Archive for the ‘Umræða’ Category

Eftir umræður síðustu daga um verðtryggingu er ég kominn á þá skoðun að það væri til mikilla bóta að taka upp sérstakan sýndargjaldmiðil til húsnæðiskaupa, „húsnæðiskaupakrónur“ (HKK), eða kannski eitthvert enn betra nafn.

Umræðan um verðtrygginguna er orðin þannig að hún stýrist af alls kyns rangfærslum og misskilningi og það er eiginlega orðið vonlaust verk að eltast við að leiðrétta og halda réttum upplýsingum til haga.

Með því að taka upp húsnæðiskaupakrónur er virkni lántöku og afborgana mun skiljanlegri („gegnsærri“).

Tökum dæmi.

Segjum okkur að við byrjum með HKK í dag, 1 HKK sé jafnvirði 10.000 íslenskra króna.

Lántakandi sem hefði tekið 10 milljóna lán í íslenskum krónum (sem vantar upp á að kaupa litla eign) fær nú lán upp á 1.000 HKK. Hann skiptir þeim í 10m íslenskar krónur og kaupir sína eign. Gefum okkur að lánið sé til 10 ára með 1% vöxtum (já, ég má láta mig dreyma í bloggfærslu) – og höfum einn gjalddaga á ári til einföldunar.

Ef lánið er með föstum afborgunum, þá borgar lántakandi 100 HKK á hverju ári, vexti af höfuðstól í HKK og kaupir íslenskar krónur á gengi HKK á gjalddaga.

Eftir eitt ár greiðir lántakandi þannig 100 HKK afborgun og 10 HKK í vexti, alls 110 HKK. Gefum okkur að gengi HKK sé 11.000 eftir eitt ár. Lántakandi þarf þá að kaupa íslenskar krónur á genginu 11.000, greiðir lánveitanda 1.210.000 (11.000 * 110) ÍKR.

Gefum okkur að gengi HKK lækki og detti aftur niður í 10.000 fyrir næsta gjalddaga (já, ég mátti láta mig dreyma), þá greiðir lántakandi áfram 100 HKK, 9 HKK í vexti og nú þarf hann að kaupa 1.090.000 ÍKR til að greiða. Afborgunin er alltaf sú sama 100 HKK, vextirnir lækka á hverjum gjalddaga og höfuðstóllinn lækkar sýnilega á hverjum gjalddaga.

Sama gildir um jafngreiðslulán, það er reiknað í HKK (sennilega er greiðslan eitthvað nærri 105-106 HKK á gjalddaga, nenni ekki að reikna nákvæmlega) og þegar kemur að gjalddaga er afborgun og vextir í HKK, greiðslan alltaf sú sama í HKK og lántakandi skiptir yfir í íslenskar krónur til að greiða. Afborgun hækkar aðeins, vextir lækka og höfuðstóll lækkar á hverjum gjalddaga.

Auðvitað kemur þetta í sama stað niður, en það er mun einfaldara að skilja hvernig verðtrygging virkar og það er mun skýrara að sjá höfuðstól lánsins lækka og horfa á fastar afborganir eða fastar greiðslur sem breytast ekki á lánstímanum.

PS. biðst fyrirfram afsökunar á mögulegum innsláttarvillum í útreikningum, er að gera þetta á hlaupum.

Facebook „frágangur“

Posted: ágúst 2, 2018 in Umræða

Það er ekki bara það að ég sé búinn að fá mig fullsaddan af því þegar fólk er að verja núverandi bandaríkjaforseta á Facebook… – eða, jú, það er eiginlega bara það.

Gott og vel, það má tína til einhverja mola þar sem hann hefur fengið á sig ósanngjarna gagnrýni eða meira gert úr smáatriðum en efni standa til.

En það telur einfaldlega ekkert á móti þeim aragrúa atriða þar sem hann hefur sannanlega sýnt af sér fáránlegan graut af mannfyrirlitningu, vanhæfni, þekkingarleysi, rasisma, fáfræði, getuleysi, svikum, lygum og hreinræktaðri heimsku – og ég er örugglega að gleyma einhverju.

Og ég get einfaldlega ekki verið að eltast við að svara þessu aftur og aftur og aftur – og einu sinni enn. Enda fullkomlega tilgangslaust – ef viðkomandi tæki rökum og gæti unnið úr upplýsingum þá væri viðkomandi ekki að eltast við að verja þennan gauk.

En það eru alltaf einhverjir sem ráða ekki við að vinna úr upplýsingum og heimildum – og fyrir einhverja sérstaka óheppni virðast margir þeirra haldnir ákveðinni þráhyggju og þurfa að rífast um allt og ekki neitt fram í rauðan dauðann.

Og eftir því þvættingurinn verður augljósari, rökin fáktæklegri og fleiri staðreyndir líta dagsins ljós – því dýpra grefur fólk sig ofan í þetta svarthol fávitaskapar – afsakið, ég kann ekki meira viðeigandi hugtak.

Gott og vel, fólk má haga sér eins og fávitar mín vegna.

En þegar kemur að Facebook þá er ég að ekki að nenna þessu. Mér finnst virkilega gaman að fylgjast með vinum kunningum og gömlum félögum. Og ég kann oftar en ekki að meta upplýsingar um áhugaverða viðburði. Það er líka fínt að sjá stöku brandara og flottar ljósmyndir.

En ég nenni ekki Facebook sem stað fyrir þvætting, heimsku og hatursáróður.

Ég tek mig stundum til og skoða alls kyns undarlegar vefsíður, fullyrðingar, bloggfærslur, fréttir, upplýsingar og skoðanir sem eru kannski ekki allra – oftar en ekki út úr kú – en bara forvitninnar vegna og til að gefa öðrum skoðunum tækifæri. En ég vil velja mér stað og stund, ekki láta drita þessu stanslaust og samhengislaust yfir mig.

Alveg eins og fólk má vera sóðar heima hjá sér en ég þarf ekki að láta bjóða mér að það gangi svona um heima hjá mér.

Þannig að ég ætla að losa mig við svokallaða Facebook vini sem hafa ekkert fram að færa en þvætting, heimsku og hatursáróður. Ef ég gleymi einhverjum, endilega verið svo væn að taka af skarið og fjarlægja mig af vinalistanum.

Gjammaravæðingin

Posted: júlí 19, 2018 in Umræða

Einn ókosturinn við net- og bloggvæðingu síðustu ára er eitthvað sem kannski má kalla „gjammaravæðingu“ eða „upphafningu gjammarans“.

Einhverra hluta vegna virðast, til þess að gera fáir, en áberandi, einstaklingar nærast á því að vera stöðugt gjammandi um allt og ekki neitt.

Sumir virðast líta á það sem sitt hlutverk að reyna að koma með vitlausustu og/eða mest óviðkomandi og/eða langsóttustu athugasemdina inn í hverja umræðu.

Aðrir eru í raun stöðugt að upplýsa okkur hin um eigin fáfræði með glórulausum yfirlýsingum sem lágmarksþekking og/eða hugsun hefði nú kæft í fæðingu.

Fólk stofnar meira að segja stjórnmálaflokka utan um samhengislaust gjammið.

Og virtir fræðingar á sínu sviði þurfa endilega að básúna órökstuddar og illa upplýstar skoðanir á nánast hverju sem dúkkar upp í umræðunni.

Það er kannski tvennt sem gæti bætt umræðuna aðeins.

Annars vegar ef fréttamiðlar hættu að líta á hvaða glórulausa skoðun sem „frétt“.

Og hins vegar ef þetta klapplið sem tekur hugsunarlaust undir hvað sem er, væri nú kannski til í að lesa amk. þvættinginn áður en það sendir vel-líkingu, hjarta eða þumalinn-upp.

 

Ég er stundum í vandræðum með að ákveða hverju ég má leyfa mér að hafa gaman af.

Gott dæmi eru frábærar kvikmyndir, tónlist og sjónvarpsþættir frá einstaklingum sem hafa gerst sekir um ósiðlega og / eða glæpsamlega hegðun. Hefur það áhrif á gæði efnisins frá viðkomandi? Nú er ég ekki að tala um hvort ég vilji kaupa efnið og styrkja viðkomandi þannig, gefum okkur að verið sé að sýna sjónvarpsþátt á stöð sem ég er hvort sem er með áskrift að. Get ég leyft mér að njóta efnisins?

Sama gildir um fótbolta.

Ég hef fyrir löngu sætt við mig við að stórkostlegir knattspyrnumenn reiða nú ekki með beinlínis vitið í þverpokum. Og ég er að mestu hættur að pirra mig á heimskulegum og hrokafullum yfirlýsingum.

En þegar þeir lýsa stuðningi við glæpamenn sem stunda mannréttindabrot? Get ég haft gaman af að horfa á tilburði þeirra á knattspyrnuvellinum? Eða má ég leyfa mér að horfa fram hjá einstaklingnum og horfa á leikinn? Að því gefnu að ég sé ekki beinlínis að styrkja viðkomandi með beinum hætti.

Lýðskrumið um fundarsetulaun

Posted: júní 19, 2018 in Umræða

Ég læt gjarnan fara í taugarnar á mér þegar „pólitíkusar“ eru að ná sér í athygli út á ódýrara fullyrðingar, innihaldslausar ályktanir og/eða rjúka upp af hreinni og klárri vanþekkingu – einfaldir frasar eru settir fram, hljóma kannski vel í fyrstu, en standast ekki skoðun.

Nýjasta dæmið er umræðan um laun borgar- bæjarfulltrúa fyrir fundasetu. Þetta virðist fá mikinn hljómgrunn, amk. hjá mínum vinum á samfélagsmiðlum, en ég sé ekki betur en að þetta byggist á vanþekkingu og að hafa kannski ekki hugsað dæmið til enda.

Það má alveg deila um upphæðir, bæði grunnlaun og laun vegna fundasetu… það er góð og gild umræða – en það er önnur umræða.

Það er ekkert að þeirri aðferð að greiða sérstaklega fyrir fundasetu.

Það að sitja fund kallar ekki eingöngu á tímann sem fer í fundinn sjálfan. Það þarf að undirbúa fundi og það þarf líklega að fylgja fundi eftir. Þeir sem sitja fundi hjá nefndum þurfa að taka tíma í að fylgjast með viðkomandi málefni milli funda, jafnvel þó ekki sé um beinan undirbúning að ræða.

Bæjarfulltrúar geta verið í mismörgum nefndum jafnframt því að sitja í bæjarstjórn. Þess vegna getur einn bæjarfulltrúi hæglega þurft að leggja á sig mun meiri vinnu en annar, þeas. vinnuskyldan getur verið misjöfn. Þess vegna er ekkert að því að meta ólíkt vinnuframlag til mismunandi launa. Og aftur, upphæðirnar eru önnur umræða.

[reyndar minnir mig að ákveðin fundarseta sé inni í launum, aðeins sé greitt ef fundarseta fer umfram ákveðið lágmark, getur verið mismunandi milli sveitarfélaga, hvort sem er ekki aðalatriðið] 

Sósíalismi á Íslandi 2018??

Posted: júní 2, 2018 in Umræða

Með þennan vinahóp minn á Facebook þá hefur ekki farið fram hjá mér stutt saga svokallaðs „sósíalista“flokks síðustu mánuði.

Mér má svo sem alveg vera sama, ekki tel ég mig vera sósíalista. En einhverra hluta vegna er mér ekki alveg sama.

Að einhverju leyti þykir mér frekar lítið skemmtilegt að horfa á gamla félaga sem telja sig til sósíalista (og þeir eru nokkrir) detta inn í þetta leikrit… því það er varla hægt að kalla þetta annað, ég myndi nota „skuespil“ ef mér væri ekki illa við að sletta á útlensku.

Þrennt kemur nú til..

Fyrir það fyrsta þá leyfi ég mér nú að efast um að helsti hvatamaður að stofnun flokksins hafi yfirleitt nokkurn áhuga á sósíalisma, hafi svona frekar verið uppiskroppa með hugmyndir til að halda sér í sviðsljósinu og dottið inn á þetta. En hvað veit ég, það er svo sem aukaatriði.

Þá er nú frekar lítið í málflutningi talsmanna flokksins sem á eitthvað skylt við sósíalisma, svona eins og sósíalisminn var skilgreindur á sínum tíma. Þetta virðist aðallega vera rómantískur stimpill án nokkurs innihalds og án nokkurrar tengingar.

En aðallega… og í alvöru.

Hvernig væri að fara aðeins að fullorðnast og vaxa upp úr þessari menntaskólarómantík um hægri, vinstri, sósíalisma, kommúnisma, frjálshyggju – nýrri eða gamalli?

Hvernig væri að hætta að afgreiða hugmyndir og málefni sem góð eða slæm með stimplum, langsóttum samlíkingum og innihaldslausum tengingum?

Næg eru verkefnin.

En það gerist ekkert ef fólk situr úti í horni og lætur sér nægja innantómt hjal og innihaldslausa frasana. Komið með hugmyndir um hvernig á að leysa þau vandamál sem þið talið um, komið með málefnaleg rök fyrir hvers vegna þær hugmyndir eru góðar og takið mark á málefnalegri gagnrýni. Og á hinn bóginn, gagnrýnið aðrar hugmyndir út frá málefnum ekki með hallærislegum og úr sér gengnum stimplum.

 

 

Kosningaþynnka

Posted: maí 27, 2018 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég verð að játa að kosningaúrslitin ollu nú talsverðum vonbrigðum.

Ekki svo að skilja að ég ætlist til að allir hafi sömu sýn og ég að deili öllum mínum skoðunum. Það er eðlilegt að hafa ólíkar hugmyndir og ræða kosti og galla þeirra.

Það sem truflar mig alltaf eftir úrslit kosninga er hversu margir virðast (afsakið orðbragðið, „kjósa með rassgatinu“… í þeirri óbókstaflegu merkingu að nenna ekki að kynna sér málefni, nenna ekki að kynna sér afstöðu flokka, nenna ekki að kynna sér feril flokka eða flokka, kjósa flokk af gömlum vana, sætta sig við glórulausar rangfærslur sem auðvelt er að afgreiða og / eða falla fyrir ómerkilegu „tilfinningaklámi“ (gott og vel, mig vantar betra orð).

Ekki misskilja. Ég er ekki að ætlast að allir kjósendur leggir í mikla rannsóknarvinnu… en fyrr má nú rota en dauðrota.

Það er sagt að lýðræði sé slæmt en það sé bara engin betri hugmynd.

Þar er ég heldur betur ósammála. Það er ekkert flókið að útfæra þessa grunnhugmynd þannig að hún virki betur, skili okkur betri fulltrúum og betri stjórnsýslu. Það er meira að segja frekar einfalt.