Archive for the ‘Samfélag’ Category

Leiðir skilja við Pírata

Posted: nóvember 29, 2025 in Samfélag, Stjórnmál
Efnisorð:,

Þá á ég ekki lengur samleið með Pírötum..

Þetta hefur reyndar verið sérstakt samband, hreyfingin varð til í einfeldningslegri og beinlínis hættulegri baráttu gegn höfundarrétti – ég reifst talsvert við marga liðsmenn á sínum tíma.

En þrátt fyrir nafnið þá fjaraði þetta út – eftir stóð barátta fyrir heiðarlegum stjórnmálum, gagnsæi, mannréttindum og nýrri stjórnarskrá. Allt hlutir sem mér fundust mjög mikilvægir. Ekki spillti hversu öflugir einstaklingar voru í starfi og framboði fyrir Pírata (best að nefna engin nöfn, ég myndi gleyma einhverjum sem ætti skilið að ég nefndi).

En í dag var Alexöndru Briem hafnað í formannskjöri. Ekki ætla ég að láta eins og það skipti ekki máli að Alexandra er dóttir mín en það er ekki aðalatriðið.

Það sem ég get ekki sætt  mig við er að Alexandra hefur verið ótrúlega dugleg að vinna að stefnu flokksins, óþreytandi að starfa innan félagsins, sívinnandi fyrir kosningar að styðja frambjóðendur – hvort sem hún var sjálf í framboði eða ekki.

Og Alexandra hefur unnið mjög vel í borgarstjórn Reykjavíkur síðustu kjörtímabil, ekki auðvelt starf og auðvitað ekki hægt að gera svo öllum líki – en ég held að ég geti fullyrt að hún hafi verið vel liðin af samherjum, andstæðingum og samstarfsfólki.

Píratar eru í vandræðum, eftir slaka kosningu fyrir ári síðan.

Ég held að dagar Pírata séu taldir ef þetta er hugarfarið, vanþakklæti og vantraust eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann.

Mögulega væru Píratar ekki í vandræðum ef þeir sem töldu rétt að taka þátt í að kjósa formann hefðu verið virkir í starfi flokksins.

Eru þjóðir til?

Posted: nóvember 27, 2025 in Samfélag, Umræða
Efnisorð:,

Mér var fyrir löngu bent á þá ágætu reglu að spyrja ekki spurningar ef svarið skipti ekki máli.

Ég sé að það er að spretta upp einhver kynþáttahyggja og henni tengd “rasismi” sem snýr að mikilvægi þess að vera Íslendingur og vernda íslensku þjóðina fyrir “utanaðkomandi” áhrifum.

Það vefst hins vegar yfirleitt fyrir þessum talsmönnum að skilgreina hvað það er að vera Íslendingur, oftast sýnist mér skilgreiningin miða við það sem hentar hverjum og einum!

Grunnurinn virðist vera á að fólk þarf að geta rakið ættir sínar í báða leggi, sem lengst aftur í tímann, helst til þeirra sem námu hér land. Hversu langt aftur þarf að fara virðist takmarkast við stöðu hvers og eins..

Nú veit ég ekki hversu mikil blöndun hefur verið hér, Írar, erlendir sjómenn, þrælar sem voru sóttir, fólk sem settist hér að á síðustu öld, fólk sem fæddist erlendis – svo eitthvað sé nefnt.

En ef skilgreiningin er að vera beinir afkomendur norskra landnema, eru þeir þá ekki Norðmenn frekar en Íslendingar?

Og Íslendingar þá ekki til?

Og ef við færum þá skilgreiningu yfir aftur á Norðmenn þá eru þeir heldur ekki til. Né nokkur önnur þjóð ef út í það er farið.

Hvar eru allir…?

Posted: september 20, 2025 in Samfélag
Efnisorð:

Nú er ég ekki mikið fyrir samsæriskenningar, tek þeim yfirleitt með nokkuð miklum fyrirvara og er gjarnan leiðinlegi gaurinn sem vill staðfestar upplýsingar, staðreyndir og gef ekki mikið fyrir ábúðarfulla þuli að röfla samhengislaust með dramatískri tónlist og myndskreytingum á JútJúb, hvað þá grautarlegar samfélagsmiðla færslur.

En svo eru vangaveltur um að pakkið sem situr að völdum í appelsínu gula húsinu vestanhafs hafi fórnað einum af sínum til að fá tylliástæðu til að ráðast gegn pólitískum andstæðingum með ofbeldi og mannréttindabrotum.

Nú gildir sama um þessar kenningar og aðrar, ég þarf miklu meira af staðfestum upplýsingum áður en ég geri ráð fyrir að þetta sé rétt.

En ef ég ætti að raða samsæriskenningum síðustu áratuga eftir “líklegheitum” þá færi þessi nú ofarlega, jafnvel efst, á listann.

Það hefur auðvitað sýnt sig margsinnis að þetta lið er hamslaust í valdagræðgi og ófyrirleitið þegar kemur að meðulum til að ná markmiðum sínum.

Þau hafa áður ítrekað leitað í smiðju þeirra sem kveiktu í síðustu heimsstyrjöldum og alveg eins líklegt að fleiri fyrirmyndir séu sóttar þangað.

Jafnvel þegar staðfest er að gerandinn er “einn af þeim” heldur stefnan ótrauð áfram við að ráðast gegn mannréttindum, lífi og limum pólitískra andstæðinga.

Auðvitað má setja spurningu við hvers vegna þau véluðu ekki einn úr röðum andstæðinga sinna til að taka að sér verkið.

Svarið er samt kannski augljóst

  • það er mun auðveldara að finna “gikkglaðan” einstakling í umhverfi harðlínumanna hægra megin
  • það má líka vera að þetta sé enn eitt dæmið um getuleysi og vanhæfni
  • en líklegasta skýringin er að þeim sé einfaldlega skítsama, enda margsinnis komist upp með að ljúga hvaða þvælu sem er – stuðningsmennirnir kokgleypa hvaða dómsdagsrugl og rökleysu sem er án þess að hugsa hálfa hugsun.

Ég á talsvert af vinum, kunningjum og ættingjum sem hafa – að mér finnst – ansi skrýtnar skoðanir.

Margir trúa (nánast) hverri einustu samsæriskenningu sem þeir sjá/heyra eins og nýju neti. Það er svona að miklu leyti í lagi mín vegna.

Það eru þó nokkrar undantekningar á þessu.

Ég hef ekki þolinmæði fyrir því þegar fólk er stöðugt að áreita mig með furðulegum fullyrðingum, sérstaklega ekki ef hrokinn, yfirlætið og sjálfumgleðin eru með í för – frekar hvimleiður kokteill. Ég hef leyft góðum vinum að hanga inni á Facebook vinalistanum, aðrir hafa farið.

Ég hef svo heldur enga þolinmæði fyrir því þegar fólk kynnir rangfærslur og staðleysur sem “skoðanir”. Fullyrðingar sem auðvelt er að afsanna og hafa fyrir löngu verið afskrifaðar.

Mannfyrirlitning dulbúin sem skoðanir er annað sem ég umber ekki. Það er, því miður, talsvert um það, sérstaklega gagnvart transfólki og LGTB.

Og svo eru rangfærslur, settar fram sem skoðanir, og eru beinlínis hættulegar, td. sú botnlausa heimska að afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Ég hef setið undir

  • ítrekuðum fullyrðingum um ellefta-september, sem standast enga skoðun (ég hef engar sannanir til eða frá fyrir atburðarásinni, en engar af þeim upplýsingum/fullyrðingum sem eiga að sýna fram á einhvers konar samsæri standast skoðun)
  • glórulausri afneitun á staðreyndum um loftslagsbreytingar, það er nú ekki eins og það sé flókið að fylgjast með eða erfitt að átta sig á fyrirliggjandi gögnum
  • fullyrðingum um að Boeing hafi staðið á bak við Covid-19, man ekki samhengið – en vitlausara verður það varla
  • þráhyggju fyrir því að svindlað hafi verið á drullusokknum sem náði aftur kjöri sem forseti vestanhafs, þrátt fyrir að fáar fullyrðingar hafi verið eins afdráttarlaust afsannaðar
  • að bólusetningar í Laugardalshöll hafi verið nákvæmlega eins og fundir hjá Hitlers-æskunni, ekki bara svipaðar, heldur “nákvæmlega eins”
  • allt ruglið og fáfræðin sem hafnar bólusetningum
  • á ég að nefna eðlufólkið?
  • eða þoturákirnar?
  • fullyrðingar um Hilary Clinton og einhvers konar barnaníð demókrata

Þegar einhver er að halda þessu fram við mig – eða einhverjum nýjum kenningum sem standast ekki einföldustu skoðun – þá er við viðkomandi einfaldlega að gera lítið úr sjálfum/sjálfri sér í mínum huga.

Fullveldi og ákvarðanir

Posted: nóvember 28, 2024 in Samfélag, Stjórnmál
Efnisorð:, ,

Það er verið að staglast á því í kosningaáróðrinum að við afsölum okkur fullveldi með því að ganga í ESB.

Þetta stenst enga skoðun, þjóð sem ekki er fullvalda hefði til að mynda ekki getað ákveðið að ganga úr sambandinu.

Þetta er svona grundvallar misskilningur og/eða ómerkilegur útúrsnúningur á hugtakinu “fullveldi”.

Ekki síst í ljósi þess að við erum þegar skuldbundin miklu af því sem ákveðið er hjá ESB í gegnum EES samninginn.

Og svo fylgir gjarnan að gengið er út frá að allar ákvarðanir Evrópusambandsins séu sjálfkrafa skelfilega vondar.

Ég er þvert á móti viss um að megnið af ákvörðunum sem teknar eru í Brussel (og víðar) séu að öllu jöfnu talsvert miklu betri en ákvarðanir sem mishæfir valdamenn hér heima hafa tekið.

Evrópusambandið, Ísland

Posted: nóvember 6, 2024 in Ísland, Samfélag, Umræða
Efnisorð:,

Ég hef þvælst svolítið í hringi varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu síðustu ár, áratugi.

Kannski ekki stóra hringi, aldrei verið alveg fráhverfur stundum verið á báðum áttum, oftar en ekki nokkuð jákvæður án þess að vera alveg sannfærður.

Mér sýnast vera sterk rök fyrir að aðild sé mjög góður kostur efnahagslega, stöðugleiki og sterkari gjaldmiðill. En efnahagur er ekki allt sem telur. Og ég veit að það eru ekki allir sammála og ég veit að það eru marktæk rök á móti.. mér finnast hin vega þyngra. Hvort sem er, efnahagsmál eru ekki allt og ekki það eina sem skiptir máli.

Síðustu árin hefur verið mikið bakslag í mannréttindum víða um heim, gömlu stórveldin eru orðin gróðrarstía fordóma, fáfræði, haturs og mannfyrirlitningar.

Á meðan hefur Evrópa ekki bara staðið vörð um mannréttindi heldur hefur Evrópa dregið vagninn í þróun mannréttinda.

Fullkomin? Nei, fjarri því.

En þetta er orðið miklu stærri ákvörðun en bara efnahagur – sterk Evrópa er besta von okkar um betri framtíð.

Í ljósi síðustu breytinga á heimsvísu er kominn tími til að taka af skarið, klára málið og ganga í Evrópusambandið.

Í rauninni hef ég kannski ekkert sérstaklega mikinn áhuga á komandi forsetakosningum og er ekki enn búinn að gera upp hug minn.

Baldur og Jón Gnarr eru báðir mjög góðir kostir en á ólíkan hátt.

Katrín kemur ekki til greina og breytir engu þó margir sameiginlegir vinir og kunningjar beri henni vel söguna. Það gengur einfaldlega ekki í mínum huga að á forsetastóli sitji einstaklingur sem mótaði og var leiðtogi núverandi ríkisstjórnar. Eitt hlutverk forseta er að vera hemil á ríkisstjórn og Alþingi ef til kemur.

Þar fyrir utan hefur hún hunsað afdráttarlausan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá, haldið hlífiskildi yfir spillingu og frændhygli og látið viðgangast að Ísland taki ekki afdráttarlausa afstöðu til mannréttindamála.

Steinunn Ólína kemur til greina, en hefur ekki náð að sannfæra mig um að hún sé betri kostur en aðrir og það hjálpar ekki að hún virðist ekki eiga möguleika.

Halla Tómasdóttir kom ágætlega út úr umræðum (fyrir utan hallærislegt ‘name-drop’) en fyrsta kynningarefni var undarlegt og tal um samfélagsþjónustu bendir ekki til mikils skilnings á hlutverki forseta. Engu að síður, margir vinir mæla sterklega með – það telur, en nægir ekki.

Halla Hrund kemur enn til greina, kannski helst vegna þess að margir vinir mæla með og virðast treysta – en það er einfaldlega heldur ekki nóg til að ég skipti um skoðun. Lopapeysu- harmonikku ímyndin er ekki að virka fyrir mig (svo ég taki nú ekki dýpra í árinni), hún virkaði hálf utan gátta í sjónvarpsumræðum (hef ekki grun um hvert hún var að fara með Vestmannaeyja/Vestfjarðatali) og grein sem hún hefur skrifað hljómar eins og hún sé í framboði til þings frekar en forseta.

Síðan eru tveir minna álitlegir kostir. Annar er lögfræðingur sem virðist ekki geta lesið sér til gagns, ég sé ekki betur en að sé haldinn alvarlegum ranghugmyndum og hefur beinlínis borið lífshættulegan áróður á borð. Hinn er velviljaður og með stórar hugmyndir sem samrýmast varla forsetaembættinu, fer gjarnan fram með miklum flumbrugangi – og þarf nú svolítið til að ganga fram af mér.

Ég veit svo lítil sem engin deili á öðrum – og með núverandi kosningakerfi virðist varla taka því að setja tíma í að kynna sér hvað þeir standa fyrir.

Ég vil hvetja forsvars- og talsfólk ríkiskirkjunnar að viðbættum fyrrum ráðherra að tjá sig endilega sem mest um kirkjuna og trúmál.

Nú er ekkert leyndarmál að ég er ekki trúaður en mér finnst í góðu lagi að aðrir séu trúaðir og tilheyri hverju því trúfélagi sem það vill – bara á meðan það er ekki verið að "abbast" upp á mig og láta mig borga brúsann.

Ég hef tekið þátt í að tala fyrir breyttu fyrirkomulagi og unnið með ýmsum hópum.

En það virðist ekki þörf á þessu lengur.

Talsfólk ríkiskirkjunnar er að skjóta sig í hvern fótinn á "fætur" öðrum og sjálfsagt að láta þau um verkefnið.

PS. Eiginlega liggur við að ég finni til með þeim fjölmörgu sem eru heiðarlegir í sinni trú.

Eymd notuð til að ala á fordómum

Posted: febrúar 20, 2023 in Samfélag

Ég sé að nokkrir vina minna eru að deila færslu með mynd af einhverjum sem er í svefnpoka í strætóskýli og lýsir (eðlilega) áhyggjum af því að þannig sé komið fyrir einhverjum að þurfa að hýrast þarna.

Það sem truflar mig hins vegar er tilvísun í að fólk af öðrum uppruna, uppnefnt í viðkomandi færslu, hafi það gott hér á landi á meðan.

Nú veit ég svo sem ekkert hvaðan sá/sú sem var í strætóskýlinu kemur, hver saga viðkomandi er, hvaða úrræði hafa verið reynd til að aðstoða eða hvað hefur yfirleitt komið til – ég get ekki einu sinni verið viss um að þetta sé ekki sviðsett (þó það sé kannski ekki líklegt).

En ég get verið alveg viss um að það að taka vel á móti flóttafólki er ekki að koma í veg fyrir að allt sé reynt til að aðstoða fólk sem þarf að hjálp að halda, „landa“ okkar eins og sagt er í færslunni.

Orðljót barátta eða ekki

Posted: febrúar 16, 2023 in Samfélag

Það er svo sem ekkert leyndarmál að ég er ekki mikill stuðningsmaður stjórnar Eflingar.

Því ber ekki að rugla saman við að ég styðji ekki baráttu láglaunafólks, ég ber bara ekki mikla virðingu fyrir framgöngu eða hegðun forystu félagsins.

Í sjálfu sér getur komið fyrir besta fólk að missa sig í baráttu fyrir því sem það trúir á og hefur helgað sig.. Og ekki ætla ég að vera of viðkvæmur fyrir orðanotkun.

Það sem truflar mig við framgöngu forystumanna félagsins er að þetta virðist nú frekar skipulagt en hitt, rangfærslur, drullumall beint að einstaklingum sem hafa vogað sér að hafa sjálfstæða skoðun. Það er eins og það fari vel skipulögð samfélagsmiðla herferð reglulega af stað.

Og ekki hjálpar að í mörgum tilfellum virðist þetta vera til að breiða yfir rökleysur, málefnafátækt og rangfærslur.