Sarpur fyrir júlí, 2013

Þvæla á RÚV

Posted: júlí 9, 2013 in Umræða
Efnisorð:, ,

Ég get ekki með nokkru móti skilið hvernig RÚV getur boðið upp á þvælu eins og eitthvað sem var kallað „heimildamynd“ og var sýnd í gær.

Mér skilst að ég geri kannski full stífar kröfur til heimildamynda, finnst að þær eigi að vera upplýsandi, benda á staðreyndir og jafnvel kynna rannsóknir eða niðurstöður þeirra – og auðvitað mögulega viðtöl þar sem viðmælandi hefur eitthvað fram að færa. Snúast um staðreyndir og vera fræðandi. Hafi mögulega eitthvað fram að færa annað en að koma einhverju dómsdags rugli inn í höfuðið á fólki. Kannski mín kröfuharka.

En er enginn kjaftæðissía í gangi, er í lagi að bjóða upp á hvaða þvælu sem er, bara vegna þess að einhver hefur púslað því saman í mynd? Amk. ein kona virðist hafa drepið sig á að taka þessu kjaftæði bókstaflega, önnur var hætt komin… kannski fær sú sem dó Darwin verðlaunin.

Tilraunadýrin

Posted: júlí 6, 2013 in Stjórnmál, Umræða

Það er víst ekkert leyndarmál að ég hef ekki verið mikill aðdáandi Ólafs Ragnars Grímssonar. Alls ekki. En mér hefur skilist að hann hafi verið virtur fræðimaður á sínu sviði, þeas. stjórnmálafræði, og margir hafa borið honum vel söguna sem fræðimanni.

Getur verið möguleg skýring á undarlegri hegðun forsetans síðustu mánuði að hann sé einfaldlega að gera gera einhvers konar rannsókn eða tilraun? Hvað getur forseti komist upp með hjá (að við héldum fyrirfram) þokkalega vel upplýstri þjóð – áður en henni blöskrar.

Mér er að minnsta kosti farið að líða eins og tilraunadýri.

Samsærisæsingurinn

Posted: júlí 6, 2013 in Spjall, Umræða

Mér varð það á að benda á skemmtilega grein á Facebook í gær 8-clues-your-friend-is-becoming-a-crazy-conspiracy-theorist þar sem nefnd eru til sögunnar nokkur atriði sem geta hringt viðvörunarbjöllum um að einhver sé að detta í pytt samsæriskenninga. Ekki svo að skilja að ég sé sammála hverju orði, ég bendi oft á eitthvað sem mér finnst skemmtilegt án þess að líma mig við hvert orð.

Ég fékk ansi langan reiðilestur til baka frá áhugamanni um samsæri. Ekki í frásögur færandi í sjálfu sér. Gífuryrðin eru ekkert nýtt fyrir mér frá þeim sem hafa þörf fyrir að sannfæra mig um tilvist samsæra, það er einhvern veginn eins og þeir haldi að ég kaupi frekar rökstuðning ef honum er drekkt í dónaskap! „samsærishálfviti“, „páfagaukatuð“, „barnalegu“, „andstyggilegan“, „drulla yfir þá sem eru ósammála“, „fullkomin hræsni af þér“, „ömurlega heimskulega“, „skammarlegt“, „ojbara“  eru nokkur dæmi af handahófi.

Svo voru mér gerðar upp fleiri, fleiri skoðanir sem ég hef aldrei haldið fram… og húðskammaður fyrir þær. Ekki í fyrsta skipti sem ég fæ þannig meðferð frá þeim sem vilja sannfæra mig um eitthvert samsærið.

Í greininni er hvergi haldið fram að þau átta atriði sem tilgreind eru eigi við alla samsærissinna, aðeins bent á nokkur möguleg dæmi sem einkenna suma, vísbendingar um að einhver sé hallur undir samsæriskenningar. Stór hluti af reiðilestrinum fór í að býsnast yfir að verið væri að gera lítið úr, og dæma, alla sem trúa á samsæri. Það er hvergi gert í þessum texta. Samt fékk ég til baka „alhæfingar um hvað „allir samsærissinnar segja“. Í gæsalöppum.

Svo fór ansi mikill hluti af textanum í að halda því fram að átt væri við  „heimskingjana úr grunnskólanum“, í gæsalöppum. Viðkomandi texti kemur hvergi fyrir í greininni en talað er um að einhver sem við höfum unnið með eða verið með í skóla, án þess að gera greind viðkomandi á skóla- eða vinnuárum að umtalsefni – og síðan „..trying to pretend that they are some kind of intellectual who is totally going to school you on “how things are in the world.“ – I hate to say this, but it’s true. It’s always the dumb ones)

Hvers vegna er ég að gera þetta að umtalsefni? Er þetta ekki bara smá misskilningur og fljótfærni í „réttlátri“ reiði??

Vegna þess að þetta er ekki í fyrsta eða annað sinn – ekki einu sinni hundraðasta – sem ég verð vitni að því að hugur samsærissinna starfar svona. Gífuryrði, viðmælanda gerðar upp skoðanir og reynist svo byggt á misskilningi. Auðvitað alls ekki alltaf, svo það sé á hreinu, en allt of oft.

Margar, en ekki allar, samsæriskenningar eru nefnilega studdar sömu rökleysunum, virðast byggja á jafn samhengislausri hugsun og styðjast við sama takmarkaða skilninginn á texta sem vísað er til. Þegar talsmenn málsstaðar gera sig ítrekað seka um jafn mikið getuleysi til að vinna úr upplýsingum, rjúka upp til handa og fóta án þess að skoða og hugsa málið… þá smám saman missi ég alla trú á getu viðkomandi til að vinna úr upplýsingum. Fyrir mér verður hann marklaus hávaðaseggur. Því miður.

PS. svo það sé á hreinu.. (1) þetta gildir ekki um alla sem trúa einhverju samsæri (2) ég er ekki að útiloka öll samsæri, stundum hef ég einfaldlega ekki hugmynd um hvað er satt og rétt, en kaupi annski kekki samsæriskenningu vegna þess að rökin eru ekki nægilega sterk..

PPS. ég ætla að loka á athugasemdir, legg ekki í fleiri athugasemdir á þessum nótum

Það er rétt að ókostir þjóðaratkvæðagreiðslna eru nokkrir.

Margir taka afstöðu

  • eftir óljósri tilfinningu
  • út frá ómálefnalegum áróðri
  • persónulegum hagsmunum
  • án þess að kynna sér rök með og á móti
  • án þess að þurfa að bera ábyrgð á afstöðu sinni

Gallinn er sá að í þingkosningum taka margir afstöðu, og kjósa

  • eftir óljósri tilfinningu
  • út frá ómálefnalegum áróðri
  • persónulegum hagsmunum
  • án þess að kynna sér rök með og á móti
  • án þess að þurfa að bera ábyrgð á afstöðu sinn

Þá hjálpar ekki að við atkvæðagreiðslu á Alþingi taka margir afstöðu, og kjósa

  • eftir óljósri tilfinningu
  • út frá ómálefnalegum áróðri
  • persónulegum hagsmunum
  • án þess að kynna sér rök með og á móti
  • án þess að þurfa að bera ábyrgð á afstöðu sinn

Það eru auðvitað til leiðir til að bæta niðurstöður almennra atkvæðagreiðslna.

Einfaldasta leiðin er að þeir sem taka þátt í atkvæðagreiðslu svari örfáum spurningum af handahófi sem sýna fram á að þeir hafi kynnt sér lágmarks efnistriði málsins. Hreinlegast væri að hafa þetta tölvuvætt.

Ég veit að þetta þykir róttækt. En flest mótsvör sem ég hef fengið eru innantóm, „æi, ég veit það ekki“, „ég held nú ekki“ og þar fram eftir götunum.

Þetta kemur. Kannski ekki fyrr en á næstu öld. En þetta kemur.