Posts Tagged ‘Fótbolti’

Og ekkert HM í fótbolta á næsta ári

Posted: desember 5, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:,

Upp á síðkastið hef ég verið að (reyna að) minnka fótbolta áhorf og tíma sem ég tek í að fylgjast með fréttum og umræðu. Það gengur kannski ekkert sérstaklega vel en mjakast.

Ekki hafði ég hugsað mér að fylgja mikið með HM karla í fótbolta á næsta ári, sérstaklega ekki leikjum sem spilaðir verða í Ríkjasambandi Ameríku – og eftir að íslenska liðið missti af þátttöku varð þetta nú enn minna spursmál.

Ég lét mig hafa það að horfa á HM 2022 í Katar með “óbragð í augum og eyrum”. Mér fannst vesaldómur stjórnenda FIFA ekki mega eyðileggja þessa hátíð, einhverjar leifar voru enn af þeirri hugmynd – sem var staglast á þegar ég var yngri – að fótboltinn væri utan við pólitík. Og að þarna hefðu verið gerð gróf mistök sem erfitt hefði verið að bakka út úr – og yrðu í það minnsta ekki endurtekin. Ég var að reyna sýna lit og forðast að styrkja helstu stuðningsaðila mótsins, en komst fljótt að því að ég keypti aldrei neitt frá þeim hvort sem var!

Í öllu falli, FIFA beit heldur betur höfuðið af skömminni og ég hef ekki geð í mér að horfa á þetta.

Fótbolti, kominn tími á frí?

Posted: október 29, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Kannski er kominn tími til að taka hlé frá því að horfa á og fylgjast með fótbolta.

Auðvitað skiptir fótbolti ekki miklu svona fyrir gang heimsmála en mér hefur nú samt fundist gaman að horfa á góðan fótbolta – ekki síst síðustu árin þegar Blikar hafa (ekki bara konurnar) náð frábærum árangri og spilað skemmtilegan fótbolta.

Það hefur nú reyndar ekki verið gefandi að fylgjast með “mínum mönnum” á Englandi, þeas. Derby County, en nálgun Arsene Wenger hjá Arsenal heillaði mig og ég fór svona að halda með þeim í efstu deild. Enda mikið af stuðningsmönnum þeirra í fjölskyldunni.

En það eru nokkur atriði sem hafa verið að drepa áhugann.

Fyrir það fyrsta þá er ég algerlega búinn að fá nóg af “molbúahættinum” í dómgæslu hér á landi og að dómarar séu ekki fyrir löngu komnir með nauðsynlega lágmarksaðstoð. Þetta er svolítið eins og að horfa á bíl á sumardekkjum fastan í snjóskafli.

Ekki hjálpa síðustu atburðir hjá Blikum þar sem mér hefur fundist furðulega staðið að þjálfaramálum og ekki til marks um þá langtíma framtíðar sýn á hvernig á að þróa liðið áfram og vanda val þjálfara..

Annars staðar hefur hegðun Arsenal dregið verulega úr áhuga mínum á félaginu, auðvitað þegar allt stefnir í gott tímabil.

En ég er svo furðulegur þegar kemur að fótbolta, að það skiptir mig miklu meira máli að hafa umhverfið í lagi, að liðin spili góðan og skemmtilegan fótbolta. Árangur talinn í titlum er minna atriði. Gott og vel, ekki ætla ég að reyna að segja að titlar og árangur í Evrópu skipti engu máli, en það er meira virði sem afleiðing af því að spila vel – frekar en að tuddast í gegnum einhverja sigra með Melavallar spark-og-spretta bolta og fá hvað eftir annað vafasamar ákvarðanir dómara eftir að hafa hamast í dómurum með hallærislegum leiksýningum.

Fótbolti og þjálfarar

Posted: september 20, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:,

Það hefur eitthvað borið á hugmyndum um að skipta um þjálfara hjá meistaraflokki karla í fótbolta hjá mínu félagi, Breiðablik.

Þetta er furðuleg umræða og lyktar af einhverju allt öðru en framtíðarsýn fyrir félagið.

Ef við þekkjum sögu fótboltans þá eru þau félög sem hafa náð ítrekuðum árangri til lengri tíma ekki þau félög sem eru stöðugt í örvæntingu að skipta um þjálfara.. jú, jú, það eru til undantekningar, en ekki margar.

Blekkingin liggur í því að það að skipta um þjálfara getur stundum kallað á að leikmenn þurfi að sanna sig fyrir nýjum þjálfara og það vinnast kannski 2-3 leikir áður en dottið er í sama farið og jafnvel verra far.

Enn líklegri blekking er aðhvarf að meðaltali, lið sem hefur verið að ná árangri sem er undir væntingum í nokkrum leikjum er líklegt til að safna stigum í næstu leikjum. Ég man ágætt dæmi þegar ég var í stjórn og formaður meistaraflokksráðs, það hafði gengið illa og háværar kröfur voru uppi um að reka þjálfarann, mikið áreiti. Við ákváðum að láta þjálfarann klára tímabilið, næstu tveir leikir, gegn, þáverandi stórveldum, unnust báðir.. ef við hefðum skipt um þjálfara hefði þjálfaraskiptunum eflaust verið þakkað.

Auðvitað getur komið upp sú staða að það sé kominn tími á þjálfaraskipti, en skýringar fyrir þeim liggja oftar en ekki í sérstökum aðstæðum, sem alls ekki eru sýnilegar utan félagsins og hafa lítið með skammstímasjónarmið að gera.

Í öllu falli, núverandi þjálfari hefur náð ótrúlega góðum árangri, Íslandsmeistaratitill á fyrsta keppnistímabili og þátttaka í Sambandsdeildinni á því næsta.

Ég kann ekki skýringar á slöku gengi í síðustu leikjum, mig grunar að þær séu margar og fráleitt að kenna þjálfaranum einum um.

Það er svo auðvitað aukaatriði, en enginn af þessum spekingum hefur svo mikið sem komið með óljósa hugmynd um hver ætti að taka við.

Kannski hugmynd fyrir stuðningsmenn félagsins að láta frekar heyra í sér á öðrum vettvangi.

Alþjóðasambandið FIFA er stöðugt að reyna að bæta reglur fótboltans og gengur bara nokkuð vel. Ég er ekki viss um að starfsmenn þar lesi færslurnar mínar reglulega en kannski skilar þetta sér á endanum.

Ég er nefnilega viss um að það má bæta leikinn enn frekar með eftirfarandi breytingum:

  1. Leikmaður sem þarfnast aðhlynningar vegna “krampa” þarf að yfirgefa völlinn í 10 mínútur.
  2. Eftir að mark er skorað láta leikmenn beggja liða boltann vera og dómarinn fer með hann að miðju.
  3. Ef markvörður leggst eftir að hafa náð fullu valdi á boltanum þá kostar það áminningu.

Þetta snýr allt að því að takmarka möguleika liða til að tefja og hægja á leiknum. Það er aðeins ínlegt að sjá vel þjálfaða leikmenn, sem klára heilu leikina á vandræða allt í einu lyppast niður hver á fætur öðrum og þurfa aðhlynningu “tímunum saman”.

Ekkert VAR, enginn ég

Posted: október 22, 2024 in Umræða
Efnisorð:

Ég er að gefast upp á að horfa á íslenska boltann.

Ég geri mér grein fyrir að störf dómara eru erfið og hafa aldrei verið erfiðari. Leikurinn er hraðari, leikmenn orðnir nokkuð útsmognir í að leika á dómara og sífellt meira í húfi.

Hvers vegna í dauðanum er dómurum neitað um ódýrara, einfalda aðstoð í formi aðstoðar með myndavélum, VAR?

Þetta þarf ekki að vera flókið og þetta þarf ekki að taka tíma – það er einfaldlega spurning um hvernig þetta er gert.

Nei, nei, þetta er ekki fullkomið – en kostirnir eru miklu fleiri en gallarnir. Enda dettur varla nokkrum manni í hug að hætta að nota þetta erlendis.

Og fyrir alla muni hlífið mér við þessum bábiljum að þetta “jafnist út”. Það er nægilega góð tölfræði sem staðfestir að þetta getur skipt sköpum. Enda hvernig á það að “jafnast út”, segjum í lokin á (undan eða-) úrslitaleik á stórmóti, ef dómari gerir afdrifarík mistök sem milljónir áhorfenda sjá? Hvernig jafnast það út? [„þetta er allt í lagi góði, þetta jafnast út, þú verður örugglega heimsmeistari í næsta lífi í boði dómaramistaka!“].

Stundum er bent á að leikmenn geri fleiri mistök en dómarar, sem er rétt, en auðvitað rökleysea í þessu samhengi, mistök leikmanna bitna á þeim og liðum þeirra.. mistök dómara bitna á öðrum.

Tímabilið hér heima var einstaklega þreytandi í fyrra að þessu leyti. Það er auðvitað lítið hægt að fullyrða um hvernig leikir hefðu þróast ef mistök dómara hefðu verið leiðrétt en það eru nú góðar líkur á að stigataflan í mótslok hefði verið öðru vísi – og auðvitað enginn úrslitaleikur, nægilega mörg stig fengu þáverandi Íslandsmeistarar í boði augljósra dómaramistaka.

Og nú í sumar erum við aftur að horfa á mistök sem auðvelt hefði verið að leiðrétta, ódýrt og einfalt kerfi, sem þarf ekki að taka meiri tíma en þegar dómarar þurftu stöku sinnum að ráðfæra sig við gömlu línuverðina og kemur í veg fyrir stærstu mistökin.

Það er ekki við dómara að sakast – jú, kannski þegar þeir taka ákvarðanir út frá því þegar annað liðið kvartar og dæma eitthvað sem þeir sáu ekki – en svona almennt þá er þetta erfitt hlutverk og mikil þörf á góðri aðstoð.

Þá er farið að koma fyrir að íslensku liðin eru einfaldlega ekki með þessa reynslu í Evrópukeppnum.

Þannig að ég er alvarlega að velta fyrir mér að taka frí frá íslenska boltanum þar til starfsumhverfi dómara verður orðið boðlegt, Það hlýtur að vera stutt í þetta.. erum við ekki síðasta deildin sem enn keppir á fornöld?

En sennilega felst mesta virðið í betri dómgæslu er að hún hefur breytt leiknum verulega, dýfur og lúmsk brot í trausti þess að dómarar sjái ekki – eru nánast að hverfa.

[uppfært í ágúst 2025]

Rosenborgar rökleysan

Posted: ágúst 31, 2023 in Fótbolti, Spjall
Efnisorð:, ,

Ég nefndi í framhjáhlaupi í grein um leik Breiðabliks og KR að mér þætti ekki til fyrirmyndar að keppninautar liðsins reyndu að nýta sér leikjaálag Blika með því að spila fast og leggja leikmenn í hættu. Kannski var þetta ekki meðvitað, kannski sáu liðin tækifæri – en líklegasta skýringin er nú að þetta hafi verið minn misskilningur.

Í framhaldinu hófust umræður við ágæta félaga um hvort það væri íslenskum fótbolta til góðs að stórar fjárhæðir kæmu til íslenskra félaga.

Ég hef svona í mínum gamaldags hugsunarhætti viljað sjá íslenskum liðum ganga vel, sjá íslenskan fótbolta fá tækifæri til að bæta þróun og uppbygginu. Allt hjálpar til við að byggja upp og koma okkur upp á næsta þrep.

Að ég tali nú ekki um að koma upp aðstöðu þannig að íslensk félagslið og landslið séu ekki á endalausum undanþágum til að fá að leika heimaleikina á Íslandi.

Og auðvitað hef ég ákveðnar skoðanir á hvaða félög myndu nýta þetta best.

Það er svo ansi sláandi hversu mikið er staglast á rökleysunni um Rosenborg í Noregi þegar verið er að tala um að það sé ekki „gott“ fyrir íslenskan fótbolta að fá fjármagn til frekari uppbyggingar. Þetta er auðvitað þekkt rökleysa – úr fyrsta hefti rökleysubókarinnar – þeas. taka eitt stakt dæmi og alhæfa út frá því..

Ef einhver vill halda því fram að það sé ekki „gott“ fyrir íslenskan fótbolta að fá inn fjármagn til uppbyggingar þá kalla ég eftir almennum upplýsingum og gögnum sem sýna að fjármagn kemur sér illa fyrir fótboltann í því landi sem það skilar. Ef þær upplýsingar og gögn eru ekki til staðar þá væri ég alveg til í að heyra ekki aftur meira af þessu Rosenborgar tali.

Og á hinn bóginn, ef hægt er að sýna fram á þetta sé skelfilegt fyrir starfið í viðkomandi landi, er þá ekki sjálfgefið að hætta að senda lið í Evrópukeppnir? Eða hætta fyrir riðlakeppni?

Kannski fyrst þurfi nú að skilgreina hvað er „gott“ og hvað er ekki „gott“.

Það sem ég er enn ekki að ná að hugsa eða skilja er, já-ég-myndi-vilja-að-mitt-lið-fengi-svona-peninga-en-það-væri-ekki-gott-fyrir-íslenskan-fótbolta-og-ég-vil-frekar-að-peningarnir-endi-í-öðrum-löndum-en-hjá-keppinautum-míns-félags. Þetta er einhvers konar “ég vil frekar að íslenskur fótbolti staðni og mitt lið geti safnað verðlitlum titlum”. Betra að vera stórt síli í lítilli tjörn en að þora að..

Leikjaálag í fótboltanum

Posted: ágúst 22, 2023 in Fótbolti
Efnisorð:,

Umræðan um mikið og ójafnt leikja álag í meistaraflokki karla hefur ekki farið fram hjá mér.

Fyrir það fyrsta, þá er engin töfralausn, það eru of margir óvissuþættir og oft margt sem er ekki vitað fyrirfram, td.

  • hvaða liðum kemur til með að ganga vel í Evrópukeppnum
  • hvaða lið detta fljótlega úr bikarkeppninni
  • hvaða lið eiga leikmenn í landsliðum

Ég held samt að það megi geri aðeins betur og auka líkurnar á að leikjaálagið dreifist betur, vonandi gengur það vel í Evrópu á næstu árum að þetta verið raunhæft vandamál.

Fjórar hugmyndir gætu hjálpað til:

  • liðin sem eru í Evrópukeppnum mæti einni umferð seinna í bikarkeppnina en önnur
  • umferðum á Íslandsmótinu verði fækkað um eina (eða fimm), hætta þessari aukakeppni í lokin og annað hvort fara aftur í gamla fyrirkomulagið eða hafa 14 liða deild og tvöfalda umferð – seinni leiðin gæti orðið til að við fáum mikið af ‘tilgangslausum’ leikjum, en það er hvort sem er að gerast með þessari úrslitakeppni
  • stýra umferðatöflunni þannig að liðin sem keppa í Evrópu mætist í sömu umferð og spili sína leiki fyrri hluta móts – þetta er auðvitað á skjön við þá hugmynd að handahóf eigi að ráða dagskránni, en það er hvort sem er farið með stöðugum tilfæringum og frestunum [það má hafa í huga að það er ekkert sem segir að sömu lið þurfi að mætast í "viðsnúinni” umferð]
  • hafa bikar umferðir í landsleikjahléum – jú, gæti komið ójafnt niður á liðunum, en þetta er spurning um forgangsröðun og að finna leið til að minnka “skaðann”

Blikar á Parken

Posted: ágúst 2, 2023 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Ekki kemst ég á leik Breiðabliks á Parken í undankeppni meistaradeildar Evrópu..

En ég sá haft eftir Óskari Hrafni að það gæfi honum ekki mikið að liðið hafi spilað vel í fyrra leiknum í ljósi þess að leikurinn tapaðist.

Auðvitað má deila um hversu vel liðið hafi spilað þegar það fær svona mörk á sig – og á hinn bóginn nýtir ekki færin betur.

En.. við skulum ekki gleyma að liðið spilið stóran hluta leiksins mjög vel og skapaði talsvert af færum, eiginlega ótrúlegt að skora ekki..

Eina leiðin til að koma íslenskum fótbolta á betri stað er að liðin þori – og geti – spilað fótbolta. Það er ekkert svo langt síðan íslensk lið fóru illa út úr Evrópuleikjum og áttu í besta falli sómasamlega baráttu í tapi í vonlausum leikjum. Breiðablik hefur verið fremst í að þróa íslenskan fótbolta, bæði í karla og kvennaflokki og vonandi fylgja fleiri félög, það eru þegar merki um að árangur Blika skili sér til annarra félaga – og ekki spillir að árangur Blika er að skila fleiri félögum sætum í Evrópukeppnum.

Nú veit ég (auðvitað) ekkert um það hvernig leikurinn fer í kvöld, mögulega gengur allt á afturfótunum og úrstlitin verða óhagstæð.

En, það er alveg möguleiki á að liðið standi sig vel, og vinni jafnvel upp tapið hér heima. Það sem vekur von er einmitt að liðið getur spilað fótbolta á móti “stórum” liðum.

Ég lofaði mér í vor að hunsa þessa lönguvitleysu sem „úrslitakeppnin“ í Bestu deild karla í fótbolta er… en það er auðvitað ekki hægt að sleppa lokaleiknum þegar Breiðablik er búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

En nokkrar samhengislausar hugleiðingar um leikinn, sumarið og framhaldið.

Leikurinn var sérstakur – eða réttara sagt, ekkert sérstakur – Blikar voru talsvert sterkari og ef ekki hefði verið fyrir stórleik markvarðar Víkinga þá hefði sigurinn orðið mun stærri. Þá hefðu sóknarmenn Blika kannski mátt klára betur færin, sérstaklega undir lokin, en það stefndi aldrei í að sigurinn væri í hættu. Ekki ætla ég að fara að væla (mikið) yfir dómgæslunni en ég má samt aðeins hugsa. Erlendur er auðvitað talsvert betri dómari en ég og auðvitað falla vafa atriðin stundum með og stundum á móti. Og ég geri mér grein fyrir að „Blikagleraugun“ ekkert sérstaklega hlutlaus. Ég er enn ekki að skilja hvers vegna Blikar fengu ekki 1-2 víti í fyrri hálfleik og enn síður er ég að ná því hvernig Víkingar fengu að klára fyrri hálfleikinn með 11 menn inni á vellinum. Getur hugsast að dómarar veigri sér frekar við að sýna rautt spjald framan af leik? Og það þyrfti aðeins að skýra betur fyrir mér hvers vegna gulu spjöldin sem Viktor Örn fékk voru fyrir verri brot en nokkuð mörg önnur brot sem voru afgreidd spjaldalaus. En gott og vel, leikmenn „á gulu spjaldi“ eiga auðvitað að fara varlega.

Að Víkingum, sem ég hef borið virðingu fyrir síðustu árin. Þeir eru með frábæran þjálfara, alvöru ‘karakter’ sem ber virðingu fyrir keppinautum og það að senda leikmenn til að votta Blikum virðingu við verðlaunaafhendingu er gott dæmi. Víkingarnir hafa svolítið haft þann stimpil (með réttu eða röngu) síðustu árin að vera „bölvaðir tuddar“ [ekki mín orð, en] hafa klárlega spilað eins fast og dómarar leyfa og byggt árangurinn að miklu leyti á þeim styrkleika. Ekki minn smekkur á fótbolta, en það er allt í góðu að menn nálgist verkefnið eins og þeim hentar, þeir eru klárlega með lið sem á erindi í Evrópu og með Blikum eru að færa íslenskan fótbolta upp á við. Eitthvað fannst mér leikmenn þeirra eiga erfitt með að standa í lappirnar í báðum leikjunum í Kópavogi, en bara mín upplifun.

Annars var þetta fínasta Íslandsmót, ég er á því að Blikaliðið frá því i sumar sé besta knattspyrnuliðið í sögu íslenskrar knappspyrnu – og er ég þá ekki að gleyma frábærum liðum frá síðustu öld… Þetta er auðvitað alltaf smekksatriði og ekki er ég að þykjast vera hlutlaus – en liðið spilar fótbolta eins og mér finnst að eigi að spila fótbolta. Í minni sérvisku (að þessu leyti eins og svo mörgu öðru) þá nenni ég eiginlega ekki að horfa á leiðinlegan fótbolta – jafnvel þegar ég var forvitinn um úrslit annarra leikja í sumar þá hélt ég ekki athygli þegar lið voru ekki að reyna að spila fótbolta.

Það lið sem mér fannst kannski helst að ná að spila góðan fótbolta, fyrir utan Blika, var Fram, en þar vantaði kannski einfaldlega betri leikmenn og breiðari hóp. Ég þykist vita að Stjarnan og Valur komi betri á næsta ári, og er ekki gleyma KA. Ég sakna Leiknis úr deildinni, svona sem Breiðholtsbúi, að mínu viti „fórnarlömb“ illa uppsettrar framlengingar á mótinu. Kannski ekki að spila fótbolta sem ég nennti sérstaklega að horfa á, en það var einhver stemming með liðinu.

En, það sem mig langaði nú kannski aðallega að segja eftir leikinn og eftir tímabilið.

Ég skil vel að það freisti leikmanna að fara út í atvinnumennsku, sérstaklega freistandi fyrir unga leikmenn.

En næsta skref íslensku liðanna, Blikar vonandi fremstir, er að félögin verði það stór að það sé meira (eða amk. jafn) spennandi kostur fyrir leikmenn að spila fyrir þessi lið en að fara í miðlungslið á (td.) Norðurlöndunum eða í minni deildum í Evrópu.

Og að lokum verð ég að fá að bjóða Alex Frey velkominn í Kópavoginn. Væntanlega koma fleiri sterkir leikmenn, en ánægður að sjá að Blikar ætli að styrkja hópinn enn frekar, mikið leikja álag og þátttaka í Evrópu kallar á enn stærri hóp af frábærum leikmönnum. En alltaf lykilatriði að kjarninn er uppalinn hjá félaginu.

… til Blika

Posted: október 28, 2022 in Íþróttir, Fótbolti, Umræða
Efnisorð:, ,

Mig langar rétt að nefna eitt atriði við Blika í kjölfar yfirburðasigurs á Íslandsmótinu í fótbolta karla. Og rétt að taka fram strax að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þetta verði í lagi.

Það er gott, alveg frábært, að vera stoltur af sínu liði og njóta þess að horfa á liðið spila frábæran fótbolta og ná árangri þannig.

En fyrir alla muni ekki byrja að gera lítið úr leikmönnum eða stuðningsmönnum annarra liða.

Takið frekar þjálfara síðustu Íslandsmeistara, og auðvitað þjálfara og leikmenn Blika til fyrirmyndar, berið virðingu fyrir andstæðingum og sleppið einhverjum hallærilegum skotum og tækifærum til að gera lítið úr árangri eða sögu andstæðinganna.

Ég veit að einhverjum þykir þetta “sniðugt” og finnst þetta hluti af leiknum, en þetta er auðvitað yfirgengilega hallærislegt – svona einhver arfur frá fótboltabullum, sem hafa verið áberandi í Evrópu – kannski er þetta á einhverju stigi sprottið af sömu rótum og einelti [þó ég ætli nú auðvitað ekki að fara að bera það saman].