Archive for the ‘Umræða’ Category

Um rökræður

Posted: apríl 25, 2022 in Umræða

Ég setti inn fullyrðingu á Facebook og Twitter fyrir nokkru, augljóslega í gríni, en auðvitað með alvarlegum undirtón.

Færslan var á þá leið að mig hefði dreymt að þeir sem hafna vísindum og bera á borð fullyrðingar JútJúb/Spotify gjammara, bloggara og fleiri sem hafa engar vísindalegar forsendur, þeir þyrftu að nota síma og tölvur framleiddar af fólki með sama bakgrunn.

Hófst nokkurt þras á Twitter, sem er auðvitað óboðlegt verkfæri fyrir rökræður.

En ég get ekki látið hjá líða að reyna að skilja þetta betur og kannski koma með smá hugleiðingar.

En mér sýnist nokkuð augljóst hvers vegna fólk er ginnkeypt fyrir hvers kyns undarlegum kenningum, sérstaklega samsæriskenningum.

Ef óskhyggja og afneitun ræður úrvinnslu upplýsinga, þá er auðvitað hægt að komast að hvaða niðurstöðu sem er. En það er kannski ekki farsælt að byggja heimsmyndina á svona vinnu.

Allt of oft virðist fólk detta í einhvern keppnis- og/eða áróðursgír í umræðum, kappræðum fyrir kosningar eða umræðum á Alþingi – en markmiðin verða gjarnan að koma höggi á málflutning andstæðingsins frekar en að reyna að komast að einhverri niðurstöðu.

Tökum nokkur dæmi

  • Án þess að ég nefni nokkur er strax gefið að ég sé að vísa til ákveðins aðila sem hafði verið áberandi með þætti á streymisveitu tengda Covid. Hvergi nefni ég hann til sögunnar og fyrir mér er ég augljóslega með almenna tilvísun sem á við um umræður um hamfarahlýnun, almennar bólusetningar og fleira, auðvitað má telja þessa þætti á streymisveitunni með, en fráleitt gefa sér að færslan mín snúist eingöngu um þetta.
  • Fullyrðing að ég hafi eytt 0 sekúndum í að kynna mér málflutning þáttastjórnanda er auðvitað gjörsamlega út í bláinn. Bæði hafði ég eytt nokkrum (allt of miklum) tíma í að skoða þetta og þó svo hefði ekki verið, þá hafði enginn nákvæmlega neina hugmynd um það og þar af leiðandi engar forsendur fyrir að fullyrða svona. En þetta er svona taktík til að gera lítið úr þeim sem verið er að ræða við í bland við einhverja óskhyggju, en auðvitað óboðlegt í umræðum og skilar engu.
  • Svo er ósk þekkts tónlistarmanns kölluð „ritskoðun“ sem stenst auðvitað enga skoðun
    • það er „ritskoðun“ að vilja ekki sjá „skoðanir“ byggðar á að sannanlegum rangfærslum.
    • það er ekki „ritskoðun“ að vilja ekki vera tengdur einhverju sem manni mislíkar, eins og einhver lýsti í öðrum umræðum, ef ég er í samkvæmi þar sem einhver lýgur stöðugt og gestgjafi hampar viðkomandi, þá er mér frjálst að fara – eins og viðkomandi má gjamma þá má ég ákveða hvað ég læt bjóða mér.
    • að öllu jöfnu er mjög mikilvægt að gera greinarmun á skoðunum annars vegar og staðreyndum / rangfærslum hins vegar.
  • En þetta er auðvitað ákveðin taktík, taka eitthvað sem allir (flestir) eru sammála um að sé rangt og spyrða svo umræðuefnið við það atriði, þó tengingin sé auðvitað engin.
  • Svo er fullyrt að það hafi verið bannað að segja að bólusetningar kæmu ekki í veg fyrir Covid smit. Aftur er þessi fullyrðing gjörsamlega út í bláinn. Ekki veit ég hver hefði átt að „banna“ þetta (enda kemur ekkert fram um það) og til að kóróna vitleysuna þá er vel þekkt að það fylgdi auðvitað strax með upplýsingum um bólusetningar að þær væru alls ekki 100% vörn. Þegar kom í ljós að bóluefnin veittu minni vörn gegn smitum þegar ný afbrigði komu fram (en minnkuðu verulega líkur á alvarlegum veikindum) þá voru þær upplýsingar strax kynntar. Þannig virka vísindin, nýjar upplýsingar og nýjar aðstæður verða til að upplýsingar eru uppfærðar.
  • Síðasta dæmið er að gefa sér að ég dæmi málflutning þáttastjórnanda fyrst og fremst út frá ákveðnu atriði. Það atriði er vissulega umdeilt, en það voru allt önnur atriði sem urðu til að ég afskrifaði innihaldið í þessum þáttum, ákveðnar rökleysur í framsetningu voru nokkuð æpandi, rökleysur sem kannski er auðveldara að sjá í lesnum texta en við hlustun – en ég las innihald þáttarins eftir að stuðningsmaður hafði farið fram á að ég skoðaði. Aftur er verið að gera mér upp ástæður og skoðanir án þess að hafa fyrir því nokkrar forsendur, ég hafði hvergi nefnt þetta atriði til sögunnar.
  • Og svo að atriðinu sjálfu, það er vísað í eina ákveðna rannsókn máli þáttastjórnanda til stuðnings, en kynnir hvorki athugasemdir við rannsóknina né aðrar rannsóknir sem sýnt hafa allt aðra niðurstöðu og kynnir ekki til sögunnar gögn sem stangast á við niðurstöðuna. Þannig er valin ein rannsókn, að því er virðist út frá óskhyggju og ekkert tillit tekið til annarra rannsókna, athugasemda, gagna eða gagnrýni. Óskhyggja og afneitun virðist ráða för, ekki leitin að því hvað stenst skoðun og hvað ekki.
  • Og varðandi viðkomandi atriði, svo því sé haldið til haga. Mér þykir verulega ólíklegt að það standist skoðun, en get ekki útilokað. Það er ekkert að því að nefna það til sögunnar og sjálfsagt að ræða sem möguleika – en það er bæði rangt og hættulegt að fullyrða eins og þáttastjórnandi gerir.

Með þessari nálgun má auðvitað sannfæra sig um hvað sem er, jörðin sé flöt og þar fram eftir götum.

Og það er auðvitað ekki vænlegt að byggja sína heimsmynd á því að vinna svona úr umræðum upplýsingum og fyrirliggjandi gögnum.

Að þora í flug

Posted: desember 30, 2021 in Umræða

Við vorum nokkrir á leiðinni til útlanda og vorum að klára að panta flug.

Einn í hópnum var ekki sannfærður um öryggið í fluginu. Hann hafði fundið JútJúb skot þar sem maður kynnti sig sem flugmann sagði stórhættulegt að ferðast með hefðbundnum flugfélögum. Hann gaf þá ástæðu að það væri repjuolía í stað bensíns í öllum flugvélum. JútJúb skotið endað svo á því að einhverjir sem virtust vera lögreglumenn réðust inn til hans og handtóku… þessi innrás og handtaka leit nú út fyrir að vera sviðsett, en ekki kannski hægt að fullyrða.

Við örstutta athugun kom í ljós að það var nú ekki beinlínis fótur fyrir fullyrðingum um repjuolíu. Þá strax kom í ljós viðkomandi var hreint ekki með flugmannspróf og jafnvel ekki hægt að staðfesta að hann væri yfirleitt til.

Sá sem hafði kynnt þetta til sögunnar taldi innrás lögreglu endanlega og óyggjandi sönnun þess að maðurinn hefði rétt fyrir sér. Hann gerði ekkert með augljósar sannanir um að kenningin um repjuolíuna gæti ekki staðist. Hann vísaði í greinar og tíst sem áttu að staðfesta tilvist mannsins… þær „upplýsingar“ voru einfaldlega einhverjir að vísa í hver í annan og í JútJúb skeiðið.

Þegar hann var beðinn um einhverja staðfestingu þá brást hann illa við og taldi það hlutverk okkar hinn að afsanna að maðurinn væri til.

Þá var dælt á okkur alls kyns undarlegum fullyrðingum um ofbeldi sem maðurinn átti að hafa orðið fyrir, aftur til sönnunar þess að hann hefði nú rétt fyrir sér. Við bentum á að þessar fullyrðingar stæðust nú ekki einfalda skoðun og væru í hrikalegu innbyrðis ósamræmi. Þá voru þessar sömu fullyrðingar augljóslega komnar frá CIA. Við nenntum ekki að spyrja hvers vegna CIA væri að standa á bak við þetta, eða réttara sagt, við höfðum ekki geð í okkur til að heyra svarið.

Í öllu falli við fórum út, komum heim heilu og höldnu. Hann sat eftir heima.

Gott og vel, það má taka tillit til þeirra sem hafa áhyggjur af mögulegum aukaverkunum vegna bólusetninga vegna Covid-19. En þetta er mjög fámennur hópur sem getur haft raunverulegar áhyggjur og sá fjöldi telur lítið.

Stóra vandamálið er alvarleg fáfræði og getuleysi til að vinna úr einföldustu upplýsingum.

Þarna er ansi fjölmennur hópur sem er ekki einungis að leggja eigin heilsu og jafnvel líf í hættu, sem væri kannski ásættanlegt, heldur fjölda fólks í kringum sig.

Ekki vegna góðra og gilda athugasemda.

Heldur beinlínis og bókstaflega vegna fullkomins getuleysis til að vinna úr einföldum upplýsingum og einhverrar undarlegrar óskhyggju / trúarofstækis.

Nú nýlega kom innlegg í umræður um gildi bólusetninga á Facebook… andstæðingur bólusetning tefldi fram máli sínu til stuðnings myndbandi frá einhverjum náunga. Ekki hafði viðkomandi fyrir því að kanna hvort viðkomandi talsmaður hefði einhverja sögu eða eitthvað staðfesti að hann væri sá sem hann sagðist vera. Og þegar nánar var skoðað virtist viðkomandi ekki einu sinni yfirhöfuð vera til! Og lykilinnihaldið í videó-langhundi var fullyrðing sem stóðst ekki einfalda skoðun.

Síðan komu alls kyns „fabúleringar“ máli hans til stuðnings, löggan átti að hafa truflað útsendinguna, sennilega sviðsett, hvort sem er, breytti engu um innihald fullyrðinganna.

Einhver vinkona/kærasta/eiginkona var tekin sem dæmi um að viðkomandi hefði látist í kjölfar „árásar“ lögreglunnar. Það voru reyndar svo margar ruglingslegar sögur sem hafðar voru eftir viðkomandi konu að andstæðingarnir töldu vænlegast að gefa í skyn að hennar innlegg væri komið frá CIA til að rugla málið. „Verst“ að þeir/þau gleymdu að þeir höfðu rétt áður vísað í þetta sjálf(ir) máli sínu til stuðnings.

Eftir stendur að besta sem andstæðingar bólusetninga gátu bent á var fyrirlestur frá einhverjum gaur sem sennilega er ekki til (amk. ekki sá sem hann segist vera) að halda fram einhverju sem stenst ekki 10 sekúndna skoðun.

Þegar bent var á þetta stjórnlausa og glórulausa rugl var síðasta vörnin,“þið þurfið að sanna að þetta sé ekki rétt“.

Fyrir það fyrsta, þá var búið sanna afdráttarlaust að þetta væri sannanlega rangfærslur sem stæðust ekki einfalda skoðun, komst ekki fram hjá fyrstu athugun.

Þar fyrir utan. það er hlutverk þess sem ber einhverjar fullyrðingar á borða að færa rök fyrir þeim og staðfesta, ekki annarra að afsanna. Það að geta ekki fundið neitt máli sínu til stuðnings og heimta að aðrir afsanni, er hin endanlega uppgjöf í rökræðum.

Þetta er auðvitað svolítið fyndið.

En þetta er líka óendanlega sorglegt.

Fullt af fólki er að leggja eigin heilsu og líf í hættu vegna, til dæmis, einhvers gaurs sem er ekki til að fullyrða eitthvað sem stenst ekki einfalda skoðun.

Og ekki bara eigið líf og heilsu, heldur allra í kringum þau.

Ég er ekki hlynntu skyldu bólusetningu, langt frá því.

En svona glórulaus þvættingur fær mann óneitanlega til að hugsa.

Ég var búinn að fallast á að fylgja þessu máli ekki frekar eftir, í kjölfar símtals frá starfsmanni embættisins, en sendi minn skilning á innihaldi þess símtals til að hafa þetta nú skriflegt. Ég taldi málinu þar með lokið. En svo brá við nú einhverjum mánuðum síðar að ég fæ hið undarlegasta bréf frá embættinu.

Eftir lestur bréfsins kemur ekki annað til greina hjá mér en að skipta um skoðun og fara fram á að erindi mitt verði skoðað efnislega í fullri alvöru.

Látum einhvern grautarlegan texta um lagalegt umhverfi embættisins liggja á milli hluta, aðallega einhvers konar lagatæknilegar réttlætingar á afskiptaleysi, þetta kemur erindi mínu efnislega ekkert við og ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á þessu.

Ég veit ekki hvaða tilverurétt þetta embætti á ef ekki að bregðast við erindum þar sem sterk rök eru leidd að mannréttindabrotum, rök sem hvergi hafa verið hrakin í samskiptum mínum við ráðuneyti eða embættið.

Þá er nefnt til sögunnar að kostnaður við að taka erindið fyrir yrði of mikill. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara svona. Fyrir það fyrsta þá velti ég fyrir mér hvort það færi ekki jafnvel minni tími í að skoða erindið og afgreiða málið en það hefur hugsanlega farið í að skrifa þennan langhund. Hvort sem er, þessi áætlaði kostnaður getur varla talið mikið rekstri embættisins og getur varla skipti máli í samhengi við rangláta skattheimtu.

Það er kannski ekki furða þó íslensk stjórnvöld séu ítrekað „rassskellt“ af Mannréttindadómstól Evrópu ef svarbréfið er til marks um viðhorf til rökstuddra ábendinga um mannréttindabrot.

Ég óska þess að samskipti séu framvegis skrifleg óska jafnframt að fá að birta bæði svör embættisins og innihald símtalsins skriflega.

Að gefnu tilefni – og án þess að vilja vera mjög leiðinlegur – amk, ekki meira en venjulega..

Mér finnst óneitanlega ekki til eftirbreytni að trúa því að einhver sérstakur skapari hafi skapað heiminn, nokkuð löngu eftir að hann varð til, hafi valið sér eina þjóð til að vera sína útvalda, verið mjög svo refsigjarn og boðað harkalegar og ofbeldisfullar refsingar fyrir minnstu sakir, sett ruglingslegar og glórulausar reglur um fatnað, mataræði og hegðun.

Síðan hafi viðkomandi skapari allt í einu bitið í sig að fæðast sem einn af mannkyni, láta pynta sig og drepa, en samt lifað af, til þess eins að geta fyrirgefið mannkyninu að vera eins og hann skapaði það. Aftur átta ég mig ekki á hvers vegna viðkomandi gat ekki bara fyrirgefið og sleppt þessum „seremóníum“.

Gott og vel fólk má trúa því sem það vill.

En fyrir alla muni ekki nota þetta sem afsökun fyrir ofbeldi og mannréttindabrotum.

Og látið endilega vera að setja ykkur á háan hest og þykjast vera betri en ég og hafa einhverja „andlega“ yfirburði.

Og, nei, það þýðir ekkert að biðja mig um bera virðingu fyrir þessu.

Ég fékk símtal frá starfsmanni hjá umboðsmanni Alþingis í gær þar sem erindið var að útskýra fyrir mér afstöðu umboðsmanns vegna erindis míns vegna sóknargjalda. Og fara fram á að það nægði sem svar í stað þess að senda formlegt svarbréf. Það skiptir mig svo sem engu á hvaða formi svarið er. En ég ætla að senda þessa færslu til umboðsmanns til staðfestingar á mínum skilningi á símtalinu, nú eða gefa tækifæri á leiðréttingu.

Fyrir það fyrsta þá kom fram að megin efnið í svarbréfi umboðsmanns skipti engu máli, þeas. sá kafli sem útskýrði að umboðsmaður vildi ekki taka mál sem fyrri (settur) umboðsmaður hefði svarað.

Þá kom fram að þrátt fyrir að umboðsmaður hafi svarað málefninu með allt öðrum rökum en ráðuneytið – án þess að ég skilji hvers vegna umboðsmaður var að taka sjálfstæða afstöðu til erindis míns til ráðuneytisins í stað þess að taka afstöðu til þess hvort svar ráðuneytisins væri boðlegt – og hann myndi ekki svara frekar hvort hann teldi svar ráðuneytisins eðlilegt en hann myndi ekki gera athugasemdir við svörin.

Þá var ítrekað að hlutverkumboðsmaðsmanns væri að bregðast við ef fólk teldi brotið á sér af stjórnsýslunni, ekki (svona almennt) að gera athugasemdir við störf Alþingis.

Hitt er að ég fór fram á að umboðsmaður benti Alþingi á að það væru meinbugur á núgildandi lögum, eins og umboðsmaður [benti sjálfur á] getur gert, hefur gert og er full ástæða til. Mér var sagt að umboðsmaður myndi ekki nýta sér þennan rétt en ég fékk engin svör, upplýsingar eða rökstuðning um hvers vegna honum þætti ekki ástæða til að benda á þennan (að mér finnst) augljósa galla.

Það er víst aldrei of oft kveðin vísa að hafa varann á upplýsingum sem birtast á netinu – svo ég uppfæri nú mínar bestu ráðleggingar.

Sérfræðingurinn / læknirinn / vísindamaðurinn

Aðallega er gott að hafa í huga að skoðanir og sjónarmið vísindamanna eru í sjálfu sér ekki mikils virði, það eina sem telur eru hvort viðkomandi hafi sýnt fram á einhverjar niðurstöður / staðreyndir.

Svo er gott að hafa í huga að ef einhver fullyrðing er studd með að sá sem vísað er til sé læknir, vísindamaður og/eða sérfræðingur, að kanna hvort viðkomandi titlar standist. Það er algengt að þeir sérfræðingar sem vísað er til – furðulegum fullyrðingum til stuðnings – hafi sótt sínar gráður á bakhliðina-á-Cheerios-pakka. Ekki kannski alltaf bókstaflega (en stundum) en aðallega keypt sér gráðu án nokkurrar menntunar frá einum af fjölmörgum stofnunum sem bjóða þetta til sölu – nú eða hafi einfaldlega gripið, eða skáldað, gráðuna úr lausu lofti.

Þá er gott að athuga álit annarra sérfræðingar, það er algengt að vísa í að einhver sé vísindamaður eins og það taki af allan vafa um gildi sjónarmiðanna, þrátt fyrir að 98% vísindamanna á viðkomandi sviði hafi komist að annarri niðurstöðu.

Í þessu tilfelli er gott að hafa í huga að ef ekki er tekið mark á 98%, hvers vegna þá að taka mark á einhverjum af hinum? Og ef þeir örfáu hafa vægi vegna stöðu sinnar (ef hún stenst yfirleitt skoðun), hvers vegna ekki að taka margfalt meira mark á öllum hinum?

Þá er gjarnan tekið fram að einhver sé

  • „þekktur“ – en það segir eingöngu að viðkomandi hafi náð athygli
  • „virtur“ – getur auðvitað verið rétt, en er gjarnan notað til að breiða yfir að litið er niður á viðkomandi í ‘faginu’, enda hvort sem er, fyrsta atriðið hér skiptir meira máli, stenst þetta einhverja skoðun
Heimildamyndirnar

Það er vinsælt að vísa til heimildamynda, oftar en ekki á YouTube. Þau eru sjaldnast tímans virði og gott að hafa í huga að ef innihaldið stenst ekki skoðun í rituðu máli þá má velta fyrir sér hvers vegna verið er að stilla upp í mynd.

Þegar myndband er skoðað er gott að hafa varann á með eftirfarandi atriði

  • mjög gjarnan er verið að breiða yfir rýrt innihaldið með því að láta karlmann með djúpa rödd eða konu með háa rödd tala með leikrænum tilburðum, jafnvel dramatísk tónlist undir og mynd-‘effektar’.
  • þá er algengt að sýna myndir af einhverju (eða spila hljóðupptöku) og fullyrða að þarna sjáist (heyrist) eitthvað.. en ef viðkomandi skjal / mynd / upptaka er skoðað þá er nákvæmlega ekkert sýnilegt (heyranlegt) sem sagt er að eigi að sjást (heyrast).
  • þá er ekki óþekkt að myndir sem birtar eru séu „fótósjoppaðar“, hljóðupptökum breytt, video ‘editeruð’ og skjöl fölsuð… það er mjög góð hugmynd að ganga úr skugga um upprunann.
Bloggfærslurnar

Kannski eru bloggfærslur algengasti miðillinn fyrir glórulaust rugl og skaðlegan áróður.

Þegar þær eru lesnar er gott að hafa í huga að:

  • tilvísanir í aðrar bloggfærslur / höfunda eru ekki heimildir
  • tilvísanir í góðar og gildar heimildir eru gjarnan settar fram án þess að nokkur stuðningur við fullyrðinguna sé í viðkomandi heimildum
  • færslur þar sem höfundur á erfitt með að halda þræði eru til marks um að viðkomandi hafi ekki mikla þekkingu á efninu – eða mikla getu til að vinna úr upplýsingum og heimildum… svona ef út í það er farið.
  • langhundar staðfesta ekki mikla þekkingu
Umræðan

Þá eru nokkrar aðferðir gjarnan notaðar af þeim sem vilja rugla í fólki…

  • rannsakaðu þetta sjálf(ur) ->þetta merkir yfirleitt, „mig rámar í að hafa heyrt þetta einhvers staðar en ég nennti ekki að skoða“
  • rannsakaðu þetta sjálf(ur) -> er svo stundum notað þegar viðkomandi skammast sín fyrir lélegar heimildir
  • ég hef lesið / horft á svo og svo margar greinar / bækur / heimildarmyndir -> það eitt og sér er auðvitað alveg verðlaust, ef innihaldið er ekki nóg til að viðkomandi geti fært rök fyrir máli sínu, þá eru þetta nú ekki merkilegar greinar, bækur heimildamyndir, ef eitthvað er, þá er frekar pínlegt að heyra að einhver hafi ekki betri rök

Ég fékk svar frá Umboðsmanni Alþingis vegna erindis um sóknargjöld. Ákvað að ítreka að fá niðurstöðu.

Ef ég skil svarið rétt þá er talið að það sé ekki hlutverk umboðsmanns að segja álit sitt á efninu þar sem farið sé að lögum og að það sé ekki hlutverk umboðsmanns að hafa skoðanir á lögum.

En svo segir að umboðsmaður geti samt tilkynnt Alþingi ef hann verði þess var að meinbugir séu á gildandi lögum.

Það kemur ekki fram hvers vegna ekki er talin ástæða til að benda Alþingi á galla í löggjöfinni, eða yfirhöfuð skoða hvort ástæða sé til þess.

Þá hefur umboðsmaður (ef ég skil rétt) ekki athugasemdir við svör ráðuneytisins. Svör ráðuneytisins eru ekki í samræmi við það álit umboðsmanns að það sé eingöngu verið að fara að lögum heldur er vísað til tæknilegra annmarka – sem eru ekki fyrir hendi – og þess sem starfsmenn ráðuneytisins telja að megi segja. Standast þessi svör ráðuneytisins að mati umboðsmanns?

Telur umboðsmaður að þetta séu góðar og gildar skýringar – og að svarið sé fullnægjandi?

Í ljósi þess að ég tel mig hafa fært sterk rök fyrir því að þarna sé brot á ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu vil ég fara fram á að þessi afstaða verði endurskoðuð, skoðað verði hvort ástæða sé til að benda Alþingi á galla í viðkomandi lögum – og senda ábendingu til Alþingis ef það verður niðurstaðan.

Það ætti að vera óþarfi að ónáða Mannréttindadómstól Evrópu eina ferðina enn – en svona í ljósi þess hversu augljóst ég tel þetta vera þá er í rauninni ekki annað í stöðunni ef ekki næst að laga þetta innanlands.

Píratar og sóttvarnarlög

Posted: apríl 26, 2021 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Það er ekkert leyndarmál að ég er verulega ósáttur við framgöngu sumra þingmanna Pírata á Alþingi.

Ég hef kosið Pírata í síðustu kosningum.

Ég hef svo sem líka kannski rifist hvað mest við Pírata… ruglið sem flokkurinn var stofnaður í kringum byggir að mínu viti á vanþekkingu og skammsýni. En þeim til hróss hafa þau verið tilbúin í rökræður og það fer lekki lengur mikið fyrir þessum upphaflegu hugmyndum.

Þau hafa staðið sig mjög vel, verið ferskt afl á Alþingi og spurt erfiðra spurninga.

En mér finnst framganga sumra þingmanna í umræðum um sóttvarnarlög einfaldlega ekki verjandi.

  • Þau tala um „geðþóttaákvarðanir“, það er ekki geðþóttaákvörðun að fylgja ráðum vísindamanna.
  • Þau tala um að það hefði átt að reyna vægari aðgerðir, vitandi (eða amk. höfðu alla möguleika á að vita) að það að búið að reyna og einfaldlega ekki að virka.
  • Þau tala um að frumvarp hafi verið illa undirbúið og unnið á skömmum tíma. Fyrir það fyrsta, þá var nú ekki mikill tími til stefnu. Þá þarf ekki að hafa fylgst mikið með til að vita að búið er að ræða málið fram og til baka og bókstaflega fráleitt að gefa í skyn að hér sé einhver flumbrugangur á ferð.
  • Að tala um að frumvarpið hafi verið samið á einum degi er svo dæmi um fullkomlega marklausar athugasemdir. Það er ólíklegt að frumvarpið hafi verið samið á einum degi þó frágangur hafi mögulega verið unninn í flýti. En það skiptir bara ekki nokkru einasta [hér má velja kjarnyrt blótsyrði] máli hversu langan tíma tók að skrifa frumvarpið.. það sem skipti máli er hvort það var nógu gott eða ekki.
  • Píratar kvarta undan að breytingatillaga þeirra hafi ekki verið samþykkt, mögulega, sennilega, líklega hefði frumvarpið verið betra þannig, en það þýðir ekki að ekki megi samþykkja það.
  • Þá er gjarnan gripið í að snúa þessu upp í mannréttindamál. Mannréttindi eru mikilvæg, en ég gef einfaldlega ekkert fyrir baráttu fólks fyrir mannréttindum ef það lítur svo á að mannréttindi felist í að fólk hafi rétt til að leggja aðra í lífshættu að nauðsynjalausu.
  • Og svo virðist „háll-halli-rökleysan“ (slippery-slope fallacy) stöðugt dúkka upp í réttlætingu á afstöðu sumra þingmanna.

Þetta er alvarlegt mál. Ef fólk er situr á Alþingi og er að greiða atkvæði þá er lágmarkskrafa að vinna heimavinnuna og halda þræði í hugsun og rökfærslu – sleppa klisjum og innantómum frösum.

Ef ekki verður breyting á þessu þá er líklegt að mitt atkvæði fari annað í Alþingiskosningunum í haust.

Ég styð Pírata áfram í borgarstjórn og öðrum sveitarstjórnum þar sem þau eru að vinna gott verk.

Fjármálaráðuneytið svarar ekki lengur erindi mínu um lækkun skattgreiðslna vegna sóknargjalda.

Þá er næsta skref að senda erindi til Umboðsmanns Alþingis.

Ég sendi erindi þar sem ég fór fram á að skattgreiðslur mínar væru lækkaðar sem nemur greiðslu til trúar- og lífsskoðunarfélaga.

Rökstuðningur minn er sá að vegna þess að ég tilheyri ekki neinu slíku félagi þá lækka útgjöld ríkissjóðs sem því nemur.

Ég benti auk þess á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði vísað frá beiðni Darby (mál 11581/85) gegn sænska ríkinu á þeim forsenum að hann hefði þann valkost að lækka skattgreiðslur sínar með því að standa utan lífsskoðunarfélaga.

Í stuttu máli svaraði ráðuneytið því að

  • þeim fyndist að segja mætti eitthvað, sem varla getur talist gild rök fyrir mismunun, hvað þá mannréttindabrotum, fyrir utan nú það að lítil stoð var í því sem þeim fannst mega segja.
  • þetta væri erfitt í framkvæmd, sem það er ekki og bauð ég aðstoð mína við að leysa tæknileg vandamál, ef einhver væru – ég leyfi mér að efast um að þetta hafi verið kannað að nokkru marki.
  • vísa í eitthvert undarlegt aukaatriði í úrskurði MDE í máli Darby.

Ég tel því augljóst að engin gild rök eru fyrir svörum ráðuneytisins.