Misskilningurinn um hallalausan ríkissjóð

Posted: október 3, 2013 in Stjórnmál, Umræða

Auðvitað er hallalaus ríkissjóður gott, ef ekki nauðsynlegt, markmið. En það markmið næst ekki með bókhaldsbrellum og / eða tilfærslum innanlands – hvað þá skammsýni og „að borða útsæðið“.

Það er ágætt að líta á þjóðfélagið sem heimili. Ríkissjóður er einfaldlega tilfærslur og jöfnun á milli einstaklinga innan sama „heimilis“.

Að koma rekstri heimilisins í plús er lykilatriði, svo má sjá til að tilfærslur innanlands séu í jafnvægi. Og nei, ég er ekki að gera lítið úr nauðsyn þess að halda vel á spöðunum þegar því markmiði er náð.

Fyrsta skrefið er sem sagt að sjá til þess að tekjur heimilisins verði meiri en útgjöld. Allt sem hægt er að gera til að auka tekjur skiptir máli, sama gildir um að spara útgjöld. Ekki hvert til annars heldur til og frá „heimilinu“.

Þannig er algert aukaatriði að þvinga fram hallalausan ríkissjóð ef grundvöllurinn er ekki í lagi. Að leggja niður stofnanir í sparnaðarskyni er blekking, því hvað sparast við að fólk fái greitt úr ríkissjóði í gegnum atvinnuleysisbótakerfið? Að lækka framlög til verkefna sem geta aukið tekjur eða sparað útgjöld og hafa starfsfólk á atvinnuleysisbótum er fráleitt. Að skera niður í heilbrigðiskerfinu og spara útgjöld af þeim „reikningi“ breytir engu ef þetta sama fólk fer á atvinnuleysisbætur og fær greitt úr öðrum vasa. Jú, það breytir því að mögulega að við fáum fleiri heilbrigðisvandamál. Að láta fólk sitja aðgerðalaust frekar en að sækja menntun og byggja upp þekkingu sem gæti skilað tekjum er líka fráleitt.

Þannig er að fullkominn misskilningur að bókhaldsleg niðurstaða ríkissjóðs til skamms tíma sé eitthvert markmið í sjálfu sér.

Það er svona eins og að reyna að leiðrétta myndina í baksýnisspeglinu.

Lokað er á athugasemdir.