Archive for the ‘Spjall’ Category

Hátíðarkveðjur úr Kaldaseli

Posted: desember 23, 2016 in Fjölskylda, Spjall, Umræða
Efnisorð:,

Það er víst altalað að árið 2016 fari í sögubækurnar sem ömurlegt ár.. og vissulega er margt til í því.

En við getum ekki kvartað mikið hér í Kaldaselinu, árið hefur eiginlega verið nokkuð jákvætt og ég get ekki sagt að við höfum yfir miklu að kvarta.

Við Iðunn höfum náð ansi mörgum góðum kvöldum (og dögum) með góðum vinum, ættingjum, kunningjum og ókunnugu fólki. Mér taldist lauslega til að 92 daga hafi eitthvað sérstakt verið í gangi hjá okkur. Og svo áttum við ótal kvöld í góðu tómi saman í rólegheitunum.

Ferðirnar út fyrir landsteinana voru nokkuð vel heppnaðar. Við fórum til London í byrjun mars, hittum Viktor, fórum á bjórhátíð, sáum Stiff Little Fingers á hljómleikum og hittum á nokkuð góða veitingastaði.

london-mars-chinatown

Iðunn fór í fimmtugsafmælisferð með Sérsveitinni til Amsterdam í apríl – ég kíkti til Kaupmannahafnar og heimsótti Barða sömu helgi.

Stóra ferðin 2016 var svo til Frakklands á EM, að mestu með Viktori og Alla – og í rauninni hátt í tuttugu manns sem við tengdumst lauslega – og enn fleiri sem við hittum af tilviljun.

euro-2016

 

idunn-neglurÉg fór til Amsterdam í september á IBC sýninguna og Iðunn til Parísar í vinkvenna heimsókn til Sóleyjar.

Svo kíktum við til Manchester í lok nóvember með Alla og Matta í svona nokkurs konar jólaferð.

manchester-jolamarkadur-2

Einifellshelgarnar urðu þrjár, alltaf jafn vel heppnaðar, gamli potturinn rifinn eina helgina, sá nýi vígður seinna og lax reyktur í þeirri síðustu. Petanque, matseld, bjór, vín og eðal kræsingar einkenna þessar helgar.

Sambindið fór saman í helgarferð í febrúar og hittist nokkrum sinnum þar fyrir utan.

Postularnir (fótboltahópurinn minn) héldu upp á veturinn í boði Arnars (og Unnar) í helgarferð við Reykholt.

Goutons Voir matar-félagsskapurinn hittist þar fyrir utan og ónefndi matarklúbburinn sem tengist Rúv (Rúv-Tops) náði að hittast óvenju oft.

Auðvitað hittust fjölskyldurnar reglulega og kannski var eftirminnilegast þetta árið að hitta ættingja frá Kanada, og það í tvígang.

Og ekki má gleyma reglulegum póker / bjór kvöldum í Kaldaselinu.

Okkur leiðist sem sagt ekkert að elda og borða góðan mat, drekka eðal vín og góðan bjór.. en kannski aðallega hitta skemmtilegt fólk.

Iðunn hélt upp á afmælið sitt hér heima í Kaldaseli, best heppnaða partý ársins og þó lengra sé leitað. Í framhaldinu var dæmt á Iðunni að fara í fallhlífarstökk og í bústað með Brynju og Óskari.

fallhlif-238

Við Fræbbblar spiluðum ekki mikið, en fyrir utan nokkur einkasamkvæmi er sennilega eftirminnilegast að mæta á Bifröst í byrjun ársins, halda nokkurs konar útgáfuhljómleika á Rosenberg, spila á Rokkhátíð Ölstofu Hafnarfjarðar og taka þátt í fullveldispönkhátíð á Hard Rock Cafe í byrjun desember.

Ég er enn hjá Staka, sem færði sig yfir til Deloitte í haust, þessu fylgja talsverðar breytingar og spennandi tímar framundan.

arshatid

Iðunn er enn hjá BUGL, en hefur misst mikið úr vegna myglusveppa á vinnustaðnum.

Andrés vinnur í þjónustuveri Símans og hefur verið virkur í starfi Pírata og var kosinn formaður félagsins í Reykjavík í haust.

Guðjón sinnti tónlistinni framan af ári og spilaði meðal annars á Secret Solstice. Seinni hluta ársins tók hann við rekstri spilastaðar og náði fljótlega að snúa rekstri staðarins við.

Viktor sinnti námi og rannsóknum fyrri hluta ársins, en kom heim í sumar, tók þátt í prófkjöri Pírata og kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar. Hann náði ekki kjöri, þó ekki munaði miklu, en var svo kallaður inn á þing fyrir jól – því miður við erfiðar aðstæður – en situr nú á þingi næstu vikurnar.

Annars eru ítarlegri frásagnir auðvitað í dagbók

Mig langar að beina þessari færslu til tónlistarmanna og annarra sem eiga hagsmuna að gæta vegna höfundarréttar.

Ég efast um að margir hafi þrasað eins mikið við Pírata um höfundarréttarmál og ég hef verið að gera síðustu árin.

Samt ætla ég að kjósa Pírata í komandi kosningum.

Að miklu leyti vegna þess að það hefur orðið talsverð hugarfarsbreyting hjá þeim flestum, ef ekki öllum sem eru nálægt því að komast inn. Ný stefna í höfundarréttarmálum er langt frá því að vera gallalaus en hún er mikil framför frá fyrri yfirlýsingum.

En aðallega vegna þess að það er hægt að ræða málin og þau taka upplýsingum og þau taka rökum.

Þá má ekki gleyma að þau standa fyrir mjög mikilvæg málefni, þar sem stjórnarskráin er efst á blaði. Næsta þing á hvort sem er ekki eftir að skipta sköpum í höfundarréttarmálum, en það gæti skipt sköpum í mörgum lykilatriðum.

Nú veit ég ekkert hvort ykkur (sem ég nefndi í upphafi) hugnast yfirleitt að kjósa Pírata í næstu kosningum. En að minnsta kosti ef þetta er eina atriðið sem stóð í veginum, þá er það ekki lengur tilefni til að neita að kjósa Pírata. [nei, ekki heldur hallærislegt nafn, eða sagan á bak við það]

Það eru (næstum því) allir að bjóða upp á einhvers konar kosningaáttavita fyrir komandi kosningar. Þeir geta svo sem verið skemmtilegir en það er alltaf þess sem stillir upp að ákveða spurningarnar og svo geta svör og vægi þeirra ekki alltaf gefið nákvæma mynd.

Þannig að ég ætla að láta miklu einfaldari og öruggari – enda mín flokkun miklu betri en hinna!

Fyrir það fyrsta, ertu fordómafull(ur), kannt illa að vinna úr upplýsingum, raisisti, er auðvelt að spila með þig með hræðsluáróðri, hrædd(ur) [að ástæðulausu] við fólk af öðrum uppruna, tekur ekki sönsum þegar þér er bent á rökleysur, telur þig þjóðrækna/rækinn (þó þú getir ekki skrifað heila setningu óbrenglaða á íslensku) og hafnar öllum upplýsingum sem falla ekki að fyrirfram gefinni skoðun?

Ef svarið er „já“

  • þá er einhver flokkur sem reynir að kenna sig við þjóðfylkingu sem þú ættir kannski að kjósa.. og já, eiginlega endilega kasta atkvæðinu þínu á glæ þar, frekar en að styðja einhvern hálfvolgan stuðningsmanna útlendingafodóma.

En svarið er væntanlega „nei“ (amk. ef þú ert að lesa færslu frá mér).

Þá er næsta spurning hvort þú sért ánægð(ur) með núverandi ríkisstjórnarflokka, finnst kjörið að lækka gjöld fyrir notkun auðlinda, sjálfsagt að svíkja kýrskýr kosningaloforð, finnst fín mótþróaröskun þeirra varðandi nýja stjórnarskrá í stað bráðabirgða plaggsins frá 1944, telur gott mál að ríkissjóður styrki fólk vegna „forsendubrests“ lána sem ekki hefur orðið fyrir neinum forsendubresti en skilji þá sem raunverulega urðu fyrir forsendubresti úti á köldum klaka, finnst sjálfsagt að þingmenn skerði kjör öryrkja og aldraðra á meðan þeir þiggja sjálfir hærri laun, finnst ekkert að því að einn milljarður sé talinn „ekki-svo-mikill“ peningur þegar verið að er að lækka gjöld á þá sem nýta sameiginlegar auðlindir en hefur ekki hugmynd um hvert á að sækja fé í heilbrigðiskerfið, ert sátt(ur) við síhækkandi greiðslur til ríkisrekinnar kirkju og daðrar við útlendingahatur og kynþáttaforóma?

Ef svarið er „já“, þá er þetta væntanlega spurning um annan ríkisstjórnarflokkanna.

Ef þér finnst ekkert að því að stjórnmálamenn séu ítrekað staðnir að hreinum og klárum ósannindum, hafi lítið fram að færa annað en að velta sér upp úr vænisýki og standi í stöðugu stríði við alla fjölmiðla (aðra en þá sem þeir eiga), séu ítrekað staðnir að fáfræði og umfram allt duglausir þegar kemur að því að koma einhverju í verk

Ef svarið er „já“

þá er um að gera að kjósa Framsóknarflokkinn – en ekki telja þér trú um að þú sért að kjósa „hina“ frambjóðendur flokksins (sem vissulega eru margir hverjir ágætir) því þeir njóta allir atkvæða á landsvísu.

Ef svarið er „nei“, þá áttu sennilega ekki aðra valkosti en Sjálfstæðisflokkinn.

En ef svarið er „nei“ (við stuðningi við núverandi ríkisstjórnarflokka), þá vandast málið eitthvað.

Ef þú þekkir einhvern, eða ert sjálf(ur) í framboði fyrir einhvern smáflokkanna sem lítur ekki út fyrir að sé nálægt því að ná kjöri, nú eða telur það framboð standa nákvæmlega fyrir þín gildi,  þá er bara að kjósa þann flokk. Ég get ekki sagt nákvæmlega til um stóran mun á þeim, svona almennt séð virðist þetta ágætis fólk og vel meinandi en með mismunandi raunhæfar hugmyndir og áherslur. En þeir eiga það sameiginlegt að eiga ekki alvöru möguleika á að ná manni á þing. Það er ósanngjarnt, ömurlegt og ólýðræðislegt. En það er staðreynd. Ef þú vilt gefa út stuðningsyfirlýsingu við eitthvert þessara framboð, þá verður að hafa það.. en þú ert um leið búin(n) að fyrirgera rétti til að kvarta og kveina yfir vondum stjórnvöldum næsta kjörtímabil.

En ef ekki, þá eru enn nokkrir kostir í stöðunni.

Ef þú ert gamaldags (já, ég nota þetta vísvitandi í neikvæðri merkingu) vinstri kona/maður höll/hallur undir verulega ríkisforsjá, finnst ekkert að því að velta upp hugmyndum um netlögreglu, gerir sjálfkrafa ráð fyrir að flest fyrirtæki séu rekin af ljótu-köllunum og trúir hverju sem er gagnrýnislaust þegar að þeim kemur, treystir frambjóðendum VG betur en sjálfum/sjálfri þér til að ákveða hvað þú mátt kaupa hvar og hvenær – og/eða ef þú ert ákafur umhverfisverndarsinni, nema auðvitað það þurfi að koma peningum heim í kjördæmi… ja, þá eru Vinstri grænir nokkuð augljós kostur.

Ef þú hefur alltaf kosið Sjálfstæðisflokkinn en ert búin(n) að missa allt traust til þeirra, þolir ekki forpokaða Evrópustefnu og fékkst nóg þegar flokkurinn sveik kosningaloforðin eftir síðustu kosningar, tja, þá liggur Viðreisn nokkuð vel við „x-i“. Reyndar gæti viðreisn hentað mörgum, hafa til að mynda gefið upp að þeir vilji fullan aðskilnað ríkis og kirkju.

Ef þér finnst mikilvægt að staðfesta nýja stjórnarskrá, bæði vegna þess að það er táknræn aðgerð um vilja til að breyta og koma í veg fyrir mistök.. og ekki síður vegna þess að sú gamla er stagbætt bráðabirgðaplagg frá 1944 sem stenst ekki innbyrðis skoðun og er illa götótt þegar kemur að mörgum lykilatriðum, finnst skipta töluverðu máli að stjórnarskráin sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu taki gildi, ef þér finnst mikilvægt að fá nýja nálgun í stjórnmál, ef það er ekki sjálfsagt að ríkissjóður reki trúfélag, ef þér finnst mikilvægt að þingmenn taki gagnrýni þannig að hún sé til að læra af, ef heilbrigðismálin skipta einhverju, ef aðgangur að sameiginlegum auðlindum er einhvers virði, hugmyndir um aukið beint lýðræði hljóma vel og talsvert bætt stefna í höfundarréttarmálum truflar ekki of mikið.. ja, þá held ég að Píratar séu augljós valkostur, þau eru það að minnsta kosti fyrir mig.

Nú, ef ekki, þá eru einn eða tveir valkostir eftir, því sennilega er ekki rétt að telja Bjarta framtíð með smáflokkunum. Ég kann hins vegar í alvöru ekki nægilega góða skýringu á því hvar munurinn liggur milli, kannski myndu frambjóðendur Samfylkingarinnar ekki bulla svona þegar kemur að stóriðju og hafa eitthvað meiri þekkingu á sögunni.

Ekki svo að skilja að það megi ekki taka tillit til þess að flest framboðin eru með einhvers konar blöndu af annars vegar öflugu og heiðarlegu fólki sem bæði vill gera vel og getur gert vel og hins vegar fólki sem kann ekki að vinna úr upplýsingum, er fordómafullt og lítur á stjórnmálin sem stanslaus átök og baráttu. Hlutföllin virðast óneitanlega mismunandi milli framboða, en ræður varla úrslitum, nema mögulega í einu tilfelli.

Frídagar, endurskoða??

Posted: ágúst 2, 2016 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

Næsta átta og hálfan mánuðinn er einn almennur frídagur.

Annar í jólum, 26. desember, er eini frídagurinn þar til svokallaður Skírdagur dettur inn 13. apríl 2017.

Er ekki löngu kominn tími til að endurskoða þetta frídaga kerfi?

Það er auðvelt að stilla frídögum ársins upp þannig að þeir verði að jafnaði jafn margir á hverju ári og þeir eru með núverandi kerfi. En í stað þess að sum árin sé nánast enginn frídagur og önnur endalausir frídagar, þá má jafna þetta á frekar einfaldan hátt.

Ég setti fram hugmynd í grein á Eyjunni fyrir nokkru, sem er vert að rifja upp.

  • síðasti virki dagur hvers árs verður frídagur – heill, ekki hálfur
  • síðasti virki dagur fyrir 25. desember, oftast 24. desember – líka heill frídagur
  • fyrstu tveir virkir dagar eftir 24. desember
  • fyrsti virki dagur hvers árs
  • síðasti föstudagur fyrir 16. júní (vegna 17. júní)
  • fyrsti mánudagur í maí (í stað 1. maí)
  • fyrsti mánudagur í ágúst (óbreyttur frídagur verslunarmanna)
  • fyrsti mánudagur í júní (nýr frídagur, td. sjómanna)
  • löng páskahelgi óbreytt, en mætti gjarnan festa við fyrstu helgi í apríl
  • uppstigningardagur dettur út
  • annar í hvítasunnu dettur út
  • sumardagurinn fyrsti dettur út

Punk eða ekki punk

Posted: júlí 31, 2016 in Spjall, Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Ég kíkti nýlega á upphitun fyrir punk hátíð.

Eins og svo oft áður þegar ég kíki á hljómsveitir sem kenna sig við punk þá fannst mér eiginlega ekkert rosalega gaman.

Jú, mikill kraftur, ekki vantaði hraðann, rosalega vel æft og spilamennskan var þétt og fumlaus. En… mér fannst bara samt ekkert gaman. Og mér finnst þetta eiginlega rauður þráður í því að mæta og hlusta á punk hljómsveitir. Nei, kannski ekki, það er fullt af skemmtilegum undantekningum – en allt of oft.

Ég hlustaði á tónlist sjöunda áratugarins þegar ég var krakki, aðallega voru það eldri systkini mín sem „fóðruðu“ mig á tónlist. Síðan kom ákveðinn öldudalur, að mér fannst, með svokölluðu „prog-rokki“ annars vegar – sem fyrir mér var uppfullt af tilgangslausum flækjum, sýndarmennsku og uppskrúfuðum tilraunum – og svo diskóinu hins vegar – sem var aftur dauðhreinsað, óspennandi, máttlaust og innihaldslaust.

Punkið heillaði mig, en eiginlega bara tónlistin og viðhorfið til hennar, alls ekki fatatískan og engan veginn ruglingsleg skilaboðin um breytt samfélag. Gott og vel, best að alhæfa ekki, það var langt frá því að öll tónlistin væri góð, stundum voru fötin skemmtileg og auðvitað kom fyrir að eitthvað væri til í skilaboðunum. En miklu oftar var það eiginlega fyrir utan mitt áhugasvið.

Tónlistin var hins vegar einhvers konar afturhvarf til sjöunda áratugarins, ekki endilega að allt hljómaði eins, heldur viðhorfið, tónlist átti að vera einföld, kraftmikil og skemmtileg, flutt af áhuga og ástríðu, en þurfti engan veginn að vera fullkomin í flutningi – kannski betra, en innan ákveðinna marka var það aukaatriði.

Í samanburði við það sem var alls ráðandi á þessum tíma þá kom punkið til sögunnar sem ofsalega „árásargjarnt“, því það var bæði hrátt og hratt og engan veginn dauðhreinsað af mistökum. Það var einfaldlega vegna þess að ráðandi tónlist var komin svo langt út í einhverja undarlegan jaðar að í samanburðinum virkaði þetta sem einkenni. Í framhaldinu urðu þessi einkenni svo einhverra hluta vegna aðaltriðið.. í stað þess að við fengjum meira að skemmtilegri tónlist þá fóru hljómsveitir sem vildu kenna sig við punk að ganga sífelld lengra í að vera harðari og hraðari – en steingleymdu upphaflegri nálgun – eða voru kannski aldrei að skilja.

Ég nefni sem dæmi, af handahófi, Ramones, Clash, Stranglers, Sex Pistols, Jam og Stiff Little Fingers. Ekkert af því sem ég heyri í dag og er kennt við punk, á nokkuð skylt við tónlist þessara hljómsveita.

Best að taka vonda líkingu…

Það má kannski líkja þessu við að mæta í húsnæði sem er illa þrifið og koldrullugt. Einhver nefnir að það megi nú kannski sópa, mæta með sápu og skúra og þrífa – sem er gert. Í framhaldinu er svo farið út fyrir öll mörk í sápu og húsnæðið er óhæft vegna þess að þar flýtur allt í sápu! [kannski ekki svo vond líking!]

Nú hef ég nýlega (einhverra hluta vegna) verið að velta fyrir mér aflandsfélögum, (sennilega) í kjölfar frétta af nokkurs konar hjarðhegðun fólks sem finnst víst erfitt að eiga peninga, amk. hér á landi.

Ég er auðvitað enginn hagfræðingur, en hver er það svo sem? En ég velti gjarnan fyrir mér hvernig hlutirnir líta út frá einu heimili eða litlu þorpi.

Ein saga hentar ágætlega til að heimfæra á lítið þorp. Einn þorpsbúinn sótti arf frá föður sínum, nokkuð miklar eignir sem voru til komnar eftir áratuga vinnu föðursins við að byggja upp fyrirtæki í þorpinu. Þorpsbúar höfðu tekið fyrirtækinu vel, enda lagði fyrirtækið áherslu á góða vöru og fyrsta flokks þjónustu og fyrirtækið blómstraði. Þorpsbúinn sótti sem sagt arfinn og ákvað að geyma peningana sína í öðru þorpi og leyfa þorpsbúum þar að njóta þeirra. Maki þorpsbúans virðist hafa verið (það sem kallað var) „eilífðarstúdent“ á þessum tíma og ekkert hafa haft til málanna að leggja.

En þetta er bara eitt lítið dæmi, þetta var orðin einhvers konar hjarðhegðun þeirra sem áttu peninga og önnur verðmæti sem höfðu verið sköpuð í þorpinu, í mörgum tilfellum með því að nýta sameiginlegar auðlindir þorpsbúa.

Þessir peningar voru flutt í önnur þorp og íbúum þeirra leyft að njóta, eigendunum virist finnast erfitt að eiga peninga í þorpinu. „Hvers vegna er það erfitt?“ – var spurt, en engin svör.

Í mörgum tilfellum voru miklir fjármunir geymdir í þorpum sem veittu svokölluð skattaskjól, en eigendurnir fullyrtu að þeir væru ekkert að leita eftir skattaskjóli og hefðu greitt sína skatta af eignunum. „Hvers vegna eruð þið þá að flytja peningana í skattaskjól ef þið eruð ekki að nýta ykkur að þetta er skattaskjól?“ – var spurt, en engin nothæf svör. Einhverjir gáfu þær skýringar að það gætu verið aðrar ástæður og aftur var spurt „Já, já, gott og vel, hverjar?“ – en engin svör.

Svo voru þeir sem fullyrtu að þorpið væri langbest, gjaldmiðillinn þeirra væri sterkastur, þar væri mestur uppgangur væri þar og bestu tækifærin. „Já, hvers vegna geymið þið þá ekki peningana ykkar hér og ávaxtið með sterkum gjaldmiðli og í hagkerfi í miklum uppgangi?“ – var spurt, en engin svör.

Margir sögðu að einhver bankamaðurinn hefði ráðlagt þeim að geyma peningana annars staðar. „Já, já, og hver rök voru fyrir ráðleggingu bankamannanna?“ – var spurt, en engin svör. „Voru þetta bara ráðleggingar út í bláinn sem þið fóruð hugsunarlaust eftir?“ – var spurt, en engin svör.

Bankamaðurinn reið reyndar á sama tíma um önnur héruð og þorp og lofaði íbúum þeirra gulli, grænum skógum og óhóflegum vöxtum ef þeir kæmu með peninga og leggðu inn í banka þorpsins. „Hvers vegna eruð þið þá að ráðleggja íbúum þorpsins að geyma og ávaxta peningana sína annars staðar?“ – var spurt, en engin svör.

Svo hrundi banki þorpsins og allir þorpsbúar þurftu að taka skellinn. Eftir það hófst uppbygging og allir þorpsbúar þurftu að leggja sitt að mörkum.

Hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir að bankinn færi á hausinn ef hjarðfólkið hefði geymt peningana sína og ávaxtað í þorpinu? Við vitum það auðvitað ekki, vegna þess að við vitum ekki hversu miklir peningar þetta voru.. en kannski er ekki ólíklegt að það hefði að minnsta kosti mildað áfallið verulega.

Hefðu peningarnir nýst vel við að byggja upp eftir hrun? Já, ég ætla að leyfa mér að fullyrða það.

Gott og vel, ég veit fullvel að það er nokkurn veginn hundrað prósent löglegt að geyma peninga í öðrum þorpum.

Siðlaust? Ég ætla ekki að alhæfa en mér finnst það að minnsta kosti orka tvímælist þegar um er að ræða eignir sem verða til í þorpinu.

Og.. ef einhver býður sig fram til hreppstjóra eða annarra forystustarfa í þorpinu á þeim forsendum að hann hafi tröllatrú á efnahagslífi og gjaldmiðli þorpsins, þá vil ég vita fyrir víst að hann hafi sýnt það í verki og sé ekki háður efnahag annarra þorpa.. og gildir einu hvort sú tenging er skráð á annan eða báða aðila í hjónabandi þar sem eignir eru sameiginlegar.

Og ég vil líka vita þegar einhver býður sig fram til þess að semja við önnur þorp og íbúa þeirra hvort viðkomandi á einhverra hagsmuna að gæta í öðrum þorpum. Það má vel vera að viðkomandi ætli sér ekki að láta þá hagsmuni hafa áhrif. Það gæti vel verið að ég treysti viðkomandi eftir að hafa fengið þessar upplýsingar. En á ég vil fá að vita og ég vil fá að meta.

Mér finnst nefnilega bæði siðlaust og óheiðarlegt að bjóða sig fram til starfa án þess að gera grein fyrir þessu og sé bara eina mögulega skýringu á því að halda þessu leyndu.

Þannig finnst mér að um leið og viðkomandi er gripinn í bólinu og í ljós kemur að hann hafi leynt upplýsingum fyrir kosningar, þá er kosning hans til starfa orðin marklaus í mínum huga.

Ég hef lengi verið talsmaður beins lýðræðis og þess að nýta möguleika tækninnar til að yfirvinna þær takmarkanir sem fyrr á öldum kölluðu á fulltrúa lýðræði.

En ég hef aðeins verið að fá bakþanka.. Reynslan hefur ekkert verið sérstaklega góð, fólk virðist kjósa út frá eigin veski (sem þarf ekki alltaf að vera slæmt) en aðallega út frá fáfræði og vanþekkingu.. þeas. án þess að kynna sér rök með og á móti. Sama gildir auðvitað um marga þingmenn í kerfi fulltrúa lýðræðisins. Og það sem verra er.. sumir þingmanna virðast kjósa gegn betri vitund vegna þess að flokkslínan segir svo.

En hvað er þá til ráða?

Hvaða aðferðir eru heppilegastar til að taka farsælar ákvarðanir?

Og hverjar þeirra eru viðráðanlegar í tíma, vinnuframlagi og kostnaði?

Er alvitlaus hugmynd að þeir sem vilja kynna sér hvert og eitt mál, þekki vel rökin með og á móti, fái einir að greiða atkvæði? Það má deila um hvort það nægi að þekkja aðalatriði málsins eða hvort það á að gera kröfu um að þekkja rökin til hlítar. Best væri sennilega að vægi atkvæða ráðist af þekkingu.

Þannig sé krafa að til að hafa áhrif á ákvörðun þurfi viðkomandi að hafa kynnt sér málið.

Þá mætti hafa áhrif á vægi atkvæða að geta sýnt fram á hæfileika til að hugsa rökrétt.

Svona fyrirkomulag þarf alls ekki að vera dýrara í framkvæmd en núverandi kerfi.

Og það á alls ekki að vera auðveldar að svindla eða misnota svona kerfi en mögulegt er í núverandi fyrirkomulagi.

Kallar þetta á mikla vinna hjá öllum? Nei, varla, svona fyrirkomulag kallar á eðlilegan áhuga og til lengri tíma, verkaskiptingu eftir áhuga og þekkingu.

Hvað með algengustu rökin gegn beinu lýðræði? Sem ganga út á að samþykkja hömlulaust útgjöld og/eða brjóta á mannréttindum.

Fyrir það fyrsta þá ætti krafan um þekkingu að koma í veg fyrir svoleiðis vitleysu.

En þar fyrir utan væri kjörið að hafa nothæfa stjórnarskrá.. Þar væri ákveðinn rammi sem kæmi í veg fyrir að hægt sé að samþykkja lög sem brjóta mannréttindi. Þar mætti líka vera krafa um að samþykkt útgjalda verði að fylgja hvernig tekjur koma á móti.

Er þetta ekki bara frábær hugmynd??

Hrægammar velkomnir…

Posted: apríl 14, 2015 in Spjall, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég get ekki gert að því að rifja upp…

Fyrir hrun fóru íslensku bankarnir fóru eins og stormsveipur út í hinn stóra heim og lofuðu gulli og grænum skógum (lesist „himinháum vöxtum“) þeim sem vildu fjárfesta og leggja inn á reikninga hjá þeim.

Ég ætla ekki að alhæfa, eflaust voru mismunandi forsendur, mismunandi vel staðið að kynningu og eflaust stóðu margir starfsmanna bankanna í góðri trú.. mögulega hefði meira að segja farið betur ef bara hefði verið farið örlítið hægar í sakirnar á köflum.. þeas. mér finnst óþarfi að fullyrða að öll viðskipti hafi verið glannaskapur.

Allir voru boðnir velkomnir, ekki litið niður á þessa væntanlegu viðskiptavini, hvað þá að talað væri um að berja á þeim. Aldrei heyrði ég talað um hrægamma á þessum tíma og fylgdist ég nú þokkalega vel með.

Og ég veit vel að þetta var tiltölulega fámennur hópur hér á landi sem stóð að þessum viðskiptum.. en þetta voru íslensk fyrirtæki rekin eftir íslenskum lögum.

En núna eftir hrun er sjálfsagt að úthúða þessum fjárfestum, kalla þá hrægamma og tala um að „berja á þeim“, réttur þeirra enginn… peningarnir eru farnir (eða búið að koma þeim í skjól), við getum ekki borgað og þetta eru bara „ljótir kallar“ sem sjálfsagt er að éti það sem úti frýs.

Ekki misskilja, ég hef enga sérstaka samúð með þeim sem hafa atvinnu af að fjárfesta og höfðu ekki fyrir að kanna betur í hverju þeir voru að fjárfesta.

En það truflar mig samt verulega að við komum fram eins og siðlausir tuddar. Við erum svolítið eins og einstaklingur sem fær lán, eyðir í snatri í alls kyns vitleysu og óþarfa.. neitar svo að borga og hótar öllu illu þegar reynt er að rukka.

Má bæta Facebook notkun?

Posted: apríl 13, 2015 in Spjall

Ég held að (því miður) séu ekki miklar líkur til að Tsú eða Google+ leysi Facebook af hólmi.

Það virðast fáir detta inn á Tsú – og ég fór sjálfur strax í baklás, eftir að hafa skráð mig og fengið nokkrum mínútum seinna tölvupóst þar sem átti að fara að selja mér eitthvað.

Google+ hefur sína kosti, en aftur virðist flokkun efnis langt á eftir Facebook.

Ég er svo sem enginn sérstakur Facebook aðdáandi, reyni að eyða ekki of miklum tíma í að þvælast þar og takmarka talsvert hvað ég nota.

Það er margt jákvætt við Facebook, til dæmis

  • er gaman að sjá öðru hverju fréttir af vinum, kunningjum, gömlum skólafélögum og ekki-nánustu fjölskyldu
  • hefur skilaboðakerfið reynst ágætlega í hópsamræðum
  • er vel þegið að fá að vita af viðburðum sem annars gætu farið fram hjá mér

En ég held að Facebook væri enn betra ef..

  • fólk hætti að skipta um mynd (profile picture) í fréttaskyni, það er miklu einfaldara að setja inn nýja stöðu
  • fólk sleppti frekar tilgangslausum athugasemdum eins og að bjóða góðan daginn eða annað álíka
  • fólki hætti að benda á YouTube myndskeið með einhverjum skoðunum – ef þær eru áhugaverðar, komið þeim frá ykkur í texta, YouTube myndskeiðin eru (að fenginni reynslu) oftar en ekki:
    • tímasóun, það er verið að segja hluti í löngu máli sem tæki örstutta stund að lesa
    • blekkingaleikur, það eru alls kyns tæknibrellur notaðar til að gera texta sennilegan sem getur ekki staðið einn og sér
    • drepleiðinleg með útúrdúrum og löngum „hugleiðingar“ myndskeiðum
  • þessi þú-verður-rosalega-hissa myndskeið hverfa, fyrir það fyrsta, þá hefur reynslan kennt mér að ég verð sjaldnast rosalega hissa, og ef þetta er áhugavert þá er miklu einfaldara að segja það beint út sem skiptir máli
  • myndskreyttir textar verði sjaldgæfari, texti verður ekkert betri eða verri við að vera settur upp með bakgrunni og áberandi leturgerð (kannski, jú, stundum verri)
  • fólk hætti að skipa mér fyrir, það fer amk. talsvert í taugarnar á mér þegar fólk setur inn einhverja hugleiðingu og bætir svo við „ræðið!“ eins og kennari að tala niður til nemenda.. það er í boði að ræða allar stöðu uppfærslur og óþarfi að vera með svona frekjutakta
  • auglýsingar fyrirtækja og tilheyrandi leikir detti út, ég hef akkúrat engan áhuga á að sjá þetta, þar sem hægt er ná í vinning ef fólki lætur sér líka vel við eitthvert fyrirtækið
  • fréttir af forsíðum helstu netmiðla hverfi, þetta er algjör óþarfi, þeir sem hafa á annað borð áhuga sjá þetta strax
  • fólk næði aðeins að hemja sig í stað þess að drita inn athugasemdum um allt og ekkert, ég hef tekið af „fylgi“ af fólki sem var svo duglegt að setja inn athugasemdir að ég sá orðið ekkert annað, það einokaði nánast Facebook yfirlitið mitt
  • þeir sem ætla ekki að mæta á viðburði hætti að segjast ætla að mæta, eflaust vill viðkomandi vera jákvæður, en þetta einfaldlega ruglar þá sem eru að skipuleggja
  • það væri hægt að loka á allar leikjabeiðnir

Nýtt trúarbragð

Posted: apríl 12, 2015 in Spjall, Trúarbrögð
Efnisorð:,

Ég er að velta fyrir mér að stofna nýja trúarhreyfingu.

Kenningin er að eftir dauðann þá upplifir hver einstaklingur allt sitt líf til hins óendanlega. Með öfugum formerkjum. Þeir sem koma vel fram við náungann fá sömu framkomu um alla eilífð – hlýju, ást, kærleika og allt það besta sem þeir hafa sýnt öðrum. En að sama skapi fá þeir sem koma illa fram við aðra að upplifa það á sjálfum sér óendanlega oft. Sá sem beitir ofbeldi og gengur í skrokk á öðrum upplifir stöðugt að það er verið að ganga í skrokk á honum, sá sem drepur upplifir að vera drepinn endalaust.

Nú eru engar sérstakar sannanir fyrir því að þetta verði svona. En það sama gildir auðvitað um öll (önnur) trúarbrögð.

Og ef við getum sannfært fólk um þetta þá er þetta öruggasta, einfaldasta og besta leiðin til að fá fólk til að tileinka sér betri hegðun – þeas. þeim sem ekki nægir heilbrigð skynsemi. Þetta er miklu betra en núverandi trúarbrögð því það eru enginn hvattur til að ráðast gegn öðrum og drepa „villutrúarmenn“.