Archive for the ‘Umræða’ Category

Eru þjóðir til?

Posted: nóvember 27, 2025 in Samfélag, Umræða
Efnisorð:,

Mér var fyrir löngu bent á þá ágætu reglu að spyrja ekki spurningar ef svarið skipti ekki máli.

Ég sé að það er að spretta upp einhver kynþáttahyggja og henni tengd “rasismi” sem snýr að mikilvægi þess að vera Íslendingur og vernda íslensku þjóðina fyrir “utanaðkomandi” áhrifum.

Það vefst hins vegar yfirleitt fyrir þessum talsmönnum að skilgreina hvað það er að vera Íslendingur, oftast sýnist mér skilgreiningin miða við það sem hentar hverjum og einum!

Grunnurinn virðist vera á að fólk þarf að geta rakið ættir sínar í báða leggi, sem lengst aftur í tímann, helst til þeirra sem námu hér land. Hversu langt aftur þarf að fara virðist takmarkast við stöðu hvers og eins..

Nú veit ég ekki hversu mikil blöndun hefur verið hér, Írar, erlendir sjómenn, þrælar sem voru sóttir, fólk sem settist hér að á síðustu öld, fólk sem fæddist erlendis – svo eitthvað sé nefnt.

En ef skilgreiningin er að vera beinir afkomendur norskra landnema, eru þeir þá ekki Norðmenn frekar en Íslendingar?

Og Íslendingar þá ekki til?

Og ef við færum þá skilgreiningu yfir aftur á Norðmenn þá eru þeir heldur ekki til. Né nokkur önnur þjóð ef út í það er farið.

Nú er fjarri mér að gera lítið úr áhyggjum margr af því að við stöndum okkur ekki nægilega vel í að sinna börnum, öldruðum og sjúklingum. Það má örugglega gera betur.

Reyndar virðast áhyggjurnar aðallega snúast um þá sem hafa búið hér lengi og eiga helst ættir sínar að rekja að lágmarki einhverjar aldir hér á landi.

Og einhverra hluta vegna virðast margir tengja þetta við að það fari svo miklir peningar í að aðstoða flóttafólk og innflytjendur að það sé bókstaflega ekkert eftir fyrir aðra.

Ég er hins vegar orðinn nægilega gamall til að muna að við hefðum mátt gera miklu betur í allri ummönnun, löngu fyrir tíma flóttafólks og innflytjenda – og ekki var ríkissjóður tómur þá frekar en nú.

Það sem verra er, mér sýnist útlendingahatur og fordómar vera dulbúið sem umhyggja fyrir “innlendingum”.

Gott og vel, ég skal taka þetta fólk trúanlegt þegar það eyðir jafn mikilli orku, púðri og peningum í sjálfboðaliðastarf, gjafir og safnanir fyrir fólkið sem það notar sem skjöld í umræðunni.

Myndskreytingar frétta

Posted: júlí 24, 2025 in Umræða
Efnisorð:,

Ég geri mér grein fyrir nauðsyn þess að fjalla vel um athafnir og orð ónefnds fávita sem situr að völdum hér ekki langt frá og hvers nafn ég tek mér hvorki í munn né set "á blað".

Mér finnst eðlilegt og um að gera að gera vel grein fyrir núverandi atburðarás þar sem allar líkur
eru á að ferill viðkomandi sé að kafna í eigin ælu. Smjörklípudjöfulgangurinn við að reyna að beina athyglinni í einhverjar aðrar áttir er hlægilegur og virkar ekki.

En kæru vinir og félagar og samstarfsfélagar á fréttamiðlum – væruð þið til í að sleppa því að skreyta fréttir með myndum og myndbrotum af kvikindinu? Ég bara get ekki lengur horft á smettið á þessum dæmda glæpamanni, sem ég fæ ekki betur séð en bíði dóms fyrir kynferðisbrot og jafnvel barnaníðs (ætla ekki að fullyrða, ég geri meiri kröfur um sannanir en stuðningsmenn hans).

Ég hef amk. ákveðið að taka mér viku frí frá hverjum þeim fréttamiðli sem sýnir mér andlitið á þessu úrþvætti.

Ég á (átti) nokkra vini / félaga / kunningja sem studdu trúðinn sem situr á forsetastól í ónefndu ríkjasambandi.

Það hefur talsvert kvarnast úr stuðningnum..

  • hann átti að hafa svo mikið vit á viðskiptum, en skilur ekki hvernig tollar virka og virðist halda að framleiðendur í öðrum löndum borgi þá.. eitthvað fækkaði nú í aðdáendahópnum þegar þetta kom í ljós.
  • hann átti að vera svo snjall að reka fyrirtæki að það væri fín hugmynd að fá hann til að reka ríkissjóð, en svo rifjaðist upp löng saga gjaldþrota, hafði einhver, en merkilega lítil áhrif.
  • hann átti að vera svo harður samningamaður, en flumbrugangur, stöðugur sveiflur og endalausar eftirgjafir þar sem allt var gefið eftir slógu það út af borðinu.
  • þá voru þau sem voru sátt við að hann hefði komið sér undan því að gegna herþjónustu með því að láta pabba kaupa sér frí, sem ég gæti svo sem skilið, en svo vill hann hersýningu á afmælinu!
  • hann átti að vera óvenjulegur stjórnmálamaður og koma með ferska vinda í umhverfi sem var á kafi í mútuþægni.. vindarnir hafa vissulega verið ferskir en í þá átt að mútur hafa komið eins og loftlagsbreytinga stormsveipur í stjórnmálin vestanhafs og aldrei verið meiri og augljósari.
  • hann ætlaði svo sannarlega að sjá til að verð á nauðsynjavörum lækkaði, það hefur ekki beinlínis gengið eftir, þvert á móti, staglaðist á þessu í kosningabaráttunni, en fer í smábarnafýlu ef einhver rifjar þetta upp – hefur svo sem ekki breytt miklu fyrir stuðningsfólk hér á landi, en ekki þurft að kaupa “köttinn” í sekknum.
  • margir voru ánægðir með þær fyrirætlanir að ráðast ekki inn í önnur lönd, en hótanir um innrásir á Grænland og Panama hafa nú gert það að engu, sennilega sneru nú flestir bak við honum eftir þetta.
  • þá voru einhverjir sem töldu hann talsmann hefðbundinna fjölskyldugilda, þrátt fyrir óhefðbundna fjölskyldusögu.. en það féll svo endanlega þegar kom í ljós að hann hafði keypt sér kynlífsþjónustu, en þetta var jú vitað fyrir og virtist ekki breyta miklu.
  • öðrum fannst mikið til koma hvernig til stóð að taka á ólöglegum innflytjendum, það fór svo þegar kom í ljós að honum fannst allt í lagi að senda löglega innflytjendur úr landi.
  • einhverjir voru að sjá fyrir sér lög og reglu, en svo var hann dæmdur glæpamaður.
  • ég veit ekki hvers vegna fólki hér á landi hrífst af því að vilja gera lönd eins og Argentínu, Perú, Ekvador stórkostleg (kannski halda viðkomandi að það sé bara eitt ríki í Ameríku, það væri í takt við aðra fáfræði hópsins).

En síðasta hálmstráið sem stuðnigsmenn hans hér hafa hangið á eins og úrillur hvolpur á roði að hann sé nú samt betri vegna þess að forsvarsmenn hins stóra stjórnmálaflokksins séu á kafi í einhverjum vændishring (gott ef ekki barna). Þær kenningar standast ekki nokkra skoðun, eru eiginlega með vitlausari og glórulausustu samsæriskenningum sem haldið er á lofti.

Til að kóróna vitleysuna þá eru sams konar tengingar eru á milli forsetans og ætluðum skipuleggjanda vændishringins, meira að segja mun skýrari, hann og aðalskipuleggjandi hringsins virðast hafa verið góðir kumpánar og ítrekað verið að saman í teitum.. og forsetinn óskaði hægri hönd skipuleggjandans alls hins besta þegar upp komst um hlut hennar.

Ég ætla alls ekki að fullyrða að forsetinn tengist mansali, hvað þá tengdu börnum – til þess þarf talsvert meiri upplýsingar og gögn – en hann er mun líklegri en allir aðrir stjórnmálamenn vestanhafs.

Á endanum er þetta er svokölluð hring rökleysa.. fyrst gefur fólk sér að hópur B sé sekur um eitthvað, í framhaldinu gefur þetta sami hópur sér að þá hljóti hópur A að vera saklaus (sem er auðvitað hrein rökleysa) og svo þegar búið er að gefa sér (fyrirfram) að hópur A sé saklaus þá eru allar vísbendingar um “sekt” hans afgreiddar sem hluti af einhverju samsæri og ofsóknum – jafnvel þó öll gögn og vísbendingar séu mun sterkari.

Ekki til áttavillta vestursins

Posted: janúar 19, 2025 in Umræða
Efnisorð:,

Ég get ekki hugsað mér að fara til Bandaríkjanna næstu árin.

Ástæðan er kjör trúðsins til forseta í nóvember.

Ekki frekar en að ég gat ekki hugsað mér að fara á HM í fótbolta 2018.

Ekki veit ég alltaf hvar á að draga mörkin.. ég heimsótti til dæmis Bandaríkin í upphafi fyrri forsetatíðar gaursins – en bæði var búið að ákveða og greiða fyrir þá ferð löngu fyrr og ástandið ekki eins svakalegt og núna.

Nú veit ég vel að Bandaríkin er samband margra ólíkra ríkja og stuðningur við hann mis mikill á milli ríkja.

En það breytir því ekki að það er eitthvað verulega ógeðfellt við að hann hafi verið kjörinn.

Sannarlega rasisti, fasisti, kvenfyrirlitningin greinileg, frekar heimskur, verulega fáfróður og beinlínis helsjúkur raðlygari. Og þetta mat mitt byggir eingöngu á því sem ég hef beint frá honum af samfélagsmiðlum, ákvörðunum, framboðsfundum og viðtölum.

Sennilega réðu efnahagsmál, eða misskilningur á stöðu þeirra, atkvæðum eða atkvæðaleysi ansi margra. Það voru jú talsvert færri sem greiddu honum atkvæði núna en fyrir fjórum árum, þrátt fyrir að fleiri mættu kjósa, en það voru bara enn færri sem nenntu að hafa fyrir því að kjósa gegn honum. Það er einhver huggun, en ekki mikil að hann fékk þó ekki meirihluta atkvæða.

Hann spilar auðvitað á vanþekkingu, fáfræði, mannfyrirlitningu og fordóma. Og kemst upp með það. Þar liggur vandinn.

En það er ekki eingöngu kosningarnar, það er einhver svakalegur aumingjagangur þarna vestanhafs að ekki sé búið að koma honum á bak við lás og slá fyrir löngu.. dæmdur glæpamaður og ekki ólíklegt að hann hafi verið sekur um landráð í tveimur ólíkum málum.

Ekki má gleyma að hann ber auðvitað ábyrgð á ótímabærum dauðsföllum fjölda manns eftir Covid, við fáum sennilega seint að hversu margir misstu lífið vegna áróðurs sem byggðist fáfræði og heimsku.

Lengi vel stögluðust stuðningsmenn hans á því að hann hefði ekki hafið neitt stríð.

En nú gengur stjórnlaust gasprið í þessum vanvita út á að beita hervaldi gegn nokkrum nágrannaríkjum. Fasismi, rasismi, útlendingafordómar – þetta hafa lengi verið “vörumerkin” – og nú bætast kröfur um landvinninga við – samlíkingin við Þýskaland Hitlers er orðin raunveruleg.

Ég óttast að sagan frá seinni heimsstyrjöldinni geti endurtekið sig.

Ég á talsvert af vinum, kunningjum og ættingjum sem hafa – að mér finnst – ansi skrýtnar skoðanir.

Margir trúa (nánast) hverri einustu samsæriskenningu sem þeir sjá/heyra eins og nýju neti. Það er svona að miklu leyti í lagi mín vegna.

Það eru þó nokkrar undantekningar á þessu.

Ég hef ekki þolinmæði fyrir því þegar fólk er stöðugt að áreita mig með furðulegum fullyrðingum, sérstaklega ekki ef hrokinn, yfirlætið og sjálfumgleðin eru með í för – frekar hvimleiður kokteill. Ég hef leyft góðum vinum að hanga inni á Facebook vinalistanum, aðrir hafa farið.

Ég hef svo heldur enga þolinmæði fyrir því þegar fólk kynnir rangfærslur og staðleysur sem “skoðanir”. Fullyrðingar sem auðvelt er að afsanna og hafa fyrir löngu verið afskrifaðar.

Mannfyrirlitning dulbúin sem skoðanir er annað sem ég umber ekki. Það er, því miður, talsvert um það, sérstaklega gagnvart transfólki og LGTB.

Og svo eru rangfærslur, settar fram sem skoðanir, og eru beinlínis hættulegar, td. sú botnlausa heimska að afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Ég hef setið undir

  • ítrekuðum fullyrðingum um ellefta-september, sem standast enga skoðun (ég hef engar sannanir til eða frá fyrir atburðarásinni, en engar af þeim upplýsingum/fullyrðingum sem eiga að sýna fram á einhvers konar samsæri standast skoðun)
  • glórulausri afneitun á staðreyndum um loftslagsbreytingar, það er nú ekki eins og það sé flókið að fylgjast með eða erfitt að átta sig á fyrirliggjandi gögnum
  • fullyrðingum um að Boeing hafi staðið á bak við Covid-19, man ekki samhengið – en vitlausara verður það varla
  • þráhyggju fyrir því að svindlað hafi verið á drullusokknum sem náði aftur kjöri sem forseti vestanhafs, þrátt fyrir að fáar fullyrðingar hafi verið eins afdráttarlaust afsannaðar
  • að bólusetningar í Laugardalshöll hafi verið nákvæmlega eins og fundir hjá Hitlers-æskunni, ekki bara svipaðar, heldur “nákvæmlega eins”
  • allt ruglið og fáfræðin sem hafnar bólusetningum
  • á ég að nefna eðlufólkið?
  • eða þoturákirnar?
  • fullyrðingar um Hilary Clinton og einhvers konar barnaníð demókrata

Þegar einhver er að halda þessu fram við mig – eða einhverjum nýjum kenningum sem standast ekki einföldustu skoðun – þá er við viðkomandi einfaldlega að gera lítið úr sjálfum/sjálfri sér í mínum huga.

Það er orðið nokkuð áberandi í umræðunni fyrir kosningar að ákveðin framboð eigi á hættu að detta út af þingi (eða ná ekki inn).

Þetta kemur til vegna þess að framboðin fá eitthvað nálægt 5% atkvæða á landsvísu skv. könnunum.

Þetta þýðir samt alls ekki og engan veginn að framboð séu endilega í hættu við að detta út af þingi.

5% reglan á eingöngu við um úthlutun jöfnunarsæta og framboð hafa mis mikið fylgi milli kjördæma geta hægleg fengið kjördæmakjörinn þingmann þó þau nái ekki 5% fylgi á landsvísu. Það þarf ekki að vera en það er útilokað að fullyrða. Sem dæmi fengu Píratar 5,3% fylgi 2021 þar sem fylgi þeirra var minnst en 12,8% þar sem það var mest.. svipað gildir um flest framboð, en auðvitað mismunandi hvernig fylgið dreifist, mikið fylgi í stóru kjördæmi eða kjördæmi þar sem fá atkvæði eru á bak við hvert þingsæti getur hæglega breytt heildarmyndinni.

Þannig er fráleitt að gefa sér að atkvæði verði hugsanlega dauð nema hafa upplýsingar um spá í hverju kjördæmi fyrir sig. Nú eða fylgi sé það lítið að það komi aldrei til með að nægja í kjördæmi.

Í hverjum kosningum heyrist, nokkuð hátt, í þeim sem ætlað ýmist að skila auðu, gera ógilt eða jafnvel ekki mæta á kjörstað. Jafnvel borið á smá yfirlæti í yfirlýsingum.

Lengi hefur það þótt sýna ákveðna afstöðu að mæta frekar og skila auðu en að mæta alls ekki.. það gerir það kannski í huga viðkomandi – en þetta er nákvæmlega það sama, kemur nákvæmlega eins út – og öllum er sama, það tekur enginn eftir þessu.

En þetta er ekki bara hlutleysi, eins og margir vilja halda, þetta er stuðningur við þá sem eru að fá flest atkvæði.

Ekki bara óbeinn því kosningakerfið okkar virkar þannig að þeir sem fá hærra hlutfall fá (oftar en ekk) meira hlutfall þingsæta en fjöldi atkvæða segir til um. 

Þannig að að.. munið að það að sitja heima eða skila auðu er ekki sjálfstæð afstaða.. það er stuðningur við þá sem fá raunverulega flest atkvæði hjá öðrum kjósendum.

Auglýsingaþreyta

Posted: nóvember 8, 2024 in Umræða
Efnisorð:

Ég held að ég hafi frekar innbyggða bólusetningu fyrir auglýsingum, er amk. ekki þessi hefðbundni móttækilegi neytandi.

En það er ekkert að marka mig, ég kann ekkert á auglýsingar og hef sjaldan getað auglýst nokkuð þannig að það skili árangri.

En getur verið að auglýsingar séu að verð stöðugt ágengari of frekari?

Fyrir utan það að sjónvarpsstöðvar, sem ég ég borga fyrir áskrift, koma varla þáttunum að fyrir auglýsingum.. og fyrir utan að það koma fjórtán auglýsingahlé í hverjum þætti, stundum sama auglýsingin tvisvar í sama hléi… þá.

Þá…

Þá… er ég algjörlega áttavilltur. Ég er kannski að horfa á einn þátt, það er gert hlé í miðju kafi og það kemur kynning á öðrum þætti og þulur segir mér, með nokkrum þjósti, að “horfa núna!” – á einhvern allt annan þátt.

Og eins og það sé ekki nægilega ruglingslegt, þá kemur kannski önnur auglýsing, fyrir annan þátt, og aftur skipar þulurinn mér að “horfa núna!” með engu minna þjósti og yfirlæti en í fyrra skiptið!

Evrópusambandið, Ísland

Posted: nóvember 6, 2024 in Ísland, Samfélag, Umræða
Efnisorð:,

Ég hef þvælst svolítið í hringi varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu síðustu ár, áratugi.

Kannski ekki stóra hringi, aldrei verið alveg fráhverfur stundum verið á báðum áttum, oftar en ekki nokkuð jákvæður án þess að vera alveg sannfærður.

Mér sýnast vera sterk rök fyrir að aðild sé mjög góður kostur efnahagslega, stöðugleiki og sterkari gjaldmiðill. En efnahagur er ekki allt sem telur. Og ég veit að það eru ekki allir sammála og ég veit að það eru marktæk rök á móti.. mér finnast hin vega þyngra. Hvort sem er, efnahagsmál eru ekki allt og ekki það eina sem skiptir máli.

Síðustu árin hefur verið mikið bakslag í mannréttindum víða um heim, gömlu stórveldin eru orðin gróðrarstía fordóma, fáfræði, haturs og mannfyrirlitningar.

Á meðan hefur Evrópa ekki bara staðið vörð um mannréttindi heldur hefur Evrópa dregið vagninn í þróun mannréttinda.

Fullkomin? Nei, fjarri því.

En þetta er orðið miklu stærri ákvörðun en bara efnahagur – sterk Evrópa er besta von okkar um betri framtíð.

Í ljósi síðustu breytinga á heimsvísu er kominn tími til að taka af skarið, klára málið og ganga í Evrópusambandið.