Archive for the ‘Spjall’ Category

Hjá Friðriki fimmta

Posted: ágúst 22, 2012 in Spjall
Efnisorð:, ,

Þá bættist veitingastaður Friðriks V á Laugavegi við uppáhaldsveitingastaðalistann okkar – sem er nú ekki mjög langur. Humarhúsið, Við Tjörnina, Dill og Forrétttabarinn eru þar fyrir.

En bæði eru réttirnir einstaklega fjölbreyttir og spennandi, þjónusta til fyrirmyndar og umhverfið smellpassar.

En það sem er heillandi við staði eins og Friðrik V er að það er ekki einn stór og þungur aðalréttur heldur margir spennandi smáréttir. Og það að kynna hvern rétt í smáatriðum, hvernig hann er samsettur, hvaðan hráefnið kemur og hvaða vín er með gefur kvöldinu alveg sérstaka stemmingu. Það er ekki verið að flýta sér að „fóðra“ gestina heldur fær hver réttur sinn sess og fulla athygli. Auðvitað voru réttirnir mismikið fyrir minn smekk – eins og gengur – fyrr mætti nú vera – en það er enginn að klikka, allir voru spennandi og sumir voru beinlínis frábærir.

Jú, það er rétt að taka fram að ég þekki Friðrik nákvæmlega ekki neitt – þeas. fyrir utan ágætisspjall úti á götu eftir matinn – hann hafði reyndar reynst syninum vel fyrir nokkrum árum.

Öfgamaður

Posted: júlí 16, 2012 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

Hugtakið „öfgar“ virðist vera í frjálsu gengisfalli þessa dagana. Eins og einelti. Hugtökin eru notuð af minnsta tilefni og dreift hugsunarlaust til að drepa umræðu á dreif og forðast málefnalega rökræðu og að svara efnislega.

„Öfga“ stimpillinn er þægileg leið til að gera lítið úr skoðunum annarra þegar engin mótrök eða upplýsingar virðast vera fyrir hendi. Og „öfgar“ er einmitt gjarnan notað um skoðanir annarra til að réttlæta órökstuddar skoðanir þegar fátt er um rökstuðning.

En hvað eru öfgar? Geta vel rökstuddar skoðanir verið „öfgar“? Eru óvenjulegar skoðanir „öfgar“? Eru skoðanir sem ganga gegn skoðunum fjöldans alltaf „öfgar“?

Ég hef svo sem ekki talið mig öfgamann hingað til. Langt frá því. En þetta eilífa öfgatal er að verða til þess að ég hef verið að hugsa málið.

Ef það eru öfgar að fylgja sannfæringu sinni og rökstuddum skoðunum hvað sem öðrum finnst… tja, þá er ég líkast til mjög öfgafullur.

Eins og allir þeir sem hafa komið einhverjum framförum til leiðar.

Og ef það er „öfgaleysi“ er að sitja þegjandi undir ranglæti vegna þess að það er ekki vinsælt, þá er ég öfgamaður.

Og stoltur af.

Að blogga eða blogga ekki

Posted: júlí 10, 2012 in Spjall, Umræða
Efnisorð:, ,

Ég ákvað fyrr í sumar að hætta að blogga í kjölfar fráleitrar afgreiðslu Hæstaréttar á meiðyrðamáli sonarins og sinnuleysi fjölmiðla, annarra en DV.

Hæstiréttur hefur nú verið beðinn um nánari skýringar og í ljósi dóms Mannréttindadómstóls Evrópu eru nú góðar líkur á farsælli lausn. Þetta verður tíma- og kostnðarfrekt en ég hef fulla trú á að þetta endi vel. Undarlegir dómar íslenskra dómara eru sem sagt ekki endanlegur dómur.

Ég velti því samt enn fyrir mér hvort það geti verið þess virði að standa í því stríði sem sonurinn hefur gengið í gegnum. Það eitt að vita af þöggunartilburðum íslenska réttarkerfisins er kannski næg fæling.

Ég setti þetta blogg hér af stað eftir að ég hætti að blogga á Eyjunni, aðallega hugsað fyrir fréttir af okkur og fjölskyldunni og einhverjar, til þess að gera, ómerkilegar skoðanir og hugmyndir.

En kannski afdráttarlaus dómur Mannréttindadómstólsins verði til að íslenskir dómstólar hugsa sinn gang.

Og kannski er þess virði að taka aftur upp þráðinn.

Brúðkaup í gær

Posted: júlí 8, 2012 in Spjall

Við vorum heldur betur í skemmtilegu brúðkaupi í gær, hjá Katý og Óla.

Það kom svo sem ekkert á óvart að allar veitingar voru frábærar og skemmtiatriðin ekki síðri. Þau hljóta að hafa verið í fullri vinnu við að skipuleggja dagskrána, hvert smáatriði úthugsað. Og svo er alltaf gaman að hitta fjölskyldurnar og vini.

En það sem situr kannski mest eftir er hvað þeim fannst þetta gaman og hvað þau nutu hvers augnabliks, allt frá athöfninni í kirkjunni, með afslöppuðum og skemmtilegum presti, til síðasta dans um nóttina.

Aftur til hamingju og takk fyrir okkur!

Ég velti fyrir mér úrslitum forsetakosninganna, sem mér þykja óneitanlega stórundarleg.

Mér skilst að Ólafur Ragnar hafi fyrst og fremst sótt fylgi til yngra fólks og fólks með litla menntun. Nú þekki ég fólk á öllum aldri og með alls kyns menntun.

En…

Af þokkalegum fjöldskyldu og vinahópi – svona eitthvað á annað hundraðið – man ég eftir tveimur sem ætluðu að kjósa Ólaf Ragnar, annar af einhvers konar skyldu vegna tenginga og hinn var alls ekki ákveðinn, grunar jafnvel að viðkomandi hafi skipt um skoðun.

Auðvitað spurði ég ekki alla, en þetta var mikið rætt og flestir voru eindregnir andstæðingar Ólafs Ragnars. Margir höfðu kosið hann 1996 og margir voru sáttir við forsetatíð hans. En öllum blöskraði kosningabarátta hans og flestir voru búnir að nefna – þegar hann gat ekki ákveðið sig – að þetta væri nú líklega orðið gott.

Af Facebook vinum, sem eru ríflega sex hundruð, voru örfáir að lýsa stuðningi við Ólaf, ég efast um að þeir hafi náð 10, ekki fleiri en 20.

Umgengst ég svona undarlegt fólk?

Kosningaútsendingafrí

Posted: júní 30, 2012 in Spjall
Efnisorð:

Kosningavakan núna er aðeins önnur kosningavakan síðan 1986 sem ég hef ekkert með tölvukerfi vegna sjónvarps- og útvarpsútsendinga að gera. Árið 1995 kom ég hvergi nærri og reyndar aðeins lítillega í forsetakosningunum 1998. Í mörg skipti var ég nánast á tvöfaldri vakt – bæði á RÚV og Stöð2.

Reyndar stendur þannig á hjá mér að ég veit ekki hvort ég fylgist með vökunni.

En burtséð frá því, þá er kannski kominn tími á þetta.