Archive for the ‘Spjall’ Category

Ferðamenn í barnaafmælum

Posted: apríl 8, 2015 in Spjall
Efnisorð:

Þegar synirnir voru yngri hafði skapast sú hefð, eða vani, að barnaafmæli væru frekar einföld en flestum skólafélögunum var boðið. Yfirleitt einföld veisla (ja, kannski allur gangur á því) og hvert barn gaf svona 500 til 1.000 krónur (ég man ekki upphæðina nákvæmlega).

Eitt skiptið gat einn sonurinn ekki mætt – ekki man ég hvers vegna – en afmælisbarnið spurði hvort hann ætlaði ekki samt að borga.

Það er varla hlustandi á fréttatíma eða umræðuþætti þessa dagana án þess að verið sé í öðru orðinu að tala um hversu mikilvægt sé að sinna ferðamönnum vel og hversu miklum tekjum þeir geti skilað í þjóðarbúið. En á sama tíma er stöðugt verið að spyrja hvort það sé ekki allt of mikið af ferðamönnum. Það er nánast hallærislegt hversu oft og mikið er staglast á þessari sömu spurningu.

Kannski endum við eins og barnið sem ég sagði frá hér að ofan, biðjum ferðamennina að vera heima, en spyrjum hvort þeir ætli ekki samt að borga.

Vínbúðirnar hafa um nokkuð langt skeið birt til þess að gera langar auglýsingar með (að þeim finnst væntanlega) skondnum tilraunum unglinga til að fá að kaupa áfengi án skilríkja. Það eru nokkrar útgáfur í gangi og ég er nokkuð viss um að þær hafa kostað sitt í framleiðslu. Þá er heldur ekki ókeypis að birta sjónvarpsauglýsingar þetta oft.

Ég efast um að þetta sé raunverulega stórt vandamál, þeas. að krakkar komi með fáránlegar afsakanir.. og svarið er (gef ég mér) auðvitað „nei“ og málið er leyst.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þessi auglýsingaherferð stendur ekki undir sér – það er að segja, hún skilar örugglega ekki þeim tekjum eða sparar þann kostnað í rekstri vínbúðanna að hægt sé að réttlæta þetta. Jafnvel þó skilríkjalausir einstaklingar séu margir, þá ætti að vera mun ódýrara og einfaldara að koma afdráttarlausum skilaboðum til væntanlegra kaupenda.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Jú, vegna þess að þetta er dæmi um niðurgreiddan rekstur ríkisins á verslun sem ríkisvaldið þarf ekkert að standa í að sinna. Á endanum koma þessir peningar úr ríkissjóði (eða það fer minna í hann) og við borgum brúsann.

PS. jú, ef bæði framleiðsla og birtingar hafa fengist gefins þá er sjálfsagt að éta þessar fullyrðingar ofan í mig.. eða ef hægt er að sýna fram á betri rekstur í kjölfarið..

Páskar

Posted: apríl 5, 2015 in Spjall, Trú, Umræða
Efnisorð:

Nú kann ég ekki að skýra sögu páskanna svo vel fari og það myndi eflaust kalla á gagnrýni og/eða leiðréttingar.. en þetta er auðvitað ekki sér kristin hátíð, þó auðvitað sé hún mikilvæg hátíð í augum kristinna.

Fyrir flestum kristnum sem ég þekki (með undantekningum þó) þá er kristnin – eins og flest önnur trúaarbrögð – rammi utan um ákveðin siðferðislegan grundvöll. Þeim fylgja svo ákveðnar hefðir og siðir („ritúöl?“) sem fá sína merkingu ýmist við að gera sér dagamun, hitta vini, fjölskyldu og kunningja, njóta tónlistar, hlusta á sögur og breyta út af vananum öðru hverju. Þá eru margar hátíðanna tilefni til að setjast niður rifja upp siðferði og kannski ákveða að reyna að gera betur.

Það er í sjálfu sér ekkert nema gott um þetta að segja, ég þarf svo sem ekki sérstaklega á þessu að halda, en það er mitt val. Og ég kann ómögulega við að þurfa að standa straum af kostnaði við siði annarra, en það er að breytast.

Ég á hins vegar sérstaklega erfitt með að skilja áráttu örfárra kristinna fyrir þessari þráhyggju að halda því fram að sögurnar séu bókstaflegar, að einhver hafi fæðst án þess að eiga líffræðilegan föður og að sá hinn sami hafi dáið og risið einhverjum dögum seinna upp frá dauðum. Það þarf ekki nema lágmarksmenntun til að vita að þetta stenst enga skoðun. Og það sem meira er, flestir kristinna þurfa ekkert á þessu að halda, trúin er þeim alveg jafn mikils virði án svona vitleysu, ef ekki meira.

Þannig að kannski er þjóðráð – og ég meina þetta vel – að sleppa því að gera kröfu á þá sem vilja teljast kristnir að þeir þurfi að játa trú á þessar sögur sem bókstaflegar staðreyndir. Hætta að hamra á sögunum sem raunverulegum atburðum, þetta er eiginlega hálf kjánalegt – og það vill enginn láta tengja sig við fáfræði.

Það er eins og umburðarlyndi gagnvart bæði hegðun og skoðunum falli í tvo ólíka flokka.

Nýlega kom kona í sjónvarpsfréttum og sagðist ekki hafa látið bólusetja barnið sitt vegna (órökstudds) ótta við einhverfu. Konan var (eðlilega) gagnrýnd harðlega, ekki bara fyrir órökstudda skoðun heldur fyrir stórhættulega hegðun.

Í langflestum tilfellum var sú gagnrýni málefnaleg og hófstillt – gekk út á að benda á hversu hættulegt þetta getur verið og hversu lítill fótur er fyrir afstöðu konunnar.. það má eflaust finna dæmi um að einhver hafi notað harkaleg lýsingarorð en það voru undantekningar og skipta litlu.

Samt tók þingmaður Pírata til máls á þingi og gagnrýndi umræðuna.. líkti umræðunni við viðbrögðin við ellefta-september. Hvernig viðkomandi þingmaður gat mögulega tengt ofsafengin viðbrögð ríkisstjórna út um allan heim við örfáar athugasemdir á Facebook og bloggfærslum er mér enn hulin ráðgáta.. en þetta er svona dæmigerð „guilt-by-association“ rökleysa. Nefna eitthvað ógeðfellt í sama orðinu og reyna að búa til einhvers konar tengsl.

Gefum okkur að konan hefði hagað sér jafn hættulega.. en sú hegðun hefði ekki verið byggð á einhvers kuklara speki. Segjum að konan hefði leyft ungum börnum sínum að leika sér með hlaðna skammbyssu (reykja sígarettur, keyra bíl, leika sér að eldi…) og réttlætt hegðun sína í sjónvarpsviðtali – hegðun sem stofnar börnum hennar og börnum annarra í hættu.

Gefum okkur að konan hefði fengið nákvæmlega sömu gagnrýni.

Ég velti fyrir mér hvort einhver þingmaður hefði tekið til máls og gagnrýnt umræðuna með tilvísun í ellefta-september?

Nei, ég þarf ekkkert að velta því fyrir mér.. ég er viss um að það hefði ekki gerst.

Heimtið skaðabætur

Posted: mars 5, 2015 in Spjall, Umræða
Efnisorð:,

En það hefur verið allt of mikill sofandaháttur gagnvart sölumennsku á hvers kyns kukli – enn eru allt of margir sem vilja hafa „opinn huga“ – eða halda að eitthvað af þessu „gæti nú virkað“. Vonandi verður umfjöllun síðustu daga til að fólk taki þessari sölumennsku með gagnrýnum huga.

Ég velti samt fyrir mér…

Sá sem selur gallaða vöru er ábyrgur fyrir því sem hann er að selja.. kaupandi á skilyrðislaust rétt á skaðabótum. Sama gildir til dæms í fasteignaviðskiptum, sá sem selur fasteign með leyndum göllum – jafnvel í góðri trú – getur átt von á kröfu um bætur. Bílar eru skoðaðir fyrir sölu og sama gildir oft um fasteignir.

Nú þekki ég ekki alla lagakróka, sumir sölumenn heilsuvörunnar virðast taka stundum fram að þeir lofi ekki lækningu. En þeir virðast flestir gefa villandi upplýsingar.. í þeim tilgangi einum að pranga einhverju rusli inn á fólk sem ekki hefur næga þekkingu eða er einfaldlega nægilega örvæntingarfull til að reyna hvað sem er:

  • reynslusögur sem ekki eru staðfestar og sanna hvort eð er ekki neitt
  • fullyrðingar um eðli- og eða efnafræði sem stangast jafnvel á við náttúrulögmál
  • fullyrðingar um samsæri gegn stórsnjöllum uppfinningamönnum sem geta læknað hvað sem er

Þetta er svo auðvitað sérstaklega lúalegt þegar verið er að spila á neyð og örvæntingu langveikra og jafnvel dauðvona einstaklinga og hafa þannig af þeim fé og tíma, koma í veg fyrir mögulega lækningu og/eða takmarka lífsgæði enn frekar.

Þannig vil ég skora á þá (eða ættingja þeirra) sem hafa orðið fyrir barðinu á óprúttnum sölumönnum að einfaldlega í mál við þá sem seldu þeim draslið. Heimtið skaðabætur, farið í mál, sækið rétt ykkar.

Ef lögin eru ekki nægilega skýr til að hægt sé að dæma skaðabætur, þá þarf að drífa í að breyta lögunum.

Getur guðfræði verið fræðigrein?

Posted: janúar 4, 2015 in Spjall

Ég velti stundum fyrir mér fyrirbærinu „guðfræði“.

Ég geri ekki lítið úr áhrifum trúarbragðanna á sögu heimsins. En þau fræði tilheyra væntanlega fræðigrein sem kallast „saga“.

Og auðvitað eru ýmsar bókmenntir og rit tengd trú og trúarbrögðum. En þau kalla ekki á sérstaka fræðigrein, „bókmenntir“ ættu að ná auðveldlega yfir þetta.

Aðrir hlutar sem gjarnan eru talin með tilheyra svo frekar „heimspeki“ („siðfræði“) og þurfa þess vegna ekki eigin grein.

Hvað er þá eftir? Einhverjar vangaveltur um yfirnáttúrulegar verur sem gætu hafa skapað heiminn, skipta sér af smáatriðum í daglegu lífi fólks og svara bænum (eða ekki), senda okkur manneskjur sem brjóta öll náttúrulögmál og taka við okkur (eða hafna) eftir dauðann.

Ekkert af þessu stenst lágmarkskröfur um rannsóknir eða fræðilega vinnu. Mögulega gæti jú til þess að gera stutt skoðun leitt til þeirrar niðurstöðu að enginn fótur sé fyrir þessum vangaveltum manna um yfirnáttúrulegar verur. Sem aftur leiðir sjálfkrafa til þess að engin ástæða er til að halda úti sérstakri fræðigrein vegna þessa…

Okurverð á litlum bjór

Posted: ágúst 3, 2014 in Spjall, Umræða
Efnisorð:,

Ég get ekki almennilega skilið verðlagninguna á bjór á börunum hér á landi. Jú, áfengi er almennt óhóflega dýrt hér á landi. Og ég skal viðurkenna að ég hef ekki reynt að reka bar.

Það má vissulega finna bari í stórborgum sem erum með verðið á bjór slagar upp í verðið hér. En almennt er bjór hér tvöfalt (og jafnvel ríflega það) dýrari á bar en erlendis. Áfengisskatturinn skýrir þetta auðvitað að hluta.. en bara að hluta.

En það sem viriklega gengur fram af mér er verðlagningin á litlum bjórum. Bæði er að oft finnst mér fínt að fá bara lítinn bjór og láta þar við sitja. Hitt er að mér finnst í öðrum tilfellum gaman að smakka mismunandi bjóra.

Erlendis er verðið á litlum bjór nokkurn veginn helmingur af verðinu á stórum, jú kannski eitthvað örlítið hærra.

Í gær fór ég á nokkuð skemmtilegan bar þar sem úrvalið var mikið, sérstaklega af krana. Það spillti óneitanlega fyrir að stór bjór kostar þar 1.500 krónur. En gott og vel, mér fannst úrvalið spennandi og ákvað kannski allt í lagi að styrkja staði sem nenna að hafa fyrir því að bjóða upp á fjölbreytt og skemmtilegt úrval. Úrvalið var reyndar það mikið að ég var í vandræðum með að velja og ákvað fá mér tvo litla. Hvað kostaði lítill? Jú, 1.250…

Ég reyndi að skammast út í barþjóninn – þó ég efist nú um að ákveði þetta.Hann svaraði að skýringin væri sú að áfengisskatturinn hér heima væri svo hár. Ég benti honum á að áfengisskatturinn af litlum bjór væri nákvæmlega jafn hár á hvern millilítra í litlum og stórum bjór.

En ég efast nú einhvern veginn samt um að búið verði að lækka verðið á litlum bjór þegar ég kem næst. Ef ég kem aftur.

2014

Posted: janúar 1, 2014 in Spjall
Efnisorð:

Ég hef ekki grun um hvað gerist árið 2014 og hef í sjálfu sér enga þörf fyrir að reyna að spá fyrir um það.

Ég strengi aldrei áramótaheit.. ég einfaldlega reyni að skoða reglulega hvað má gera betur og hvað má betur fara, án tillits til dagatalsins.

Ég þykist þó vita að við förum í skíðaferð til Austurríkis um miðjan janúar til að fagna fimmtugsafmæli Bryndísar með henni. Ekki svo að skilja að ég hafi stigið á skíði í meira en fjörutíu ár, en ég ætla að minnsta kosti að prófa.. og ef ég fell ekki fyrir þessu þá er ég sannfærður um að mér kemur ekki til með að leiðast.

Ég vona líka að við náum að halda í þá venju að kíkja fljótlega í helgarferð með Höskuldi og Sirrý.

Og Sambindið ætti að ná sinni, nú árlegu, helgarferð.

Þá stefnir fótboltahópurinn á að kíkja á leik með vorinu, en góð áform á þeim nótum hafa ekki alltaf gengið eftir. Að minnsta kosti ættum við að hittast á hverju mánudagskvöldi yfir vetrartímann og halda tvær uppskeruhátíðir að venju. Ég er meira að segja strax farinn að hlakka til þeirrar næstu sem verður núna um helgina.

Þá er alltaf einhvert tal um að fara í siglingu, mjög skemmtilegt að fara í þannig frí, bæði ódýrt og mikið sem fæst fyrir peninginn. Nú eða kannski er kominn tími til að kíkja aftur til Benalmadena.. þetta ræðst auðvitað allt af því hvernig fjárhagurinn verður.

Ég er svo nokkuð viss um að Einifells ferðirnar verða nokkrar og stórskemmtilegar. Og GoutonsVoir hópurinn hittist oft og eldar og borðar og drekkur. Vonandi hittist hinn ónefndi matarklúbburinn okkar oftar á nýju ári en því síðasta. Við eigum svo áskriftarmiða í leikhús og fyrsta sýningin er strax næsta sunnudag.

Fiskidagurinn er svo alltaf á dagskrá, með einhverjum fyrirvörum þó…

Við Fræbbblar höfum verið að vinna að nýrri plötu í tvö ár.. nokkur lög hafa komið út en ekki beinlínis fengið góðar viðtökur. En vonandi náum við að klára plötuna og koma út ekki seinna en í vor. Og ég vona líka að okkur takist að halda Punk 2014 hátíðina í Kópavoginum.

Þá geri ég ráð fyrir að halda áfram að mæta reglulega í Karate, vonandi næ ég að mæta enn betur en í fyrra – þetta er skemmtileg hreyfing, jafnvel þó ég sé enn ótrúlega stirður.. á móti kemur að þetta mjakast hægt og bítandi.

Svo er alltaf á dagskrá að mæta á leiki hjá Breiðabliki – og ekki væri verra að liðinu takist að ná Íslandsmeistaratitilinum í ár. Að öðru fótboltaleyti væri gaman að sjá Arsenal vinna titil og Derby County ná að vinna sæti í úrvalsdeildinni.

Þá er ekki síður spennandi tímar tengdir vinnunni…

 

2013

Posted: desember 31, 2013 in Spjall

Er ekki við hæfi að „gera árið upp“ svona þegar það er rétt að hverfa? Kannski ekki, en samt…

Fyrsta hugsun er að þetta hefur verið nokkuð gott ár, að minnsta kosti fyrir okkur hér í fjölskyldunni. Við Iðunn erum enn með góða vinnu (vinnur?), Andrés hefur unnið allt árið, Guðjón nýlega kominn með vinnu og Viktor sinnir nokkrum störfum – og er á leiðinni í framhaldsnám. Guðjón flutti aftur heim í Kaldasel en Viktor flutti út í haust.

Stóra afmæli ársins var hjá okkur Iðunni, við áttum þrjátíu ára brúðkaupsafmæli 6. maí.

En ætli árið verði ekki fyrst og fremst minnistætt fyrir góða tíma með góðu fólki.

Einifellsferðirnar hafa verið nokkrar í frábærum hóp og GoutonsVoir matarklúbburinn hefur hist oft á árinu og átt ógleymanlegar stundir.

Sambindið hittist reglulega, helgarferð í upphafi ársins kannski það sem ber hæst.

Annar ónefndur matarklúbbur hittist reyndar sjaldnar en er ekki síður skemmtilegur.

Fótboltahópurinn „Postularnir“ hittist reglulega yfir vetrartíminn í fótbolta og „uppskeruhátíðir“ hópsins tvisvar á ári eru með skemmtilegustu helgum ársins. Þá hittist hópurinn nokkrum sinnum að spila póker, gjarnan með öðrum gestum.

Og ekki ætla ég að gleyma fjölmörgum fjölskylduhittingum, bæði reglulegum og óreglulegum.

Við Fræbbblar reynum að æfa vikulega, þó það takist reyndar ekki alltaf. Við spiluðum átta sinnum á árinu og gáfum út tvö lög. Í nóvember voru liðin þrjátíu fimm ár frá því að við spiluðum fyrst. Þar fyrir utan hittumst nokkrum sinnum utan æfinga… að elda, éta og drekka.

Við Iðunn mættum nokkrum sinnum í viku í Karate hjá Breiðablik, hefðum kannski mátt ná betri mætingu, en þetta mjakast.

Svo eru alltaf skemmtilegir fastir og lausir viðburðir, sumargrill, frænkuhittingur, jólamót í skák, áramót í bridge, skötuveisla, laufabrauðsgerð, hugþraut („mænd-geims“).

En skemmtileg ferðalög, aðallega út fyrir landssteina, voru óvenju mörg og einstaklega vel heppnuð.

Í upphafi ársins fórum við (næstum því) árlega helgarferð til London með Höskuldi og Sirrý þar sem við kíktum á Arsenal-Stoke og hittum á frábæra veitingastaði, sérstaklega með Katý og Óla.

Næsta ferð var til Amsterdam á úrslitaleikinn í Evrópudeildinni, Benfica-Chelsea. Við fengum fjóra miða og við mættum þrír, ég, Alli og Maggi. Dísa (kona Magga) kom og var með okkur um helgina, en fáránlegt verð á flugi, sló út að Iðunn kæmist líka. Stemmingin í borginni var frábær og eiginlega alltaf gaman að koma þarna.

Við fórum svo í ógleymanlega siglingu í júní frá og til Barcelona með viðkomu í Túnis, Ítalíu, Frakklandi og Monaco. Alli, Magnús & Sylvía voru með, en hugmyndina áttu þau Anna-Lind og Skúli sem voru að ferðast með synina fjóra. Fyrir fáránlega tilviljun hafði Guðjón kynnst undarlegri en moldríkri norskri stúlku sem hafði boðið honum, einmitt, til Barcelona og hélt honum uppi þar. En eitthvað gekk erfiðlega að fá uppfyllt loforð um að hann kæmist heim þegar hann vildi, enda stúlkan hálf bjargarlaus án hans. En það nýttist honum á endanum að við vorum á leiðinni heim.

Iðunn fór svo á ráðstefnu til Marrakech í Marokkó og getur ekki beðið eftir að komast þangað aftur, helst í úlfaldaferð.

Ég fór svo á ráðstefnu til Boston í október með Jóni Eyfjörð. Iðunn og Jóhanna (kona Jóns) ákváðu að koma með og vera með okkur í nokkra daga áður en ráðstefnan byrjaði. Ráðstefnan var fín, en dagarnir áður voru alveg sérstaklega vel heppnaðir, Jón var búinn að kortleggja veitingahús borgarinnar og finna veitingastaði sem toppuðu hver annan.

Ferðirnar innanlands voru færri, aðallega Einifellsferðir og jú, góð ferð í bústað með Brynju og Gauta. Ferð með systkinum, Öggu og Kidda og Magga mági á Fiskidaginn á Dalvík var eins vel heppnuð og fyrri árin..

Að öðru… þá voru stærstu vonbrigði ársins uppgjöf í stjórnarskrármálinu. Úrslit alþingiskosningarnanna voru talsverð vonbrigði en sem betur fer voru nú grófustu kosningaloforðin svikin, eða eru réttara að kalla þetta „kosningahótanir“?

Það var gaman að fylgjast með karlaliði Breiðbliks í fótbolta framan af sumri, sérstaklega var frábær árangur í Evrópudeildinni skemmtilegur… en sumarið varð þó frekar endasleppt. Landsliðið í fótbolta átti svo sitt besta ár og var grátlega nálægt sögulegum árangri. Á Englandi er mitt lið til meira en fjörutíu ára á mikilli siglingu í næst eftstu deild og Arsenal á toppnum í úrvalsdeildinni um áramótin.

Svo kom upp undarlegt tilfelli þar sem ég sá um mína fyrstu hjónavígslu sem athafnastjóri Siðmenntar.

Þá var undarlegt að horfa á kosningasjónvarp heima eftir að hafa unnið við útsendingar fr á 1986, að 1995 slepptu. Báðar stöðvarnar ákváðu að sjá sjálfar um sín mál, sem var svo sem í góðu lagi og auðvitað kominn tími á að hætta þessu… en ég hefði óneitanlega þegið að öðru vísi hefði verið staðið að þessu.

Þá verður ekki sleppt að hugsa til þeirra sem létust á árinu. Ingólfur Júlíusson, gítarleikari, ljósmyndari og eðaldrengur lést fyrri hluta ársins eftir stutta baráttu við illvígan sjúkdóm. Konni, Bliki (ég held að þetta sé besta tengingin), lést einnig á árinu – einn af þessum öðlingum sem ég kynntist þegar ég starfaði fyrir Breiðablik. Þá missti nokkrir vinir fjölskyldumeðlimi… kannski er þetta óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera kominn á miðjan sextugsaldur, jarðarförunum fjölgar á hverju ári.

En fyrir áhugasama eru nánari fréttir hér frá seinni hluta ársins og hér fyrir fyrri hluta ársins.

Ég verð að játa að mér finnst valið á ljótasta orðinu miklu skemmtilegra en valið á því fallegasta, sbr. Facebook síðuna.

Orðið „hrogn“ fékk ekki náð fyrir augum dómnefndar og/eða annarra gesta.

En þetta er klárlega ljótasta orð íslenskrar tungu.

Hvað köllum við það þegar við heyrum ljótt og óskiljanlegt tal, oftast annað tungumál? Jú, „hrognamál“. Hvers vegna? Ekki vegna þess að okkur detti í hug að viðkomandi sé að tala um hrogn fiska. Nei, vegna þess að þetta hljómar álíka illa og ljótast orð íslenskrar tungu, „hrogn“!