Ég setti nýlega inn færslu þar sem ég spurði Pírata um hvernig þeir vildu nálgast höfundarréttarmál. Það spruttu talsverðar umræður af þessu… fóru að hluta til út um víðan völl en ég held að ég sé einhverju nær.. kannski meira sammála þeim en ég átti von á fyrirfram – og veit að minnsta kosti meira um hvar ég er þeim ósammála. Aðallega sakna ég þó að fá ekki skýrari tillögur.. margar eru vel meintar en til þess að gera óljósar. Jú, og málið er vissulega flókið og umræðan er af hinu góða.
En mig dreymdi í framhaldi langrar umræðu.. Baldur bakari að spjalla við talsmann Pírata, Pétur. Ég veit að þetta á ekki nákvæmlega við um höfundarrétt, en…
Baldur: Ertu sem sagt að segja að það sé í góðu lagi að fólk steli brauði af mér? Tekur maður númer hér?
Pírati: Já, já, þú verður að gera þér grein fyrir að það er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta. Þú þarft bara að fylgja straumnum leyfa fólki að taka þetta án þess að borga fyrir. Þannig græða allir.
Baldur: Ég gef stundum brauð og sýnishorn til að kynna bakaríið, en það þýðir ekki að allir megi taka brauð frá mér í leyfisleysi. Ég hlýt að mega ráða hvenær ég gef brauðið sem ég baka.
Pétur: Já, en það er bara vonlaust að fylgjast með þessu.
Baldur: Ertu að segja að þetta sé í lagi bara af því að það er erfitt að koma í veg fyrir þetta?
Pétur: Mér finnst allt í lagi að fólk taki brauð frá þér ef það er ekki í fjárhagsskyni?
Baldur: Er það ekki í fjárhagsskyni að taka brauð og sleppa því að borga??
Pétur: Sjáðu til, ef einhver stelur brauði frá þér þá eru hann að efna til viðskipta með brauðið þitt og…
Baldur: Ég er ekki viss um að ég kalli það viðskipti ef ég fæ ekkert fyrir. Ég er eiginlega viss um að ég kalla það ekki viðskipti.
Pétur: og þú verður svo vinsæll og brauðið þitt svo eftirsótt að þú græðir á endanum.
Baldur: Bíddu, myndi ég ekki græða meira ef fólk sem vill borða brauðið mitt myndi einfaldlega borga fyrir það? Er allt þetta fólk á undan mér?
Pétur: Nei, nei, oftast er þetta fólk sem myndi hvort sem er ekki kaupa brauð af þér. Þú myndir örugglega henda þessu hvort sem er.
Baldur: Ef fólk vill ekki borga fyrir þetta, hvers vegna er það að taka?
Pétur: Og svo eru nú mörg dæmi um stórfyrirtæki sem ráða til sín bakara á lúsarlaunum og stórgræða.
Baldur: Hvernig réttlætir það að stela af mér? Ég er enn að ekki að skilja hvernig ég á að lifa af þessu.
Pétur: Jú, jú, sjáðu til öll tölfræði segir að eftir að fólk fór að ná sér í ókeypis brauð þá hafi sala á brauði aukist.
Baldur: Já, en ekki hjá mér… bara ódýru brauðin í stórmörkuðunum og þeir sem baka lítil og einföld brauð úr lélegu hráefni. Neysla á brauði hefur aukist með breyttum neysluháttum. Veit nokkur hvað þetta er löng bið?
Pétur: Nei, nei, þú misskilur, það er búið að sýna fram á að þeir sem stela brauði þeir koma líka við hjá þér.
Baldur: Ég veit að þeir líta við, þeir kaupa bara ekki neitt… þeir skoða bara hvað ég er að baka.
Pétur: Það má alveg gera ráð fyrir að þeir kaupi.
Baldur: Hvernig færðu það út? Svo eru menn sem stela frá mér í stórum stíl og gefa öðrum.
Pétur: Já, já, þetta er allt gert fyrir þig svo þú verðir vinsæll.
Baldur: Mig langar ekkert sérstaklega til að verða vinsæll, ég vil bara geta lifað af því að baka góð brauð.
Pétur: Já, en heimurinn er bara ekki svona í dag.. nú fá allir frítt brauð sem vilja. Þú verður frægur og getur til dæmis farið að kenna fólki að baka brauð og grætt milljónir þannig.
Baldur: Mig langar ekkert að kenna. Ég er hræðilegur kennari og það er það leiðinlegasta sem ég geri. Ég vil baka brauð.
Pétur: Já, en sjáðu bara bakarann í Perufirði, hann er orðinn moldríkur af að kenna fólki að baka.
Baldur: Já, þetta hentar sumum, aðallega þeim sem kunna að auglýsa sig. Frændi minn var með bakarí í litlu þorpi og þegar enginn vildi kaupa brauðið fór hann að kenna. Það gekk ágætlega í byrjun. En svo vildi fólk fara að fá kennsluna ókeypis líka. Hann er á atvinnuleysisbótum í dag.
Pétur: Hvaða vitleysa, líttu bara á tölurnar, það selst miklu meira af brauði en áður.
Baldur: Já, en ekki mínu. Bara fjöldaframleiddu brauði úr lélegu hráefni.
Pétur: Þú verður bara að nýta þér breytt umhverfi.
Baldur: Ætli það sé ekki einfaldara að skrá sig atvinnulausan. Ég kom einmitt hingað til þess. Já ég er númer níutíu og átta.
Pétur: Þetta er nú óþarfa svartsýni.. þú verður að skilja að einkaréttur og jafnvel eignaréttur eru bara úrelt fyrirbæri. Hey, bíddu, skilaðu tölvunni MINNI!