Við keyptum nokkuð góðan ísskáp þegar við tókum eldhúsið í gegn fyrir nokkuð mörgum árum. Við völdum, að við héldum, öruggt vörumerki og keyptum stóran ísskáp.
Hann hefur svo sem ekki verið alslæmur en skelfilega kauðaleg hönnun á vatnsinntaki fyrir klakavél og vatn hefur kostað óteljandi leka og bilanir.
Og þegar við höfum þurft varahluti fyrir plastdótið sem brotnar auðveldlega þá þurfum við að hugsa í ansi mörgum mánuðum.
Nú vantaði mig eina hillu, hringdi í söluaðila og hann sagðist reyndar ekki eiga þessa hillu á lager, en hún gæti örugglega verið komin fyrir jól, bætti hann við. Þetta fannst mér ansi seint og þetta fannst mér slök þjónusta eða þar til hann bætti við að hann væri reyndar ekki að tala um þessi jól.
Hann afsakaði sig með að eitthvert fyrirtæki úti hefði keypt einhvern hlut af einhverju öðru fyrirtæki – eins og mér væri ekki slétt sama. Enda heldur sú skýring ekki beinlínis, því síðast þegar okkur vantaði varahlut fyrir sama ísskáp þá tók það um ár – og var þó fyrir nokkru síðan.
Ég reyndi að fá smá samúð með því að benda á að þetta væri aðal bjór hillan hjá okkur. Hann svaraði því til að sumir geymdu grænmetið sitt þarna. Nú veit ég ekki hvort hann var að leggja mér til hráefni í „pub-quiz“ ef ég fengi óvænt spurninguna „hvar í ísskápnum geymir fólk grænmetið sitt sem ekki vill nota grænmetisskúffurnar?“ Eða hvort hann hafði sterkan grun um að við drekkum of mikinn bjór og ættum að snúa okkur að grænmeti. Hefði ég verið að hringja og leita ráða við mikilli bjórdrykkja hefði ég væntanlega þakkað fyrir og lagt á. En mig vantaði hillu. Tæpar fimmtán þúsund og engar upplýsingar fáanlegar um hvenær hún gæti verið komin.
Mér varð hugsað til Google og fann viðkomandi hillu vandræðalaust, $60 kostaði hún fyrir utan sendingarkostnað og gjöld.
Þetta tók þrjár vikur, fór rétt yfir fimmtán þúsund með öllum gjöldum, en kom fljótt.
Kannski þurfum við að kaupa annan ísskáp fyrir bjórinn. En hann verður örugglega ekki frá þessu fyrirtæki.
En það þýðir ekkert fyrir íslensk fyrirtæki að kvarta yfir að fólk panti vörur beint ef þjónustan er ekki betri en þetta.