Posts Tagged ‘Forsetakosningar’

Ekki til áttavillta vestursins

Posted: janúar 19, 2025 in Umræða
Efnisorð:,

Ég get ekki hugsað mér að fara til Bandaríkjanna næstu árin.

Ástæðan er kjör trúðsins til forseta í nóvember.

Ekki frekar en að ég gat ekki hugsað mér að fara á HM í fótbolta 2018.

Ekki veit ég alltaf hvar á að draga mörkin.. ég heimsótti til dæmis Bandaríkin í upphafi fyrri forsetatíðar gaursins – en bæði var búið að ákveða og greiða fyrir þá ferð löngu fyrr og ástandið ekki eins svakalegt og núna.

Nú veit ég vel að Bandaríkin er samband margra ólíkra ríkja og stuðningur við hann mis mikill á milli ríkja.

En það breytir því ekki að það er eitthvað verulega ógeðfellt við að hann hafi verið kjörinn.

Sannarlega rasisti, fasisti, kvenfyrirlitningin greinileg, frekar heimskur, verulega fáfróður og beinlínis helsjúkur raðlygari. Og þetta mat mitt byggir eingöngu á því sem ég hef beint frá honum af samfélagsmiðlum, ákvörðunum, framboðsfundum og viðtölum.

Sennilega réðu efnahagsmál, eða misskilningur á stöðu þeirra, atkvæðum eða atkvæðaleysi ansi margra. Það voru jú talsvert færri sem greiddu honum atkvæði núna en fyrir fjórum árum, þrátt fyrir að fleiri mættu kjósa, en það voru bara enn færri sem nenntu að hafa fyrir því að kjósa gegn honum. Það er einhver huggun, en ekki mikil að hann fékk þó ekki meirihluta atkvæða.

Hann spilar auðvitað á vanþekkingu, fáfræði, mannfyrirlitningu og fordóma. Og kemst upp með það. Þar liggur vandinn.

En það er ekki eingöngu kosningarnar, það er einhver svakalegur aumingjagangur þarna vestanhafs að ekki sé búið að koma honum á bak við lás og slá fyrir löngu.. dæmdur glæpamaður og ekki ólíklegt að hann hafi verið sekur um landráð í tveimur ólíkum málum.

Ekki má gleyma að hann ber auðvitað ábyrgð á ótímabærum dauðsföllum fjölda manns eftir Covid, við fáum sennilega seint að hversu margir misstu lífið vegna áróðurs sem byggðist fáfræði og heimsku.

Lengi vel stögluðust stuðningsmenn hans á því að hann hefði ekki hafið neitt stríð.

En nú gengur stjórnlaust gasprið í þessum vanvita út á að beita hervaldi gegn nokkrum nágrannaríkjum. Fasismi, rasismi, útlendingafordómar – þetta hafa lengi verið “vörumerkin” – og nú bætast kröfur um landvinninga við – samlíkingin við Þýskaland Hitlers er orðin raunveruleg.

Ég óttast að sagan frá seinni heimsstyrjöldinni geti endurtekið sig.

þá er nokkuð ljóst að það er eitthvað mikið að.

Ræfillinn, drullusokkurinn og auminginn (ég nenni ekki að skýra frekar, það yrði allt of langur lestur) sem sat á forsetastóli 2016-2020 og tapaði síðustu kosningum afdráttarlaust, virðist eiga þokkalega möguleika á að vinna.

Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna það kemur yfirleitt til greina að kjósa hann, mannfyrirlitningin, fáfræðin, heimskan, fordómarnir, getuleysið, stanslaus lygaþvælan, ofbeldið og svo mætti lengi telja.

En ekki síður aumingjaskapur og getuleysi réttar- og dómskerfisins við að koma honum á bak við lás og slá eftir augljósa og ítrekaði glæpi er svo enn frekar til marks um að það er eitthvað mikið að vestanhafs. [jú, ég veit að hann var búinn að planta útsendurum í lykilstöður í réttarkerfinu, en samt].

Enda hvernig sem fer, kannski er þetta stórveldi komið á endastöð og fall yfirvofandi.

Ég er ekki svo viss um að það sé endilega svo slæmt svona til lengri tíma litið. Stórveldi liðast gjarnan í sundur.

En auðvitað vona ég bæði vegna vina og kunningja sem búa þarna – og líka vegna þess að þarna er fullt af góðu fólki – að kosningarnar fari vel og við taki almennar breytingar sem skilji mannfyrirlitningu, fasisma, fordóma og fáfræði eftir. En það verður erfitt.

Í rauninni hef ég kannski ekkert sérstaklega mikinn áhuga á komandi forsetakosningum og er ekki enn búinn að gera upp hug minn.

Baldur og Jón Gnarr eru báðir mjög góðir kostir en á ólíkan hátt.

Katrín kemur ekki til greina og breytir engu þó margir sameiginlegir vinir og kunningjar beri henni vel söguna. Það gengur einfaldlega ekki í mínum huga að á forsetastóli sitji einstaklingur sem mótaði og var leiðtogi núverandi ríkisstjórnar. Eitt hlutverk forseta er að vera hemil á ríkisstjórn og Alþingi ef til kemur.

Þar fyrir utan hefur hún hunsað afdráttarlausan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá, haldið hlífiskildi yfir spillingu og frændhygli og látið viðgangast að Ísland taki ekki afdráttarlausa afstöðu til mannréttindamála.

Steinunn Ólína kemur til greina, en hefur ekki náð að sannfæra mig um að hún sé betri kostur en aðrir og það hjálpar ekki að hún virðist ekki eiga möguleika.

Halla Tómasdóttir kom ágætlega út úr umræðum (fyrir utan hallærislegt ‘name-drop’) en fyrsta kynningarefni var undarlegt og tal um samfélagsþjónustu bendir ekki til mikils skilnings á hlutverki forseta. Engu að síður, margir vinir mæla sterklega með – það telur, en nægir ekki.

Halla Hrund kemur enn til greina, kannski helst vegna þess að margir vinir mæla með og virðast treysta – en það er einfaldlega heldur ekki nóg til að ég skipti um skoðun. Lopapeysu- harmonikku ímyndin er ekki að virka fyrir mig (svo ég taki nú ekki dýpra í árinni), hún virkaði hálf utan gátta í sjónvarpsumræðum (hef ekki grun um hvert hún var að fara með Vestmannaeyja/Vestfjarðatali) og grein sem hún hefur skrifað hljómar eins og hún sé í framboði til þings frekar en forseta.

Síðan eru tveir minna álitlegir kostir. Annar er lögfræðingur sem virðist ekki geta lesið sér til gagns, ég sé ekki betur en að sé haldinn alvarlegum ranghugmyndum og hefur beinlínis borið lífshættulegan áróður á borð. Hinn er velviljaður og með stórar hugmyndir sem samrýmast varla forsetaembættinu, fer gjarnan fram með miklum flumbrugangi – og þarf nú svolítið til að ganga fram af mér.

Ég veit svo lítil sem engin deili á öðrum – og með núverandi kosningakerfi virðist varla taka því að setja tíma í að kynna sér hvað þeir standa fyrir.

Ég er til þess að gera mjög sáttur við núverandi forseta og það hefði þurft mikið að breytast til að ég íhugaði að kjósa einhvern annan fyrir næsta kjörtímabil.

En fyrir utan það og fyrir utan að það er sjálfsagt að taka þátt í kosningum.. þá gefa komandi forsetakosningar okkur ágætis tækifæri.

Mótframbjóðandi forsetans hefur tekið þátt í og staðið fyrir orðræðu og umræðu sem ég hef talsvert mikla skömm á, svo ekki sé meira sagt. Þetta virðist fylgja ákveðinni þróun víða í heiminum og frambjóðandinn virðist ætla að spila á sambærilegan hátt fáfræði kjósenda og tekist hefur annars staðar.

Þannig að þessar kosningar eru frábært tækifæri til að senda skýr skilaboð um að við viljum ekki sjá svona framboð.

Þá er tímabært að fara að velja hvaða frambjóðanda ég kýs sem forseta. Ég ætla að reyna að nálgast þetta þannig að ég skoði alla valkosti af hlutleysi.

Nokkrir frambjóðendur eru vissulega ansi ólíklegir eftir umræður síðustu vikna og það þarf eitthvað mikið að breytast til að ég skoði í fullri alvöru að þeir fái mitt atkvæði.

Ég er samt með nokkrar spurningar sem geta vonandi hjálpað mér að gera upp hug minn, kannski skrýtnar, jafnvel „gildishlaðnar“ og auðvitað á mínum forsendum… enda eru þetta mínar spurningar!

  1. Kemur þú til með að beita þér gegn því að sett verði ný stjórnarskrá? [mér er sama hvaða skoðun þú hefur á þörfinni á nýrri stjórnarskrá, þetta snýst um hvort þú myndir beita þér gegn málinu ef til kemur]
  2. Ertu í framboði vegna þess að þú gerir ráð fyrir að geta náð kosningu eða er eitthvert annað markmið með framboðinu? [ef þú ert að gera ráð fyrir að geta náð kosningu, kemur þú til með að halda framboðinu til streitu þó kannanir sýni að þetta sé útilokað?]
  3. Myndir þú verða við áskorun, segjum 25% kjósenda, um að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu – lögum sem þú er hjartanlega sammála og hafa verið samþykkt með góðum meirihluta á þingi? [nákvæmur fjöldi viðmiðunar er ekki aðalatriðið]
  4. Stefnir þú að því að láta leggja fram lagafrumvörp á Alþingi?
  5. Trúir þú að kona hafi fætt einstakling án líffræðilegs föðurs (meyfæðing) fyrir um tvö þúsund árum og að sá hinn sami hafi risið upp frá dauðum? [mér er sama um óljósar trúarskoðanir og mér er sama hvort þú tilheyrir trúfélagi, en þetta er mikilvægt]
  6. Geta trúarskoðanir réttlætt mannréttindabrot og/eða lögbrot að þínu viti?
  7. Dæmir þú heilu hópana – td. múslima, kristna og/eða gyðinga – eftir aðgerðum hlutfallslega fárra öfgamanna úr þeirra hópi? [kannski bara suma hópa?]

Ég læt þetta nægja vegna þess að mér finnast önnur atriði ekki skipta máli í þessu samhengi, jafnvel ekki atriði sem ég er mögulega hjartanlega sammála og finnast mikilvæg – en eiga einfaldlega ekki erindi á verksvið forseta.

Það getur oft verið erfitt að átta sig á hvað forsetaframbjóðendur meina raunverulega, þvi þó margt sem þeir segja hljómi ekki illa, þá er ekki ólíklegt að eitthvað annað búi að baki.

Mig grunar að minnsta kosti að það megi lesa nokkrar athugasemdir á eftirfarandi hátt:

  • það þarf að tryggja stöðugleika -> Dorrit getur ekki hugsað sér að hætta að mæta í kóngaveislur
  • keppinautarnir eru að setja met með því að gagnrýna aðra frambjóðendur -> ég þoli ekki að aðrir taki upp mína „taktík“
  • fólk þekkir kosti mína og galla -> ég treysti á gullfiskaminni kjósenda
  • ég misskildi spurninguna -> mér datt ekki í hug að það kæmist upp um mig
  • ég er fastur fyrir -> ég tek ekki rökum eða mark á upplýsingum sem mér henta ekki

Allt er betra en Óli

Posted: maí 6, 2016 in Umræða
Efnisorð:

Ég hef oft talað gegn því að fólk kjósi taktískt, einfaldlega vegna þess að ef það er gert þá endurspegla kosningarnar ekki vilja kjósenda, sem aftur er þá ekki mjög lýðræðislegt. Þetta er líka varasamt vegna „múgsefjunaráhrifa“, þeas. mögulega eru nægilega margir sem hafa ætlað sér að kjósa ákveðið framboð, en velja eitthvað annað vegna þess að þeir halda að enginn annar (eða of fáir) ætli sér að kjósa það framboð.

Auðvitað þarf betra kosningakerfi, kerfi sem leyfir kjósendum að velja samkvæmt eigin sannfæringu en nýta samt atkvæðið ef það dettur „dautt“. Það er önnur saga..

Ég er mjög lítið hrifinn að þeirri hugmynd að núverandi forseti sitji áfram. Ekki svo að skilja að hann hafi verið alslæmur, eins og flestir hefur hann átt sín jákvæðu augnablik.. þau neikvæðu hafa hins vegar verið fleiri, svona fyrir minn smekk.

En burséð frá því hvaða einkunn hann fær fyrir liðin tímabil þá er það einfaldlega galið að hann sitji áfram.. hvernig honum datt yfirleitt í hug að bjóða sig fram aftur er og verður rannsóknarefni út af fyrir sig.

Þannig að nú finnst mér að minnsta kosti lykilatriði að fá einn frambjóðanda sem er nægilega sterkur til að sigra Ólaf… sennilega er Guðni sá sem á helst möguleika.

Ég er ekki með nákvæma tölu á hversu margir eru enn í framboði, ég hef séð nokkra sem myndu sóma sér ágætlega og ég tæki mögulega fram yfir Guðna (eða hvern þann sem ætti mesta möguleika) – svo eru aðrir sem mér finnast ekki eiga neitt erindi í starfið. En það er sem sagt aukaatriði..

Ég vil sem sagt beina þeirri ósk til allra þeirra frambjóðenda sem ekki eiga raunhæfa möguleika á að ná kjöri að draga framboð sín til baka svo hægt sé að nýta öll atkvæði. (já, ég geri ekki ráð fyrir að nokkur frambjóðenda taki atkvæði frá ÓRG).

 

Mig minnir að það hafi verið sagt á upphafsárum Bandaríkjanna að einstaklingar ættu ekki að sækjast eftir forsetaembættinu, „embættið“ ætti að sækjast eftir rétta einstaklingnum.

Umræður um næsta forseta hafa reglulega komið upp í spjalli hinna ýmsu vinahópa okkar í vetur. Nægilega margir hafa verið nefndir til sögunnar – hafa annað hvort boðið sig fram, eru að hugsa um að bjóða sig fram, er verið að skora á að bjóða sig fram og/eða margir hafa komið að máli við. Sumar hugmyndirnar hafa óneitanlega þótt langsóttar í okkar hóp og í rauninni hefur ekkert nafn fengið almennilegan hljómgrunn.

Það var ekki fyrr en nafn Bryndísar Hlöðversdóttur kom fram í vikunni að það kom svona „já, auðvitað!“ augnablik hjá mér.

Ég var alltaf mjög sáttur við Kristján Eldjárn sem forseta, skal játa að ég hafði efasemdir um Vigdísi fyrirfram, en hún stóð sig að mestu ágætlega. Ég var aldrei mikill aðdáandi núverandi forseta þegar hann var að vasast í stjórnmálum, leist ekkert á blikuna þegar hann var kosinn og held að það hafi nú komið í ljós að það hefði verið farsælla að hafa annan einstakling í embætti. Í hans valdatíð hefur forsetaembættið nánast orðið leiksvið fyrir sérvisku og duttlunga.

Ég held að Bryndís sé nákvæmlega sá einstaklingur sem getur „farið vel með“ embættið og kannski unnið til baka þá virðingu sem hefur tapast – og umfram allt, hefur dómgreind til að beita því valdi og standa undir þeirri ábyrgð sem fylgir.

Bryndís hefur víðtæka reynslu sem lögfræðingur, þingmaður, rektor háskóla, ríkissáttasemjari, stjórnarformaður Landsvirkjunar, svo ég nefni eitthvað..

Þannig að, ég vil ekki bara hvetja Bryndísi til að bjóða sig fram, er reyndar þegar búinn að því – ég skora á þá sem þetta lesa að skora á Bryndísi! Ekkert bara persónulega, heldur opinberlega.

 

Ég fór að velta þessu fyrir mér í framhaldi af fréttum um að minnsta kosti einn prestur ætli í framboð til forseta Íslands.

Auðvitað er ekkert tæknilega séð sem kemur í veg fyrir þetta, en er þetta góð hugmynd?

Nú er rétt að taka fram að ég þekki viðkomandi einstakling ekkert en hann fær hin bestu meðmæli, fínn og vandaður maður og hefur, að mér er sagt, sýnt fulla tillitssemi í samskiptum við fólk sem ekki er kristið og forðast að troða siðum upp á þá sem ekki vilja. Sem sagt eins góður prestur og þeir gerast – og mættu aðrir taka hann sér til fyrirmyndar.

En ég kemst ekki fram hjá þessu með trúna.

Þó ekki væri annað en trúarjátningin.

Í henni eru að minnsta kosti tvær fullyrðingar sem stangast á við náttúrulögmálin.

Þannig að annað hvort trúa prestar því að náttúrulögmálin hafi verið brotin fyrir tvö þúsund árum eða svo. Eða þeir fara reglulega með yfirlýsingu sem þeir taka ekki trúanlega.

Ekki segja mér að þetta sé myndlíking eða dæmisaga.. þetta er skýr og klár yfirlýsing.

Og ekki segja mér að yfirlýsingar séu marklausar, það gengur ekki almennilega upp fyrir forseta.

 

 

Ég velti fyrir mér úrslitum forsetakosninganna, sem mér þykja óneitanlega stórundarleg.

Mér skilst að Ólafur Ragnar hafi fyrst og fremst sótt fylgi til yngra fólks og fólks með litla menntun. Nú þekki ég fólk á öllum aldri og með alls kyns menntun.

En…

Af þokkalegum fjöldskyldu og vinahópi – svona eitthvað á annað hundraðið – man ég eftir tveimur sem ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar, annar af einhvers konar skyldu vegna tenginga og hinn var alls ekki ákveðinn, grunar jafnvel að viðkomandi hafi skipt um skoðun.

Auðvitað spurði ég ekki alla, en þetta var mikið rætt og flestir voru eindregnir andstæðingar Ólafs Ragnars. Margir höfðu kosið hann 1996 og margir voru sáttir við forsetatíð hans. En öllum blöskraði kosningabarátta hans og flestir voru búnir að nefna – þegar hann gat ekki ákveðið sig – að þetta væri nú líklega orðið gott.

Af Facebook vinum, sem eru ríflega sex hundruð, voru örfáir að lýsa stuðningi við Ólaf, ég efast um að þeir hafi náð 10, ekki fleiri en 20.

Umgengst ég svona undarlegt fólk?