Borgarstjórnarkosningarnar…

Posted: maí 12, 2018 in Umræða

Það er ekkert leyndarmál að ég styð Pírata í kosningunum til borgarstjórnar.

Þar skiptir auðvitað miklu að dóttirin, Alexandar Briem, er í þriðja sæti og á þokkalega góða möguleika á að komast inn. Þá spillir ekki að Dóra Björt er í fyrsta sæti, en Dóru Björt kynntumst við vel þegar hún var kærasta Viktors, sonar okkar. Og, ég hef fulla trú á öðrum sem eru ofarlega á lista og eiga möguleika á að ná kjöri.

Ég reyndar vil líka sjá Skúla Helgason ná kjöri fyrir Samfylkinguna… og geri ráð fyrir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að hann nái kjöri.

En hvað með önnur framboð?

Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki til greina að þessu sinni, þó ég kunni ágætlega við Eyþór. En ég vildi óska að hann einbeitti sér að einhverju öðru en stjórnmálum. Það er talsvert atriði að vera læs á ársreikninga (og þeir sem eru það, mega ekki vísvitandi snúa út úr eða afbaka tölur), það er ekki í lagi að fara með fleipur af vanþekkingu, það er ekki gott að gefa rangar upplýsingar um menntun, það vekur upp spurningar að hafa á stefnu að gera eitthvað sem þegar er afgreitt, það er ekki traustvekjandi að geta ekki annað en tafsað sig fram úr einföldum, ítrekuðum spurningum og það er ekki gott að leggja áherslu á málefni sem ekki eru á verksviði borgarinnar… En aðallega er fullkomlega galið að vera að tengja sig við einhvern guð og að viðkomandi guð hafi valið sig..

Sósíalistaflokkurinn virðist einhver misskilningur eða tímaskekkja, forystumenn flokksins virðast ekki vita hvað hugtakið þýðir, „skapari“ flokksins (þrátt fyrir að vera oft skemmtilegur og koma með góða punkta) er nú ekki beinlínis trúverðugur í þessari sölumennsku. En ætli útslagið geri nú ekki hvað þau eru að boða arfavitlaus stefnumál, þetta minnir um margt á miðflokkinn, flokkurinn virðist verða til í kringum – annars ágætlega skemmtilegan einstakling – með þráhyggju fyrir að koma sjálfum sér á framfæri, vera ekki í neinum tengslum við þá sem þeir ætla að tala fyrir og ganga á ódýrum loforðum og innantómum slagorðum.

Alþýðuhreyfingin er ólíkt trúverðugri sem framboð þeirra sem minna mega sín. En ég er einfaldlega ósammála þeim í aðferðum til að bæta kjör almennings.. og ég óttast að þetta framboð geri lítið annað en að styrkja þá sem þau ætla nú væntanlega síst að styrkja.

Um Vinstri-græn gilda í rauninni svipuð rök, ég er einfaldlega ósammála þeim í mikilvægum atriðum og þó ég væri þeim sammála, þá væri trúverðugleikinn enginn eftir þátttöku flokksins í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.

Ekki veit ég hvaða erindi Miðflokkurinn telur sig eiga í sveitarstjórnir, flokkurinn virðist hafa verið stofnaður í kringum veruleikafirringu eins manns og burtséð frá því, þá er ég þeim einfaldlega ósammála í þeim málum sem þau hafa lagt áherslu á, reyndar ekki hlaupið að því að átta sig á stefnu flokksins í borginni, heimasíðan ákaflega fátækleg og af henni að dæma hafa þau lítið annað fram að færa en gatnamál og einhverja spítalaumræðu.

Það gildir eiginlega svipað um Framsóknarflokkinn, þau hafa reyndar losað sig við daðrið við kynþáttafordóma, eflaust ágætis fólk, en þau hafa ekki gert upp við fortíðina. Það litla sem birtist um stefnu flokksins er annars vegar tengt menntun og samgöngum, gera kennarastarfið eftirsóknarvert og raunhæfar lausnir í samgöngumálum er það sem þau hafa fram að færa. Gott og vel, ekkert hef ég á móti því, en á meðan ekki kemur fram hvernig þau ætla að ná þessum markmiðum þá er þetta einfaldlega fullkomlega verðlaust.

Höfuðborgarlistinn er mögulega grínframboð, en ég er samt ekki viss, en alls kyns stefnumál um atriði sem borgin hefur ekkert um að segja eru í besta falli stór undarleg og hugmyndir og yfirlýsingar sem virðast byggjast á mikilli vanþekkingu… nema auðvitað, að þetta sé grín… en ef svo er, þá er það heldur ekki að takast, – jú, eitthvað hefur verið lagfært síðan kynningin byrjaði, en kannski enn ruglingslegra.

Flokkur fólksins byggir á frekar undarlegum málflutningi, óskilgreindur hrærigrautur, vanþekking og virðast spila á einhverja tilfinningasemi frekar en að hafa eitthvað raunhæft fram að færa. Þarna virðist reyndar ágætis fólk að hluta, en einnig fólk sem látið hefur frá sér vanhugsaðan þvætting og ekki tekið í mál að leiðrétta.

Kallalistinn leit út fyrir að verða skemmtilegt framboð, en þeir hættu við.

Svo er víst eitthvað sem heitir „Karlalistinn“, ég hélt lengi vel að þetta væri sama og Kallalistinn, en ef ég skil rétt þá snýst þetta um baráttu feðra til að umgangast börn sín… sem er svo sem gott mál, en ég er ekki alveg að átta mig á framboðum með nánast eitt sérstakt málefni… málefni sem má vinna innan annarra framboða og á öðrum vettvangi – og á heima á landsvísu en ekki sveitarstjórnarstigi, þeas. þetta þarf að leysa þar.

Þá er eitthvert kvennaframboð sem virðist ekki hafa mikið fram að færa sem ekki væri hægt að vinna fylgi innan annarra framboða, enda frekar óljóst hvernig þau ætla að vinna málum fylgi sem þau ætla að beita sér fyrir – og taka kannski helst atkvæði frá þeim sem helst gætu unnið að þeim málstað… og vinna þannig í rauninni væntanlega gegn því sem þau tala fyrir.

Svo er eitthvað framboð sem kallast Borgin okkar, frekar fá stefnumál, stefnumál sem ætti að vera hægt að vinna að innan annarra framboða og stefnumál sem ég er ekki sammála – og aðalatriðið virðist hreinasta smáatriði.

Ég þarf vonandi ekki að skýra hvers vegna ég hef skömm á framboðum sem gera út á kynþáttafordóma.

Eru fleiri framboð????

Lokað er á athugasemdir.