Archive for the ‘Spjall’ Category

Skoðanir og skætingur

Posted: september 6, 2013 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

Ég hélt úti bloggi á Eyjunni í nokkurn tíma en gafst upp á að halda úti gagnrýninni umræðu þegar dómstólar gengu ítrekað freklega á málfrelsi. Ég hætti að skrifa á Eyjunni þegar þeir höfnuðu stuðningi við eitt málið.

Ég fór að skrifa smá fréttir hér, hef smám saman færst yfir í að lýsa skoðunum aftur.

Vandamálið við að lýsa óvinsælum skoðunum er að það eru allt of margir sem afgreiða skoðanir með skætingi og því að láta mig fá það óþvegið, persónulega.

Það er ekkert að því að vera ósammála mér, ég fagna málefnalegri umræðu, get vissulega verið þrjóskur, en tek nú rökum. Stundum eru þetta meira að segja vangaveltur sem ég er ekkert allt of viss um sjálfur, en hef áhuga á umræðunni

  • Ef ég bendi á að klámvarnir séu illframkvæmanlegar og heimskulegar þá er ég bandamaður klámhunda, ef ekki útsendari klámbransans.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun, og færi sterk rök fyrir, að verðtrygging sé ekki vandamál, hendur birtingarmynd raunverulegra vandamála, þá fæ ég hrinu yfir mig eins og að ég sé varðhundur einhverra.
  • Ég er sakaður um einelti ef ég tek þátt í því sem mér þykir málefnaleg umræða, bara vegna þess að ég er ekki sammála þeim sem ákveður að lýsa sig fórnarlamb eineltis.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun að trúlausir eigi rétt á að vera í friði fyrir trúboði, þá er ég að ráðast á trúaða, jafnvel takmarka mannréttindi þeirra.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun minni að það sé siðferðilega rangt að dreifa efni í leyfisleysi þá er þarf ég að sitja undir miður fögru umtali.
  • Ef ég vil klára umræður við ESB þá liggur við að ég sé kallaður landráðamaður.
  • Sama gilti um IceSave, ég nenni ekki að rifja upp uppnefnin sem fylgdu þeirri afstöðu.
  • Ef ég gagnrýni heimskuleg ummæli þingmanns þá er ég að taka þátt í herferð gegn henni.

Það er eiginlega ekki þess virði að hafa skoðanir, amk. ekki óvinsælar. Það eru öll önnur ráð en málefnaleg umræða notuð.

Það kemur kannski ekki á óvart að þetta séu viðbrögð eldri kynslóðar stjórnmálamanna. En ég gæti næstum því grenjað yfir því að sjá nákvæmlega sömu aðferðafræði hjá ungu kynslóðinni.

Alvöru nudd á Seltjarnarnesinu

Posted: ágúst 31, 2013 in Spjall

Frekar rólegur dagur, byrjaði í nuddi hjá Öggu Hrönn í Sundlauginni á Seltjarnarnesi.. og það var sko ekkert hálfkák heldur hressilega tekið á því – alvöru nudd, eitt það albesta og hef ég þó farið víða. Kíkti aðeins á frekar leiðinkega seinni hluta leikjanna í ensku deildinni á English Pub, ætlaði að líta við á Hamraborgarhátíðinni, en annað hvort stóð hún stutt, eða var frekar fámenn.

Samsærisæsingurinn

Posted: júlí 6, 2013 in Spjall, Umræða

Mér varð það á að benda á skemmtilega grein á Facebook í gær 8-clues-your-friend-is-becoming-a-crazy-conspiracy-theorist þar sem nefnd eru til sögunnar nokkur atriði sem geta hringt viðvörunarbjöllum um að einhver sé að detta í pytt samsæriskenninga. Ekki svo að skilja að ég sé sammála hverju orði, ég bendi oft á eitthvað sem mér finnst skemmtilegt án þess að líma mig við hvert orð.

Ég fékk ansi langan reiðilestur til baka frá áhugamanni um samsæri. Ekki í frásögur færandi í sjálfu sér. Gífuryrðin eru ekkert nýtt fyrir mér frá þeim sem hafa þörf fyrir að sannfæra mig um tilvist samsæra, það er einhvern veginn eins og þeir haldi að ég kaupi frekar rökstuðning ef honum er drekkt í dónaskap! „samsærishálfviti“, „páfagaukatuð“, „barnalegu“, „andstyggilegan“, „drulla yfir þá sem eru ósammála“, „fullkomin hræsni af þér“, „ömurlega heimskulega“, „skammarlegt“, „ojbara“  eru nokkur dæmi af handahófi.

Svo voru mér gerðar upp fleiri, fleiri skoðanir sem ég hef aldrei haldið fram… og húðskammaður fyrir þær. Ekki í fyrsta skipti sem ég fæ þannig meðferð frá þeim sem vilja sannfæra mig um eitthvert samsærið.

Í greininni er hvergi haldið fram að þau átta atriði sem tilgreind eru eigi við alla samsærissinna, aðeins bent á nokkur möguleg dæmi sem einkenna suma, vísbendingar um að einhver sé hallur undir samsæriskenningar. Stór hluti af reiðilestrinum fór í að býsnast yfir að verið væri að gera lítið úr, og dæma, alla sem trúa á samsæri. Það er hvergi gert í þessum texta. Samt fékk ég til baka „alhæfingar um hvað „allir samsærissinnar segja“. Í gæsalöppum.

Svo fór ansi mikill hluti af textanum í að halda því fram að átt væri við  „heimskingjana úr grunnskólanum“, í gæsalöppum. Viðkomandi texti kemur hvergi fyrir í greininni en talað er um að einhver sem við höfum unnið með eða verið með í skóla, án þess að gera greind viðkomandi á skóla- eða vinnuárum að umtalsefni – og síðan „..trying to pretend that they are some kind of intellectual who is totally going to school you on “how things are in the world.“ – I hate to say this, but it’s true. It’s always the dumb ones)

Hvers vegna er ég að gera þetta að umtalsefni? Er þetta ekki bara smá misskilningur og fljótfærni í „réttlátri“ reiði??

Vegna þess að þetta er ekki í fyrsta eða annað sinn – ekki einu sinni hundraðasta – sem ég verð vitni að því að hugur samsærissinna starfar svona. Gífuryrði, viðmælanda gerðar upp skoðanir og reynist svo byggt á misskilningi. Auðvitað alls ekki alltaf, svo það sé á hreinu, en allt of oft.

Margar, en ekki allar, samsæriskenningar eru nefnilega studdar sömu rökleysunum, virðast byggja á jafn samhengislausri hugsun og styðjast við sama takmarkaða skilninginn á texta sem vísað er til. Þegar talsmenn málsstaðar gera sig ítrekað seka um jafn mikið getuleysi til að vinna úr upplýsingum, rjúka upp til handa og fóta án þess að skoða og hugsa málið… þá smám saman missi ég alla trú á getu viðkomandi til að vinna úr upplýsingum. Fyrir mér verður hann marklaus hávaðaseggur. Því miður.

PS. svo það sé á hreinu.. (1) þetta gildir ekki um alla sem trúa einhverju samsæri (2) ég er ekki að útiloka öll samsæri, stundum hef ég einfaldlega ekki hugmynd um hvað er satt og rétt, en kaupi annski kekki samsæriskenningu vegna þess að rökin eru ekki nægilega sterk..

PPS. ég ætla að loka á athugasemdir, legg ekki í fleiri athugasemdir á þessum nótum

2012

Posted: janúar 2, 2013 in Spjall
Efnisorð:

Er ekki við hæfi að renna yfir síðasta ár? Nei, kannski ekki – en ég ætla nú að gera það samt.

2012 var eiginlega alveg ágætt, mikið af góðum stundum með vinum og til þess að gera lítið af leiðindum og þau utanaðkomandi og óviðráðanleg.

Ferðalög til annarra landa voru þau að við Iðunn fórum í 2ja vikna frí til Benalmadena á Costa del Sol og í helgarferð til London, báðar ferðir í sérstaklega góðum félagsskap. Iðunn skrapp svo til Stokkhólms og ég fór á árlega sýningu í Amsterdam.

Við fórum tvær sérstaklega vel heppnaðar ferðir með Sambindinu og ekki voru ferðirnar á Einifell síðri. Annars þurfti svo sem heldur ekki að fara langt – ótal „hittingar“ við ýmis tækifæri, matarklúbbar, Madridarhópur, Goutons Voir, Postular, skírnarveislur, árshátíðir, vinnustaðaskemmtanir og fjölskylduboð voru einstaklega vel heppnuð 2012. Eitt ógleymanlegt brúðkaup og nokkrar útskriftarveislur settu svip sinn líka á árið.

Og ekki gleyma mörgum stórafmælum – Nonni, Helgi, Siggi, Sóley, Sylvía, Hrund & Skarpi – sem fagnað var með eftirminnilegum hætti. Og já, gullbrúðkaup tengdaforeldranna kallaði líka á glæsilega veislu.

Eitt þarf að taka út, útskrift Viktors Orra úr stjórnmálafræði var einn af hápunktum ársins, ekki bara glæsilegt frammistaða, því svona há einkunn hafði ekki verið gefin í stjórnmálafræði frá stofnun deildarinnnar (þó annar félagi hans hafi gert enn betur) heldur er Viktor greinilega búinn að finna sína hillu, ótal verkefni og mastersnám í framhaldinu.

Af íþróttafréttum, ef svo má kalla, þá var gaman að ná loksins að vinna hina margrómuðu Postuladeild í innanhúsfótbolta og við Iðunn byrjuðum að æfa Karate hjá Breiðabliki í byrjun árs og héldum því, að sjálfsögðu, út árið.

Fræbbblarnir spiluðu á nokkrum skemmtilegum hljómleikum, helst kannski að nefna Rokk í Reykjavík 2.0, GogoYoko Extravagansa og Dillon á Menningarnótt. Og svo kom skemmtileg viðbót við tónlistarferilinn þegar ég söng nokkur lög með Bjössa Thor og félögum á Jazz og blúshátíð Kópavogs í Salnum.

Við Fræbbblar gáfum út jólalagið „Ótrúleg jól 2012“ og kláruðum „Judge a Pope just by the Cover“ til útgáfu 1. janúar 2013. Þá fjölgaði vel í hljómsveitinni þegar tveir upphaflegir meðlimir (ja, nánast) gengu aftur til liðs við hljómsveitina.

Og tengt Fræbbblunum, þá var gaman að taka þátt í Popppunkti einu sinni enn, og ekki spillti fyrir að ná sigri í þessari lotu.

Af neikvæðu hliðinni er helst að nefna alvarleg veikindi á tveimur vígstöðvum í vinahópnum, vonandi verður framhald á góðum fréttum á nýju ári.

Og ósvífin framkoma réttarkerfisins við elsta soninn er nokkuð sem ekki verður fyrirgefið.

Svo beitti ég mér fyrir að ekki yrði ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá, en hafði varla erindi sem erfiði í ruglingslegri atkvæðagreiðslu. En það minnir þó á nauðsyn þess að spyrna við sífellt aukinni markaðssókn ríkiskirkjunnar, nokkuð sem virðist ætla að verða langtíma verkefni.

Stallman í Silfrinu

Posted: nóvember 12, 2012 in Spjall, Umræða

Ég var að horfa á viðtal við Richard Stallman í Silfri-Egils. Nú þykist ég vita hver maðurinn er og hafi lesið eitthvað eftir hann – en það má svo sem vera að mig sé að misminna hver sagði hvað.

En ég varð óneitanlega fyrir miklu vonbrigðum með Stallman. Hugmyndir hans og fleiri hafa haft sín áhrif, og í mörgum tilfellum til góðs.

En fyrir það fyrsta ruglaði hann saman opnum og frjálsum hugbúnaði, sem þarf ekki að vera sami hluturinn.

Þá talaði hann ítrekað eins og það að ef ég hefði ekki aðgang að virkni hugbúnaðar þá stjórnaði hann mér en ég ekki honum. Klisjukennt tal og ekki boðlegt. Ég hef aldrei upplifað það að þau verkfæri sem ég nota stjórni mér að neinu leyti þó ég borgi fyrir að nota þau.

Annað er kannski nokkur skonar sjálfhverfa, hann hefur áhuga og skoðanir á því hvernig hugbúnaður á að virka – og getur breytt honum að eigin þörfum. Það er einfaldlega fullt af fólki sem er mjög sátt við að fá hugbúnað „úr hillunni“ og nákvæmlega engan áhuga á að setja sig inn í forritun eða hvernig hann virkar.

Þá má ekki gleyma því að þó opinn hugbúnaður sé að mörgu leyti skemmtileg aðferð – og hentar mörgum verkefnum – þá er þetta engan veginn algilt. Kannski kemur þessu hugsun úr stofnana og háskólasamfélaginu þar sem einhver annar borgar launin. En það að skrifa hugbúnað og fá ekkert fyrir sinn snúð verður auðvitað til þess að það er betra að gera eitthvað annað. Enda er ég nokkuð viss um að heimurinn væri talsvert fátækari af hugbúnaði ef aðeins væri notast við frjálsan og/eða opinn hugbúnað.

Þá fór hann að tala um að það mætti ekki afrita listaverk, svona hálfri mínútu eftir að hann var að skammast yfir að fólk mætti ekki dreifa tónlist að eigin vild.

Nú er ég á því að það vanti betri reglur og lög um höfundarrétt, en það er engin lausn að krefjast þess að allt sé frítt til dreifingar.

Að „pönkast“ í einhverjum…

Posted: september 19, 2012 in Spjall
Efnisorð:,

Ég er alltaf jafn áttavilltur þegar ég heyri fólk tala um að „pönkast“ í einhverjum. Fyrir mér væri þetta spila skemmtilega rokktónlist fyrir viðkomand. Sem er auðvitað mjög jákvætt.

En einhverra hluta vegna virðist þetta vera farið að hafa merkinguna að ónáða einhvern stöðugt og gera honum lífið leitt.

Kannski er þetta komið frá einhverjum sem hefur misheyrt að „bögga“ einhvern.

Hjá Friðriki fimmta

Posted: ágúst 22, 2012 in Spjall
Efnisorð:, ,

Þá bættist veitingastaður Friðriks V á Laugavegi við uppáhaldsveitingastaðalistann okkar – sem er nú ekki mjög langur. Humarhúsið, Við Tjörnina, Dill og Forrétttabarinn eru þar fyrir.

En bæði eru réttirnir einstaklega fjölbreyttir og spennandi, þjónusta til fyrirmyndar og umhverfið smellpassar.

En það sem er heillandi við staði eins og Friðrik V er að það er ekki einn stór og þungur aðalréttur heldur margir spennandi smáréttir. Og það að kynna hvern rétt í smáatriðum, hvernig hann er samsettur, hvaðan hráefnið kemur og hvaða vín er með gefur kvöldinu alveg sérstaka stemmingu. Það er ekki verið að flýta sér að „fóðra“ gestina heldur fær hver réttur sinn sess og fulla athygli. Auðvitað voru réttirnir mismikið fyrir minn smekk – eins og gengur – fyrr mætti nú vera – en það er enginn að klikka, allir voru spennandi og sumir voru beinlínis frábærir.

Jú, það er rétt að taka fram að ég þekki Friðrik nákvæmlega ekki neitt – þeas. fyrir utan ágætisspjall úti á götu eftir matinn – hann hafði reyndar reynst syninum vel fyrir nokkrum árum.

Öfgamaður

Posted: júlí 16, 2012 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

Hugtakið „öfgar“ virðist vera í frjálsu gengisfalli þessa dagana. Eins og einelti. Hugtökin eru notuð af minnsta tilefni og dreift hugsunarlaust til að drepa umræðu á dreif og forðast málefnalega rökræðu og að svara efnislega.

„Öfga“ stimpillinn er þægileg leið til að gera lítið úr skoðunum annarra þegar engin mótrök eða upplýsingar virðast vera fyrir hendi. Og „öfgar“ er einmitt gjarnan notað um skoðanir annarra til að réttlæta órökstuddar skoðanir þegar fátt er um rökstuðning.

En hvað eru öfgar? Geta vel rökstuddar skoðanir verið „öfgar“? Eru óvenjulegar skoðanir „öfgar“? Eru skoðanir sem ganga gegn skoðunum fjöldans alltaf „öfgar“?

Ég hef svo sem ekki talið mig öfgamann hingað til. Langt frá því. En þetta eilífa öfgatal er að verða til þess að ég hef verið að hugsa málið.

Ef það eru öfgar að fylgja sannfæringu sinni og rökstuddum skoðunum hvað sem öðrum finnst… tja, þá er ég líkast til mjög öfgafullur.

Eins og allir þeir sem hafa komið einhverjum framförum til leiðar.

Og ef það er „öfgaleysi“ er að sitja þegjandi undir ranglæti vegna þess að það er ekki vinsælt, þá er ég öfgamaður.

Og stoltur af.

Að blogga eða blogga ekki

Posted: júlí 10, 2012 in Spjall, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég ákvað fyrr í sumar að hætta að blogga í kjölfar fráleitrar afgreiðslu Hæstaréttar á meiðyrðamáli sonarins og sinnuleysi fjölmiðla, annarra en DV.

Hæstiréttur hefur nú verið beðinn um nánari skýringar og í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu eru nú góðar líkur á farsælli lausn. Þetta verður tíma- og kostnðarfrekt en ég hef fulla trú á að þetta endi vel. Undarlegir dómar íslenskra dómara eru sem sagt ekki endanlegur dómur.

Ég velti því samt enn fyrir mér hvort það geti verið þess virði að standa í því stríði sem sonurinn hefur gengið í gegnum. Það eitt að vita af þöggunartilburðum íslenska réttarkerfisins er kannski næg fæling.

Ég setti þetta blogg hér af stað eftir að ég hætti að blogga á Eyjunni, aðallega hugsað fyrir fréttir af okkur og fjölskyldunni og einhverjar, til þess að gera, ómerkilegar skoðanir og hugmyndir.

En kannski afdráttarlaus dómur Mannréttindadómstólsins verði til að íslenskir dómstólar hugsa sinn gang.

Og kannski er þess virði að taka aftur upp þráðinn.

Brúðkaup í gær

Posted: júlí 8, 2012 in Spjall

Við vorum heldur betur í skemmtilegu brúðkaupi í gær, hjá Katý og Óla.

Það kom svo sem ekkert á óvart að allar veitingar voru frábærar og skemmtiatriðin ekki síðri. Þau hljóta að hafa verið í fullri vinnu við að skipuleggja dagskrána, hvert smáatriði úthugsað. Og svo er alltaf gaman að hitta fjölskyldurnar og vini.

En það sem situr kannski mest eftir er hvað þeim fannst þetta gaman og hvað þau nutu hvers augnabliks, allt frá athöfninni í kirkjunni, með afslöppuðum og skemmtilegum presti, til síðasta dans um nóttina.

Aftur til hamingju og takk fyrir okkur!