Archive for the ‘Umræða’ Category

Kalda stríðið á hvolfi

Posted: janúar 18, 2019 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Þegar ég var að byrja að fylgjast með fréttum og stjórnmálum var svokallað „kalt stríð“ milli stórveldanna. Heimurinn var einfaldur (ja, svona til þess að gera) og ég tók afstöðu með vesturlöndum – ekki vegna þess að þar væri allt fullkomið og jafnvel þó nóg væri af dæmum um ógeðfelld atriði, heldur vegna þess að ástandið það var skömminni skárra. Og þar var þó reynt að halda uppi og þróa hugmyndir um mannréttindi og lýðræði.

Á endanum varð kommúnismi austantjaldsríkjanna, undir forystu Sovétríkjanna, gjaldþrota – bæði efnahagslega og hugmyndalega – og við tóku breyttir tímar, „vestrið“ hafði unnið kalda stríðið!

Það tók nokkurn tíma fyrir fyrrverandi austantjaldsríki að koma undir sig fótunum og þau fóru ólíkar leiðir. Rússar eru orðnir að stórveldi, lítt geðslegra en gömlu Sovétríkin, þrátt fyrir að engin sérstök hugmyndafræði ráði ríkjum.

Ekki nóg með það, heldur virðist nokkuð ljóst að Rússar hafa komið útsendara til valda í „höfuðstöðvum“ vesturlanda og virðast hafa algjörlega í vasanum. Það má deila um hvort viðkomkandi sé vísvitandi að ganga erinda Rússa, eða sé einfaldlega svona hrikalega heimskur, en það „bíttar ekki öllu“ eins og skáldið sagði. Evrópa er vissulega að reyna að „standa í lappirnar“, en eftir stendur að austurblokkin er að standa uppi sem sigurvegari kalda stríðsins, eftir að hafa „hrakist út í horn“ fundu þeir aðrar og einfaldari leiðir til að ná hreðjatökum á fyrrum andstæðingum.

Kannski er þetta eðli sögunnar, allt breytist, stórveldi liðast sundur og ný fæðast.

Það sem mér er fyrirmunað að skilja er að hörðustu baráttumenn „vestursins“ hér heima á árum áður eru allt í einu farnir að styðja og bera blak af Rússum og valdabrölti þeirra vestanhafs.

 

Guð1 fær hugmynd

Posted: janúar 14, 2019 in Umræða

Guð1: „Ég er að spá í að skapa smá alheim, svona eitthvert svakalegt víravirki, stjörnur, sólir, tungl, eina ‘jörð’ með ‘lífi’, margar tegundir, eina í minni mynd og svo aðrar sem hún getur étið“

Guð2: „Til hvers? Hefurðu það ekki fínt?“

Guð1: „Mér finnst tilveran bara eitthvað svo innantóm, það er enginn sem dáist að mér og tilbiður mig“

Guð2: „Hvaða máli skiptir það, ertu ekki guðleg vera? Er þetta ekki óþarfa hégómi?“

Guð1: „Hefurðu aldrei hugsað hvað það væri frábært að hafa fullt af litlum verum í þinni mynd sem tilbiðja þig?“

Guð2: „Nei, get nú ekki sagt það, mér finnst tilhugsunin hálf kjánaleg“

Guð1: „Og svo hef ég einn útvalinn hóp sem verður minn hópur“

Guð2: „Á þá bara þessi hópur að tilbiðja þig?“

Guð1: „Nei, nei, auðvitað eiga allir að tilbiðja mig. Líka þeir sem aldrei hafa heyrt um mig“

Guð2: „Svafstu illa í nótt?“

Guð1: „Þú veist að við þurfum ekki að sofa og það er enginn munur á degi og nóttu… En ég er að spá í að drífa í þessu, held að þetta verði frábært“

Guð2: „En hvers virði er að skapa lífverur sem tilbiðja þig ef þær hafa ekkert val?“

Guð1: „Nokkuð til í því, kannski ég gefi þeim kost á að velja að tilbiðja mig eða ekki, þá væri stórkostlegt að upplifa tilbeiðsluna“

Guð2: „Já, kannski, en ef verurnar kjósa að tilbiðja ekki?“

Guð1: „Þú meinar það… já, þá sendi ég sendi hverjar hamfarir og plágur á eftir annarri, drep og refsa grimmilega“.

Guð2: „OK, það gæti verið fjör. En ef það dugar ekki?“

Guð1: „Þá fer ég til þeirra, læt fæða mig sem einn þeirra, læt þá drepa mig til að geta fyrirgefið þeim og rís svo upp frá dauðum“

Guð2: „Þú veist að það er ekki hægt að drepa okkur. Og ef það er ekki hægt að drepa okkur hvernig getum við þá risið upp? Og hvers vegna að standa í öllu svona veseni, er ekki einfaldara að fyrirgefa þeim bara rétt si sona?“

Guð1: „Jú, en mér leiðist“

Það dúkkar enn upp sú bábilja að þáverandi forseti hafi „bjargað þjóðinni“ í IceSave deilunni. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki fengið nóg af umræðunni á sínum tíma, en það er kannski aldrei of seint að læra af reynslunni.

Fyrir það fyrsta, eins og Indriði H. Þorláksson í grein hér hefur sýnt fram á þá var sennilega dýrari leið að hafna samningi þegar allt kom til alls… það má vissulega velta fyrir sér nokkrum atriðum hjá Indriða, hugsanlegum vöxtum og gengisþróun, sem auðvitað var ekki þekkt fyrir fram – en ekkert af þeim vangaveltum breytir svo miklu að við höfum séð fram á „gjaldþrot“, „óviðráðanlega greiðslubyrði“ og hvað þetta var kallað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki spurning um skoðun, þetta er bara spurning um að vera læs á tölur. Aftur, jú, það var ekki vitað nákvæmlega hvernig uppgjörið myndi ganga, en það snerist ekki um þá stærðargráðu sem haldið var fram í umræðunni á sínum tíma.

Hitt sjónarmiðið – og það sem mig langar að velta fyrir mér hér – var að við ættum ekki að bera ábyrgð á skuldum óreiðumanna – nokkuð sem mig minnir að þáverandi Seðlabankastjóri hafi orðað fyrstur. Kannski kom sú skilgreining úr hörðustu átt því sami Seðlabankastjóri fullyrti, í óspurðum fréttum, snemma árs 2008 að jafnvel þó bankarnir færu á hausinn þá gæti íslenska ríkið auðveldlega staðið undir skuldbindingum þeirra.

En að bera ekki ábyrgð á skuldum annarra.

Ég er einfaldlega ekki sammála þeirri nálgun í þessu tilfelli. Bankarnir störfuðu undir eftirliti íslenskra stofnana og bæði þær stofnanir og íslensk stjórnvöld afþökkuðu boð um að koma þessum skuldum í skjól erlendis.

Getum við sagt, „tja, mér kemur þetta ekkert við, þetta eru ekki mínar skuldir“? Eftir að hafa ítrekað kosið viðkomandi til valda?

Það er kannski fín nálgun að gera ráð fyrir að við berum einmitt ábyrgð á þeim ríkisstjórnum sem við kjósum til valda, getuleysinu og vanhæfni þeirra sem skipaðir eru í lykilstöður af viðkomandi stjórnvöldum. Og hugsum aðeins áður en við kjósum.

Einhver leiðigjarnasta klisjan sem ég heyri yfir hátíðirnar er að við Íslendingar séum kristin þjóð. Ég fæ aldrei nein svör af neinu viti þegar ég spyr hvað þetta tákni og hvernig fólk fái þetta út.

Þátttakan í trúarlegum athöfnum er að mestu bundin við tyllidaga, ég veit ekki nákvæmlega hversu margir mæta til messu utan hátíðisdaga og fjöldskylduviðburða, en þeir eru ekki margir.

Meirihluti landsmanna er vissulega enn skráður í þjóðkirkjuna, en lang flestir við fæðingu að þeim forspurðum og þetta hlutfall fer hratt niður á við.

Aftur hef ég ekki nákvæmar tölur en ég efast um að meira en 5% geti farið með trúarjátninguna og ég efast um (eða vona að minnsta kosti) að margir þeirrra taki innihald hennar bókstaflega.

Vissulega má halda því fram að flestir gera sér far um að breyta rétt og forðast að breyta rangt. Og það er líka rétt að mikið af því má sækja í boðskap kristninnar. En kristnin sækir nefnilega þær hugmyndir til annarra og hefur þar fyrir utan, svona í aldanna rás, lagað sig að hugmyndum um hvað sé rétt og hvað sér rangt.. sem er gott, en kannski full mikið að eigna trúnni þær hugmyndir. Og ekki gleyma að það þarf líka oft á tíðum að skauta fram hjá miður jákvæðum boðskap biblíunnar og margra talsmanna kirkjunnar.

Að lokum get ég ekki látið hjá líða, þó ósanngjarnt sé að einhverju leyti, að benda á að þeir sem gaspra hvað hæst um mikilvægi trúarinnar fylgja nú kannski hvað síst boðskap hennar, til að mynda, um náungakærleik þegar kemur að því að, svo ég nefni nú nærtækt dæmi, aðstoða fólk í neyð. Ég er ekki að nefna þetta til að yfirfæra þessar skoðanir yfir á alla kristna heldur til að benda á að kannski er of mikil áhersla á trúna og það að berja sér of mikið á brjóst sem trúuðum einstaklingi og hafa hvað hæst um hversu kristin við séum… ekki endilega neitt sérstaklega jákvætt.

Veggjöld, vond hugmynd

Posted: desember 19, 2018 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég skal játa að mér fannst hugmyndin um veggjöld ekki alslæm þegar ég heyrði af henni fyrst. Enda gerði ég ráð fyrir að skattar á eldsneyti yrðu lækkaðir á móti, tryggt yrði að tekjur af þeim rynnu beint í vegakerfið og kostnaður við framkvæmd innheimtunnar yrði ekki úr öllu hófi.

Nú virðist ljóst að ekki standi til að lækka skatta á móti, engin leið er að tryggja að tekjurnar fari í vegakerfið og ekkert er vitað um kostnað við innheimtu.

Þetta er að sjálfsögðu nægilegt til að ég er algjörlega mótfallinn hugmyndinni. Enda er það eðli málsins samkvæmt að margar tegundir að innheimtu kalla á meiri rekstur við innheimtuna.

En svo fór ég að hugsa betur.

Hugmyndin er í rauninni alltaf vond.

Það er alltaf aukinn kostnaður við innheimtuna, jafnvel þó hann verði innan skynsamlegra marka, þá er þetta alltaf sóun.

En aðallega þá er ég ekki sáttur við þessa hugmynd.

Samgöngur eru ekki lúxus þeirra sem nota samgöngukerfið. Góða samgöngur nýtast öllum til lengdar og kostnaðurinn við slæmt samgöngukerfi bitnar á öllum.

Jafnvel þó einhverjum finnist réttlæti í því að mikil notkun vegakerfisins kalli á enn hærri gjöld en felast í himinháum gjöldum á eldsneyti, þá get ég ekki séð að hugmyndin gangi upp, amk. ekki eins og verið er að ræða framkvæmd.

Eða hver eru rökin fyrir því að sá ökumaður sem keyrir oft inn og út af höfuðborgarsvæðinu eigi að borga meira fyrir vegakerfið en sá sem keyrir tvöfalt meira innan höfuðborgarsvæðisins?

Og hver eru rökin fyrir því að sá sem keyrir inn og út af höfuðborgarsvæðinu tvisvar á dag eigi að borga meira fyrir vegakerfið en sá kemur utan af landi tvisvar í viku.

Og hver eru rökin fyrir að þessir ökumenn eigi til dæmis öðrum fremur að standa undir jarðgöngum í öðrum landshlutum?

Það eru auðvitað til leiðir til að leggja gjöld hlutfallslega rétt á þá sem nota vegakerfið meira en aðrir. En mér dettur eiginlega ekki í hug að skýra þær, mér finnst þetta engan veginn sanngjarnt. Og mig grunar að skattheimtuhrammur ríkisstjórnarinnar bæti þeim einfaldlega við aðrar hugmyndir.

 

Lögleiðing eða ekki

Posted: desember 14, 2018 in Umræða
Efnisorð:

Ég virka kannski mótsagnakenndur þegar ég segist vera á móti neyslu kannabisefna en vilji samt lögleiða þau.

En þetta er auðvitað engin mótsögn.

Ég hef aldrei neitt slíkra efna, fór meira að segja í gegnum nokkurra ára feril í hljómsveit þegar ég var yngri (og er auðvitað enn), þar sem þetta þótti nú enn eitt merkið um að ég væri hálfgert viðrini.

En neysla kannabisefna er sannanlega heilsuspillandi og ég hef séð marga fara ansi illa á neyslu þessara efna. Þá eru niðurstöður rannsókna nokkuð afgerandi. Ég þekki svo auðvitað á hinn bóginn fullt af fólki sem hefur prófað þetta (mis mikið) án þess að hljóta varanlegan skaða af.

En alveg eins og með áfengi, þá er mikilvægt að halda úti fræðslu og forvörnum og hafa allar upplýsingar aðgengilegar.

En valið er alltaf einstaklingsins. Þess vegna vil ég ekki að neysla þessara efna sé bönnuð með lögum.

Þá eru einstaklingar sem geta nýtt sér þessi efni í lækningaskyni, þar sem ávinningurinn virðist vera meiri en áhættan. Aftur… þetta á að vera val hvers og eins.

Eitt geðvonsku innlegg samt..

Það fer óstjórnlega í taugarnar á mér þegar stuðningsmenn þess að leyfa efnin eru að hamast á samanburðinum við áfengi.

Flestir, eða amk. mjög margir, neyta áfengis bragðins vegna, miklu frekar en vegna áhrifanna. Ég myndi sennilega drekka talsvert meira ef ekki væri fyrir áhrifin.

Ég þekki engan sem neytir kannabis efna í öðrum tilgangi en að komast í vímu, ég hef amk. aldrei heyrt nokkurn dásama bragðið.

Þannig að, fyrir alla muni, hættið þessu rugli, það veikir málstaðinn!

 

Langt heiti á lítilmenni

Posted: desember 13, 2018 in Stjórnmál, Umræða

Ég skal játa að mér vefjast oft fingur um lyklaborð við að velja viðeigandi lýsingarorð fyrir æðsta stjórnanda Bandaríkjanna.

Ég hef stundum notað orðið „trúður“, vegna galgopalegra yfirlýsinga um hluti sem hann veit klárlega ekkert um, sýndarmennsku, innistæðulausrar sjálfumgleði og yfirgengilegrar fáfræði – að ógleymdri hegðun sem gjarnan minnir á ofdekrað þriggja ára barn í frekjukasti.

En „trúður“ er auðvitað engan veginn nákvæmt, það er allt of vingjarnlegt og nær engan veginn yfir alla þá fjölbreyttu eiginleika sem birtast okkur reglulega.

Úrþvætti, skítseiði, fábjáni, fáráðlingur, siðblindur, loddari, drullusokkur, raðlygari, sauðheimskur, svikari, falsari, rasisti, afglapi, auli, aðhlátursefni, fáráðlingur, viðrini… allt þetta á auðvitað miklu betur við – og ég er væntanlega að gleyma einhverju.

Íslenskan á ekki eitt orð yfir þessi stjarnfræðilega samsettu ósköp sem sameinast í þessu fyrirbæri, ekki frekar en önnur tungumál.

En íslenskan á kannski eitt vopn fram yfir önnur tungumál, samsett orð.

Er ekki við hæfi að nota úrþvættisskítseiðisfábjánafáráðlingssiðblinduloddaradrullusokksraðlygarasauðheimskusvikarafalsararasistaafglapaaulaaðhlátursefnisfáráðlingsviðrini?

Æi, trúður datt út. Jæja.

Varahlutir og vefverslun

Posted: desember 12, 2018 in Umræða

Við keyptum nokkuð góðan ísskáp þegar við tókum eldhúsið í gegn fyrir nokkuð mörgum árum. Við völdum, að við héldum, öruggt vörumerki og keyptum stóran ísskáp.

Hann hefur svo sem ekki verið alslæmur en skelfilega kauðaleg hönnun á vatnsinntaki fyrir klakavél og vatn hefur kostað óteljandi leka og bilanir.

Og þegar við höfum þurft varahluti fyrir plastdótið sem brotnar auðveldlega þá þurfum við að hugsa í ansi mörgum mánuðum.

Nú vantaði mig eina hillu, hringdi í söluaðila og hann sagðist reyndar ekki eiga þessa hillu á lager, en hún gæti örugglega verið komin fyrir jól, bætti hann við. Þetta fannst mér ansi seint og þetta fannst mér slök þjónusta eða þar til hann bætti við að hann væri reyndar ekki að tala um þessi jól.

Hann afsakaði sig með að eitthvert fyrirtæki úti hefði keypt einhvern hlut af einhverju öðru fyrirtæki – eins og mér væri ekki slétt sama. Enda heldur sú skýring ekki beinlínis, því síðast þegar okkur vantaði varahlut fyrir sama ísskáp þá tók það um ár – og var þó fyrir nokkru síðan.

Ég reyndi að fá smá samúð með því að benda á að þetta væri aðal bjór hillan hjá okkur. Hann svaraði því til að sumir geymdu grænmetið sitt þarna. Nú veit ég ekki hvort hann var að leggja mér til hráefni í „pub-quiz“ ef ég fengi óvænt spurninguna „hvar í ísskápnum geymir fólk grænmetið sitt sem ekki vill nota grænmetisskúffurnar?“ Eða hvort hann hafði sterkan grun um að við drekkum of mikinn bjór og ættum að snúa okkur að grænmeti. Hefði ég verið að hringja og leita ráða við mikilli bjórdrykkja hefði ég væntanlega þakkað fyrir og lagt á. En mig vantaði hillu. Tæpar fimmtán þúsund og engar upplýsingar fáanlegar um hvenær hún gæti verið komin.

Mér varð hugsað til Google og fann viðkomandi hillu vandræðalaust, $60 kostaði hún fyrir utan sendingarkostnað og gjöld.

Þetta tók þrjár vikur, fór rétt yfir fimmtán þúsund með öllum gjöldum, en kom fljótt.

Kannski þurfum við að kaupa annan ísskáp fyrir bjórinn. En hann verður örugglega ekki frá þessu fyrirtæki.

En það þýðir ekkert fyrir íslensk fyrirtæki að kvarta yfir að fólk panti vörur beint ef þjónustan er ekki betri en þetta.

Vandamálið fyrir vestan

Posted: desember 12, 2018 in Umræða

er í rauninni ekki að landinu er stjórnað af ofdekruðum, ómenntuðum, sjálfhverfum, ofvöxnum, sjálfhverfum krakka sem er að dunda sér við að eyða auði fjölskyldunnar.

Vandamálið er auðvitað að það er fólk sem bókstaflega trúir á hann. Þá á ég við í merkingu trúarbragðanna. Ég rökstyð þetta með því að það er ekkert sem gaurinn getur gert eða sagt, eða hefur gert eða sagt, sem getur fengið fólk til að skipta um skoðun. Hann er ýmist afsakaður með að þetta sé nú ekki svo slæmt (þó andstæðingar hans hafi verið útmálaðir óverjandi og óalandi fyrir sömu sakir), þetta séu falsfréttir (þó staðfestar séu og komi jafnvel beint af hans eigin tísti) og ef annað dugar ekki til, andstæðingarnir eru bara ekkert betri… og allt leyfilegt þegar kemur að því að ljúga upp á þá.

Það er alveg sama þó upp komist um að hann hafi logið, svikið, svindlað, skipað fyrir um dráp á fólki, niðurlægt konur, sé rasisti, taki réttindi af samkynhneigðum og transfólki.

Það er alveg sama þó komi í ljós að hann hafi ekki lágmarksþekkingu á viðskiptum, vísindum, landafræði, stjórnmálum, milliríkjaviðskiptum, stjórnkerfi, hlutverki dómstóla, geti ekki munað í 2 mínútur í hvaða bæ hann er staddur, ljúgi upp á aðra þjóðarleiðtoga, hvetji til ofbeldis, verji morðingja og verji þá sem fremja hatursglæpi.

Fólk kemur til með að styðja hann áfram. Í höfuðlausri heimskunni.

Hvernig get ég fullyrt?

Jú, allt þetta er þegar staðfest… og gaurinn hefur stuðning fólks.

ég hef stundum sett niður nokkrar hugleiðingar um þennan ræfil sem komst til valda fyrir vestan, án þess að birta, en kannski er rétt að hafa þetta í huga, við virðumst stöðugt vera að færast nær siðblindu í stjórnmálum, þannig að ég ætla að láta nokkrar athugasemdir detta inn næstu daga

„Kópavogsbúi“ ei meir

Posted: desember 1, 2018 in Umræða

Ég ólst upp í Kópavogi, þrátt fyrir að fæðast í Reykjavík – enda engin fæðingardeild í Kópavoginum – bjó þar til ég var 24 ára.

Síðustu 35 árin hef ég svo búið í Reykjavík, en alltaf talið mig Kópavogsbúa… Breiðablik mitt félag og og einhvern veginn litið á að þetta væri minn bær.

En þetta er auðvitað óþarfa rómantík fram eftir aldri.

Í öllu falli þá er kominn tími til að segja þetta gott, látum vera hvaða dropi fyllti mælinn, en ég er sem sagt Reykvíkingur ef einhver spyr.