Ég heyri marga kvarta undan því að það sé erfitt að ákveða hvað skal kjósa í sveitarstjórnarkosningunum. Jafnvel kosningaprófin á hinum og þessum vefsíðum hjálpa lítið, enda skauta þau yfir mikilvæg atriði.
Þannig að hér er lykillinn að því hvernig á að kjósa.
Fyrir það fyrsta ekki sitja heima eða skila auðu.. það er svolítið eins og að standa úti í roki og rigningu og nenna ekki að færa sig í skjól, eða bíða eftir að einhver annar komi og bjargi málunum. Og það sem verra er.. þú gætir vaknað í snjóbyl áður en þú veist af.
Næsta skref.
Ekki kjósa framboð sem ala á hatursumræðu og kynþáttafordómum („rasisma“). Við þurfum ekki þannig samfélag. Þar til viðbótar þá má hafa í huga að greind forystumanna þessara framboða er kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir… ég segi ekki að þau séu heimsk, en hvað á maður að kalla fólk sem gerir kröfu um góða íslensku kunnáttu en er ekki sjálft skrifandi á íslensku.
Þá er það frá.
Ertu að hugsa um að kjósa framboð út frá einhverri menntaskóla-kaldastríðs rómantík? Framboð sem kannski eru búin að steingleyma hvað sú rómantík gekk út á… og þú jafnvel líka? Ef svo er, segðu endilega öllum Facebook vinunum að þú hafir kosið þau, en gerðu eitthvað betra við atkvæðið.
Gott og vel.
Er framboðið hluti af stjórnmálahreyfingu á landsvísu og vill höfða til kjósenda þeirra en afneitar um leið öllum verkum hreyfingarinnar? Er þetta ekki svolítið eins og að standa í hóp sem kastar grjóti og hvetja þau áfram… en svo þegar þau eru spurð um grjótkastið, þá kemur svarið, „ja, ég kastaði nú engu grjóti sjálf(ur)“??
Ekki styrkja svona hegðun, frekar að senda skilaboð að þú kunnir ekki að meta félagsskapinn.
Vita forystumenn framboðsins ekki almennilega um hvað þau eru að tala? Hafa þau ekki haft fyrir að kynna sér stærstu málin, þekkja ekki rök með og á móti og fullyrða eitthvað út í loftið? Ef svo er, þá er nú ekki gæfulegt að viðkomandi setjist í sveitarstjórn.
Sama gildir um frambjóðendur sem tala fyrir málum sem eru ekki á verksviði eða forræði sveitarfélaga. Ekki kjósa fólk sem býður sig fram en veit ekki um hvað það er að tala.
Sko, nú hefur gengið ágætlega að takmarka valkostina.
Er framboðið að keyra á rangfærslum um andstæðingana, ýmist af vanþekkingu eða vísvitandi að haga sér óheiðarlega. Að kjósa framboð eftir svona málflutningi er svolítið eins og að vera dómara í fótboltaleik, sjá augljósa dýfu en dæma samt vítaspyrnu.
Enn fækkar möguleikunum, vonandi.
Er framboðið eins-máls-framboð. Hefur, svo uppspunnið dæmi sé tekið, það eitt á stefnuskrá að embættismenn borgarinnar klæðist hvítu á 17. júní? Ef þú veist ekkert annað um framboðið, hvað þau standa fyrir, hvað þau vilja gera eða hvernig – og hvort sem er, þá eru hvít föt á 17. júní á stefnuskrá margra annarra þá tekur því ekki að setja atkvæðið þangað.
Sko. En nú vandast kannski málið aðeins.
Er málflutningur framboðsins tóm froða? Það er að segja, tala þau mikið í loforðum um hvað þau ætla að gera og kynda undir væntingar um að allt verði i „himnalagi“ ef þau fái atkvæði þitt? Hljómar kannski vel, en ef þau geta ekki sagt þér hvernig þau ætla að koma þessu í verk, þá minnir þetta svolítið á Sólskinsflokkinn sáluga. Ég bauð mig fram fyrir hans hönd 1979. Vil lofuðum betra veðri. Munurinn var kannski sá að við vissum að það var ekkert að marka þetta. Gott og vel, auðvitað er ekki alveg verðlaust að hafa góð fyrirheit og kannski er ekki hægt að sjá allar lausnir til enda, en sem sagt… loforð sem eru alveg út í loftið og algjörlega án hugmynda um hvernig á að uppfylla þau vita ekki á gott.
Kemur þá að leiðinlegasta útilokunar síunni.
Ég er tregur til að mæla gegn því að fólk kjósa öðru vísi en eftir sannfæringu sinni. En á meðan kosningakerfið er eins og það er, þá er ekki raunhæft að fara illa með atkvæði sitt. Svolítið eins og að hjálpa nágrannanum að ýta bíl í gang sem þið vitið báðir/bæði/báðar að er bensínlaus [það er samt varla að ég þori að nota bíla sem dæmi].
Þá eru nú varla margir kostir eftir.
Og nú ætti að vera einfalt að velja eftir málefnum, frambjóðendum og/eða hvernig viðkomandi framboð hafa staðið sig.