Posts Tagged ‘Kosningar’

Ég hef lengi talað fyrir persónukjöri í kosningum. Hefði það verið í boði síðustu helgi hefði ég til dæmis getað stutt Skúla Helgason inn á þing án þess að eiga á hættu að atkvæðið nýttist Ólínu Þorvarðardóttur – að ég tali nú ekki um ýktari dæmi en það.

Það skiptir mig talsverðu máli að fá fólk inn á þing sem ég get treyst til að vinna úr málum og taka málefnalega afstöðu til þeirra þegar þar að kemur. Fólk sem hleypur ekki undir pilsfaldinn hjá formanninum þegar reynir, leggst ekki í flokksgrafir (flokkslínur + skotgrafir). Það er ekki ljóst fyrir kosningar hvaða mál koma til afgreiðslu á komandi þingi þannig að það að kjósa flokka eftir stefnumálum er til þess að gera gagnslítið. Jú, línur eru kannski lagðar með almennum hætti, en ganga kannski ekki svo mikið eftir þegar á reynir, sérstaklega ekki í samsteypustjórnum.

Eini maðurinn sem ég þekki sem kaus Framsókn – já, ég játa að ég þekki einn – hafði nákvæmlega enga trú á stefnumálum flokksins eða að flokkurinn gæti staðið við stóru orðin. En kaus samt, ef ég skil rétt, vegna þeirra einstaklinga sem voru í forystu fyrir flokkinn. Þannig fær flokkurinn samt þau skilaboð að viðkomandi kjósandi styðji stefnu hans.

Þá eru stefnuskrár flokkanna þannig að vonlaust er að finna flokk sem er að öllu leyti sammála mér – eða ég sammála flokki. Það eru miklu meiri líkur til að finna einstaklinga sem hafa svipaðar skoðanir, því innan flokkanna safnast jú saman fólk með ólíkar skoðanir.

Þannig er persónukjör miklu nærtækara – og talsvert einfaldari og hreinlegri leið kjósendur að hafa áhrif.

Hitt er, að auðvitað eru málefni líka mikilvæg. En aftur þá eru stefnuskrár flestra flokka undarleg karfa af ágætis málum, þokkalega góðum en óljósum vilja og svo satt best að segja, tómri þvælu.

Þetta er auðvitað ekkert flókið. Það má samhliða kosningum með persónukjöri greiða atkvæði um nokkur mál – förum nánar út í það síðar hverjir og hvernig á að velja þau mál.

Kjósa sem sagt bæði um menn og málefni án þess að styðja flokka.

 

Ég verð eiginlega að fara í framboð eins og allir hinir.. og er  að hugsa um að hafa þetta einfalt.

Happdrættisflokkurinn held ég að sé málið.

Skoðanakannanir sýna að yfir 95% landsmanna vilja gjarnan vinna stóra vinninginn í happdrætti.

Þetta verður væntanlega eina stefnumálið, allir vinna stóra vinninginn, hvort sem er í happdrætti, lottó, getraunum..

Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér þessum allt að fimmtán framboðum sem stefna á framboð í næstu Alþlingiskosningum.

Það er rétt að taka strax fram að ég hef ekki útilokað að kjósa neinn flokk (ja, mjög fáa) og ekki enn almennilega sáttur við neinn – en það skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Ég er hins vegar mjög ósáttur við 5% ákvæði í kosningalögum, þeas. sem útilokar jöfnunarmenn til framboða sem ekki hafa náð þessu hlutfalli atkvæða. Hugmyndin er, að mér skilst, að fækka þingflokkum og auðvelda þannig til að mynda stjórnarmyndanir. Fyrir það fyrsta hefur sýnt sig að margir þingmenn skipta um flokk eftir kosningar og verða nánast eins til tveggja manna þingflokkar. Hitt er að fyrir mér skiptir miklu meira máli að Alþingi endurspegli vilja kjósenda en að létta þingmönnum störfin við stjórnarmyndun eftir kosningar. Það er meira að segja alls ekki endilega svo slæmt að leita þurfi samþykkis fulltrúa sem flestra sjónarmiða.

Hitt er verra, að það má segja að ákvæðið sé púki sem þrífst á sjálfu sér. Það fælir kjósendur frá því að kjósa lista ef litlar líkur eru á að hann nái manni á þing. Sem aftur verður til að hann fær enn færri atkvæði.

Ef ég skil rétt þá er allur þessu fjöldi framboði til kominn vegna þess að aðstandendur þeirra eru ekki fullkomlega sammála um alla hluti.

Sem er að vissu leyti fráleit ástæða fyrir að rjúka til að fara af stað með nýtt framboð. Ég er nokkuð viss um að stærri / eldri flokkarnir gætu jafnvel klofnað í tugi framboði ef sama viðmiðun væri notuð þar á bæjum fyrir því að stofna nýtt framboð.

Auðvitað geta verið góðar ástæður fyrir því að leiðir skilji. Einstaka flokkar hafa sett málefni á oddinn sem anga af sýndarmennsku og innantómum loforðum, jafnvel æpandi fákunnáttu og fáfræði. Og ekki má gleyma að sumir einstaklingar virðast nánast óalandi og óferjandi á köflum – líta út fyrir að vera í krossferð til þess eins að komast sjálfir á þing – geta til að mynda ekki tekið þátt í málefnalegum samræðum.

Hvernig er hægt að stilla upp kosningabandalagi margra flokka sem skora hátt einn daginn, lágt annan í skoðanakönnunum – nú eða stöðugt lágt.

Fyrsta skrefið er að finna lágmarks sameiginlegan grundvöll eða samnefnara. Til að mynda það eitt að vilja taka upp betri vinnubrögð, losna við flokkaga og einstrengingslega flokkadrætti, taka upp þá aðferð að rökræða málefna hvert málefni fyrir sig – án geðvonsku, upphrópana og þeim ósið að vera alltaf í keppni við andstæðinginn.

Næsta skref er að finna frambjóðendur. Ekki svo auðvelt, eins og Borgarahreyfingin reyndi þegar (að því er virðist) menn skipuðu sjálfa sig í lykilsæti á framboðslistum, einstaklingar sem ekkert erindi áttu á þing.

Borgarahreyfingunni gafst heldur ekki vel að ætlast til að þingmenn færu að vilja flokksmanna, muni ég rétt endust þau fyrirheit í fimm mínútur eða svo – hafi þau yfirleitt verið skýr.

En þetta er hægt.

Einfaldasta leiðin er að bjóða fram undir sama listabókstaf, eins og bent hefur verið á í nokkrum greinum. Ókosturinn við þessa aðferð er að það er samt hætt við að flokkar sem ekki eru líklegir til að ná manni þyki ekki spennandi valkostir.

Hin leiðin er að bjóða fram sameiginlega lista. Til þess að það gangi eftir þarf smá hugarfarsbreytingu eða kannski frekar nýja nálgun. Nánar um það næst…

Hvað skal kjósa? Þriðja hugsun

Posted: febrúar 11, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég verð svo í þessum vangaveltum um hvað ég get hugsað mér að kjósa og hvað ekki – að nefna nokkuð mikilvæg atriði, traust og trúverðugleika. Ég set eftirfarandi atriði ekki sem úrslitaatriði, en þau vega þungt.

  • Það gengur til dæmis ekki að flokkur tali um að minnka rekstur ríksisins en vilji á sama tíma halda ríkisreknu trúfélagi.
  • Það er ekki í boði að fá atkvæði frá mér þó frambjóðendur tali fjálglega um málfrelsi og frelsi eintaklingsins en lyfti svo ekki litla fingri þegar freklega er brotið á einföldum mannréttindum. Hér standa þeir verr að vígi sem eiga fulltrúa á þingi, það hefur til dæmis enginn lagt fram frumvarp um að breyta lögum um meiðyrði, hvað þá að bæta þeim skaðann sem beittir hafa verið misrétti.
  • Það gengur heldur ekki að tala um frjálsa samkeppni og afhenda svo völdum aðilum verðmæti, hvort sem það eru bankar eða veiðiheimildir.
  • Og það er mikilvægt að gera upp við hrunið. Ekki það að ég vilji „hengja“ alla sem annað hvort sváfu á verðinum eða gerðu mistök. En það skiptir máli að viðurkenna mistök, að hafa lært eitthvað og geta sagt hvað yrði gert öðru vísi.
  • Og svo má ekki gleyma að það er ekki í lagi að starfa við löggjöf og segjast hafa „haft hliðsjón“ af lögum við ákvarðanir í stað þess að fylgja þeim.
  • Svo gef ég lítið fyrir upphrópanir og loforð um töfralausnir í efnahagsmálum, nema viðkomandi geti sýnt hvernig viðkomandi lausn á að virka, málefnalega og með örkum og hafi svarað mótrökum.
  • Þá fer verulega stór mínus á vogina hjá flokki sem skartar frambjóðendum sem boða hvers kyns kukl og hjávísindi.

 

Hvað skal kjósa? Önnur hugsun…

Posted: febrúar 9, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég setti inn færslu fyrir nokkrum dögum þar sem ég velti fyrir mér hvað ég ætli að kjósa í næstu kosningum. Kannski er þetta ótímabært þegar ekki er ljóst hvaða valkostir verða í framboði…

Fyrir utan það sem ég nefndi fyrst, þeas. að vinnubrögðin skipta miklu máli, þá eru nokkur mál sem eru frágangssök. Ég veit að ég finn ekkert draumaframboð og engan lista eða flokk sem ég verð sammála í einu og öllu. Og auðvitað er ég tilbúinn til að skoða öll mál og skipta um skoðun ef nýjar upplýsingar koma fram eða ef ég heyri góð rök.

En, að því óbreyttu, gef ég ekki afslátt af eftirfarandi atriðum (röðin skiptir ekki máli):

  • Fullan aðskilnað ríkis og kirkju, ég segi fullan til að losna við hártoganir og útúrsnúninga um núverandi fyrirkomulag.
  • Nýja stjórnarskrá á þessu ári, helst þá sem nú liggur fyrir, en það má auðvitað rökræða minni háttar breytingar. Framboð sem heldur því fram að núverandi stjórnarskrá sé bara nógu góð eða bíða megi með breytingar fær ekki atkvæði frá mér.
  • Afnám núverandi kvótakerfis, það má finna málamiðlun og gefa aðlögunartíma, en óbreytt kerfi með „eignarhaldi“ einstaklinga eða fyrirtækja á sameiginlegum auðlindum kemur ekki til greina.
  • Mannréttindi og málfrelsi verði færð til þess horfs sem þau eru í Evrópu og í fullri alvöru verði tekið á því að koma í veg fyrir frekari rassskellingar Mannréttindadómsstóls Evrópu.
  • Já og allt tal um afnám verðtryggingar er tóm tjara, amk. eitt og sér.

Hvað skal kjósa? Fyrsta hugsun

Posted: febrúar 7, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég er strax farinn að hafa áhyggjur af því hvað ég á að kjósa í vor. Jæja, ekki kannski áhyggjur, en farinn að velta vöngum yfir mögulegum kostum.

Ég hef kosið ýmsa flokka gegnum tíðina en oftar en ekki hef ég hreinlega ekki náð á kjörstað, þrátt fyrir góðan vilja – hef setið við prófanir og æfingar fyrir útsendingar sjónvarps og útvarps.

Kannski nýir flokkar standi, ósanngjarnt, betur að vígi en þeir sem hafa átt fulltrúa á þingi, það er einfaldlega styttri eða engin saga til að gagnrýna.

En ég geri ákveðnar kröfur um nálgun og vinnubrögð. Það að geta rætt málefnalega, tekið rökum, skipt um skoðun, ef svo ber undir, er lykilatriði.

Þá er afstaða í nokkrum málefnum sem hreinlega útiloka að ég kjósi lista, hversu vel sem mér kann að líka önnur stefnumál – og hversu vel sem ég treysti þeim einstaklingum sem eru í framboði.

Og svo geri ég kröfur um heiðarleika og trúverðugleika – og þar með talið að standa ekki í upphrópunum og innihaldslausum yfirlýsingum sem eingöngu eru hugsaðar til að auka vinsældir.

Að lokum er rétt að nefna að ég gef lítið fyrir stórar yfirlýsingar ef ekkert er að hafst.

Fyrst að vinnubrögðum.

Ég ætla ekki að kjósa flokk eða framboð sem nálgast þingstörfin sem baráttu milli flokka, gerir kröfu um „flokksaga“, beitir málþófi, er alltaf á móti „hinum“ og alltaf með „sínum“. Að geta ekki tekið rökum og geta ekki skipt um skoðun ef nýjar upplýsingar eða sterk mótrök koma fram er ekki boðlegt.

Nánar um hina þættina fljótlega.

Skrýtnar heimasætur

Posted: október 16, 2012 in Umræða
Efnisorð:, ,

Ég játa að mér finnst það hálf furðuleg ákvörðun að ætla að sitja heima næsta laugardag þegar kosið verður um tillögur stjórnlagaráðs.

Þetta er ekki flókið mál sem verið er að kjósa um. Það er hægt að kynna sér galla núverandi stjórnarskrár á nokkrum mínútum og það þarf ekki mikið lengri tíma til að kynna sér tillögur stjórnlagaráðs. Fimmtán til tuttugu mínútur ættu að nægja til að geta tekið afstöðu og kannski einn til tveir tímar til að kynna sér málið þokkalega vel.

Þeir sem eru ósáttir við ferlið eða kosningarnar eða spurningarnar geta komið því á framfæri með því að mæta og skila auðu.

Þeir sem eru ósáttir við tillögur stjórnlagaráðs geta komið því á framfæri með því að mæsta á kjörstað og segja „Nei“ við fyrstu spurningunni, að minnsta kosti.

Þeir sem eru ósáttir við gömlu stjórnarskrána og finnast tillögur stjórnlagaráðs til mikilla bóta hafa svo auðvitað þann kost að segja „Já“ á laugardag við tillögum stjórnlagaráðs – og vonandi „Nei“ við þjóðkirkju.

En að sitja heima er einhvers konar rænuleysi og sofandaháttur. Ef kjörsóknin verður minni en í þingkosningum eða sveitarstjórnarkosningum þá er fjöldi fólks að sleppa því að taka afstöðu í svona mikilvægu máli sem aftur tekur afstöðu í almennum kosningum.

Valkostirnir í almennum kosningum eru miklu fjölbreyttari og það er miklu tímafrekar að kynna sér valkosti þar og taka málefnalega afstöðu en í þessu, tiltölulega, einfalda máli.

Að nenna ekki að taka afstöðu í stjórnarskrármálinu en nenna að eyða tíma í almennar kosningar er eiginlega fráleit afstaða. Stjórnarskráin skiptir miklu meira máli og „trompar“ almennar kosningar. Kosningar um stjórnarskrána er svona á 70 ára fresta á meðan kosið er nánast annað hvert ár til þings eða sveitarstjórnar.

Svo eru hinir, sem kannski kjósa í almennu kosningunum án þess að kynna sér hvað er í boði. Getur það verið?

 

Kosningaútsendingafrí

Posted: júní 30, 2012 in Spjall
Efnisorð:

Kosningavakan núna er aðeins önnur kosningavakan síðan 1986 sem ég hef ekkert með tölvukerfi vegna sjónvarps- og útvarpsútsendinga að gera. Árið 1995 kom ég hvergi nærri og reyndar aðeins lítillega í forsetakosningunum 1998. Í mörg skipti var ég nánast á tvöfaldri vakt – bæði á RÚV og Stöð2.

Reyndar stendur þannig á hjá mér að ég veit ekki hvort ég fylgist með vökunni.

En burtséð frá því, þá er kannski kominn tími á þetta.