Ráðstefna í Boston

Posted: október 25, 2013 in Spjall
Efnisorð:,

Við Jón Eyfjörð mættum á ráðstefnu hjá The DataWarehouse Institution í Boston, aðallega fyrirlestrar um vöruhús gagna og viðskiptagreind.

Iðunn og Jóhanna komu með og við náðum nokkrum dögum með okkur í Boston fyrir ráðstefnuna sjálfa. Virkilega gaman að vera með þeim og ég held að Iðunn og Jóhanna séu farnar að skipuleggja næstu ferð.

Ég kann ágætlega við mig í Boston þó ég hafi ekki kynnst borginni mikið á fáum dögum. Það var reyndar gaman að fara „innansveitar“ leið til næsta bæjar á föstudeginum. Mikið af smárekstri út um allt, dekkjaverkstæði, snyrtistofur, bankar, bifreiðaverkstæði, bakarí.. allt frá nítján-hundruð-og-fimmtíu-og-eitthvað. Og önnur hver bygging var kirkja, hver af sinni tegund, ég fékk á tilfinningunni að þarna væru vel yfir hundrað söfnuðir.

Við kíktum sem sagt einn dag til Wrentham þar sem ku vera ódýrt að versla. Ég væri að skrökva ef ég segði að það væri það skemmtilegasta sem ég geri. Kemst ekki einu sinni á topp 100 hjá mér. En við náðum að klára nánast alla jólagjafaverslun – og vel þess virði að fórna einum degi í það.

En við vorum mjög heppin með veitingastaði. Eða réttara sagt, Jón þekkir vel til og valdi vel… og þegar því sleppti þá fylgdum við góðum ráðum frá Góu frænku. Japanski Douzo, franski Deuxeve, ítalski Erbaluce, steikarstaðurinn Grill 23 og Stephanies voru allir í fyrsta klassa. Indverski Kashmir og mexíkóski Cactus Club voru alveg yfir meðallagi en ekkert meira.

Svo var skemmtileg viðbót að hitta Kára (Indriðason), sem spilaði á gítar með okkur Helga fyrir þrjátíu árum… við náðum einu virkilega góðu kvöldi, eftir að Jón og megnið af Landsbankahópnum voru farin heim.

Svo er alltaf smá hughreysting að vera beðinn um skilríki á bar þar sem stendur skýrum stöfum að þeir sem líta út fyrir að vera 30 ára eða yngri verði að sýna skilríki.

Og, já, fyrir minn smekk var gaman að finna Cigar Masters – vindlabúð þar sem fólk (tja, aðallega karlar) situr inni og reykir stóra eðal vindla.

Var eitthvert gagn að ráðstefnunni? Já, já.

Boston-1-litil

Lokað er á athugasemdir.