Posts Tagged ‘Breiðablik’

Fótbolti, kominn tími á frí?

Posted: október 29, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Kannski er kominn tími til að taka hlé frá því að horfa á og fylgjast með fótbolta.

Auðvitað skiptir fótbolti ekki miklu svona fyrir gang heimsmála en mér hefur nú samt fundist gaman að horfa á góðan fótbolta – ekki síst síðustu árin þegar Blikar hafa (ekki bara konurnar) náð frábærum árangri og spilað skemmtilegan fótbolta.

Það hefur nú reyndar ekki verið gefandi að fylgjast með “mínum mönnum” á Englandi, þeas. Derby County, en nálgun Arsene Wenger hjá Arsenal heillaði mig og ég fór svona að halda með þeim í efstu deild. Enda mikið af stuðningsmönnum þeirra í fjölskyldunni.

En það eru nokkur atriði sem hafa verið að drepa áhugann.

Fyrir það fyrsta þá er ég algerlega búinn að fá nóg af “molbúahættinum” í dómgæslu hér á landi og að dómarar séu ekki fyrir löngu komnir með nauðsynlega lágmarksaðstoð. Þetta er svolítið eins og að horfa á bíl á sumardekkjum fastan í snjóskafli.

Ekki hjálpa síðustu atburðir hjá Blikum þar sem mér hefur fundist furðulega staðið að þjálfaramálum og ekki til marks um þá langtíma framtíðar sýn á hvernig á að þróa liðið áfram og vanda val þjálfara..

Annars staðar hefur hegðun Arsenal dregið verulega úr áhuga mínum á félaginu, auðvitað þegar allt stefnir í gott tímabil.

En ég er svo furðulegur þegar kemur að fótbolta, að það skiptir mig miklu meira máli að hafa umhverfið í lagi, að liðin spili góðan og skemmtilegan fótbolta. Árangur talinn í titlum er minna atriði. Gott og vel, ekki ætla ég að reyna að segja að titlar og árangur í Evrópu skipti engu máli, en það er meira virði sem afleiðing af því að spila vel – frekar en að tuddast í gegnum einhverja sigra með Melavallar spark-og-spretta bolta og fá hvað eftir annað vafasamar ákvarðanir dómara eftir að hafa hamast í dómurum með hallærislegum leiksýningum.

Fótbolti og þjálfarar

Posted: september 20, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:,

Það hefur eitthvað borið á hugmyndum um að skipta um þjálfara hjá meistaraflokki karla í fótbolta hjá mínu félagi, Breiðablik.

Þetta er furðuleg umræða og lyktar af einhverju allt öðru en framtíðarsýn fyrir félagið.

Ef við þekkjum sögu fótboltans þá eru þau félög sem hafa náð ítrekuðum árangri til lengri tíma ekki þau félög sem eru stöðugt í örvæntingu að skipta um þjálfara.. jú, jú, það eru til undantekningar, en ekki margar.

Blekkingin liggur í því að það að skipta um þjálfara getur stundum kallað á að leikmenn þurfi að sanna sig fyrir nýjum þjálfara og það vinnast kannski 2-3 leikir áður en dottið er í sama farið og jafnvel verra far.

Enn líklegri blekking er aðhvarf að meðaltali, lið sem hefur verið að ná árangri sem er undir væntingum í nokkrum leikjum er líklegt til að safna stigum í næstu leikjum. Ég man ágætt dæmi þegar ég var í stjórn og formaður meistaraflokksráðs, það hafði gengið illa og háværar kröfur voru uppi um að reka þjálfarann, mikið áreiti. Við ákváðum að láta þjálfarann klára tímabilið, næstu tveir leikir, gegn, þáverandi stórveldum, unnust báðir.. ef við hefðum skipt um þjálfara hefði þjálfaraskiptunum eflaust verið þakkað.

Auðvitað getur komið upp sú staða að það sé kominn tími á þjálfaraskipti, en skýringar fyrir þeim liggja oftar en ekki í sérstökum aðstæðum, sem alls ekki eru sýnilegar utan félagsins og hafa lítið með skammstímasjónarmið að gera.

Í öllu falli, núverandi þjálfari hefur náð ótrúlega góðum árangri, Íslandsmeistaratitill á fyrsta keppnistímabili og þátttaka í Sambandsdeildinni á því næsta.

Ég kann ekki skýringar á slöku gengi í síðustu leikjum, mig grunar að þær séu margar og fráleitt að kenna þjálfaranum einum um.

Það er svo auðvitað aukaatriði, en enginn af þessum spekingum hefur svo mikið sem komið með óljósa hugmynd um hver ætti að taka við.

Kannski hugmynd fyrir stuðningsmenn félagsins að láta frekar heyra í sér á öðrum vettvangi.

Rétt og skylt að óska Víkingum aftur til hamingju með árangurinn í Evrópu, vel gert og skilar sér í íslenskan fótbolta.

Breiðablik og Víkingur – og kannski KA eitt skiptið – hafa verið í fararbroddi íslenskra liða í Evrópu síðustu árin og árangurinn skilar sé í íslenskan fótbolta, fleiri íslensk lið fá þátttökurétt í Evrópukeppnum og við fáum fleiri leiki.

Kvennalið Breiðabliks var auðvitað fyrst íslenskra liða til að komast í riðlakeppni meistaradeildar Evrópu.

Karlalið Breiðabliks náði svo sögulegum árangri 2023 þegar liðið varð fyrst íslenskra karlaliða til að komast í riðlakeppni Evrópumóts.

Og í fyrra (og reyndar aðeins inn í 2025) náðu Víkingar mjög góðum árangri í breyttu fyrirkomulagi Sambandsdeildar Evrópu.

Það er mikið talað um og mikið gert úr því – aðallega af stuðnings- og forsvarsmönnum Víkinga Smile – að Víkingar hafi náð lengst allra íslenskra lið í Evrópu. En bæði liðin voru reyndar í síðasta áfanga fyrir 16 liða úrslitin, Víkingar vissulega nær því að fara áfram en leið Blika talsvart erfiðari.

Ef við skoðum aðeins tvö síðustu tímabil þá spiluðu bæði liðin jafnmarga leiki í Evrópumótum, Breiðablik vann 7, Víkingar unnu 6. Breiðablik átti talsvert erfiðari andstæðinga, stuðull UEFA á andstæðingum Blika var 336 en Víkinga 136. (Ég veit vel að þessir stuðlar hafa sínar takmarkanir og eru villandi í einstaka tilfelli, en að jafnaði er þetta ágætur mælikvarði og sá mælikvarði sem UEFA notar).

Svo má líka hafa söguna aðeins á bak við eyrað. Liðum og tækifærum hefur fjölgað mjög mikið í Evrópukeppnum síðustu áratugina. Það er eiginlega ekki hægt að bera árangurinn í dag saman við árangur íslenskra liða á síðustu öld. Með því fyrirkomulagi sem var hér áður hefðu Víkingar dottið út í fyrstu umferð og Blikar í fjórðu árið áður.

Ég ítreka að ég er ekki að gera lítið úr árangri Víkinga, en er aðeins að láta trufla mig að mér finnst verið að tala niður árangur Blika.

En þar fyrir utan, hlakka til að sjá bæði lið – og vonandi fleiri – gera enn betur á næsta tímabili.

Breiðablik, til hamingju!

Posted: október 28, 2024 in Fótbolti
Efnisorð:,

Ég hef stundum sagt að ég hafi meiri áhuga á að liðin sem ég styð í fótbolta spili góðan og skemmtilegan fótbolta en að þau vinni titla.

En ég ætla nú ekki að fara að neita því að það var frábært að fagna Íslandsmeistaratitil með Breiðablik í gær – Íslandsmeistarar bæði í karla- og kvennaflokki.

Ekki síst vegna þess að þetta var verðskuldaður sigur í erfiðri deild með mörgum mjög góðum liðum.

En aðallega vegna þess að þetta er engin tilviljun, þetta árangurinn af áratuga starfi.

Til hamingju Blikar, bæði þeir sem voru í framlínunni í sumar en líka þeir sem hafa lagt grunninn með frábæru starfi.

Lokaleikur, miðar

Posted: október 24, 2024 in Fótbolti
Efnisorð:,

Ég held að ég sé ekkert sérstaklega að sækja eftir miða á lokaleikinn á Íslandsmóti karla í fótbolta, það er eitt og annað sem kemur til:

  • ég er ekkert sérstaklega spenntur fyrir leiknum, er sannfærður um að Blikar vinna öruggan sigur
  • það eru margir Blikar duglegri en ég að láta heyra í sér
  • og flestir hafa mætt á fleiri leiki en ég á árinu
    • ég held reyndar að starfsmaður mótanefndar taki mið af því að setja leiki á tíma þegar ég kemst ekki, hefur örugglega “hakkað” sig inn á dagatalið mitt
  • það verður örugglega hvort sem er skemmtilegra að vera í Smáranum, ef ég kemst
  • ég veit svo sem að allt getur gerst en þó svo að "illa fari" þá er ég mjög sáttur við tímabilið hjá Blikum, hafa verið langbesta liðið og það telur miklu meira fyrir mig en titlar (já, ég geri mér grein fyrir að þetta eru klár ellimerki)
  • þessi úrslitakeppni fer rosalega í taugarnir á mér, að mínu viti mikill misskilningur og ósanngjarnt fyrirkomulag
  • óboðlegt starfsumhverfi dómara hefur skilað óvenju mörgum slæmum mistökum á þessu tímabili og það hefur verið verulegur halli á því hvernig þau hafa dreifst, Blikar væru fyrir löngu staðfestir meistarar ef við notuðum tæknistuðning (VAR) við dómgæslu
    • þetta er eiginlega búið að vera svo slæmt að ég stend mig að missa áhuga á að fylgjast með mótinu, löngu áður en ljóst var hversu furðulega þetta hefur dreifst
    • ég veit að stuðningsmenn annarra liði hafa aðrar skoðanir, kann ekki við að segja að þeir séu “í afneitun” en er klárlega að hugsa Smile
    • nei, mig langar ekkert að eyða næstu vikum í að þrasa um þetta

Rosenborgar rökleysan

Posted: ágúst 31, 2023 in Fótbolti, Spjall
Efnisorð:, ,

Ég nefndi í framhjáhlaupi í grein um leik Breiðabliks og KR að mér þætti ekki til fyrirmyndar að keppninautar liðsins reyndu að nýta sér leikjaálag Blika með því að spila fast og leggja leikmenn í hættu. Kannski var þetta ekki meðvitað, kannski sáu liðin tækifæri – en líklegasta skýringin er nú að þetta hafi verið minn misskilningur.

Í framhaldinu hófust umræður við ágæta félaga um hvort það væri íslenskum fótbolta til góðs að stórar fjárhæðir kæmu til íslenskra félaga.

Ég hef svona í mínum gamaldags hugsunarhætti viljað sjá íslenskum liðum ganga vel, sjá íslenskan fótbolta fá tækifæri til að bæta þróun og uppbygginu. Allt hjálpar til við að byggja upp og koma okkur upp á næsta þrep.

Að ég tali nú ekki um að koma upp aðstöðu þannig að íslensk félagslið og landslið séu ekki á endalausum undanþágum til að fá að leika heimaleikina á Íslandi.

Og auðvitað hef ég ákveðnar skoðanir á hvaða félög myndu nýta þetta best.

Það er svo ansi sláandi hversu mikið er staglast á rökleysunni um Rosenborg í Noregi þegar verið er að tala um að það sé ekki „gott“ fyrir íslenskan fótbolta að fá fjármagn til frekari uppbyggingar. Þetta er auðvitað þekkt rökleysa – úr fyrsta hefti rökleysubókarinnar – þeas. taka eitt stakt dæmi og alhæfa út frá því..

Ef einhver vill halda því fram að það sé ekki „gott“ fyrir íslenskan fótbolta að fá inn fjármagn til uppbyggingar þá kalla ég eftir almennum upplýsingum og gögnum sem sýna að fjármagn kemur sér illa fyrir fótboltann í því landi sem það skilar. Ef þær upplýsingar og gögn eru ekki til staðar þá væri ég alveg til í að heyra ekki aftur meira af þessu Rosenborgar tali.

Og á hinn bóginn, ef hægt er að sýna fram á þetta sé skelfilegt fyrir starfið í viðkomandi landi, er þá ekki sjálfgefið að hætta að senda lið í Evrópukeppnir? Eða hætta fyrir riðlakeppni?

Kannski fyrst þurfi nú að skilgreina hvað er „gott“ og hvað er ekki „gott“.

Það sem ég er enn ekki að ná að hugsa eða skilja er, já-ég-myndi-vilja-að-mitt-lið-fengi-svona-peninga-en-það-væri-ekki-gott-fyrir-íslenskan-fótbolta-og-ég-vil-frekar-að-peningarnir-endi-í-öðrum-löndum-en-hjá-keppinautum-míns-félags. Þetta er einhvers konar “ég vil frekar að íslenskur fótbolti staðni og mitt lið geti safnað verðlitlum titlum”. Betra að vera stórt síli í lítilli tjörn en að þora að..

Blikar á Parken

Posted: ágúst 2, 2023 in Fótbolti
Efnisorð:, ,

Ekki kemst ég á leik Breiðabliks á Parken í undankeppni meistaradeildar Evrópu..

En ég sá haft eftir Óskari Hrafni að það gæfi honum ekki mikið að liðið hafi spilað vel í fyrra leiknum í ljósi þess að leikurinn tapaðist.

Auðvitað má deila um hversu vel liðið hafi spilað þegar það fær svona mörk á sig – og á hinn bóginn nýtir ekki færin betur.

En.. við skulum ekki gleyma að liðið spilið stóran hluta leiksins mjög vel og skapaði talsvert af færum, eiginlega ótrúlegt að skora ekki..

Eina leiðin til að koma íslenskum fótbolta á betri stað er að liðin þori – og geti – spilað fótbolta. Það er ekkert svo langt síðan íslensk lið fóru illa út úr Evrópuleikjum og áttu í besta falli sómasamlega baráttu í tapi í vonlausum leikjum. Breiðablik hefur verið fremst í að þróa íslenskan fótbolta, bæði í karla og kvennaflokki og vonandi fylgja fleiri félög, það eru þegar merki um að árangur Blika skili sér til annarra félaga – og ekki spillir að árangur Blika er að skila fleiri félögum sætum í Evrópukeppnum.

Nú veit ég (auðvitað) ekkert um það hvernig leikurinn fer í kvöld, mögulega gengur allt á afturfótunum og úrstlitin verða óhagstæð.

En, það er alveg möguleiki á að liðið standi sig vel, og vinni jafnvel upp tapið hér heima. Það sem vekur von er einmitt að liðið getur spilað fótbolta á móti “stórum” liðum.

Ég lofaði mér í vor að hunsa þessa lönguvitleysu sem „úrslitakeppnin“ í Bestu deild karla í fótbolta er… en það er auðvitað ekki hægt að sleppa lokaleiknum þegar Breiðablik er búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

En nokkrar samhengislausar hugleiðingar um leikinn, sumarið og framhaldið.

Leikurinn var sérstakur – eða réttara sagt, ekkert sérstakur – Blikar voru talsvert sterkari og ef ekki hefði verið fyrir stórleik markvarðar Víkinga þá hefði sigurinn orðið mun stærri. Þá hefðu sóknarmenn Blika kannski mátt klára betur færin, sérstaklega undir lokin, en það stefndi aldrei í að sigurinn væri í hættu. Ekki ætla ég að fara að væla (mikið) yfir dómgæslunni en ég má samt aðeins hugsa. Erlendur er auðvitað talsvert betri dómari en ég og auðvitað falla vafa atriðin stundum með og stundum á móti. Og ég geri mér grein fyrir að „Blikagleraugun“ ekkert sérstaklega hlutlaus. Ég er enn ekki að skilja hvers vegna Blikar fengu ekki 1-2 víti í fyrri hálfleik og enn síður er ég að ná því hvernig Víkingar fengu að klára fyrri hálfleikinn með 11 menn inni á vellinum. Getur hugsast að dómarar veigri sér frekar við að sýna rautt spjald framan af leik? Og það þyrfti aðeins að skýra betur fyrir mér hvers vegna gulu spjöldin sem Viktor Örn fékk voru fyrir verri brot en nokkuð mörg önnur brot sem voru afgreidd spjaldalaus. En gott og vel, leikmenn „á gulu spjaldi“ eiga auðvitað að fara varlega.

Að Víkingum, sem ég hef borið virðingu fyrir síðustu árin. Þeir eru með frábæran þjálfara, alvöru ‘karakter’ sem ber virðingu fyrir keppinautum og það að senda leikmenn til að votta Blikum virðingu við verðlaunaafhendingu er gott dæmi. Víkingarnir hafa svolítið haft þann stimpil (með réttu eða röngu) síðustu árin að vera „bölvaðir tuddar“ [ekki mín orð, en] hafa klárlega spilað eins fast og dómarar leyfa og byggt árangurinn að miklu leyti á þeim styrkleika. Ekki minn smekkur á fótbolta, en það er allt í góðu að menn nálgist verkefnið eins og þeim hentar, þeir eru klárlega með lið sem á erindi í Evrópu og með Blikum eru að færa íslenskan fótbolta upp á við. Eitthvað fannst mér leikmenn þeirra eiga erfitt með að standa í lappirnar í báðum leikjunum í Kópavogi, en bara mín upplifun.

Annars var þetta fínasta Íslandsmót, ég er á því að Blikaliðið frá því i sumar sé besta knattspyrnuliðið í sögu íslenskrar knappspyrnu – og er ég þá ekki að gleyma frábærum liðum frá síðustu öld… Þetta er auðvitað alltaf smekksatriði og ekki er ég að þykjast vera hlutlaus – en liðið spilar fótbolta eins og mér finnst að eigi að spila fótbolta. Í minni sérvisku (að þessu leyti eins og svo mörgu öðru) þá nenni ég eiginlega ekki að horfa á leiðinlegan fótbolta – jafnvel þegar ég var forvitinn um úrslit annarra leikja í sumar þá hélt ég ekki athygli þegar lið voru ekki að reyna að spila fótbolta.

Það lið sem mér fannst kannski helst að ná að spila góðan fótbolta, fyrir utan Blika, var Fram, en þar vantaði kannski einfaldlega betri leikmenn og breiðari hóp. Ég þykist vita að Stjarnan og Valur komi betri á næsta ári, og er ekki gleyma KA. Ég sakna Leiknis úr deildinni, svona sem Breiðholtsbúi, að mínu viti „fórnarlömb“ illa uppsettrar framlengingar á mótinu. Kannski ekki að spila fótbolta sem ég nennti sérstaklega að horfa á, en það var einhver stemming með liðinu.

En, það sem mig langaði nú kannski aðallega að segja eftir leikinn og eftir tímabilið.

Ég skil vel að það freisti leikmanna að fara út í atvinnumennsku, sérstaklega freistandi fyrir unga leikmenn.

En næsta skref íslensku liðanna, Blikar vonandi fremstir, er að félögin verði það stór að það sé meira (eða amk. jafn) spennandi kostur fyrir leikmenn að spila fyrir þessi lið en að fara í miðlungslið á (td.) Norðurlöndunum eða í minni deildum í Evrópu.

Og að lokum verð ég að fá að bjóða Alex Frey velkominn í Kópavoginn. Væntanlega koma fleiri sterkir leikmenn, en ánægður að sjá að Blikar ætli að styrkja hópinn enn frekar, mikið leikja álag og þátttaka í Evrópu kallar á enn stærri hóp af frábærum leikmönnum. En alltaf lykilatriði að kjarninn er uppalinn hjá félaginu.

… til Blika

Posted: október 28, 2022 in Íþróttir, Fótbolti, Umræða
Efnisorð:, ,

Mig langar rétt að nefna eitt atriði við Blika í kjölfar yfirburðasigurs á Íslandsmótinu í fótbolta karla. Og rétt að taka fram strax að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þetta verði í lagi.

Það er gott, alveg frábært, að vera stoltur af sínu liði og njóta þess að horfa á liðið spila frábæran fótbolta og ná árangri þannig.

En fyrir alla muni ekki byrja að gera lítið úr leikmönnum eða stuðningsmönnum annarra liða.

Takið frekar þjálfara síðustu Íslandsmeistara, og auðvitað þjálfara og leikmenn Blika til fyrirmyndar, berið virðingu fyrir andstæðingum og sleppið einhverjum hallærilegum skotum og tækifærum til að gera lítið úr árangri eða sögu andstæðinganna.

Ég veit að einhverjum þykir þetta “sniðugt” og finnst þetta hluti af leiknum, en þetta er auðvitað yfirgengilega hallærislegt – svona einhver arfur frá fótboltabullum, sem hafa verið áberandi í Evrópu – kannski er þetta á einhverju stigi sprottið af sömu rótum og einelti [þó ég ætli nú auðvitað ekki að fara að bera það saman].

Blikar 2021

Posted: september 26, 2021 in Íþróttir, Fótbolti
Efnisorð:

Smá vangaveltur eftir fótboltasumarið í efstu deild karla.

Blikum var spáð sigri, en byrjuðu mótið illa og það varð dýrkeypt að leikslokum.

Það er svo við hæfi að óska Víkingum til hamingju með titilinn, liðið kláraði sína leiki, leiki sem hefðu getað dottið á hvorn veginn sem var – nokkuð sem einkennir meistara – „stöðugleiki“ er kannski besta lýsingin, verst að það er komið hálfgert „óorð“ á það orð.

En Blikar náðu sér á strik, spiluðu frábæran fótbolta í flestum leikjum eftir slæma byrjun og voru nálægt því að landa titlinum með góðum úrslitum þegar leið á mót. Það gekk ekki eftir, eins og gengur, en svona þegar „svekkelsi“ næst síðustu umferðar er frá, þá er ég mjög ánægður með liðið.

Ekki spillti mjög góður árangur í Evrópukeppni og næstum því tímamóta árangur.

Það að liðið spilar frábæran fótbolta skiptir mig satt best að segja meira máli en titlar.. þeir koma ef haldið er áfram á sömu braut. Ekki myndi ég nenna að halda með liði sem safnar titlum með því að spila leiðinlegan bolta. [þessu er ekki beint til Víkinga, heldur almenn vangavelta um meistara síðustu áratuga, hér og erlendis]

Ég held reyndar að hefði liðið unnið mótið hefði það skilað sér í að fleiri félög myndu „sjá ljósið“ og leggja meiri áherslu á að spila góðan bolta. Og við hefðum séð enn betra mót 2022.

En þetta kemur.. liðið leiðir nauðsynlega breytingu í íslensku fótbolta, uppaldir leikmenn eru kjarninn í hópnum og fótbolti sem er eina leiðin til að spila á alþjóða vettvangi.