldamót að fjöldi barna var bara ekkert að fara í kirkju. Hrint var af stað öflugu átaki til að leysa þennan bráðavanda íslenskra barna. Átakið fólst í því að mæta í skóla og leikskóla og draga börnin í kirkju.

Foreldrar barnanna eru kirkjunni ævarandi þakklát.

Ánægður og trúrækinn faðir sagði við Baksýnisspegilinn: „Við vissum jú að það væri eitthvað til sem kallaðist kirkja og þangað væri hægt að sækja eitthvað sem hét messa. Við bara rötuðum ekki og þess vegna fóru börnin á mis við þennan mikilvæg þátt fyrstu ár ævinnar. Þökk sé kirkjunni þá hefur nú verið messað yfir börnunum okkar“.

Móðir nokkurra barna var klökk af þakklæti: „Guði sé lof að kirkjan greip inn í og náði í börnin. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til að við foreldrarnir förum að hafa fyrir því að mæta með börnin í messu“.

Aðspurð um gagnrýni á þessar ferðir stóð ekki á svari.. „Já, það er ekki að þessu trúlausa pakki að spyrja. Ætlast þetta lið kannski til að við séum að sinna börnunum okkar? Eins og við höfum ekkert betra við tímann að gera? Þau geta bara sagt börnunum sínum að halda fyrir eyrun. Svo er sálfræðiþjónusta vegna eineltis orðin það góð að það gerir sko ekkert til þó einu og einu barni sé strítt“.