Archive for the ‘Spjall’ Category

Ég sé að ég kem við sögu í grein sem Guðni Elísson prófessor við HÍ skrifar. Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé skrifað sem fræðigrein við HÍ. Gott ef hún birtist ekki líka í tímariti.

Greinin er skrifuð í framhaldi af hreint út sagt ótrúlegu máli þar sem félagsskapurinn Vantrú (þar sem ég er meðlimur) sendi Siðanefnd HÍ erindi vegna kennsluefnis. Málið er allt með ólíkindum en ég taldi þessu nú reyndar lokið því HÍ reyndist getulaus til að fjalla um málið og því var að lokum hent út af borðinu án umfjöllunar. Reyndar er Egill Helgason skotspónn greinarinnar að miklu leyti vegna einnar, til þess að gera saklausrar, færslu um málið.

Ég geri ráð fyrir að Vantrú birti ítarlega svargrein en get ekki stillt mig um að nefna nokkur atriði. Ég er reyndar á því – eftir ágætt spjall við viðkomandi kennara – að það sé ekki svo mikið við hann sjálfan að sakast heldur sé það fyrst og fremst guðfræðideild HÍ sem beri ábyrgðina.

Áður en lengra er haldið verð ég að fá að nefna hversu skondinn titill greinarinnar er. „Í heimi getgátunnar“. Í heimi getgátunnar, já. Einmitt. Það er nefnilega svo skemmtileg kaldhæðni að auðvitað byggja trúarbrögðin alfarið á getgátum. Guðfræðideildin er eina deild Háskólans sem á tilvist sína alfarið undir getgátum. Fyndið. Eða grátbroslegt, réttara sagt.

Grein Guðna er nokkur langhundur, rökvillurnar ansi margar, fullyrðingar margar hverjar vafasamar og út í loftið. Þá bætir það ekki skrifin að fljótt á litið virðist meira lagt upp úr magni en gæðum.

Mér finnast skýringar Guðna sem sagt ekki mikils virði, þær virka á mig sem eftir-á-tilbúningur og yfirklór til að fegra vondan málstað – rökin bæði veik og langsótt.

Guðni gerir okkur meðlimum Vantrúar upp skoðanir og segir okkur til dæmis líta á nemendur sem viljalausar strengjabrúður og fylgir eftir með dramatískri lýsingu. Hann færir reyndar engin rök fyrir þessari fullyrðingu né öðrum á svipuðum nótum og bendir ekki á neitt þessu til stuðnings. Þetta eru órökstuddar getgátur Guðna og ég get staðfest að þær eru út i bláinn. Er eðlilegt í fræðigrein að vera að „fabúlera“ svona? Guðni gagnrýnir félagsmenn svo fyrir þessar skoðanir sem hann er búinn að gera þeim upp. En það sem verra er, jafnvel þó hann hefði rétt fyrir sér þá kemur það málinu nákvæmlega ekkert við, kennsluefnið breytist ekkert við það.

Guðni leggur áherslu á bréf sem nemendur fengu sent eftir umfjöllunina þar sem kennarinn bendir nemendum á að skoða málið sjálfir. Og nei, ég er ekki að grínast og þetta er ekki misskilningur hjá mér.. bréfið var sent eftir á! Mér þykir ekki ólíklegt (án þess að vita) að þetta hafi verið sent í kjölfar ábendinga um hlutdræga umfjöllun og virkar að minnsta kosti á mig eins og frekar dapurt yfirklór eftir á… Enda breytir þetta engu, það að benda nemendum á að kynna sér málið sjálfir fríar kennara að mínu viti ekki frá því að stunda vönduð vinnubrögð og gæta hlutleysis.

Þá vísar Guðni í að við horfum fram hjá jákvæðum vitnisburði nemenda. Aftur er engin leið að átta sig á um hvað Guðni er að tala því hann nefnir ekki einu orði hvaðan hann hefur þetta, fullyrðingin virðist gripin úr lausu lofti, hugsanlega hrein og klár óskhyggja – eða einfaldlega „getgátur“. Er þetta í lagi í fræðigrein að koma með svona órökstuddar fullyrðingar? Ég velti fyrir mér hvort einhver könnun gerð áður en Vantrú sendi sitt erindi? Guðni segir jú að við horfum fram hjá þessu þegar við sendum inn kæruna. Þá hljóta upplýsingar að hafa legið fyrir áður. Eða áttum við, áður en við sendum erindið, að taka tillit til upplýsinga sem komu fram eftir að við sendum það inn? Jafnvel þó rétt væri er þetta nú ekki mikils virði, því þarna er jú að miklu leyti fólk sem ætlar sér að lifa á getgátum guðfræðinnar. Hann vísar reyndar í að hluti þeirra séu trúlausir, aftur hef ég ekki grun um hvaðan hann hefur þessar upplýsingar eða hvaða máli þetta ætti að skipta. En þar fyrir utan, teljast það virkilega að vera góðir og gildir kennsluhættir að birta nemendum mjög neikvæða og hlutdræga mynd af einhverju og ætlast til að þeir fari sjálfir og komist að því að um kolranga mynd er að ræða? Hversu margir nemendur ætli hafi haft frumkvæði og tíma til eigin rannsókna? Þeir sem ekki gerðu það hafa jú engar forsendur til að segja annað en að þetta hafi verið „allt-í-lagi“, þeir hafa jú engar aðrar upplýsingar en þær sem komu fram. Það má nefnilega ekki gleyma því að athygli var vakin á þessu af nemendum sem fannst umfjöllunin engan veginn í lagi, bæði á glærum og í tímum.

Sama gildir um greinargerðir akademískar sérfræðinga. Guðni nefnir ekkert um hvaða greinargerðir þetta eru, hverjir voru valdir til að skrifa þessar greinargerðir eða á hvaða forsendum. Aftur er Guðni að fullyrða eitthvað sem enginn fótur virðist fyrir, kannski getgátur að hætti hússins. Hann skammar Vantrú fyrir að taka ekki mark á þessum greinargerðum. Áður en erindi var sent inn. Voru akademískar sérfræðingar búnir að taka út kennsluefnið áður en Vantrú sendi inn sitt erindi. Eða átti Vantrú að taka tillit til greinagerða sem ekki voru unnar fyrr en eftir að erindið var sent? En kannski skiptir mestu að þeir hafa ekki fært nein rök fyrir því hvers vegna efnið á að hafa verið í lagi. Siggi-í-kaupstaðnum-segir-það eru auðvitað marklaus rök.

Þá er skemmtileg (eða réttara sagt, skelfileg) hringrás í rökum Guðna. Hann ætlar að sýna fram á að efnið sé í lagi. En til þess notar hann þær forsendur að efnið hafi verið í lagi! Hann tekur aðeins mark á þeim fræðimönnum sem fullyrða að efnið sé í lagi, án þess þó að tilgreina hverjir það eru. Þeir fræðimenn sem gera athugasemdir við efnið eru hins vegar afskrifaðir á þeim forsendum að þeir hafi rangt fyrir sér, vegna þess að efnið hafi, jú verið í lagi. Jafnvel fullyrðir Guðni að þeir sem gerðu athugasemdir við efnið hafi ekki kynnt sér það nægilega vel. Þetta gerir Guðni án þess að geta nokkurra heimilda eða birtir nokkrar forsendur fyrir fullyrðingunni, enn einu sinni hljómar þetta eins og getgátur hans. Það eina sem hann nefnir er kannski það að þeir séu ekki sammála fyrirfram gefinni niðurstöðu.

Stór hluti greinar Guðna fer í að verja glæru (33) með fullyrðingum sem eru bæði villandi og meiðandi. Viðkomandi kennari hefur í ritdómi á öðrum vettvangi gert þessar skoðanir að sínum. Hann hefur einnig staðfest að þetta séu hans skoðanir á enn öðrum vettvangi, tekur þar reyndar fram að þær séu það „að hluta“. Á glærunni eru engir fyrirvarar settir, hvergi kemur fram að þetta séu umdeildar skoðanir.. þetta eru einfaldlega fullyrðingar.

Guðni telur að við höfum ekki skilið samhengi eða tilgang glærunnar. Fyrir það fyrsta segir Guðni að þarna séu algengar skoðanir um harðlínutrúleysi. Ég hef að minnsta kosti verið trúlaus lengi, fylgst ágætlega með umræðum um trúleysi og ég get fullyrt að þetta eru ekki algengar skoðanir á trúleysingjum. Eða á hverju er þessi fullyrðing byggð? Getgátur Guðna? Aftur vantar heimildir og stuðning fyrir fullyrðingum sem settar eru fram. Og, nei, það nægir ekki að einhverjir örfáir sérvitringar í guðfræði haldi fram einhverjum skoðunum til að þær teljist „algengar“.

Þá segir Guðni að námskeiðið sé „átakamiðað“ eðli málsins samkvæmt en færir ekki hann rök fyrir því frekar en svo mörgu öðru. En ég get ekki séð neitt í eðli málsins sem krefst þess að það sé átakamiðað? Er það kannski regla í guðfræðideild að námskeið séu „átakamiðuð“? Væri þá ekki rétt að leggja grunninn að þeim „átökum“ með fullyrðingum sem standast einhverja skoðun og hafa eitthvert vægi?

Þá segir Guðni að viðkomandi glærur hafi verið ætlaðar til að hvetja til umræðu. Þetta er óneitanlega sérkennileg skýring, ef ekki alveg fráleit. Það væri auðvitað miklu nærtækara, ef hugmyndin væri að hvetja til umræðu, að kynna þetta sem órökstuddar öfgaskoðanir, sem þær eru, kynna á sömu glæru aðrar skoðanir, aðallega hófsamar og kannski málefnalegar.

Er það virkilega grundvöllur til umræðu að kynna eingöngu órökstuddar öfgaskoðanir? Eru þær ekki fullkomlega verðlaus grunnur að málefnalegri umræðu?

Þannig er ég er enn frekar sannfærður en áður um að þessi framsetning er engan veginn í lagi. Það nægir að benda á hversu fráleit sambærileg glæra væri ef hún fjallaði um stjórnmál eða jafnrétti kynja eða í rauninni hvað sem er annað en trúleysi.

Og svo má ekki gleyma einu lykilatriði. Jafnvel þó svo að hægt væri að verja innihald viðkomandi glæru með því að benda á „eitthvað annað“ þá var einfalt svar við erindi félagsins. Það hefði augljóslega mátt breyta glærunni (og öðrum glærum) jafnvel bæta við öðrum þannig að samhengið og hugmyndin væru skýr. Þannig hefði verið einfalt að loka þessu máli og enga lögfræðinga eða ófrægingarherferð hefði þurft til. Og kennarinn hefði staðið uppréttur eftir og meiri maður fyrir vikið.

Guðni gerir svo mikið úr því að siðanefnd hafi ekki talið ástæðu til að skoða málið frekar. Hann skautar yfir að siðanefnd skoðaði ekki málið og hefur því engar forsendur til að meta hvort erindi Vantrúar átti rétt á sér. Og öllu verra er að hann nefnir hvergi að tvær siðanefndir HÍ töldu málið vel þess virði að skoða og reyndu að ná sáttum. Þær nefndir gáfust upp eftir mikinn hamagang lögfræðinga þar sem því var haldið fram að viðkomandi siðanefndir hafi verið vanhæfar? Hvers vegna? Jú, vegna þess að þær tóku mark á bréfi forseta guðfræðideildar þar sem hann sagði að viðkomandi kennari vildi að guðfræðideild svaraði fyrir hann í þessu máli. Síðan var siðanefnd talin vanhæf af kennara vegna þess að ekki hefði verið haft samband við hann og honum gefinn kostur á andmælum. Sem hann fékk reyndar að senda inn… þessi skollaleikur varð til þess að viðkomandi siðanefndir gáfust upp. Að lokum var skipuð einhver siðanefnd sem afgreiddi málið án þess að skoða leiðir til sátta eins og undantekningarlaust hafði verið venja siðanefnda fram að þessu.

Og nei, ég ætla ekki að leyfa athugasemdir við þessa færslu. Mér var ekki boðið að gera athugasemdir við grein Guðna. Og held að ég láti þetta nægja um þetta leiðindamál. Vonandi þarf ég aldrei að fjalla um þetta aftur.

PS. Ég fékk undarlega athugasemd í spjallþræði þar sem þessari færslu var fundið allt til foráttu á þeim forsendum einum að ég vísaði ekki í tengil á upphaflega grein Guðna. Titill greinar og nafn höfundar er auðvitað nægjanlegt hverjum sem er sem hefur lágmarksþekkingu, en fyrir hina þá er hér tenging í grein Guðna.

Týndur í heimi getgátunnar

Posted: október 30, 2013 in Spjall, Umræða

Ég virðist algerlega týndur í heimi getgátunnar. Sem betur fer kom háttsettur starfsmaður háskóla nokkurs vitinu fyrir mig.

Nú nýlega var nefnilega brotist inn til mín og alls kyn óhróður skrifaður með úðabrúsa á veggina heima, reyndar bæði innanhúss og utanhúss. Ég sá mann á vappi fyrir utan húsið sem ég kannaðist ekki við en var auðþekkjanlegur. Ég hafði brugðið mér afsíðis smá stund en þegar ég kom fram aftur var viðkomandi að ganga út um svaladyrnar sem höfðu greinilega ekki verið nægilega vel læstar. Ég sá hann reyndar ekki með úðabrúsa í höndunum enda sá ég aðeins andlitið.

Fyrir tilviljun bankaði upp á hjá mér einstaklingur sem ég vissi að var vel metinn innan háskólasamfélagins og er prófessor við einn af háskólum landsins. Ég sagði honum farir mínar ekki sléttar og bað hann að doka við á meðan ég hringdi til lögreglunnar og tilkynnti verknaðinn.

Hann stöðvaði mig strax og benti mér á að ég væri að velta mér upp úr tómum getgátum. Það gæti allt eins verið einhver annar hafi komið inn á undan þeim sem ég sá og hefði sá krotað á veggina. Ég muldraði eitthvað um að þetta væru nú ekki líkleg skýringar, ekkert benti til annars en að viðkomandi hefði verið á ferðinni enda engar aðrar mannaferðir hefðu verið nálægt húsinu, húsið væri allt útkrotað og aðrar skýringar því varla mögulegar. Þá hringdi nágranni og sagðist hafa mætt manni sem passaði við sömu lýsingu á leiðinni frá húsinu með úðabrúsa í hendinni. Prófessorinn taldi það litlu breyta, hann hefði allt eins getað verið bara getað verið í gönguferð með úðabrúsann sinn.

Aftur vildi ég nú samt hringja og tilkynna skemmdirnar og benti á að það kæmi þá í ljós við rannsókn ef aðrar og eðlilegar skýringar væru fyrir hendi, enda fengi viðkomandi tækifæri til að skýra mál sitt.

En prófessorinn aftók þetta með öllu. Hann sagði að ég lifði í heimi getgátunnar og ætti ekki að vera að gefa mér eitthvað þegar aðrar skýringar væru alveg mögulegar.

Ég þakkaði honum fyrir, hætti við að hringja og sat eftir með útbíað húsið, alveg laus úr heimi getgátunnar.

PS. nei, það var ekki í alvöru brotist inn til okkar, þetta er dæmisaga.

Ráðstefna í Boston

Posted: október 25, 2013 in Spjall
Efnisorð:,

Við Jón Eyfjörð mættum á ráðstefnu hjá The DataWarehouse Institution í Boston, aðallega fyrirlestrar um vöruhús gagna og viðskiptagreind.

Iðunn og Jóhanna komu með og við náðum nokkrum dögum með okkur í Boston fyrir ráðstefnuna sjálfa. Virkilega gaman að vera með þeim og ég held að Iðunn og Jóhanna séu farnar að skipuleggja næstu ferð.

Ég kann ágætlega við mig í Boston þó ég hafi ekki kynnst borginni mikið á fáum dögum. Það var reyndar gaman að fara „innansveitar“ leið til næsta bæjar á föstudeginum. Mikið af smárekstri út um allt, dekkjaverkstæði, snyrtistofur, bankar, bifreiðaverkstæði, bakarí.. allt frá nítján-hundruð-og-fimmtíu-og-eitthvað. Og önnur hver bygging var kirkja, hver af sinni tegund, ég fékk á tilfinningunni að þarna væru vel yfir hundrað söfnuðir.

Við kíktum sem sagt einn dag til Wrentham þar sem ku vera ódýrt að versla. Ég væri að skrökva ef ég segði að það væri það skemmtilegasta sem ég geri. Kemst ekki einu sinni á topp 100 hjá mér. En við náðum að klára nánast alla jólagjafaverslun – og vel þess virði að fórna einum degi í það.

En við vorum mjög heppin með veitingastaði. Eða réttara sagt, Jón þekkir vel til og valdi vel… og þegar því sleppti þá fylgdum við góðum ráðum frá Góu frænku. Japanski Douzo, franski Deuxeve, ítalski Erbaluce, steikarstaðurinn Grill 23 og Stephanies voru allir í fyrsta klassa. Indverski Kashmir og mexíkóski Cactus Club voru alveg yfir meðallagi en ekkert meira.

Svo var skemmtileg viðbót að hitta Kára (Indriðason), sem spilaði á gítar með okkur Helga fyrir þrjátíu árum… við náðum einu virkilega góðu kvöldi, eftir að Jón og megnið af Landsbankahópnum voru farin heim.

Svo er alltaf smá hughreysting að vera beðinn um skilríki á bar þar sem stendur skýrum stöfum að þeir sem líta út fyrir að vera 30 ára eða yngri verði að sýna skilríki.

Og, já, fyrir minn smekk var gaman að finna Cigar Masters – vindlabúð þar sem fólk (tja, aðallega karlar) situr inni og reykir stóra eðal vindla.

Var eitthvert gagn að ráðstefnunni? Já, já.

Boston-1-litil

Grafíkin kvödd

Posted: september 11, 2013 in Spjall

Ég datt fyrir tilviljun inn í vinnu við sjónvarpsútsendingar vegna kosninganna 1986, ég var þá að vinna hjá VKS og hafði talsverðan áhuga á kosningum og öllu sem þeim fylgdi. Þetta var fyrsta kerfið sem ég vann við og var tengt grafík, þó Daði hafi nú séð um alla forritun fyrir grafíkina. En við sáum um kosningakerfi RÚV næstu árin og eftir að ég fór að vinna sjálfstætt 1992 datt ég inn í grafík vinnu fyrir íþróttadeild RÚV. HM95 var svo stórt verkefni og smám saman bættust við fjölbreytt verkefni, bæði hjá Stöð2, Skjánum (og fleiri) og kosningarnar komu aftur inn á borð. Aðrar tegundir af þáttum bættust við, fréttir, skemmtiþættir og spurningaleikir. Frá 1997-2006 vann ég þetta á vegum Kuggs, en síðan ýmist Símanum, ANZA eða Staka.

Síðustu sjö árin hef ég mætt reglulega á IBC sýninguna í Amsterdam, en henni fylgir óneitanlega skemmtileg stemming í frábærri borg. Um tíma höfðum við nokkurn metnað fyrir að sjá um þjónustu við ýmiss konar grafískan hugbúnað og jafnvel fleiri kerfi fyrir rekstur sjónvarps. Hugmyndin var að kannski væri einfaldara fyrir innlenda aðila að hafa eitt fyrirtæki hér á landi sem gæti séð um að þjónusta kerfin, frekar en að bæði fyrirtækin væru að sjá um þjálfun, eða þá að kaupa þjónustuna að utan í hvert skipti.

Smám saman hefur verkefnum fækkað, RÚV sér orðið um íþróttagrafíkina og Stöð2 hefur sótt þjónustu beint fyrir íþróttakerfin, þó við höfum aðeins komið að þeirri vinnu. Stöð2 hefur að mestu hætt útsendingum á kosninganótt eða þá notast við eigin kerfi. RÚV ákvað svo að fara aðrar leiðir við útsendingu vegna kosninganna í vor. Aðrar hugmyndir um tengd verkefni virkuðu spennandi í upphafi og lofuðu góðu gengu ekki eftir, eða hafa að minnsta kosti ekki gert enn. Þegar við bætist að það er meira en nóg af öðrum verkefnum þá er þessu eiginlega sjálfhætt. Fyrir utan nú kannski að það er ekkert endilega kostur að festast í svona verkefnum.

En þetta hafa óneitanlega verið skemmtileg verkefni, oftast unnin í törn og miklu álagi og í talsverðri tímapressu. En á móti kemur að oftast er þeim lokið eftir útsendingu. Þá má ekki gleyma öllu því skemmtilega fólki sem ég hef kynnst og hefur verið gaman að vinna með – í sumum tilfellum höfum við haldið sambandi löngu eftir að verkefnum lauk. Á móti kemur að svona vinna sem unnin er í miklum törnum er oftast unnin utan hefðbundins vinnutíma og einhvern veginn var ég alltaf meðvitað eða ómeðvitað á „bakvakt“. Ég hefði svo kannski kosið að staðið hefði verið öðru vísi að ýmsum breytingum en það þýðir svo sem ekki að fást um það eftir á…

Skoðanir og skætingur

Posted: september 6, 2013 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

Ég hélt úti bloggi á Eyjunni í nokkurn tíma en gafst upp á að halda úti gagnrýninni umræðu þegar dómstólar gengu ítrekað freklega á málfrelsi. Ég hætti að skrifa á Eyjunni þegar þeir höfnuðu stuðningi við eitt málið.

Ég fór að skrifa smá fréttir hér, hef smám saman færst yfir í að lýsa skoðunum aftur.

Vandamálið við að lýsa óvinsælum skoðunum er að það eru allt of margir sem afgreiða skoðanir með skætingi og því að láta mig fá það óþvegið, persónulega.

Það er ekkert að því að vera ósammála mér, ég fagna málefnalegri umræðu, get vissulega verið þrjóskur, en tek nú rökum. Stundum eru þetta meira að segja vangaveltur sem ég er ekkert allt of viss um sjálfur, en hef áhuga á umræðunni

  • Ef ég bendi á að klámvarnir séu illframkvæmanlegar og heimskulegar þá er ég bandamaður klámhunda, ef ekki útsendari klámbransans.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun, og færi sterk rök fyrir, að verðtrygging sé ekki vandamál, hendur birtingarmynd raunverulegra vandamála, þá fæ ég hrinu yfir mig eins og að ég sé varðhundur einhverra.
  • Ég er sakaður um einelti ef ég tek þátt í því sem mér þykir málefnaleg umræða, bara vegna þess að ég er ekki sammála þeim sem ákveður að lýsa sig fórnarlamb eineltis.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun að trúlausir eigi rétt á að vera í friði fyrir trúboði, þá er ég að ráðast á trúaða, jafnvel takmarka mannréttindi þeirra.
  • Ef ég lýsi þeirri skoðun minni að það sé siðferðilega rangt að dreifa efni í leyfisleysi þá er þarf ég að sitja undir miður fögru umtali.
  • Ef ég vil klára umræður við ESB þá liggur við að ég sé kallaður landráðamaður.
  • Sama gilti um IceSave, ég nenni ekki að rifja upp uppnefnin sem fylgdu þeirri afstöðu.
  • Ef ég gagnrýni heimskuleg ummæli þingmanns þá er ég að taka þátt í herferð gegn henni.

Það er eiginlega ekki þess virði að hafa skoðanir, amk. ekki óvinsælar. Það eru öll önnur ráð en málefnaleg umræða notuð.

Það kemur kannski ekki á óvart að þetta séu viðbrögð eldri kynslóðar stjórnmálamanna. En ég gæti næstum því grenjað yfir því að sjá nákvæmlega sömu aðferðafræði hjá ungu kynslóðinni.

Alvöru nudd á Seltjarnarnesinu

Posted: ágúst 31, 2013 in Spjall

Frekar rólegur dagur, byrjaði í nuddi hjá Öggu Hrönn í Sundlauginni á Seltjarnarnesi.. og það var sko ekkert hálfkák heldur hressilega tekið á því – alvöru nudd, eitt það albesta og hef ég þó farið víða. Kíkti aðeins á frekar leiðinkega seinni hluta leikjanna í ensku deildinni á English Pub, ætlaði að líta við á Hamraborgarhátíðinni, en annað hvort stóð hún stutt, eða var frekar fámenn.

Samsærisæsingurinn

Posted: júlí 6, 2013 in Spjall, Umræða

Mér varð það á að benda á skemmtilega grein á Facebook í gær 8-clues-your-friend-is-becoming-a-crazy-conspiracy-theorist þar sem nefnd eru til sögunnar nokkur atriði sem geta hringt viðvörunarbjöllum um að einhver sé að detta í pytt samsæriskenninga. Ekki svo að skilja að ég sé sammála hverju orði, ég bendi oft á eitthvað sem mér finnst skemmtilegt án þess að líma mig við hvert orð.

Ég fékk ansi langan reiðilestur til baka frá áhugamanni um samsæri. Ekki í frásögur færandi í sjálfu sér. Gífuryrðin eru ekkert nýtt fyrir mér frá þeim sem hafa þörf fyrir að sannfæra mig um tilvist samsæra, það er einhvern veginn eins og þeir haldi að ég kaupi frekar rökstuðning ef honum er drekkt í dónaskap! „samsærishálfviti“, „páfagaukatuð“, „barnalegu“, „andstyggilegan“, „drulla yfir þá sem eru ósammála“, „fullkomin hræsni af þér“, „ömurlega heimskulega“, „skammarlegt“, „ojbara“  eru nokkur dæmi af handahófi.

Svo voru mér gerðar upp fleiri, fleiri skoðanir sem ég hef aldrei haldið fram… og húðskammaður fyrir þær. Ekki í fyrsta skipti sem ég fæ þannig meðferð frá þeim sem vilja sannfæra mig um eitthvert samsærið.

Í greininni er hvergi haldið fram að þau átta atriði sem tilgreind eru eigi við alla samsærissinna, aðeins bent á nokkur möguleg dæmi sem einkenna suma, vísbendingar um að einhver sé hallur undir samsæriskenningar. Stór hluti af reiðilestrinum fór í að býsnast yfir að verið væri að gera lítið úr, og dæma, alla sem trúa á samsæri. Það er hvergi gert í þessum texta. Samt fékk ég til baka „alhæfingar um hvað „allir samsærissinnar segja“. Í gæsalöppum.

Svo fór ansi mikill hluti af textanum í að halda því fram að átt væri við  „heimskingjana úr grunnskólanum“, í gæsalöppum. Viðkomandi texti kemur hvergi fyrir í greininni en talað er um að einhver sem við höfum unnið með eða verið með í skóla, án þess að gera greind viðkomandi á skóla- eða vinnuárum að umtalsefni – og síðan „..trying to pretend that they are some kind of intellectual who is totally going to school you on “how things are in the world.“ – I hate to say this, but it’s true. It’s always the dumb ones)

Hvers vegna er ég að gera þetta að umtalsefni? Er þetta ekki bara smá misskilningur og fljótfærni í „réttlátri“ reiði??

Vegna þess að þetta er ekki í fyrsta eða annað sinn – ekki einu sinni hundraðasta – sem ég verð vitni að því að hugur samsærissinna starfar svona. Gífuryrði, viðmælanda gerðar upp skoðanir og reynist svo byggt á misskilningi. Auðvitað alls ekki alltaf, svo það sé á hreinu, en allt of oft.

Margar, en ekki allar, samsæriskenningar eru nefnilega studdar sömu rökleysunum, virðast byggja á jafn samhengislausri hugsun og styðjast við sama takmarkaða skilninginn á texta sem vísað er til. Þegar talsmenn málsstaðar gera sig ítrekað seka um jafn mikið getuleysi til að vinna úr upplýsingum, rjúka upp til handa og fóta án þess að skoða og hugsa málið… þá smám saman missi ég alla trú á getu viðkomandi til að vinna úr upplýsingum. Fyrir mér verður hann marklaus hávaðaseggur. Því miður.

PS. svo það sé á hreinu.. (1) þetta gildir ekki um alla sem trúa einhverju samsæri (2) ég er ekki að útiloka öll samsæri, stundum hef ég einfaldlega ekki hugmynd um hvað er satt og rétt, en kaupi annski kekki samsæriskenningu vegna þess að rökin eru ekki nægilega sterk..

PPS. ég ætla að loka á athugasemdir, legg ekki í fleiri athugasemdir á þessum nótum

2012

Posted: janúar 2, 2013 in Spjall
Efnisorð:

Er ekki við hæfi að renna yfir síðasta ár? Nei, kannski ekki – en ég ætla nú að gera það samt.

2012 var eiginlega alveg ágætt, mikið af góðum stundum með vinum og til þess að gera lítið af leiðindum og þau utanaðkomandi og óviðráðanleg.

Ferðalög til annarra landa voru þau að við Iðunn fórum í 2ja vikna frí til Benalmadena á Costa del Sol og í helgarferð til London, báðar ferðir í sérstaklega góðum félagsskap. Iðunn skrapp svo til Stokkhólms og ég fór á árlega sýningu í Amsterdam.

Við fórum tvær sérstaklega vel heppnaðar ferðir með Sambindinu og ekki voru ferðirnar á Einifell síðri. Annars þurfti svo sem heldur ekki að fara langt – ótal „hittingar“ við ýmis tækifæri, matarklúbbar, Madridarhópur, Goutons Voir, Postular, skírnarveislur, árshátíðir, vinnustaðaskemmtanir og fjölskylduboð voru einstaklega vel heppnuð 2012. Eitt ógleymanlegt brúðkaup og nokkrar útskriftarveislur settu svip sinn líka á árið.

Og ekki gleyma mörgum stórafmælum – Nonni, Helgi, Siggi, Sóley, Sylvía, Hrund & Skarpi – sem fagnað var með eftirminnilegum hætti. Og já, gullbrúðkaup tengdaforeldranna kallaði líka á glæsilega veislu.

Eitt þarf að taka út, útskrift Viktors Orra úr stjórnmálafræði var einn af hápunktum ársins, ekki bara glæsilegt frammistaða, því svona há einkunn hafði ekki verið gefin í stjórnmálafræði frá stofnun deildarinnnar (þó annar félagi hans hafi gert enn betur) heldur er Viktor greinilega búinn að finna sína hillu, ótal verkefni og mastersnám í framhaldinu.

Af íþróttafréttum, ef svo má kalla, þá var gaman að ná loksins að vinna hina margrómuðu Postuladeild í innanhúsfótbolta og við Iðunn byrjuðum að æfa Karate hjá Breiðabliki í byrjun árs og héldum því, að sjálfsögðu, út árið.

Fræbbblarnir spiluðu á nokkrum skemmtilegum hljómleikum, helst kannski að nefna Rokk í Reykjavík 2.0, GogoYoko Extravagansa og Dillon á Menningarnótt. Og svo kom skemmtileg viðbót við tónlistarferilinn þegar ég söng nokkur lög með Bjössa Thor og félögum á Jazz og blúshátíð Kópavogs í Salnum.

Við Fræbbblar gáfum út jólalagið „Ótrúleg jól 2012“ og kláruðum „Judge a Pope just by the Cover“ til útgáfu 1. janúar 2013. Þá fjölgaði vel í hljómsveitinni þegar tveir upphaflegir meðlimir (ja, nánast) gengu aftur til liðs við hljómsveitina.

Og tengt Fræbbblunum, þá var gaman að taka þátt í Popppunkti einu sinni enn, og ekki spillti fyrir að ná sigri í þessari lotu.

Af neikvæðu hliðinni er helst að nefna alvarleg veikindi á tveimur vígstöðvum í vinahópnum, vonandi verður framhald á góðum fréttum á nýju ári.

Og ósvífin framkoma réttarkerfisins við elsta soninn er nokkuð sem ekki verður fyrirgefið.

Svo beitti ég mér fyrir að ekki yrði ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá, en hafði varla erindi sem erfiði í ruglingslegri atkvæðagreiðslu. En það minnir þó á nauðsyn þess að spyrna við sífellt aukinni markaðssókn ríkiskirkjunnar, nokkuð sem virðist ætla að verða langtíma verkefni.

Stallman í Silfrinu

Posted: nóvember 12, 2012 in Spjall, Umræða

Ég var að horfa á viðtal við Richard Stallman í Silfri-Egils. Nú þykist ég vita hver maðurinn er og hafi lesið eitthvað eftir hann – en það má svo sem vera að mig sé að misminna hver sagði hvað.

En ég varð óneitanlega fyrir miklu vonbrigðum með Stallman. Hugmyndir hans og fleiri hafa haft sín áhrif, og í mörgum tilfellum til góðs.

En fyrir það fyrsta ruglaði hann saman opnum og frjálsum hugbúnaði, sem þarf ekki að vera sami hluturinn.

Þá talaði hann ítrekað eins og það að ef ég hefði ekki aðgang að virkni hugbúnaðar þá stjórnaði hann mér en ég ekki honum. Klisjukennt tal og ekki boðlegt. Ég hef aldrei upplifað það að þau verkfæri sem ég nota stjórni mér að neinu leyti þó ég borgi fyrir að nota þau.

Annað er kannski nokkur skonar sjálfhverfa, hann hefur áhuga og skoðanir á því hvernig hugbúnaður á að virka – og getur breytt honum að eigin þörfum. Það er einfaldlega fullt af fólki sem er mjög sátt við að fá hugbúnað „úr hillunni“ og nákvæmlega engan áhuga á að setja sig inn í forritun eða hvernig hann virkar.

Þá má ekki gleyma því að þó opinn hugbúnaður sé að mörgu leyti skemmtileg aðferð – og hentar mörgum verkefnum – þá er þetta engan veginn algilt. Kannski kemur þessu hugsun úr stofnana og háskólasamfélaginu þar sem einhver annar borgar launin. En það að skrifa hugbúnað og fá ekkert fyrir sinn snúð verður auðvitað til þess að það er betra að gera eitthvað annað. Enda er ég nokkuð viss um að heimurinn væri talsvert fátækari af hugbúnaði ef aðeins væri notast við frjálsan og/eða opinn hugbúnað.

Þá fór hann að tala um að það mætti ekki afrita listaverk, svona hálfri mínútu eftir að hann var að skammast yfir að fólk mætti ekki dreifa tónlist að eigin vild.

Nú er ég á því að það vanti betri reglur og lög um höfundarrétt, en það er engin lausn að krefjast þess að allt sé frítt til dreifingar.

Að „pönkast“ í einhverjum…

Posted: september 19, 2012 in Spjall
Efnisorð:,

Ég er alltaf jafn áttavilltur þegar ég heyri fólk tala um að „pönkast“ í einhverjum. Fyrir mér væri þetta spila skemmtilega rokktónlist fyrir viðkomand. Sem er auðvitað mjög jákvætt.

En einhverra hluta vegna virðist þetta vera farið að hafa merkinguna að ónáða einhvern stöðugt og gera honum lífið leitt.

Kannski er þetta komið frá einhverjum sem hefur misheyrt að „bögga“ einhvern.