Upp á síðkastið hef ég verið að (reyna að) minnka fótbolta áhorf og tíma sem ég tek í að fylgjast með fréttum og umræðu. Það gengur kannski ekkert sérstaklega vel en mjakast.
Ekki hafði ég hugsað mér að fylgja mikið með HM karla í fótbolta á næsta ári, sérstaklega ekki leikjum sem spilaðir verða í Ríkjasambandi Ameríku – og eftir að íslenska liðið missti af þátttöku varð þetta nú enn minna spursmál.
Ég lét mig hafa það að horfa á HM 2022 í Katar með “óbragð í augum og eyrum”. Mér fannst vesaldómur stjórnenda FIFA ekki mega eyðileggja þessa hátíð, einhverjar leifar voru enn af þeirri hugmynd – sem var staglast á þegar ég var yngri – að fótboltinn væri utan við pólitík. Og að þarna hefðu verið gerð gróf mistök sem erfitt hefði verið að bakka út úr – og yrðu í það minnsta ekki endurtekin. Ég var að reyna sýna lit og forðast að styrkja helstu stuðningsaðila mótsins, en komst fljótt að því að ég keypti aldrei neitt frá þeim hvort sem var!
Í öllu falli, FIFA beit heldur betur höfuðið af skömminni og ég hef ekki geð í mér að horfa á þetta.