Týndur í heimi getgátunnar

Posted: október 30, 2013 in Spjall, Umræða

Ég virðist algerlega týndur í heimi getgátunnar. Sem betur fer kom háttsettur starfsmaður háskóla nokkurs vitinu fyrir mig.

Nú nýlega var nefnilega brotist inn til mín og alls kyn óhróður skrifaður með úðabrúsa á veggina heima, reyndar bæði innanhúss og utanhúss. Ég sá mann á vappi fyrir utan húsið sem ég kannaðist ekki við en var auðþekkjanlegur. Ég hafði brugðið mér afsíðis smá stund en þegar ég kom fram aftur var viðkomandi að ganga út um svaladyrnar sem höfðu greinilega ekki verið nægilega vel læstar. Ég sá hann reyndar ekki með úðabrúsa í höndunum enda sá ég aðeins andlitið.

Fyrir tilviljun bankaði upp á hjá mér einstaklingur sem ég vissi að var vel metinn innan háskólasamfélagins og er prófessor við einn af háskólum landsins. Ég sagði honum farir mínar ekki sléttar og bað hann að doka við á meðan ég hringdi til lögreglunnar og tilkynnti verknaðinn.

Hann stöðvaði mig strax og benti mér á að ég væri að velta mér upp úr tómum getgátum. Það gæti allt eins verið einhver annar hafi komið inn á undan þeim sem ég sá og hefði sá krotað á veggina. Ég muldraði eitthvað um að þetta væru nú ekki líkleg skýringar, ekkert benti til annars en að viðkomandi hefði verið á ferðinni enda engar aðrar mannaferðir hefðu verið nálægt húsinu, húsið væri allt útkrotað og aðrar skýringar því varla mögulegar. Þá hringdi nágranni og sagðist hafa mætt manni sem passaði við sömu lýsingu á leiðinni frá húsinu með úðabrúsa í hendinni. Prófessorinn taldi það litlu breyta, hann hefði allt eins getað verið bara getað verið í gönguferð með úðabrúsann sinn.

Aftur vildi ég nú samt hringja og tilkynna skemmdirnar og benti á að það kæmi þá í ljós við rannsókn ef aðrar og eðlilegar skýringar væru fyrir hendi, enda fengi viðkomandi tækifæri til að skýra mál sitt.

En prófessorinn aftók þetta með öllu. Hann sagði að ég lifði í heimi getgátunnar og ætti ekki að vera að gefa mér eitthvað þegar aðrar skýringar væru alveg mögulegar.

Ég þakkaði honum fyrir, hætti við að hringja og sat eftir með útbíað húsið, alveg laus úr heimi getgátunnar.

PS. nei, það var ekki í alvöru brotist inn til okkar, þetta er dæmisaga.

Lokað er á athugasemdir.