Kosningabandalag, hvernig?

Posted: mars 2, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér þessum allt að fimmtán framboðum sem stefna á framboð í næstu Alþlingiskosningum.

Það er rétt að taka strax fram að ég hef ekki útilokað að kjósa neinn flokk (ja, mjög fáa) og ekki enn almennilega sáttur við neinn – en það skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Ég er hins vegar mjög ósáttur við 5% ákvæði í kosningalögum, þeas. sem útilokar jöfnunarmenn til framboða sem ekki hafa náð þessu hlutfalli atkvæða. Hugmyndin er, að mér skilst, að fækka þingflokkum og auðvelda þannig til að mynda stjórnarmyndanir. Fyrir það fyrsta hefur sýnt sig að margir þingmenn skipta um flokk eftir kosningar og verða nánast eins til tveggja manna þingflokkar. Hitt er að fyrir mér skiptir miklu meira máli að Alþingi endurspegli vilja kjósenda en að létta þingmönnum störfin við stjórnarmyndun eftir kosningar. Það er meira að segja alls ekki endilega svo slæmt að leita þurfi samþykkis fulltrúa sem flestra sjónarmiða.

Hitt er verra, að það má segja að ákvæðið sé púki sem þrífst á sjálfu sér. Það fælir kjósendur frá því að kjósa lista ef litlar líkur eru á að hann nái manni á þing. Sem aftur verður til að hann fær enn færri atkvæði.

Ef ég skil rétt þá er allur þessu fjöldi framboði til kominn vegna þess að aðstandendur þeirra eru ekki fullkomlega sammála um alla hluti.

Sem er að vissu leyti fráleit ástæða fyrir að rjúka til að fara af stað með nýtt framboð. Ég er nokkuð viss um að stærri / eldri flokkarnir gætu jafnvel klofnað í tugi framboði ef sama viðmiðun væri notuð þar á bæjum fyrir því að stofna nýtt framboð.

Auðvitað geta verið góðar ástæður fyrir því að leiðir skilji. Einstaka flokkar hafa sett málefni á oddinn sem anga af sýndarmennsku og innantómum loforðum, jafnvel æpandi fákunnáttu og fáfræði. Og ekki má gleyma að sumir einstaklingar virðast nánast óalandi og óferjandi á köflum – líta út fyrir að vera í krossferð til þess eins að komast sjálfir á þing – geta til að mynda ekki tekið þátt í málefnalegum samræðum.

Hvernig er hægt að stilla upp kosningabandalagi margra flokka sem skora hátt einn daginn, lágt annan í skoðanakönnunum – nú eða stöðugt lágt.

Fyrsta skrefið er að finna lágmarks sameiginlegan grundvöll eða samnefnara. Til að mynda það eitt að vilja taka upp betri vinnubrögð, losna við flokkaga og einstrengingslega flokkadrætti, taka upp þá aðferð að rökræða málefna hvert málefni fyrir sig – án geðvonsku, upphrópana og þeim ósið að vera alltaf í keppni við andstæðinginn.

Næsta skref er að finna frambjóðendur. Ekki svo auðvelt, eins og Borgarahreyfingin reyndi þegar (að því er virðist) menn skipuðu sjálfa sig í lykilsæti á framboðslistum, einstaklingar sem ekkert erindi áttu á þing.

Borgarahreyfingunni gafst heldur ekki vel að ætlast til að þingmenn færu að vilja flokksmanna, muni ég rétt endust þau fyrirheit í fimm mínútur eða svo – hafi þau yfirleitt verið skýr.

En þetta er hægt.

Einfaldasta leiðin er að bjóða fram undir sama listabókstaf, eins og bent hefur verið á í nokkrum greinum. Ókosturinn við þessa aðferð er að það er samt hætt við að flokkar sem ekki eru líklegir til að ná manni þyki ekki spennandi valkostir.

Hin leiðin er að bjóða fram sameiginlega lista. Til þess að það gangi eftir þarf smá hugarfarsbreytingu eða kannski frekar nýja nálgun. Nánar um það næst…

Lokað er á athugasemdir.