Hvers vegna ég forðast „lífrænt ræktað“..

Posted: ágúst 2, 2014 in Umræða
Efnisorð:

Ég kaupi helst ekki vörur sem eru merktar „lífrænt ræktaðar“.

Sennilega er þetta smá sérviska – eða mótþróaskeiðið enn á sextugsaldri.

Einhvern veginn finnst mér þetta vera innihaldslaust markaðsátak til að selja mér vörur á óþarflega háu verði.

Upphaflega hugmyndin byggði á að þekkja upprunann, „þekkja bóndann“ og vita þannig hvaðan varan kom og hvernig hún var meðhöndluð. Þetta er auðvitað löngu horfið með lífrænt rækuðum deildum í stórmörkuðunum. Það er einfaldlega engin tenging þarna lengur.

Einhverjir vilja meina að lífrænt ræktaður matur sé betri og hollari, þarna sé minna af eiturefnum og jafnvel fari þetta betur með náttúruna, þeas. ræktarlandið.

Ég hef ekkert séð um að lífrænt ræktað sé betra á bragðið.. enda smekksatriði.

Þá virðist almennur misskilningur að engin eiturefni eða aukaefni séu notuð við ræktun á lífrænt ræktuðum matvælum. Þetta er ekki rétt, en vissulega eru einhverjar takmarkanir á hvaða efni má nota eða í hvaða mæli… en „lífrænt ræktað“ þýðir ekki það sem hugtakið gefur til kynna, þeas. það er vissulega notað eitur og alls kyns aukaefni. Bara í takmörkuðu magni. Og það sem verra er, stundum einfaldlega gömul og léleg efni í stað nýrri og betri efna – nýjar og og betri aðferðir skila oftast meiri framleiðslu og jafnvel með „skárri“ aukaefnum – sem hvort sem er mælast varla.. „snefilmagn“ er held ég rétta hugtakið.

Gott og vel ég er ekki sérfræðingur í þessu. En ég kalla þá eftir betri upplýsingum og betri rökum.

Hvers vegna er í lagi að nota „bara svolítið“ af úreltu skordýraeitri? Væri þá ekki nær að ganga alla leið og hafa ræktunina 100% lífræna? Það yrði reyndar varla hægt að fæða heimsbyggðina.. en það er væntanlega aukaatriði.

Lokað er á athugasemdir.