Archive for the ‘Umræða’ Category

Ég fékk svör frá fjármálaráðuneytinu við erindi mínu frá 11. janúar 2021, sbr. https://valgardur.blog/2021/01/11/skattalaekkun-vegna-greidslna-til-sokna/

Ég var hins vegar ekki alls kostar sáttur við svörin og sendi því annað bréf þar sem ég ítreka erindi mitt.

Takk fyrir skjót svör.

Fyrir það fyrsta er ánægjulegt að ekki er ágreiningur um að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Darby skipti máli hér.

Fyrir utan að endurtaka efni erindis míns þá er nokkuð löng skýring á fyrirkomulagi sóknargjalda, ég hefði kannski átt að nefna að ég þekki þetta ágætlega og útskýringar því óþarfar.

Síðan kemur eitthvað óljóst „þá má segja..“ sem mér finnst vægast sagt undarlegt. Það hvað einhver telji að það að megi segja eitthvað er frekar vafasöm, ef ekki fráleit, forsenda fyrir brotum á mannréttindum.

Þá er nefnt til sögunnar að þriðjungur framteljenda greiði engan tekjuskatt til ríkisins. Aftur verður ekki séð að þetta komi málinu nokkuð við.

Bréfinu lýkur svo á því að segja að framangreindu virtu geti ráðuneytið ekki fallist á að koma til móts við erindi.

Ég get ekki séð nokkur rök í textanum sem vísað er til í „að framangreindu“ sem koma í veg fyrir að mál mitt sé afgreitt á viðunandi hátt. Ef hugsunin er sú að það sé ekki hægt að lækka tekjuskatta þeirra sem standa utan lífsskoðunarfélaga og greiða ekki tekjuskatt þá er auðvelt að finna lausn á því vandamáli og sjálfsagt að aðstoða við að leysa málið ef þetta er eina fyrirstaðan.

Það liggur fyrir að ríkissjóður greiðir lífsskoðunarfélögum eftir fjölda meðlima, það er klárt að ég er ekki meðlimur neins félags, ekki þarf að deila um að ég greiði skatta – bæði tekjuskatta og aðra – og ekki virðist ágreiningur um að þetta standist ekki skoðun hjá Mannréttindadómstólnum.

Þannig væri virkilega vel þegið ef hægt væri að klára þetta án frekari málalenginga.

Ekki viljum við að Íslenska ríkið fái enn einn dóminn á sig frá MDE?

Það hafa verið nokkrar umræður um hvort samfélagsmiðlar hafi gert rétt í að loka aðgangi einstaklinga sem hafa neitað að fylgja reglum.

Ég er ekki nokkrum vafa.. einkafyrirtækjum ber engin skylda til að leyfa misyndismönnum að misnota kerfi og vettvang þeirra til að koma hættulegum og viðbjóðslegum skilaboðum á framfæri. Einhverra hluta vegna lítur reyndar út fyrir að þeir vinir mínir á samfélagsmiðlum sem aðhyllast frjálshyggju og frjálsa samkeppni eru hvað ákveðnastir í því að skylda eigi einkafyrirtæki til að

Það er kannski einfaldast að bera saman við að ef ég væri að reka leigu á hljóðkerfum, sjónvarpstöð eða bar. Mér bæri engin skylda til að leigja fólki hljóðkerfi til að breiða út hatursboðskap og koma þannig óorði á mitt fyrirtæki. Væri ég að reka bar og einn fastagesturinn væri stöðugt að stofna til rifrilda og slagsmála þá þætti mér ég í fullum rétti að meina honum aðgang. Og með sjónvarpsstöð, þá bæri mér engin skylda til að hleypa hverjum sem er að með hvaða bull sem er eins lengi og þeim sýnist. Enda gera sjónvarpsstöðvar þetta ekki.

Margir hafa vísað til Voltaire og talið mikils virði að leyfa öllum að segja sína skoðun, hversu ósammála sem við erum viðkomandi.

Þarna kemur tvennt til.

Fyrir það fyrsta, þá er mikilvægt að gera greinarmun á skoðunum annars vegar og staðreyndum, lygum, rangfærslum og óstaðfestum fullyrðingum hins vegar. Ég hef aldrei skilið hugmynd Voltaires þannig að hann talaði fyrir sannanlegum lygum, ósannindum eða óstaðfestum fullyrðingum. Það er ekki skoðun að fjórir plús fjórir geri ellefu, það er einfaldlega rangt. Og það er ekki skoðun að heiminum sé stjórnað af eðlum frá öðrum sólkerfum, það er fullyrðing út í bláinn.

En jafnvel þar fyrir utan. Ég er einfaldlega ekkert á því að allar skoðanir eigi rétt á sér. Það er gjarnan talað um einhvern heilagan rétt þegar kemur að stjórnmálum, en sama fólki vefst gjarnan tunga um tönn og fingur um lyklaborð þegar ég spyr hvort skoðanir sem styðja fjöldamorð, stríðsglæði, áróður rasista og barnaníð eigi rétt á sér.

Fyrir mér er þetta kýrskýrt, einkafyrirtæki ráða því hvernig kerfi þeirra eru notuð, rangfærslur eru ekki skoðanir og það eiga ekkert allar skoðanir rétt á sér.

Vefverslunarsíður

Posted: janúar 4, 2021 in Umræða

Ég hef verið að reyna að vera sem minnst á ferðinni síðustu mánuði, auðvitað gengið mis vel – en eitt af því sem ég hef reynt mikið er að nýta vefsíður söluaðila til að velja vörur og fækka þannig heimsóknum í verslanir.

Og ég verð að játa að ég er oftar en ekki gjörsamlega gáttaður á hversu lélegar upplýsingar og framsetningin er.

Ég fer ekki á vefsíðu til að sjá hversu flinkur vefforritarinn er að setja fljúgandi hluti í andlitið á mér þegar ég er að leita að upplýsingum.

Sjálfsögð atriði eins og símanúmer, tölvupóstfang og heimilisfang eiga að vera augljós á fyrstu síðu.

Ég vil hafa verð og vöruúrval á hreinu, geta flokkað og síað eftir þeim atriðum sem skipta máli, sem geta verið ansi fjölbreytt.

Ég vil geta síað eftir eiginleikum vörunnar, raðað eftir þeim atriðum sem ég kýs og borið saman nokkra valkosti.

Ég hef áhuga á upplýsingum, ekki spjalli, td. hef ég engan sérstakan áhuga á því, þegar ég er til að mynda að velja ofn í eldhúsið, að fá að vita hvort hann sé „stórskemmtilegur“ eða ekki.

Mér finnst óboðlegt að vera vísað á síðu framleiðanda með dönskum texta, þó ég sé nú kannski betur settur með dönsku, amk. lestur, en margir.

Hjarð-geta-unnið-úr-einföldustu-upplýsingum

Posted: nóvember 11, 2020 in Umræða
Efnisorð:

Það kemur stöku sinnum fyrir, eitt augnablik í senn, að mér dettur í hug að kannski þurfi ekki reglur um sóttvarnir, það ætti að nægja að segja fólki „þetta er lífshættuleg veira og þið þurfið að…“

En þá man ég að það er talsvert af fólki hér sem heldur að forseti Bandaríkjanna sé nú kannski ekki svo slæmur, styður formann Miðflokksins, skilur ekki hlýnun jarðar, er á því að jörðin sé flöt og/eða að bólusetningar valdi einhverfu (þetta fer gjarnan saman).

Í stuttu máli, nokkuð stór hópur fólks getur ekki unnið úr einföldustu upplýsingum.

Við ættum kannski ekki að vera að sækjast eftir hjarðónæmi, það væri frekar að sækjast eftir hjarð-geta-unnið-úr-einföldustu-upplýsingum!

Fyrir það fyrsta, nei, ég er ekki læknir og því síður sérmenntaður í sóttvörnum.. en ég er ekki að ná nokkurri glóru í málflutningi þeirra sem tala gegn sóttvörnum. Auðvitað er eðlilegt og sjálfsagt að ræða alla fleti og velta upp öllum (ja, mörgum) hugmyndum. En það er allt í lagi að gera lágmarkskröfur um að það sé einhver smá hugsun á bak við.

Nú virðist komin af stað umræða á þeim nótum annars vegar að það sé óþarfi að fylgja fyrirmælum um sóttvarnir á þeim forsendum að 99% þeirra sem sýkjast nái sér og hins vegar að það séu fyrst og fremst ákveðnir hópar sem eru í hættu.

Fyrir það fyrsta, sú fullyrðing að 99% nái sér, ekki veit ég hvaðan er komið.

Þá er gjarnan verið að rugla saman því að fólk lifi af annars vegar og nái sér hins vegar. Það eru allt of margir sem veikja illa og eru að glíma við afleiðingarnar mánuðum saman.

Hitt er að, 1% er kannski ekki hátt hlutfall svona ef við horfum á tölugildi, en það er helv.. hátt ef þú tilheyrir þessu eina prósenti.

Og.. hvaða máli skiptir þó þeir sem eru í áhættuhópi fari verr út úr veikindunum? Er það þá bara allt í lagi? Kannski ekki ef þú tilheyrir þessum hópi. Þar fyrir utan, þá eru mýmörg dæmi um fólk á besta aldri án undirliggjandi sjúkdóma sem hefur látist eftir að hafa veikst vegna Covid-19.

En það sem sérstaklega truflar enn frekar mig er þessi rökleysa með 1% og að það sé ekki mikið miðað við fjölda smita og veikinda, þetta séu fáir einstaklingar. Aftur, ekki svo fáir ef þú ert ein(n) þeirra. En skoðum enn frekar, segjum að það sé „ásættanlegt“ hlutfall {sem mér finnst sem sagt glórulaust svo því sé haldið til haga] á meðan smitin eru ekki fleiri, en hugsið aðeins!

Ef við slökum á sóttvörnum á þeim forsendum að þetta sé ásættanlegt, út frá fjöld smita í dag… hugsið aðeins! Ef slakað er á sóttvörnum og veiran fer á flug þá vísar 1% bara til nokkuð margar einstaklinga.

Skyldu viðkomandi hafa reiknað út afleiðingar þess að 3.600 manns veikist það illa að þau nái sér ekki? Fólk í heilbrigðisgeiranum. Eiga sjúkrahúsin einhverja möguleika á að sinna öllum þessum sjúklingum? Og þetta eru bara þeir sem ekki ná sér. Hvað með þann fjölga sem eru veikir dögum og vikum saman.

Eruð þið í alvöru búin að reikna hvað þetta kostar?

Eða er þetta bara innantómt hugsunarlaust gjamm út í loftið?

Grunn hugsunin finnst mér óverjandi mannfyrirlitning.

Rökin eru þar fyrir utan óhugnanlega heimskuleg.

Mér heyrist tal um laga- eða réttaróvissu sé orðin einhvers konar þungavigtar klisja í málflutningi þeirra sem vilja með öllu forðast að afgreiða nýja stjórnarskrá.

Það er auðvitað gott og gilt að þetta sé haft í huga í meðförum Alþingis og nauðsynlegar breytingar gerðar ef þurfa þykir.

En þetta er farið að hljóma eins og einhver allsherjar afsökun fyrir að sleppa því að, svo mikið sem, taka málið fyrir. Oftar en ekki á einhverjum dularfullum og óútskýrðum nótum.

Nú er ég ekki lögfræðimenntaður og ekki skal ég útiloka að einhver atriði megi betur fara.

En í hverju er þessi óvissa fólgin.. kannski gengur mér illa að leita, en ég finn afskaplega lítið haldbært um þetta. Þetta er aðallega á „ýmsir telja..“ og „sumir óttast..“ nótunum.

Stangast einhver lög á við nýja stjórnarskrá. Nú þá er ekkert að því að breyta viðkomandi lögum. Nú eða breyta stjórnarskránni ef þetta eru einhver tæknileg smáatriði.

Jú, „dómafordæmi“ eru stundum nefnd til sögunnar. Hvaða dómafordæmi? Það er enginn að tala um að stjórnarskrá eigi, frekar en lög, að vera afturvirk.

Stangast ákvæði hennar á forsendur dóma? Gott og vel, er það ekki einfaldlega verkefni dómstóla að leysa úr þessu í framtíðinni? Ég man ekki til að hafa heyrt um að ekki megi breyta lögum vegna dómafordæma…

Líkurnar á því að ekki náist að klára Íslandsmótin í fótbolta aukast stöðugt.

Nú eru reglurnar að hluta til skýrar um hvernig á að afgreiða mót sem ekki næst að klárast. Það vantar reyndar aðeins upp á hvernig á að greina á milli liða sem eru með jafnmörg stig.

Væntanlega er ekki í boði að breyta þeim héðan af.

Og auðvitað er kostur að hafa þær einfaldar.

En er ekki enn mikilvægara að hafa þær sanngjarnar?

Það er nefnilega þannig að liðin hafa mætt mis sterkum andstæðingum og eiga þannig mis erfiða leiki eftir. Auðvitað er ekkert hægt að fullyrða um hvernig „auðveldu“ leikirnir myndu fara. En er ekki ákveðin sanngirni í því að reikna endanlega stöðu út frá stigum og stigum andstæðinganna? Og það er líka ákveðin sanngirni í að skoða hvaða leikir eru eftir.

Tökum dæmi og höfum það einfalt. Segjum að það séu fáar umferðir eftir, þrjú lið berjast um titilinn, eitt þeirra er með 30 stig en hin tvö með 29 stig. Annað liðanna sem er með 29 stig hefur spilað báða leikina við hin, en liðið með 30 stig á eftir að mæta öðru liðanna sem er með 29 stig.

Fyrir mér hefur liðið sem hefur lokið innbyrðis leikjunum náð besta árangrinum og líkurnar mestar á að það lið myndi að lokum vinna mótið. Þetta lið ætti þess vegna að vera meistari.

Það er hægt að nota einfalda reiknireglu til að afgreiða þetta, en látum það bíða að sinni.

Torfís? (Óræðukeppni)

Posted: september 28, 2020 in Umræða
Efnisorð:,

Nú styttist í kappræður forsetaframbjóðenda vestanhafs.

Í því tilefni var ég að velta fyrir mér hvort það væri grundvöllur fyrir nýrri keppni samhliða Morfís, svona einhvers konar and-Morfís, sem byggði á ræðumennsku Bandaríkjaforseta, Torfís (Tafs- og röflkeppni framhaldsskóla á Íslandi)

Þarna væru gefin stig eitthvað á þessum nótum:

  • 3 stig í plús fyrir hverja setningu þar sem tafsað er og muldrað þannig að ekki sé nokkur leið að skilja hvað viðkomandi er að segja
  • 2 stig í mínus fyrir að klára setningu
  • 3 stig í mínus fyrir setningar sem eru lengri en fimm orð.
  • 4 stig í mínus fyrir að nota orð sem ekki eru í orðaforða fjögurra ára barns, „stórkostlegt“, „æðislegt“ og „rosalegt“ þó undanskilin
  • 10 stig í plús fyrir að uppnefna liðsmenn andstæðinganna, kannski ætti að vísa liði úr keppni sem sleppur þessu alveg
  • 16 stig fyrir að drulla yfir ákveðna þjóðfélagshópa
  • 18 stig í plús til viðbótar ef þetta eru minnihlutahópar
  • 5 stig fyrir að væla
  • önnur 3 stig í bónus ef vælið felur í sér að vorkenna sjálfum sér
  • 20 stig í mínus fyrir að ræða umsamið málefni
  • 12 stig í plús fyrir að saka mótherjana um að svindla
  • 15 stig í viðbót fyrir að saka dómarana um að svindla
  • 24 stig í plús fyrir að kveikja á því í miðri setningu að kjarninn í málflutningi liðsins hingað til gengur ekki upp
  • en 10 til baka í mínus ef það er einhver kjarni sem hægt er að skilja
  • 10 stig í mínus fyrir að fara rétt með heiti einstaklinga og staða
  • 7 stig í plús fyrir að vísa til landa sem eru ekki til
  • 8 stig í mínus fyrir að fara rétt með staðreyndir
  • 13 stig í plús fyrir að fá lán hjá dómurunum og neita að borga
Mér finnst alltaf skelfilega grátlegt og um leið svolítið fyndið þegar þeir sem efast um niðurstöður vísindanna, td. talsmenn hinna og þessa samsæriskenninga, skjóta sig í fótinn með tilvísun í ‘fræðimenn’. Gjarnan með því að bæta „virtur“ við án nokkurrar fótfestu.
Til að mynda, nú síðast, Covid-19 samsæriskenningasmiðar vísa í að svo og svo margir læknar telji að Covid-19 veiran / faraldurinn sé eitt alls herjar plat (‘hoax’). [Flestir á meðan þeir voru að lepja upp einhverja þvælu til stuðnings bandaríkjaforseta, þar til í ljós kom að hann var bara að ljúga]. En þetta er svona svipað og þegar loftslagsafneitarar eru að flagga því að sérfræðingar í loftlagsmálum séu á einhverri tiltekinni „skoðun“.
Mótsögnin er nefnilega nokkuð æpandi. Ef viðkomandi telur það styrkja sitt mál að þeir sem vísað er til séu læknar / loftslagssérfræðingar / verkfræðingar… hvers vegna ekki að taka mark á um það bil eitthvað nálægt tuttugu þúsund sinnum fleiri sérfræðingum?
Og á hinn bóginn, ef punkturinn með efasemdunum og kenningunum er sá að ekkert sé að marka sérfræðinga, hvers vegna þá að taka fram máli sínu til stuðnings að þetta séu læknar / loftslagssérfræðingar / verkfræðingar?
Er þetta ekki svolítið eins og að segja, „allir sköllóttir karlmenn eru lygarar“ og í næstu setningu „ég þekki sköllóttan karlmann sem staðfestir það sem ég segi“ [OK, kannski ekki gott dæmi, en ég er með próf upp á að vísa í sköllótta kalla].
Svo er auðvitað fínt að hafa í huga að við hin tökum ekki gott og gilt að sérfræðingar hafi einhverja tiltekna skoðun, við horfum við þess *hvað* viðkomandi hefur fram að færa, ekki *hver* viðkomandi er. Standast gögnin skoðun? Eru greinar ritrýndar? Eru tilvísanir í heimildir áreiðanlegar?

Vísindin, bara þegar þau henta?

Posted: september 17, 2020 in Umræða

Ég er alltaf jafn undrandi að sjá fólk sem nýtir sér framfarir í vísundum mörg hundruð sinnum á dag allt í einu hafna vísindum þegar niðurstaðan er óþægileg. Mögulega hefði þetta fólk ekki einu sinni „komist á legg“ ef ekki væri fyrir læknavísindin.

En þegar niðurstaðan er óþægileg þá allt í einu er einhver á YouTube bara með góðar og gildar skoðanir og um að gera að taka mark á áróðursgreinum hagsmunaaðilum, sem standast enga skoðun.

Og svo er ákveðin kaldhæðni að öllu þessu er dreift á netinu með notkun tölvutækni og snjallsíma.