Mér var fyrir löngu bent á þá ágætu reglu að spyrja ekki spurningar ef svarið skipti ekki máli.
Ég sé að það er að spretta upp einhver kynþáttahyggja og henni tengd “rasismi” sem snýr að mikilvægi þess að vera Íslendingur og vernda íslensku þjóðina fyrir “utanaðkomandi” áhrifum.
Það vefst hins vegar yfirleitt fyrir þessum talsmönnum að skilgreina hvað það er að vera Íslendingur, oftast sýnist mér skilgreiningin miða við það sem hentar hverjum og einum!
Grunnurinn virðist vera á að fólk þarf að geta rakið ættir sínar í báða leggi, sem lengst aftur í tímann, helst til þeirra sem námu hér land. Hversu langt aftur þarf að fara virðist takmarkast við stöðu hvers og eins..
Nú veit ég ekki hversu mikil blöndun hefur verið hér, Írar, erlendir sjómenn, þrælar sem voru sóttir, fólk sem settist hér að á síðustu öld, fólk sem fæddist erlendis – svo eitthvað sé nefnt.
En ef skilgreiningin er að vera beinir afkomendur norskra landnema, eru þeir þá ekki Norðmenn frekar en Íslendingar?
Og Íslendingar þá ekki til?
Og ef við færum þá skilgreiningu yfir aftur á Norðmenn þá eru þeir heldur ekki til. Né nokkur önnur þjóð ef út í það er farið.