Archive for the ‘Spjall’ Category

Rétt og skylt að óska Víkingum aftur til hamingju með árangurinn í Evrópu, vel gert og skilar sér í íslenskan fótbolta.

Breiðablik og Víkingur – og kannski KA eitt skiptið – hafa verið í fararbroddi íslenskra liða í Evrópu síðustu árin og árangurinn skilar sé í íslenskan fótbolta, fleiri íslensk lið fá þátttökurétt í Evrópukeppnum og við fáum fleiri leiki.

Kvennalið Breiðabliks var auðvitað fyrst íslenskra liða til að komast í riðlakeppni meistaradeildar Evrópu.

Karlalið Breiðabliks náði svo sögulegum árangri 2023 þegar liðið varð fyrst íslenskra karlaliða til að komast í riðlakeppni Evrópumóts.

Og í fyrra (og reyndar aðeins inn í 2025) náðu Víkingar mjög góðum árangri í breyttu fyrirkomulagi Sambandsdeildar Evrópu.

Það er mikið talað um og mikið gert úr því – aðallega af stuðnings- og forsvarsmönnum Víkinga Smile – að Víkingar hafi náð lengst allra íslenskra lið í Evrópu. En bæði liðin voru reyndar í síðasta áfanga fyrir 16 liða úrslitin, Víkingar vissulega nær því að fara áfram en leið Blika talsvart erfiðari.

Ef við skoðum aðeins tvö síðustu tímabil þá spiluðu bæði liðin jafnmarga leiki í Evrópumótum, Breiðablik vann 7, Víkingar unnu 6. Breiðablik átti talsvert erfiðari andstæðinga, stuðull UEFA á andstæðingum Blika var 336 en Víkinga 136. (Ég veit vel að þessir stuðlar hafa sínar takmarkanir og eru villandi í einstaka tilfelli, en að jafnaði er þetta ágætur mælikvarði og sá mælikvarði sem UEFA notar).

Svo má líka hafa söguna aðeins á bak við eyrað. Liðum og tækifærum hefur fjölgað mjög mikið í Evrópukeppnum síðustu áratugina. Það er eiginlega ekki hægt að bera árangurinn í dag saman við árangur íslenskra liða á síðustu öld. Með því fyrirkomulagi sem var hér áður hefðu Víkingar dottið út í fyrstu umferð og Blikar í fjórðu árið áður.

Ég ítreka að ég er ekki að gera lítið úr árangri Víkinga, en er aðeins að láta trufla mig að mér finnst verið að tala niður árangur Blika.

En þar fyrir utan, hlakka til að sjá bæði lið – og vonandi fleiri – gera enn betur á næsta tímabili.

Nágranninn

Posted: mars 1, 2025 in Spjall
Efnisorð:, ,

Það rifjast upp saga af fjölskyldu í litlu þorpi.

Einn nágranninn, Tinni P., nokkuð vel stæður og þekktur ofbeldismaður, réðist inn til fjölskyldunnar, byrjaði reglulega að ræna og rupla og beita grófu ofbeldi.

Flestir aðrir í nágrenninu reyndu að koma til hjálpar en það var erfitt að eiga við ofbeldismanninn, enda vel stæður og átti nokkra vini í þorpinu, “vini” sem hann hafði undir hælnum.

Af þeim sem reyndu að hjálpa var ein fjölskylda hvað sterkust og gerði þokkalegt gagn. En fjölskyldufaðirinn féll frá og elsti sonurinn, Donni T., tók við.

Donni T. kenndi fjölskyldunni um að ráðist hefði verið á þau. Það væri á þeirra ábyrgð að þorpið myndi mögulega standa í ljósum logum. Það kom reyndar ekki fram hvernig hann komst að þessari niðurstöðu, en hann talaði fjálglega og af mikilli sannfæringu.

Svo fór Donni T. að heimta að fjölskyldan afhenti honum lífeyrisjóði og sparnað allra fjölskyldumeðlima. Donni T. var svo sem ekkert að lofa að koma í veg fyrir að fjölskyldan yrði fyrir frekari árásum og ránum, enda augljóslega fjölskyldunni að kenna að ráðist hefði verið á þau.

Sögusagnir um að Tinni P. hefði upplýsingar um Donna T. voru ekki að hjálpa til.. hvað þá sögusagnir um að Donni T. væri í vinnu hjá Tinna P.

Þegar fjölskyldan afþakkaði kostaboðið að afhenta allan lífeyrissparnaðinn hellti Donni T. sér yfir fjölskylduna, kallaði öllum illum nöfnum, sagði þau vanþakklát og illa til fara.

Annar nágranninn var eitthvað að benda Donna T. á að það væri nú ekki beinlínis fallegt að nýta sér neyð fjölskyldunnar til að sanka að sér eigum þeirra – og það án þess að nokkuð kæmi í staðinn.

Donni T. fór í smábarnafýlu og talaði ekki við þann nágranna aftur…

Áramót

Posted: janúar 1, 2025 in Spjall
Efnisorð:

Gleðilegt ár og takk fyrir margar frábærar stundir á árinu sem var að líða.

Ég er svo sem ekki mikið fyrir að detta í áramótagír, geri til að mynda aldrei áramótaheit… ef mér finnst eitthvað þurfa að breytast þá reyni ég að breyta því án tillits til dagsetningarinnar.

En auðvitað staldra ég við, hugsa til allra góðu stundanna á liðnu ári, sem voru mjög margar í þetta sinn og hugsa aðeins til komandi árs.

Í fyrsta skipti síðan ég man eftir mér (og er að verða 66 ára) er ég ekki spenntur og fullur tilhlökkunar, heldur verð ég að viðurkenna að komandi ár lítur ekkert sérstaklega vel út og margar viðvörunarbjöllur hringja. Jú, vonandi halda kynnin af elsta barnabarninu áfram að gefa, vonandi verður jafn gaman að kynnast því nýjasta og svo hlakka ég til þegar það þriðja kemur í heiminn.

Kannski ekki beinlínis svartsýni og langt frá því að vera einhvers konar þunglyndi, en það eru margar vísbendingar um að árið verði erfitt. Sennilega lítið annað að gera en að taka því sem kemur og bregðast eins vel við og kostur er.

Vonandi hef ég rangt fyrir mér. [nokkuð sem gerist auðvitað sára sjaldan Smile ]

Rosenborgar rökleysan

Posted: ágúst 31, 2023 in Fótbolti, Spjall
Efnisorð:, ,

Ég nefndi í framhjáhlaupi í grein um leik Breiðabliks og KR að mér þætti ekki til fyrirmyndar að keppninautar liðsins reyndu að nýta sér leikjaálag Blika með því að spila fast og leggja leikmenn í hættu. Kannski var þetta ekki meðvitað, kannski sáu liðin tækifæri – en líklegasta skýringin er nú að þetta hafi verið minn misskilningur.

Í framhaldinu hófust umræður við ágæta félaga um hvort það væri íslenskum fótbolta til góðs að stórar fjárhæðir kæmu til íslenskra félaga.

Ég hef svona í mínum gamaldags hugsunarhætti viljað sjá íslenskum liðum ganga vel, sjá íslenskan fótbolta fá tækifæri til að bæta þróun og uppbygginu. Allt hjálpar til við að byggja upp og koma okkur upp á næsta þrep.

Að ég tali nú ekki um að koma upp aðstöðu þannig að íslensk félagslið og landslið séu ekki á endalausum undanþágum til að fá að leika heimaleikina á Íslandi.

Og auðvitað hef ég ákveðnar skoðanir á hvaða félög myndu nýta þetta best.

Það er svo ansi sláandi hversu mikið er staglast á rökleysunni um Rosenborg í Noregi þegar verið er að tala um að það sé ekki „gott“ fyrir íslenskan fótbolta að fá fjármagn til frekari uppbyggingar. Þetta er auðvitað þekkt rökleysa – úr fyrsta hefti rökleysubókarinnar – þeas. taka eitt stakt dæmi og alhæfa út frá því..

Ef einhver vill halda því fram að það sé ekki „gott“ fyrir íslenskan fótbolta að fá inn fjármagn til uppbyggingar þá kalla ég eftir almennum upplýsingum og gögnum sem sýna að fjármagn kemur sér illa fyrir fótboltann í því landi sem það skilar. Ef þær upplýsingar og gögn eru ekki til staðar þá væri ég alveg til í að heyra ekki aftur meira af þessu Rosenborgar tali.

Og á hinn bóginn, ef hægt er að sýna fram á þetta sé skelfilegt fyrir starfið í viðkomandi landi, er þá ekki sjálfgefið að hætta að senda lið í Evrópukeppnir? Eða hætta fyrir riðlakeppni?

Kannski fyrst þurfi nú að skilgreina hvað er „gott“ og hvað er ekki „gott“.

Það sem ég er enn ekki að ná að hugsa eða skilja er, já-ég-myndi-vilja-að-mitt-lið-fengi-svona-peninga-en-það-væri-ekki-gott-fyrir-íslenskan-fótbolta-og-ég-vil-frekar-að-peningarnir-endi-í-öðrum-löndum-en-hjá-keppinautum-míns-félags. Þetta er einhvers konar “ég vil frekar að íslenskur fótbolti staðni og mitt lið geti safnað verðlitlum titlum”. Betra að vera stórt síli í lítilli tjörn en að þora að..

Við bókuðum okkur með góðum hóp fyrir nokkru á villibráðarhlaðborð hjá Silla kokk, sem átti að vera í gær.

En í ljósi þess að faraldurinn var kominn á flug var þetta slegið af en okkur boðið að sækja matinn. Það hentaði reyndar ekki öllum en við þáðum að sækja matinn og nokkrir gesta komu til okkar Iðunnar – ekki margir, öll bólusett, allir í sýnatöku og allir fóru varlega.

Fyrir það fyrsta, þvílíkur matur! Ég greip fyrsta forréttinn og hugsaði með mér, alltaf jafn heppinn, byrja á besta réttinum. En þeir sem á eftir komu voru einfaldlega hver öðrum betri. Fyrsta flokks hráefni, hugmyndarík matreiðsla og framsetningin til fyrirmyndar. Ég er enn, daginn eftir, að „kjamsa“ á sumum réttunum í huganum. Eini gallinn kannski við vorum ekki alltaf klár á hvað var hvað.. en skipti svo sem ekki öllu – matur getur, alveg eins og landslag [hvað svo sem skáldið sagði á sínum tíma] verið mikils virði þó nafnið sé ekki á hreinu.

En ekki síst vil ég þakka Silla og hans fólki fyrir að bregðast við af ábyrgð og finna lausn. Við stýrum ekki alltaf aðstæðum en við stýrum því hvernig við bregðumst við.

Facebook samdráttur

Posted: apríl 9, 2020 in Spjall
Efnisorð:
Ég er ekki til í að hætta á Facebook, mér finnst frábært að fá fréttir af vinum og kunningjum og fólki sem ég kannast lítillega við… oftast fréttir myndi ekki heyra annars.
Þá finnst mér ómetanlegt að heyra af viðburðum, útgáfum og öðrum fréttum af áhugaverðum hlutum.
Ég get alveg haft gaman af að rökræða.
En ég nenni ekki lengur að rífast við fábjána. Við stutta greiningu er nokkuð ljóst að ég eyði allt of miklum tíma í að þrasa við fólk sem tekur ekki rökum, getur ekki unnið úr upplýsingum, veit ekki hvað heimildir eru, skilur ekki aðferðir vísindanna og er í einhverju klappliði fyrir einhverja stjórnmálahreyfingar.. jafnvel í forsvari fyrir þær og/eða að koma sér á framfæri.
En auðvitað get ég að mestu kennt sjálfum mér um. Ég á það (allt of oft) til að gera athugasemdir við fráleitar færslur og ég held áfram að svara furðulegustu athugasemdum.
Ég sem sagt nenni þessu ekki lengur.
Það er ekki svo gott (eða slæmt) að ég sé hættur að tjá mig um allt sem mér dettur í hug að hafa skoðun á.. en ég ætla að færa einfaldar athugasemdir yfir á Twitter og lengri „ræður“ yfir á ‘bloggið’ mitt, þeas. hér.
Á ‘blogginu’ er líka mun þægilegra að halda rökræðum og útiloka röflið.
Svo ég skýri aðeins nánar, þá á ég mjög bágt með að þola að fólk sé að koma núverandi forseta Bandaríkjanna til varnar, þar fer sannanlega getulaust og illa innrætt kvikindi, hættulegur einstaklingur.. svona ef ég held mig við að vera kurteis. Sama gildir um fólk sem telur sig geta haft „skoðun“ á loftslagsmálum. Ekki ætla ég heldur að þola sjálfskipaða veiru- og sóttvarnarfræðinga sem þykjast hafa töfralausnir og kalla þá sem eru í framlínunni þessa dagana öllum illum nöfnum. Ég þarf víst ekki að nefna orkupakkann lengur eða Klausturbárðana.
Ég er ekkert að banna fólki að hafa sínar undarlegu skoðanir, ekki frekar en ég banna fólki að ganga um á skítugum skónum heima hjá sér. En það er ekki í boði að viðra þetta hér á mínum vegg, ekki frekar en að það er í boði að ganga inn heima hjá mér á skítugum skónum.
Þeir sem ekki virða þetta fara einfaldlega af vinalistanum. Það þýðir ekki að mér sé eitthvað illa við viðkomandi og vilji ekki þekkja lengur, ég er ekki til í að fá svona rugl inn á Facebook vegginn minn, þetta er komið svo að þetta er ekki lengur eitthvað til að hlægja að, margt að þessu er einfaldlega stórhættulegt.
Og svo eru nokkur atriði sem ég skal alveg reyna að hafa þolinmæði fyrir en ég geri ráð fyrir að setja ‘unfollow’ á þá sem dæla þessu stöðugt, án þess taka af vinalistanum.
Þetta verður eflaust til að ég dett í gamli-geðstirði-gaurinn flokkinn, en sennilega lítið við því að segja, hvort sem er væntanlega ekki svo fjarri lagi:
  • Ég er frekar þreyttur á leikjum og áskorunum og þrautum, stundum gæti ég haft gaman ef, en mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja ‘deildu-án-skýringa’ áráttuna, þar fer eiginlega síðasta ástæðan fyrir því að hafa áhuga!
  • Ég nenni ekki að svara betli um „like“ og/eða ef-þú-manst-eftir-mér…
  • Þá er er frekar hvimleitt þegar fólk getur ekki komið frá sér einföldum texta án þess að setja á svokallaðan „tuddaflöt“, stóran flöt með feitletruðum texta sem tekur óþarflega mikinn hluta af skjánum og bætir engu við innihaldið.
  • Og svo auðvitað fólk sem er stöðugt að skipa mér fyrir með „ræðið“ og „deilið“… fyrir alla muni, hættið þessari frekju! Ég ræði það sem ég hef áhuga á að ræða og ég deili því sem ég hef áhuga á að deila.
  • Ég var víst búinn að nefna þreytandi gjammið frá þeim sem þurfa stöðugt að verja einhverja pólitíkusa, en sú vísa er seint of oft kveðin.
  • Og áróður fyrir og frá svonefndum ‘sósíalistaflokki’ fer í sérstakan flokk, þeir sem dreifa því fara umsvifalaust á ‘unfollow’.

Flugfélagsstofnendaráðgjöf

Posted: júlí 13, 2019 in Spjall
Efnisorð:,

Eitt ókeypis ráð til þeirra sem eru að hugsa um að stofna nýtt flugfélag.

Ekki svo að skilja að ég sé neikvæður, það er fínt að fá úrval og fínt að hafa valkosti.

En, fyrir alla muni, lærið að minnsta kosti eitt af nýlegu gjaldþroti.

Eflaust voru margar ástæður fyrir nýlegu gjaldþroti.

En mig grunar að ein hafi verið vanmetin.

Það er eflaust hægt að árangri í upphafi með því að keyra upp öðru vísi stemmingu fyrir nýju félagi, nokkrum ódýrum flugsætum, öðrum dýrari og góðri álagningu á alla þjónustu.

En til að svona félag lifi til lengdar þá ímynda ég mér að þjónustan þurfi að vera í lagi, að minnsta kosti ekki fyrir neðan allar hellur.

Ég varð fyrir því óláni að fá nokkrum sinnum afspyrnu vonda þjónustu. Miðað við einkunnir og umsagnir annarra „gesta“ þá var mín reynsla nú ekki beinlínis einsdæmi.

Fyrstu árin reyndi ég að nýta að kaupa ódýr sæti – og ef ekki, þá lét ég mig hafa það að kaupa eitthvað dýrari – og bætti við þjónustu.

Eftir ítrekuð vonbrigði þá var ég svo sem til í að kaupa allra ódýrustu sætin og láta mig hafa það ef hlutirnir voru ekki í lagi, en um leið og ódýrustu sætin voru farin þá leitaði ég annað.

Mig grunar að þannig hafi fleiri hugsað.

Flugfélag sem leggur upp með að selja ákveðinn hluta sæta á mjög lágu verði og önnur á hærra verði getur auðvitað gengið þokkalega.

En þegar enginn vill kaupa annað en allra ódýrustu sætin, þá finnst mér ólíklegt að dæmið gangi upp.

Þannig að – vel meint ábending til þeirra sem eru að hugsa um að stofna nýtt lággjaldaflugfélag – gangi ykkur vel, en ekki koma fram við viðskiptavini ykkar eins og [jæja, læt vera að láta það orð sem mér dettur helst í hug flakka].

 

Gervigreind

Posted: desember 7, 2017 in Spjall, Umræða

Síminn minn vakti mig, hálftíma fyrir pantaða „vakningu“, með því að byrja að spjalla.. benda mér á að það væri heiðskýrt og kjörið að fara í „lautarferð“ (picnic).

Ég var kannski ekki alveg á því í 5 gráðu frosti sem samvarar 12 gráðum með vindkælingu. Hefði jafnvel ekki verið spenntur þó það væri ekki vinnudagur.

Ég ætla manna síðastur að gera lítið úr þeim óþrjótandi möguleikum sem tæknin býður upp á, en að gervigreind sé að fara verða til þess að tækin taki yfir… æ, ég held að við eigum eitthvað í land með að fara að óttast það fyrir alvöru.

Gott og vel, auðvitað á maður ekki að draga of stórar ályktanir út frá einu tilfelli, en þetta á að vera nokkuð „vel til slípað“ og mjög vel prófað forrit.

Hnignun þekkingar

Posted: ágúst 13, 2017 in Spjall, Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Samsæriskenningar eru auðvitað eldgamlar og stöku sinnum hefur meira að segja verið fótur fyrir þeim. En þessi öld hefur að einhverju leyti litast af uppgangi samsæriskenninganna. Ellefti-september bauð auðvitað upp á alls kyns umræður og vangaveltur. Í kjölfarið var eins og margir ánetjuðust samsæriskenningunum… alls staðar voru samsæri, jafnvel þeir sem upphaflega voru fórnarlömb samsæranna voru nú hluti af þeim, þeir sem ruddu brautina (ef svo má að orði komast) voru hluti af einhverju samsæri. Það voru samsæri komin í hvert horn. Hlýnun jarðar var samsæri, að jörðin væri hnöttótt var samsæri, þoturákir á himni voru samsæri, CIA yfirtók heila fólks, Clinton (og ef ekki allur demókrataflokkur Bandaríkjanna) var kominn í barnavændi á pizzustað :), gott ef sami flokkur var ekki farinn að standa að því að láta myrða fólk, erfðabreytt matvæli voru (auðvitað) eitt stórt samsæri, bólusetningar að sjálfsögðu ekkert annað en samsæri – og ef annað var ekki boði þá voru einhverjir tónlistarmenn annað hvort þátttakendur í samsæri eða fórnarlömb [eins og hverjum sé ekki sama].

Þörfin fyrir næsta „fix“ af samsæri var nánast orðin óbærileg og allt var samþykkt möglunarlaust.

Ég er ekki frá því að þetta sé grunnurinn að ákveðinni heimskun kjósenda og þar af leiðandi upphafið að ákveðinni hnignun sem við erum rétt að fá forsmekkinn af.

Brexit og Trump eru fínasta dæmi um þetta. Ekki svo að skilja að þessar kosningar hafi beinlínis flotið á samsærum. En þeir sem unnu keyrðu á rangfærslum og lygum og fönguðu atkvæða þeirra fáfróðu og auðtrúa.

Þannig virðist dómgreind almennings hefur farið aftur, fólk samþykkir fullyrðingar ef þær eru settar fram í dramatískum YouTube myndböndum, „Photoshoppaðar“ myndir eru góðar og gildar, jafnvel hreinar og klárar lygar, hvers kyns dylgjur eru teknar sem staðreyndir, tíst eru staðreyndir, einföld mistök sannanir um yfirgripsmikil samráð, langsóttar tengingar eru endanlegar sannanir, óljósar getgátur góðar og gildar og fullyrðingar á bloggsíðum nefndar til sögunnar sem rök.

Efasemdir, leit að mótrökum, athugun á sannleiksgildi, einföld rökhugsun er látið liggja á milli hluta.

Þessi grunnur fáfræði og trúgirni eru nefnilega það sem hefur kostað okkur að fáfræðin hefur sigrað.

Og ég er smeykur um að þetta eigi eftir að versna.

Smölun

Posted: maí 27, 2017 in Spjall, Umræða
Efnisorð:

„ekkert óeðlilegt við smölun“ er haft eftir formanni samtaka sem smalaði liði til að skrá sig í samtökin og kjósa hann sjálfan sem formann.

Fyrir utan það að viðkomandi „sauðir“ virðast ekki hafa haft getu til að borga félagsgjaldið sjálfir og eingöngu ráðið við þá aðgerð að leggja inn hjá viðkomandi formannsefni. Og fyrir utan það að þeir skráðu sig eftir að tilskilinn frestur var runninn út. Og fyrir utan að hann fékk svo bæði lán og launahækkun og launaða stöðu framkvæmdastjóra eftir kosningu og náði þannig umtalsverðum upphæðum frá félaginu inn á eigin reikning.

Auðvitað ekki „fyrir utan“ neitt af þessu.. þetta er alveg með ólíkindum.

En punkturinn með þessari færslu er smölunin og hversu galin þessi hugsun er að það sé ekkert óeðlilegt við hana. Þetta eru samtök neytenda og þeir sem hafa verið meðlimir, greitt sín árgjöld og tekið þátt í starfi samtakanna kjósa sér formann, formann sem er fulltrúi viðkomandi félaga og andlit þeirra út á við í þessu starfi. Þess vegna er það fullkomlega fráleitt að fólk sem hefur ekki verið meðlimir, ekki tekið þátt og ekki greitt til samtakanna mæti upp úr þurru til að ákveða hver er fulltrúi félaganna.

Kannski er viðkomandi að spila einhvern leik þar sem hann telur að nægilegt sé að staglast á einhverri vitleysu nógu oft til að vitleysan teljist gott og gilt sjónarmið. Kannski hefur hann hvorki siðferðis- né sómatilfinningu. Kannski er hann einfaldlega ekkert sérstaklega greindur. Hvað veit ég? Jú, ég veit að smölun er fullkomlega óeðlileg við formannskjör í svona samtökum.

Ég vil reyndar að fara fram á það við formanninn að hann staðfesti að þessir aðilar hafi lagt inn á bankareikning hans fyrir fundinn með því að leggja fram staðfest bankayfirlit.