Tólfti karlinn fær verðlaun…

Posted: október 31, 2013 in Umræða

ekki frekar en venjulega hef ég vit á að þegja um óvinsælar skoðanir… ég hleraði einmitt óvart ímyndað samtal í gær

Jæja, er ekki nokkuð ljóst hver fær björgunarverðlaunin okkar fyrir desember? Guðmundur vann ótrúlegt afrek þegar hann bjargaði tveimur fjölskyldum úr bráðri lífshættu í brunanum í byrjun desember.

– Jú, þetta er afrek ársins, jafnvel áratugarins þegar einstaklingur á í hlut. Hann sýndi ótrúlega áræðni og útsjónarsemi og það er alveg klárt að það væru að minnsta kosti níu manns komnir í gröfina ef hans hefði ekki notið við. Aðrir stóðu ráðalausir hjá á meðan hann fann leið til að bjarga þeim öllum.

Já, má ég ekki bóka þetta og láta grafa á viðurkenningarskjöldinn?

… nei, nei, bíðið aðeins róleg. Þetta gengur auðvitað ekki. Þetta væri þá tólfti karlmaðurinn sem fær afreksverðlaunin á þessu ári. Þetta gengur ekki. Við verðum að finna konu.

En það var ekkert annað björgunarafrek til að tala um í desember. Hvaða máli skiptir hvort þetta er karl eða kona? Væri hann betur að þessu kominn ef hann væri ekki með…??

– Við bara verðum að horfa á svona afhendingar með kynjagleraugum og passa okkur á að þetta er auðvitað huglægt mat og að við verðum að gæta jafnréttis.

En hann vann lang stærsta björgunar afrek mánaðarins! Árins, ef ekki áratugarins. Er það ekki það sem þetta snýst um?

– Ég geri mér grein fyrir því. En við þurfum að finna konu.

Hvaða konu? Það er ekkert afrek sem kemst nálægt því sem Guðmundur gerði. Þetta fer í sögubækurnar.

– Hvaða þröngsýni er þetta. Má ekki finna einhverja konu sem hvatti hann áfram eða tók á móti þeim sem hann bjargaði?

Það var engin kona á staðnum. Og þó svo væri, fyndist ykkur sú kona betur komin að verðlaununum? Þetta er ljóta ruglið, á ég ekki bara að spyrja hann hvort hann sé til í kynskiptaaðgerð?

– Nei, nei, það telur ekki, hann var karl þegar hann vann afrekið. Ó, þú varst að grínast.

Heldurðu það?? Hver vilt þú að fái verðlaunin? Hvað viltu gera?

– Við verðum bara að forðast neikvæða umræðu og gagnrýni. Það hlýtur að mega finna konu sem hlúði að fugli í kuldanum..

Til hvers að veita svona viðurkenningar fyrir björgunarafrek ef við ætlum ekki að veita þau fyrir björgunarafrek?

Athugasemdir
 1. Þetta snýst ekki um björgunarafrek (sem eru jú konkret aðgerðir og oft á tíðum beint mælanlegt) heldur „framlag til húmanískrar mannréttindabaráttu“ sem ég sé ekki aðra leið að meta nema huglæga, þótt eflaust séu til einhverjar tölur um afrek fólks á þessu sviði. Ég get hins vegar nefnt fjöldann allan af konum sem hafa unnið þrotlausa og áhrifaríka vinnu í þágu húmanískrar mannréttindabaráttu á síðustu níu árum sem væru vel að þessum viðurkenningum komnar.

  Þegar huglægt mat stjórnar félags, sem er að mestu samsett af körlum, horfir í 8 ár af 9 framhjá öllum þeim konum sem vinna að bættum mannréttindum á Íslandi og annars staðar spyr maður sig hvort að þeir séu raunverulega að reyna nógu mikið eða hvort þeir velji bara áberandi karlmenn í samfélaginu.

  Samlíkingin á bara ekki við.

  Og ef þú hefur rétt fyrir þér að þetta sé bara tölfræðilegt frávik eigum við væntanlega von á holskeflu kvenna sem hljóta þessa viðurkenningu á næstu árum.

  • Eva Hauksdottir skrifar:

   Ég man eftir nokkrum konum sem hafa unnið að mannréttindamálum en engri sem er jafn áberandi og Jón Gnarr (og nei ég er ekki að segja að það eigi að verðlauna fólk fyrir að vera áberandi.) Það væri gaman að vita hvaða konur þú telur að standi Jóni Gnarr jafnfætis að þessu leyti Kári.

  • Björgunarafrek eru engan veginn alltaf mælanleg, langt frá því, samlíkingin á nefnilega fullkomlega við.

   Formaður Siðmenntar er reyndar kona og hefur verið (ef ég man rétt) frá upphafi.

   Það má eflaust finna fullt af fólki af báðum kynjum sem hefði átt skilið að fá þessi verðlaun, Jón Gnarr er sérstaklega vel til þess fallinn núna.

   Mér finnst einfaldlega fráleitt að horfa á svona einangrað fyrirbæri með ör-úrtak og draga einhverjar ályktanir af tölfræðinni.

   Ég vona að Siðmennt haldi áfram að veita þessa viðurkenningu þeim einstaklingi sem þeim finnst helst eiga skilið. Án tillits til kynferðis. En eftir þessa umræðu þá er nánast vonlaust að karlmaður fái hana á næsta ári. Hversu mikið sem hann ætti það skilið.

 2. Fjóla Dísa skrifar:

  Þetta snýst minnst um hvort þessir tveir menn („Guðmundur“) voru vel að verðlaununum komnir. Hvað var í gangi hina ellefu mánuðina? Vann kona aldrei björgunarafrek? Var aldrei (nema einu sinni) hægt að finna konu sem átti viðurkenningu Siðmenntar skilið til jafns á við karlinn sem fékk viðurkenninguna?

  • Eflaust, en þetta er (væntanlega, ég þekki ekki ferlið) metið á hverju ári fyrir sig. Ég held að engum hafi einfaldlega dottið í hug að meta þetta út frá kynferði.

   Í báðum tilfellum finnst mér fráleitt að horfa á svona örsmátt úrtak og draga af því einhverjar ályktanir.

 3. Andrés Valgarðsson skrifar:

  Kári, því miður er það ekki þannig sem tölfræðileg frávik virka.