Posts Tagged ‘Alþingi’

Ég verð að ítreka hugmynd vegna Alþingis og sveitarstjórnakosninga. Væri ekki ráð að þeir taki próf sem vilja setjast á Alþingi, sveitarstjórn, taka sæti í ríkisstjórn eða gegna öðrum ábyrgðarstöðum sem hafa mikil áhrif á rekstur þjóðarbúsins og framtíð þjóðarinnar.

Almenn greindarpróf væri auðvitað það fyrsta.

Almenn þekking væri svo eitthvað sem mætti prófa.

Og kannski hæfileikinn til að vinna úr upplýsingum og rökum.

Svona eins og gjarnan er gert þegar fólk er ráðið í ábyrgðarstöður í atvinnulífinu.

Og til að forðast allan misskilning þá er ég ekki að tala um að eingöngu yfirburðafólk á þessu sviðum megi bjóða sig fram (þó það væri auðvitað ekki al slæm hugmynd), aðeins að setja til þess að gera lágan og lítinn þröskuld til að fólk sem jaðrar við að vera greindarskert, veit ekkert í sinn haus og/eða getur ómögulega skilið einföld rök. Það er fordæmi fyrir svona takmörkunum í núverandi kosningalögum og þær eru ekki að ástæðulausu.

Það mætti svo gjarnan bæta prófi í siðblindu við.

Ég verð eiginlega að fara í framboð eins og allir hinir.. og er  að hugsa um að hafa þetta einfalt.

Happdrættisflokkurinn held ég að sé málið.

Skoðanakannanir sýna að yfir 95% landsmanna vilja gjarnan vinna stóra vinninginn í happdrætti.

Þetta verður væntanlega eina stefnumálið, allir vinna stóra vinninginn, hvort sem er í happdrætti, lottó, getraunum..

Flestir núverandi þingmanna voru kosnir á þing eftir loforð fyrir kosningar um nýja stjórnarskrá.

Þingið skipaði stjórnlagaráð til að endurskoða stjórnarskrána.

Þingið spurði síðan þjóðina álits á tillögum stjórnlagaráðs og fékk afgerandi svar, mikill meirihluti studdi það að klára stjórnarskrána.

Þingið hefur þess vegna ekkert umboð til að spila með málið í einhverri refskák í þinglok eða sem hluta af kosningabaráttu. Þingið hefur einfaldlega ekkert umboð til undanbragða, hvorki til að fresta málinu, drepa á dreif eða þynna út.

Stórflokkurinn

Posted: mars 12, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Kannski er eina leiðin til að ná stjórnarskrárbreytingum sú að þeir flokkar og framboð sem vilja klára málið bjóði fram sameiginlegan lista í komandi kosningum.

Stefnumálið yrði eitt. Samþykkja drög að stjórnarskrá og rjúfa síðan þing og boða aftur til kosninga.

Nú er ég í sjálfu sér ekki mjög hrifinn af eins-máls framboðum. En þetta eru óvenjulegar aðstæður og þær kalla á óvenjulega lausn.

Að minnsta kosti hljóta framboðin að skoða þennan möguleika alvarlega ef svo fer sem horfir að núverandi þing hunsi skýran vilja þjóðarinnar.

Það mætti auðvitað nálgast þetta með mörgum framboðum undir sama listabókstaf. Þá nýtast öll atkvæði sameiginlega á landsvísu og jöfnunarsætum yrði úthlutað í hlutfalli við styrk flokka í kosningunum. Það má að vísu setja upp dæmi þar sem jöfnunarsætin myndi varla nægja til að jafna styrk flokka, þannig að eitt sameiginlegt framboð er sennilega vænlegasti kosturinn.

Það er grundvallar misskilningur hjá hluta þingmanna þegar talað er um að ekki sé hægt að afgreiða nýja stjórnarskrá á meðan mikið ósætti er um málið.

Aðalatriðið er að þetta mál snýst ekkert um vilja þingsins, sætti eða ósætti þar á bær, hvað þá nauman eða mikinn meirihluta innan þings, að ég tali nú ekki um hvort þetta hefur áhrif á kosningabaráttu einhverra flokka.

Þetta mál snýst um að mikill meirihluti þjóðarinnar hefur lýst skýrum vilja.

 

Kukl á ríkisspenann?

Posted: nóvember 29, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Nú liggur fyrir Alþingi tillaga um að kuklarar fái starfsemi sína niðurgreidda eins og um heilbrigðisþjónustu sé að ræða.

Ég óttast að þetta sé ekki svefngalsa brandari hjá þingmönnum heldur sé þarna verið að tala í fullri alvöru.

Nú geri ég mér grein fyrir að ríkið styður myndarlega starfsemi sem byggir á hindurvitnum og fyrirbærum sem engin leið er að sýna fram á – en þar eru notuð (vond) söguleg rök. Og líkast til líður ekki á löngu áður en það verður lagt af.

En að ríkið fari að styðja kukl er með ólíkindum.

Hvernig dettur fólki í hug að láta ómenntað fólk sem hvergi hefur sýnt fram á að aðferðir þess virki fara að stunda „lækningar“ á kostnað ríkisins?

Þetta er jafn galið og að fela ómenntuðu fólki að byggja mannvirki, stjórna samgöngutækjum eða sinna hvers konar annarri starfsemi án þess að hafa sýnt fram á nokkra færni eða árangur.

Ætli þetta fólk þori að fara upp í flugvél með einhverjum sem hefur aldrei tekið flugmannspróf en hefur lesið sér til um góðar reynslusögur af flugi?

Skyldu þau þora að fara yfir brú sem hefur verið byggð af fólki með reynslusögur?

Þetta er ekki bara heimskulegt. Þetta er lífshættulegt. Um leið og ríkissjóður fer að gefa svona vinnu „gæðastimpil“ er hætta á að fleiri hafni alvöru lækningum og leiti til kuklara.

En á hinn bóginn, kannski er þetta bara þróunarkenningin í verki…