Sarpur fyrir mars, 2013

Ég hef aðeins verið að fara yfir kynningar flokka og framboða fyrir komandi alþingiskosningar.

Nú er auðvitað ekki rétt að alhæfa.

En mér finnast of margar stefnuskrár byggja á óljósum viljayfirlýsingum, í flestum tilfellum um það sem betur má fara og oftar en ekki eitthvað sem flestir geta verið sammála um.

Þannig að þetta segir mér eiginlega ekki neitt.

Ekki misskilja, kæru væntanlegu frambjóðendur… segið mér endilega hvað þið ætlið að gera og hvaða markmið þið setjið ykkur.

En segið mér líka hvernig þið ætlið að fara að því að ná þessum sömu markmiðum ykkar.

Ég þarf auðvitað að vera sammála markmiðunum. En ég geri líka kröfu um trúverðuga leið til að ná þeim.

Annars er þetta eiginlega bara froða, svo ég sé nú í neikvæða skapinu.

Stórflokkurinn

Posted: mars 12, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Kannski er eina leiðin til að ná stjórnarskrárbreytingum sú að þeir flokkar og framboð sem vilja klára málið bjóði fram sameiginlegan lista í komandi kosningum.

Stefnumálið yrði eitt. Samþykkja drög að stjórnarskrá og rjúfa síðan þing og boða aftur til kosninga.

Nú er ég í sjálfu sér ekki mjög hrifinn af eins-máls framboðum. En þetta eru óvenjulegar aðstæður og þær kalla á óvenjulega lausn.

Að minnsta kosti hljóta framboðin að skoða þennan möguleika alvarlega ef svo fer sem horfir að núverandi þing hunsi skýran vilja þjóðarinnar.

Það mætti auðvitað nálgast þetta með mörgum framboðum undir sama listabókstaf. Þá nýtast öll atkvæði sameiginlega á landsvísu og jöfnunarsætum yrði úthlutað í hlutfalli við styrk flokka í kosningunum. Það má að vísu setja upp dæmi þar sem jöfnunarsætin myndi varla nægja til að jafna styrk flokka, þannig að eitt sameiginlegt framboð er sennilega vænlegasti kosturinn.

Það er grundvallar misskilningur hjá hluta þingmanna þegar talað er um að ekki sé hægt að afgreiða nýja stjórnarskrá á meðan mikið ósætti er um málið.

Aðalatriðið er að þetta mál snýst ekkert um vilja þingsins, sætti eða ósætti þar á bær, hvað þá nauman eða mikinn meirihluta innan þings, að ég tali nú ekki um hvort þetta hefur áhrif á kosningabaráttu einhverra flokka.

Þetta mál snýst um að mikill meirihluti þjóðarinnar hefur lýst skýrum vilja.

 

Viljaleysi eða getuleysi?

Posted: mars 5, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég átta mig ekki á því hvort sú ákvörðun að drepa stjórnarskrármálið stafar af viljaleysi eða getuleysi.

Og í sjálfu sér skiptir svarið ekki máli.

Í næstu kosningum kemur ekki til greina hjá mér að kjósa flokk sem styður ekki málið.

Ef viljinn er ekki fyrir hendi eftir afdráttarlausa niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu þá nægir það mér til að taka afstöðu.

Ef getan til að klára málið á þessum tíma er ekki til staðar – þegar málið er komið langleiðina og litið eftir annað en að afgreiða – þá nægir það mér líka.

Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér þessum allt að fimmtán framboðum sem stefna á framboð í næstu Alþlingiskosningum.

Það er rétt að taka strax fram að ég hef ekki útilokað að kjósa neinn flokk (ja, mjög fáa) og ekki enn almennilega sáttur við neinn – en það skiptir ekki máli í þessu samhengi.

Ég er hins vegar mjög ósáttur við 5% ákvæði í kosningalögum, þeas. sem útilokar jöfnunarmenn til framboða sem ekki hafa náð þessu hlutfalli atkvæða. Hugmyndin er, að mér skilst, að fækka þingflokkum og auðvelda þannig til að mynda stjórnarmyndanir. Fyrir það fyrsta hefur sýnt sig að margir þingmenn skipta um flokk eftir kosningar og verða nánast eins til tveggja manna þingflokkar. Hitt er að fyrir mér skiptir miklu meira máli að Alþingi endurspegli vilja kjósenda en að létta þingmönnum störfin við stjórnarmyndun eftir kosningar. Það er meira að segja alls ekki endilega svo slæmt að leita þurfi samþykkis fulltrúa sem flestra sjónarmiða.

Hitt er verra, að það má segja að ákvæðið sé púki sem þrífst á sjálfu sér. Það fælir kjósendur frá því að kjósa lista ef litlar líkur eru á að hann nái manni á þing. Sem aftur verður til að hann fær enn færri atkvæði.

Ef ég skil rétt þá er allur þessu fjöldi framboði til kominn vegna þess að aðstandendur þeirra eru ekki fullkomlega sammála um alla hluti.

Sem er að vissu leyti fráleit ástæða fyrir að rjúka til að fara af stað með nýtt framboð. Ég er nokkuð viss um að stærri / eldri flokkarnir gætu jafnvel klofnað í tugi framboði ef sama viðmiðun væri notuð þar á bæjum fyrir því að stofna nýtt framboð.

Auðvitað geta verið góðar ástæður fyrir því að leiðir skilji. Einstaka flokkar hafa sett málefni á oddinn sem anga af sýndarmennsku og innantómum loforðum, jafnvel æpandi fákunnáttu og fáfræði. Og ekki má gleyma að sumir einstaklingar virðast nánast óalandi og óferjandi á köflum – líta út fyrir að vera í krossferð til þess eins að komast sjálfir á þing – geta til að mynda ekki tekið þátt í málefnalegum samræðum.

Hvernig er hægt að stilla upp kosningabandalagi margra flokka sem skora hátt einn daginn, lágt annan í skoðanakönnunum – nú eða stöðugt lágt.

Fyrsta skrefið er að finna lágmarks sameiginlegan grundvöll eða samnefnara. Til að mynda það eitt að vilja taka upp betri vinnubrögð, losna við flokkaga og einstrengingslega flokkadrætti, taka upp þá aðferð að rökræða málefna hvert málefni fyrir sig – án geðvonsku, upphrópana og þeim ósið að vera alltaf í keppni við andstæðinginn.

Næsta skref er að finna frambjóðendur. Ekki svo auðvelt, eins og Borgarahreyfingin reyndi þegar (að því er virðist) menn skipuðu sjálfa sig í lykilsæti á framboðslistum, einstaklingar sem ekkert erindi áttu á þing.

Borgarahreyfingunni gafst heldur ekki vel að ætlast til að þingmenn færu að vilja flokksmanna, muni ég rétt endust þau fyrirheit í fimm mínútur eða svo – hafi þau yfirleitt verið skýr.

En þetta er hægt.

Einfaldasta leiðin er að bjóða fram undir sama listabókstaf, eins og bent hefur verið á í nokkrum greinum. Ókosturinn við þessa aðferð er að það er samt hætt við að flokkar sem ekki eru líklegir til að ná manni þyki ekki spennandi valkostir.

Hin leiðin er að bjóða fram sameiginlega lista. Til þess að það gangi eftir þarf smá hugarfarsbreytingu eða kannski frekar nýja nálgun. Nánar um það næst…

Við Fræbbblar tókum þátt í styrktartónleikum fyrir Ingólf Júlíusson í kvöld í Norðurljósasal Hörpu.

Fyrir það fyrsta langar mig að þakka þeim sem stóðu að því að skipuleggja kvöldið fyrir frábært starf, Sillu og Rósu og ég gleymi væntanlega einhverjum. Ekki síður þeim Berg og Gumma og Brynjari og Árna sem sáu um hljóð og græjur, Helgi og Kuklarar sáu svo um að dreifa þessu í beinni útsendingu. Og auðvitað Herði Torfa sem var kynnir og öllum sem komu fram.

Eftir stendur minningin um mjög undarlegt kvöld – sérkennileg blanda af stórkostlegum hljómleikum og skemmtiatriðum annars vegar og ótrúlega sorglegri baráttu við illvígan sjúkdóm hins vegar.

Fyrirfram var ekki vitað hvort Ingóflur hefði heilsu til að mæta, en þegar leit út fyrir að það myndi ganga, spurðist út að hann ætti að forðast að hitta fólk, myndi sennilega sitja inni hjá ljósamanni allt kvöldið – og sérstaklega var tekið fram að ekki ætti að vera að faðma hann af ótta við smit.

En það er kannski einkennandi fyrir Ingólf að hann faðmaði og kyssti alla í bak og fyrir – og gerði grín að sér og sinni stöðu í þakkarræðunni í lokin.

Það er auðvitað útilokað að setja sig í spor Ingólfs og hans fjölskyldu… ég vona enn að þróunin snúist við – auðvitað aðallega fyrir Ingólf og fjölskylduna, en líka fyrir okkur hin.

En….

Ég náði rétt í opnunaratriðið, Óp hópurinn lagði línurnar fyrir stemmingu kvöldsins.

Svo kom Nóra, flott hljómsveit sem var skipuð að miklu leyti frændfólki Ingólfs.. þau og gáfu til dæmis út „Er einhver að hlusta?“ fyrir nokkrum árum, lög þar detta enn öðru hverju í spilunarlistana hjá mér.

Hrafnar eru blanda af fyrrverandi Pöpum og Logum, bæði innfæddum Vestmannaeyingum og eins og þeir lýstu sjálfir, AFP (AðFlutt Pakk), mjög flott dagskrá hjá þeim.

KK heillaði svo meira að segja erlenda gesti, sem skildu ekki orð.

Og þeir hlógu líka að Ara Eldjárn. Ari er, held ég, ekki bara okkar fyndnasti uppistandari heldur finnst mér ólíklegt að það finnist annars staðar skemmtikraftur sem toppar hans hæfileika.

Nýdönsk komu þar á eftir, verulega skemmtileg viðbót við hljómleikana og vel gert hjá þeim.

Hellvar eru ein af mínum uppáhaldshljómsveitum og hafa sennilega aldrei verið betri, ég náði ekki hver var að syngja með þeim í fyrra laginu, en bæði lögin frábær. Rétt þegar við Fræbbblar vorum mættir með þrjá gítara þurftu þau að toppa okkur og mæta með fjóra.

Ég rétt náði byrjuninni hjá Bodies, fór svo að taka til gítar og snúrur og stilla – fannst ég vera eldsnöggur en þeir voru samt búnir með sitt efni þegar ég kom aftur – en treysti því að þeir hafi verið flottir, amk. hafi þeir verið eitthvað líkir því sem þeir voru á Rokk í Reykjavík 2.0.

Q4U tóku svo fjögur lög og hápunktur kvöldsins var (eiginlega allt of snemma) þegar Ingólfur mætti og tók lokalagið með þeim.

Ég held að okkur Fræbbblum hafi gengið ágætlega, að minnsta kosti eins og til stóð.. eina athugasemdin sem ég fékk var frá Jóni Ólafs, eitthvað á þessum nótum, „mjög flott hjá ykkur en þið þurfið aðeins að vinna í þessu gaufi á milli laga“.

Dimma átti svo síðasta atriðið, sérstaklega vel heppnað atriði þegar Hljómeyki tók lokalagið með þeim.