Ég setti inn fullyrðingu á Facebook og Twitter fyrir nokkru, augljóslega í gríni, en auðvitað með alvarlegum undirtón.
Færslan var á þá leið að mig hefði dreymt að þeir sem hafna vísindum og bera á borð fullyrðingar JútJúb/Spotify gjammara, bloggara og fleiri sem hafa engar vísindalegar forsendur, þeir þyrftu að nota síma og tölvur framleiddar af fólki með sama bakgrunn.
Hófst nokkurt þras á Twitter, sem er auðvitað óboðlegt verkfæri fyrir rökræður.
En ég get ekki látið hjá líða að reyna að skilja þetta betur og kannski koma með smá hugleiðingar.
En mér sýnist nokkuð augljóst hvers vegna fólk er ginnkeypt fyrir hvers kyns undarlegum kenningum, sérstaklega samsæriskenningum.
Ef óskhyggja og afneitun ræður úrvinnslu upplýsinga, þá er auðvitað hægt að komast að hvaða niðurstöðu sem er. En það er kannski ekki farsælt að byggja heimsmyndina á svona vinnu.
Allt of oft virðist fólk detta í einhvern keppnis- og/eða áróðursgír í umræðum, kappræðum fyrir kosningar eða umræðum á Alþingi – en markmiðin verða gjarnan að koma höggi á málflutning andstæðingsins frekar en að reyna að komast að einhverri niðurstöðu.
Tökum nokkur dæmi
- Án þess að ég nefni nokkur er strax gefið að ég sé að vísa til ákveðins aðila sem hafði verið áberandi með þætti á streymisveitu tengda Covid. Hvergi nefni ég hann til sögunnar og fyrir mér er ég augljóslega með almenna tilvísun sem á við um umræður um hamfarahlýnun, almennar bólusetningar og fleira, auðvitað má telja þessa þætti á streymisveitunni með, en fráleitt gefa sér að færslan mín snúist eingöngu um þetta.
- Fullyrðing að ég hafi eytt 0 sekúndum í að kynna mér málflutning þáttastjórnanda er auðvitað gjörsamlega út í bláinn. Bæði hafði ég eytt nokkrum (allt of miklum) tíma í að skoða þetta og þó svo hefði ekki verið, þá hafði enginn nákvæmlega neina hugmynd um það og þar af leiðandi engar forsendur fyrir að fullyrða svona. En þetta er svona taktík til að gera lítið úr þeim sem verið er að ræða við í bland við einhverja óskhyggju, en auðvitað óboðlegt í umræðum og skilar engu.
- Svo er ósk þekkts tónlistarmanns kölluð „ritskoðun“ sem stenst auðvitað enga skoðun
- það er „ritskoðun“ að vilja ekki sjá „skoðanir“ byggðar á að sannanlegum rangfærslum.
- það er ekki „ritskoðun“ að vilja ekki vera tengdur einhverju sem manni mislíkar, eins og einhver lýsti í öðrum umræðum, ef ég er í samkvæmi þar sem einhver lýgur stöðugt og gestgjafi hampar viðkomandi, þá er mér frjálst að fara – eins og viðkomandi má gjamma þá má ég ákveða hvað ég læt bjóða mér.
- að öllu jöfnu er mjög mikilvægt að gera greinarmun á skoðunum annars vegar og staðreyndum / rangfærslum hins vegar.
- En þetta er auðvitað ákveðin taktík, taka eitthvað sem allir (flestir) eru sammála um að sé rangt og spyrða svo umræðuefnið við það atriði, þó tengingin sé auðvitað engin.
- Svo er fullyrt að það hafi verið bannað að segja að bólusetningar kæmu ekki í veg fyrir Covid smit. Aftur er þessi fullyrðing gjörsamlega út í bláinn. Ekki veit ég hver hefði átt að „banna“ þetta (enda kemur ekkert fram um það) og til að kóróna vitleysuna þá er vel þekkt að það fylgdi auðvitað strax með upplýsingum um bólusetningar að þær væru alls ekki 100% vörn. Þegar kom í ljós að bóluefnin veittu minni vörn gegn smitum þegar ný afbrigði komu fram (en minnkuðu verulega líkur á alvarlegum veikindum) þá voru þær upplýsingar strax kynntar. Þannig virka vísindin, nýjar upplýsingar og nýjar aðstæður verða til að upplýsingar eru uppfærðar.
- Síðasta dæmið er að gefa sér að ég dæmi málflutning þáttastjórnanda fyrst og fremst út frá ákveðnu atriði. Það atriði er vissulega umdeilt, en það voru allt önnur atriði sem urðu til að ég afskrifaði innihaldið í þessum þáttum, ákveðnar rökleysur í framsetningu voru nokkuð æpandi, rökleysur sem kannski er auðveldara að sjá í lesnum texta en við hlustun – en ég las innihald þáttarins eftir að stuðningsmaður hafði farið fram á að ég skoðaði. Aftur er verið að gera mér upp ástæður og skoðanir án þess að hafa fyrir því nokkrar forsendur, ég hafði hvergi nefnt þetta atriði til sögunnar.
- Og svo að atriðinu sjálfu, það er vísað í eina ákveðna rannsókn máli þáttastjórnanda til stuðnings, en kynnir hvorki athugasemdir við rannsóknina né aðrar rannsóknir sem sýnt hafa allt aðra niðurstöðu og kynnir ekki til sögunnar gögn sem stangast á við niðurstöðuna. Þannig er valin ein rannsókn, að því er virðist út frá óskhyggju og ekkert tillit tekið til annarra rannsókna, athugasemda, gagna eða gagnrýni. Óskhyggja og afneitun virðist ráða för, ekki leitin að því hvað stenst skoðun og hvað ekki.
- Og varðandi viðkomandi atriði, svo því sé haldið til haga. Mér þykir verulega ólíklegt að það standist skoðun, en get ekki útilokað. Það er ekkert að því að nefna það til sögunnar og sjálfsagt að ræða sem möguleika – en það er bæði rangt og hættulegt að fullyrða eins og þáttastjórnandi gerir.
Með þessari nálgun má auðvitað sannfæra sig um hvað sem er, jörðin sé flöt og þar fram eftir götum.
Og það er auðvitað ekki vænlegt að byggja sína heimsmynd á því að vinna svona úr umræðum upplýsingum og fyrirliggjandi gögnum.