Vittrygging

Posted: janúar 19, 2016 in Stjórnmál, Umræða, Verðtrygging
Efnisorð:, ,

Ef ég skildi frambjóðendur annars stjórnarflokksins rétt fyrir kosningar þá var eitt af kosningaloforðunum að afnema verðtrygginguna. Vond hugmynd vegna þess að verðtrygging er ekki raunverulega vandamálið, heldur verðbólga og háir vextir. En svona loforð gengu vel í fólk, amk. fólk sem kann ekki að reikna.

Þetta hefur ekki verið gert.

Þá var talað um að bæta fólki forsendubrest vegna verðtryggðra lána.

Það var gert fyrir suma, ekki alla og fólk sem varð ekki fyrir neinum forsendubrest fékk líka „bætur“.

Þá var lofað að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

Það hefur ekki verið gert. Og það sem verra er, það er búið að lýsa yfir að það verði ekki gert.

Forsætisráðherra talar svo um að verðtryggð króna sé einn stöðugasti gjaldmiðill í heimi. Það er reyndar rétt svo langt sem það nær, enda þekkist í nokkrum löndum að verðtryggður gjaldmiðill hafi einfaldlega sérstakt nafn til að rugla ekki saman við þennan ónýta. Krónan er reyndar jafn ónýtur gjaldmiðill utan lands, en gott og vel, ekki það sem forsætisráðherra var að tala um.

Mér vefst reyndar „hugsun um heila“ þegar ég reyni að skilja hvers vegna forsætisráðherra vill afnema einn stöðugasta gjaldmiðil í heimi. Og enn frekar hvers vegna það þurfti að bæta fólki afleiðingar þessa stöðuga gjaldmiðils – og það handahófskennt.

Og nú er allt í einu farið að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu um þennan stöðuga gjaldmiðil.

Ég velti fyrir mér hvort það væri frekar ráð að setja upp einhvers konar „vittryggingu“ á umræðuna.

En, verð að játa að ég veit ekki hvernig ætti að upphafsstilla.

Lokað er á athugasemdir.