Kannski á ég ekki að vera að eyða tíma í að þrasa um frumvarp um sölu áfengis í matvöruverslunum. Þetta skiptir mig í rauninni ekki svo miklu, til eða frá – er svona meira eitthvað sem mér finnst augljóst og dæmigert fyrir mörk afskipta ríkisins.
Aðalatriðið er að á meðan þetta er lögleg matvara þá kemur hvorki ríkisvaldinu né öðrum við hver vill selja mér vín, hvar og hvenær.. svo framarlega sem lögum og reglum um verslun með matvöru er fylgt. Punktur. En…
Kannski er skondnasta mótsögnin sú að þeir sem vilja hafa óbreytt ástand halda því í einu orðinu fram að áfengisneysla aukist við breytingarnar. En í hinu orðinu vísa þeir til góðrar þjónustu vínbúðanna og fullyrða að framboð, vöruúrval og þjónusta verði mun lakara. (Jú, það er rétt að mikið af hæfu fólki vinnur í vínbúðunum en ef það er eftirspurn eftir þjónustunni þá kemur þetta sama fólk til með að veita hana áfram).
Þá er gjarnan vísað til að vínbúðirnar haldi uppi góðri þjónustu á stöðum þar sem einkaaðilar myndu ekki hafa fyrir því að bjóða upp á áfengi. Með öðrum orðum, þá er ríkissjóður (að þeirra mati) að niðurgreiða þjónustu vegna vínsölu. Sama fólk hefur áhyggjur af því að ríkissjóður muni tapa á breytingunni.
Já, og svo á verð að hækka en neysla að aukast.
Og svo er því haldið fram að ríkissjóður verði af verulegum tekjum þrátt fyrir aukna sölu.
Annar angi af sömu mótsögn er að vísa í einstök dæmi einhvers staðar í útlandinu, „ég bjó einu sinni… og þar var ekkert framboð af víni.. og þar var unglingadrykkjan alveg skelfilega mikil vegna þess að framboðið var svo mikið“.
Margir halda því fram að ríkissjóður muni tapa verulegum fjárhæðum á því að missa vínbúðirnir, en halda því á sama tíma fram að áfengisneysla muni aukast úr hófi. Þetta gengur ekki upp því áfengisskattur skilar stórum fjárhæðum í ríkissjóð.
Þá eru þeir sem halda því fram að fyrirkomulagið sé stórfínt eins og það er, vandamál vegna áfengisneyslu séu allt of mikil og að þau muni aukast ef vín verður selt í matvöruverslunum. En það gengur varla upp að halda því fram að fyrirkomulagið sé bara í góðu lagi eins og er – en halda því fram á sama tíma það sé allt of mikið af vandamálum vegna áfengisneyslu. Ef fólk er samkvæmt sjálfu sér þá ætti það að fara fram á að þjónusta verði skert verulega, jafnvel að algjört bann á áfengi verði sett.. ekki að halda því fram að hlutirnir séu í góðu lagi eins og þeir eru.
„Lýðheilsurökin“ eru svo eitthvað sem hljómar vel og „angar“ af ábyrgð og fyrirhyggju. Þetta væru mögulega góð og gild rök ef sama fólk færi fram á að öll önnur óhollusta væri meðhöndluð á sama hátt og áfengi. Þannig væru ríkisreknar sérverslanir fyrir sykur, unna kjötvöru, kannski allt kjöt, smjör, osta?…og hvað veit ég um hvar á að draga mörkin? En það er ansi holur hljómur í þessum lýðheilsurökum á meðan þeim er bara beint gegn áfengi.
Þá má að lokum benda á þegar því er haldið fram gögn WHO sýni að það sé beint samhengi á milli áfengis í matvöruverslunum, heildarneyslu og skaðsemi. Vissulega er oft að því er virðist, sýnileg fylgni.. en hún er engan veginn einhlít, það má skoða Möltu, Ítalíu, Finnland og Holland svo ég taki nú augljós dæmi af handahófi frá WHO data repository.
Getur verið að það séu aðrir þættir sem hafa áhrif á neyslu? Að minnsta kosti að hluta?
Og getur verið að það spili fleiri þættir inn í skaðsemi en heildarneysla?
Ég ætla ekki að fullyrða neitt til eða frá, en mér þykir óvarlega farið með gögn og tölur þegar það er fullyrt að það sé sannanlega samhengi þarna á milli.