Archive for the ‘Stjórnmál’ Category

Leiðir skilja við Pírata

Posted: nóvember 29, 2025 in Samfélag, Stjórnmál
Efnisorð:,

Þá á ég ekki lengur samleið með Pírötum..

Þetta hefur reyndar verið sérstakt samband, hreyfingin varð til í einfeldningslegri og beinlínis hættulegri baráttu gegn höfundarrétti – ég reifst talsvert við marga liðsmenn á sínum tíma.

En þrátt fyrir nafnið þá fjaraði þetta út – eftir stóð barátta fyrir heiðarlegum stjórnmálum, gagnsæi, mannréttindum og nýrri stjórnarskrá. Allt hlutir sem mér fundust mjög mikilvægir. Ekki spillti hversu öflugir einstaklingar voru í starfi og framboði fyrir Pírata (best að nefna engin nöfn, ég myndi gleyma einhverjum sem ætti skilið að ég nefndi).

En í dag var Alexöndru Briem hafnað í formannskjöri. Ekki ætla ég að láta eins og það skipti ekki máli að Alexandra er dóttir mín en það er ekki aðalatriðið.

Það sem ég get ekki sætt  mig við er að Alexandra hefur verið ótrúlega dugleg að vinna að stefnu flokksins, óþreytandi að starfa innan félagsins, sívinnandi fyrir kosningar að styðja frambjóðendur – hvort sem hún var sjálf í framboði eða ekki.

Og Alexandra hefur unnið mjög vel í borgarstjórn Reykjavíkur síðustu kjörtímabil, ekki auðvelt starf og auðvitað ekki hægt að gera svo öllum líki – en ég held að ég geti fullyrt að hún hafi verið vel liðin af samherjum, andstæðingum og samstarfsfólki.

Píratar eru í vandræðum, eftir slaka kosningu fyrir ári síðan.

Ég held að dagar Pírata séu taldir ef þetta er hugarfarið, vanþakklæti og vantraust eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann.

Mögulega væru Píratar ekki í vandræðum ef þeir sem töldu rétt að taka þátt í að kjósa formann hefðu verið virkir í starfi flokksins.

Ég á (átti) nokkra vini / félaga / kunningja sem studdu trúðinn sem situr á forsetastól í ónefndu ríkjasambandi.

Það hefur talsvert kvarnast úr stuðningnum..

  • hann átti að hafa svo mikið vit á viðskiptum, en skilur ekki hvernig tollar virka og virðist halda að framleiðendur í öðrum löndum borgi þá.. eitthvað fækkaði nú í aðdáendahópnum þegar þetta kom í ljós.
  • hann átti að vera svo snjall að reka fyrirtæki að það væri fín hugmynd að fá hann til að reka ríkissjóð, en svo rifjaðist upp löng saga gjaldþrota, hafði einhver, en merkilega lítil áhrif.
  • hann átti að vera svo harður samningamaður, en flumbrugangur, stöðugur sveiflur og endalausar eftirgjafir þar sem allt var gefið eftir slógu það út af borðinu.
  • þá voru þau sem voru sátt við að hann hefði komið sér undan því að gegna herþjónustu með því að láta pabba kaupa sér frí, sem ég gæti svo sem skilið, en svo vill hann hersýningu á afmælinu!
  • hann átti að vera óvenjulegur stjórnmálamaður og koma með ferska vinda í umhverfi sem var á kafi í mútuþægni.. vindarnir hafa vissulega verið ferskir en í þá átt að mútur hafa komið eins og loftlagsbreytinga stormsveipur í stjórnmálin vestanhafs og aldrei verið meiri og augljósari.
  • hann ætlaði svo sannarlega að sjá til að verð á nauðsynjavörum lækkaði, það hefur ekki beinlínis gengið eftir, þvert á móti, staglaðist á þessu í kosningabaráttunni, en fer í smábarnafýlu ef einhver rifjar þetta upp – hefur svo sem ekki breytt miklu fyrir stuðningsfólk hér á landi, en ekki þurft að kaupa “köttinn” í sekknum.
  • margir voru ánægðir með þær fyrirætlanir að ráðast ekki inn í önnur lönd, en hótanir um innrásir á Grænland og Panama hafa nú gert það að engu, sennilega sneru nú flestir bak við honum eftir þetta.
  • þá voru einhverjir sem töldu hann talsmann hefðbundinna fjölskyldugilda, þrátt fyrir óhefðbundna fjölskyldusögu.. en það féll svo endanlega þegar kom í ljós að hann hafði keypt sér kynlífsþjónustu, en þetta var jú vitað fyrir og virtist ekki breyta miklu.
  • öðrum fannst mikið til koma hvernig til stóð að taka á ólöglegum innflytjendum, það fór svo þegar kom í ljós að honum fannst allt í lagi að senda löglega innflytjendur úr landi.
  • einhverjir voru að sjá fyrir sér lög og reglu, en svo var hann dæmdur glæpamaður.
  • ég veit ekki hvers vegna fólki hér á landi hrífst af því að vilja gera lönd eins og Argentínu, Perú, Ekvador stórkostleg (kannski halda viðkomandi að það sé bara eitt ríki í Ameríku, það væri í takt við aðra fáfræði hópsins).

En síðasta hálmstráið sem stuðnigsmenn hans hér hafa hangið á eins og úrillur hvolpur á roði að hann sé nú samt betri vegna þess að forsvarsmenn hins stóra stjórnmálaflokksins séu á kafi í einhverjum vændishring (gott ef ekki barna). Þær kenningar standast ekki nokkra skoðun, eru eiginlega með vitlausari og glórulausustu samsæriskenningum sem haldið er á lofti.

Til að kóróna vitleysuna þá eru sams konar tengingar eru á milli forsetans og ætluðum skipuleggjanda vændishringins, meira að segja mun skýrari, hann og aðalskipuleggjandi hringsins virðast hafa verið góðir kumpánar og ítrekað verið að saman í teitum.. og forsetinn óskaði hægri hönd skipuleggjandans alls hins besta þegar upp komst um hlut hennar.

Ég ætla alls ekki að fullyrða að forsetinn tengist mansali, hvað þá tengdu börnum – til þess þarf talsvert meiri upplýsingar og gögn – en hann er mun líklegri en allir aðrir stjórnmálamenn vestanhafs.

Á endanum er þetta er svokölluð hring rökleysa.. fyrst gefur fólk sér að hópur B sé sekur um eitthvað, í framhaldinu gefur þetta sami hópur sér að þá hljóti hópur A að vera saklaus (sem er auðvitað hrein rökleysa) og svo þegar búið er að gefa sér (fyrirfram) að hópur A sé saklaus þá eru allar vísbendingar um “sekt” hans afgreiddar sem hluti af einhverju samsæri og ofsóknum – jafnvel þó öll gögn og vísbendingar séu mun sterkari.

Stjórn

Posted: desember 22, 2024 in Stjórnmál
Efnisorð:

Ég er nokkuð jákvæður gagnvart nýrri ríkisstjórn. Það virðist hafa tekist nokkuð vel til við ráðherraval, sérstaklega er ég ánægður að sjá Loga Einars í mennta- og menningarmálum, en almennt virðist nú hafa verið leiðarljós að velja fólk sem þekkti vel til hvers málaflokks. Sennilega hefði Kristrún sem fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín sem forsætisráðherra verið betri samsetning.

Þá er ég mjög sáttur við þá stefnu að leyfa þjóðinni að svara því hvort við viljum ganga í Evrópusambandið. Ég hefði auðvitað viljað sjá afdráttarlaust að samþykkt stjórnarskrá tæki gildi en annað virðist nú vera á nokkuð góðu róli.

Ég var ekki sérstakur stuðningsmaður síðustu ríkisstjórnar en auðvitað var hún ekki alslæm og þurfti að eiga við nokkuð mörg erfið verkefni. Og nokkrir ráðherrar stóðu sig mjög vel í erfiðum málum. En það var of mikið um klúður, of mikið um klaufagang og einhvers konar við-ráðum-við-megum yfirlæti.

Ég kaus Pírata og sakna þeirra af þingi, hefði vel getað hugsað mér að kjósa Viðreisn og Samfylkingin kannski komið til greina. Flokkur fólksins var ekki inni í myndinni há mér, þrátt fyrir stórt hjarta og mikinn velvilja – einfaldlega of mikil fáfræði og vanþekking í bland við innantómar fullyrðingar og útlendingafordóma. Reyndar breyttist margt á síðustu metrunum, fordómarnir viku(svona að mestu) og eitthvert innihald var í málflutningi.. þar held ég að mestu skipti að flokkurinn var nokkuð heppinn með frambjóðendur.

Rétt að taka saman vangaveltur eftir kosningarnar.

Það virðist hafa tekist að jafna fjölda þingsæta út frá fjölda atkvæða.

Það hefði ekki þurft nema 9 atkvæði til að breyta hvaða einstaklingar fengu þingsæti.

Þetta hefði gerst ef D hefði tapað 9 atkvæðum í Reykjavík suður eða eitthvert annað framboð bætt við sig 9 atkvæðum. Sama hefði gerst ef D hefði bætt við sig 9 atkvæðum í Suðvestur.

Þetta hefði haft þau áhrif að

  • Reykjavík norður: C, 3 Grímur Grímsson dettur út og D, 3, Brynjar Níelsson kemur inn
  • Reykjavík suður: D, 3, Jón Pétur Zimsen dettur út  og RS, C, 3, Aðalsteinn Leifsson kemur inn

Eflaust má finna samsetningar með fleiri en einni breytingu, en þetta er minnsta staka breytingin sem ég finn.

22.064 atkvæði fóru til flokka sem ekki fengu þingsæti, alls 45.274 nýttust ekki.

Ef 5% reglan hefði ekki verið þá hefðu úrslitin verið (hafi ég sett rétt inn)

  • B 5
  • C 10
  • D 12
  • F 9
  • J 2
  • M 8
  • P 2
  • S 14
  • V 1

Allt birt með þeim fyrirvara að ég er nývaknaður eftir langa kosninganótt, en einhver smá skekkja breytir ekki heildarmyndinni. 5% reglan er alveg glórulaus, sett á sínum tímai af stjórnmálamönnum í þeim tilgangi að fækka flokkum á þingi og auðvelda þannig þingmönnum stjórnarmyndun. Sem sagt.. auðvelda þingmönnum sem nenna ekki að vinna – réttur kjósenda til að fá fulltrúa á þing skiptir engu.

Fullveldi og ákvarðanir

Posted: nóvember 28, 2024 in Samfélag, Stjórnmál
Efnisorð:, ,

Það er verið að staglast á því í kosningaáróðrinum að við afsölum okkur fullveldi með því að ganga í ESB.

Þetta stenst enga skoðun, þjóð sem ekki er fullvalda hefði til að mynda ekki getað ákveðið að ganga úr sambandinu.

Þetta er svona grundvallar misskilningur og/eða ómerkilegur útúrsnúningur á hugtakinu “fullveldi”.

Ekki síst í ljósi þess að við erum þegar skuldbundin miklu af því sem ákveðið er hjá ESB í gegnum EES samninginn.

Og svo fylgir gjarnan að gengið er út frá að allar ákvarðanir Evrópusambandsins séu sjálfkrafa skelfilega vondar.

Ég er þvert á móti viss um að megnið af ákvörðunum sem teknar eru í Brussel (og víðar) séu að öllu jöfnu talsvert miklu betri en ákvarðanir sem mishæfir valdamenn hér heima hafa tekið.

Það er orðið nokkuð áberandi í umræðunni fyrir kosningar að ákveðin framboð eigi á hættu að detta út af þingi (eða ná ekki inn).

Þetta kemur til vegna þess að framboðin fá eitthvað nálægt 5% atkvæða á landsvísu skv. könnunum.

Þetta þýðir samt alls ekki og engan veginn að framboð séu endilega í hættu við að detta út af þingi.

5% reglan á eingöngu við um úthlutun jöfnunarsæta og framboð hafa mis mikið fylgi milli kjördæma geta hægleg fengið kjördæmakjörinn þingmann þó þau nái ekki 5% fylgi á landsvísu. Það þarf ekki að vera en það er útilokað að fullyrða. Sem dæmi fengu Píratar 5,3% fylgi 2021 þar sem fylgi þeirra var minnst en 12,8% þar sem það var mest.. svipað gildir um flest framboð, en auðvitað mismunandi hvernig fylgið dreifist, mikið fylgi í stóru kjördæmi eða kjördæmi þar sem fá atkvæði eru á bak við hvert þingsæti getur hæglega breytt heildarmyndinni.

Þannig er fráleitt að gefa sér að atkvæði verði hugsanlega dauð nema hafa upplýsingar um spá í hverju kjördæmi fyrir sig. Nú eða fylgi sé það lítið að það komi aldrei til með að nægja í kjördæmi.

Í hverjum kosningum heyrist, nokkuð hátt, í þeim sem ætlað ýmist að skila auðu, gera ógilt eða jafnvel ekki mæta á kjörstað. Jafnvel borið á smá yfirlæti í yfirlýsingum.

Lengi hefur það þótt sýna ákveðna afstöðu að mæta frekar og skila auðu en að mæta alls ekki.. það gerir það kannski í huga viðkomandi – en þetta er nákvæmlega það sama, kemur nákvæmlega eins út – og öllum er sama, það tekur enginn eftir þessu.

En þetta er ekki bara hlutleysi, eins og margir vilja halda, þetta er stuðningur við þá sem eru að fá flest atkvæði.

Ekki bara óbeinn því kosningakerfið okkar virkar þannig að þeir sem fá hærra hlutfall fá (oftar en ekk) meira hlutfall þingsæta en fjöldi atkvæða segir til um. 

Þannig að að.. munið að það að sitja heima eða skila auðu er ekki sjálfstæð afstaða.. það er stuðningur við þá sem fá raunverulega flest atkvæði hjá öðrum kjósendum.

þá er nokkuð ljóst að það er eitthvað mikið að.

Ræfillinn, drullusokkurinn og auminginn (ég nenni ekki að skýra frekar, það yrði allt of langur lestur) sem sat á forsetastóli 2016-2020 og tapaði síðustu kosningum afdráttarlaust, virðist eiga þokkalega möguleika á að vinna.

Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna það kemur yfirleitt til greina að kjósa hann, mannfyrirlitningin, fáfræðin, heimskan, fordómarnir, getuleysið, stanslaus lygaþvælan, ofbeldið og svo mætti lengi telja.

En ekki síður aumingjaskapur og getuleysi réttar- og dómskerfisins við að koma honum á bak við lás og slá eftir augljósa og ítrekaði glæpi er svo enn frekar til marks um að það er eitthvað mikið að vestanhafs. [jú, ég veit að hann var búinn að planta útsendurum í lykilstöður í réttarkerfinu, en samt].

Enda hvernig sem fer, kannski er þetta stórveldi komið á endastöð og fall yfirvofandi.

Ég er ekki svo viss um að það sé endilega svo slæmt svona til lengri tíma litið. Stórveldi liðast gjarnan í sundur.

En auðvitað vona ég bæði vegna vina og kunningja sem búa þarna – og líka vegna þess að þarna er fullt af góðu fólki – að kosningarnar fari vel og við taki almennar breytingar sem skilji mannfyrirlitningu, fasisma, fordóma og fáfræði eftir. En það verður erfitt.

Jöfnunarmenn

Posted: október 30, 2024 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Eitt kem ég seint til með að skilja, ja, reyndar ansi margt.

En í þetta skipti er ég að hugsa um hvers vegna í ósköpunum er ekki búið að fjölga jöfnunarmönnum í kosningum til Alþingis.

Þetta er einföld aðgerð, snýst ekki um neitt annað en sanngirni, þeas. að styrkur framboða á þingi endurspegli hversu mörg atkvæði þau fá greitt í þingkosningum.

Það væri nauðsynlegt að fjölga um amk. einn í hverju kjördæmi, best að allir þingmenn væru jöfnunarmenn og enn betra að endurskoða kosningakerfið frá grunni.

En þetta hefði verið algjört lágmark.. það er ekkert sem mælir á móti, nema einhverjir þingflokkir skilji kerfið ekki betur en svo að halda að þó framboð þeirra hafi grætt á því að hafa fáa jöfnunarmenn í síðustu kosningum, þá komi það til með að þýða að þeir haldi áfram að fá þingsæti umfram fjölda atkvæða í kosningum.

Í rauninni hef ég kannski ekkert sérstaklega mikinn áhuga á komandi forsetakosningum og er ekki enn búinn að gera upp hug minn.

Baldur og Jón Gnarr eru báðir mjög góðir kostir en á ólíkan hátt.

Katrín kemur ekki til greina og breytir engu þó margir sameiginlegir vinir og kunningjar beri henni vel söguna. Það gengur einfaldlega ekki í mínum huga að á forsetastóli sitji einstaklingur sem mótaði og var leiðtogi núverandi ríkisstjórnar. Eitt hlutverk forseta er að vera hemil á ríkisstjórn og Alþingi ef til kemur.

Þar fyrir utan hefur hún hunsað afdráttarlausan vilja þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá, haldið hlífiskildi yfir spillingu og frændhygli og látið viðgangast að Ísland taki ekki afdráttarlausa afstöðu til mannréttindamála.

Steinunn Ólína kemur til greina, en hefur ekki náð að sannfæra mig um að hún sé betri kostur en aðrir og það hjálpar ekki að hún virðist ekki eiga möguleika.

Halla Tómasdóttir kom ágætlega út úr umræðum (fyrir utan hallærislegt ‘name-drop’) en fyrsta kynningarefni var undarlegt og tal um samfélagsþjónustu bendir ekki til mikils skilnings á hlutverki forseta. Engu að síður, margir vinir mæla sterklega með – það telur, en nægir ekki.

Halla Hrund kemur enn til greina, kannski helst vegna þess að margir vinir mæla með og virðast treysta – en það er einfaldlega heldur ekki nóg til að ég skipti um skoðun. Lopapeysu- harmonikku ímyndin er ekki að virka fyrir mig (svo ég taki nú ekki dýpra í árinni), hún virkaði hálf utan gátta í sjónvarpsumræðum (hef ekki grun um hvert hún var að fara með Vestmannaeyja/Vestfjarðatali) og grein sem hún hefur skrifað hljómar eins og hún sé í framboði til þings frekar en forseta.

Síðan eru tveir minna álitlegir kostir. Annar er lögfræðingur sem virðist ekki geta lesið sér til gagns, ég sé ekki betur en að sé haldinn alvarlegum ranghugmyndum og hefur beinlínis borið lífshættulegan áróður á borð. Hinn er velviljaður og með stórar hugmyndir sem samrýmast varla forsetaembættinu, fer gjarnan fram með miklum flumbrugangi – og þarf nú svolítið til að ganga fram af mér.

Ég veit svo lítil sem engin deili á öðrum – og með núverandi kosningakerfi virðist varla taka því að setja tíma í að kynna sér hvað þeir standa fyrir.