Sarpur fyrir nóvember, 2024

Fullveldi og ákvarðanir

Posted: nóvember 28, 2024 in Samfélag, Stjórnmál
Efnisorð:, ,

Það er verið að staglast á því í kosningaáróðrinum að við afsölum okkur fullveldi með því að ganga í ESB.

Þetta stenst enga skoðun, þjóð sem ekki er fullvalda hefði til að mynda ekki getað ákveðið að ganga úr sambandinu.

Þetta er svona grundvallar misskilningur og/eða ómerkilegur útúrsnúningur á hugtakinu “fullveldi”.

Ekki síst í ljósi þess að við erum þegar skuldbundin miklu af því sem ákveðið er hjá ESB í gegnum EES samninginn.

Og svo fylgir gjarnan að gengið er út frá að allar ákvarðanir Evrópusambandsins séu sjálfkrafa skelfilega vondar.

Ég er þvert á móti viss um að megnið af ákvörðunum sem teknar eru í Brussel (og víðar) séu að öllu jöfnu talsvert miklu betri en ákvarðanir sem mishæfir valdamenn hér heima hafa tekið.

Það er orðið nokkuð áberandi í umræðunni fyrir kosningar að ákveðin framboð eigi á hættu að detta út af þingi (eða ná ekki inn).

Þetta kemur til vegna þess að framboðin fá eitthvað nálægt 5% atkvæða á landsvísu skv. könnunum.

Þetta þýðir samt alls ekki og engan veginn að framboð séu endilega í hættu við að detta út af þingi.

5% reglan á eingöngu við um úthlutun jöfnunarsæta og framboð hafa mis mikið fylgi milli kjördæma geta hægleg fengið kjördæmakjörinn þingmann þó þau nái ekki 5% fylgi á landsvísu. Það þarf ekki að vera en það er útilokað að fullyrða. Sem dæmi fengu Píratar 5,3% fylgi 2021 þar sem fylgi þeirra var minnst en 12,8% þar sem það var mest.. svipað gildir um flest framboð, en auðvitað mismunandi hvernig fylgið dreifist, mikið fylgi í stóru kjördæmi eða kjördæmi þar sem fá atkvæði eru á bak við hvert þingsæti getur hæglega breytt heildarmyndinni.

Þannig er fráleitt að gefa sér að atkvæði verði hugsanlega dauð nema hafa upplýsingar um spá í hverju kjördæmi fyrir sig. Nú eða fylgi sé það lítið að það komi aldrei til með að nægja í kjördæmi.

Í hverjum kosningum heyrist, nokkuð hátt, í þeim sem ætlað ýmist að skila auðu, gera ógilt eða jafnvel ekki mæta á kjörstað. Jafnvel borið á smá yfirlæti í yfirlýsingum.

Lengi hefur það þótt sýna ákveðna afstöðu að mæta frekar og skila auðu en að mæta alls ekki.. það gerir það kannski í huga viðkomandi – en þetta er nákvæmlega það sama, kemur nákvæmlega eins út – og öllum er sama, það tekur enginn eftir þessu.

En þetta er ekki bara hlutleysi, eins og margir vilja halda, þetta er stuðningur við þá sem eru að fá flest atkvæði.

Ekki bara óbeinn því kosningakerfið okkar virkar þannig að þeir sem fá hærra hlutfall fá (oftar en ekk) meira hlutfall þingsæta en fjöldi atkvæða segir til um. 

Þannig að að.. munið að það að sitja heima eða skila auðu er ekki sjálfstæð afstaða.. það er stuðningur við þá sem fá raunverulega flest atkvæði hjá öðrum kjósendum.

Auglýsingaþreyta

Posted: nóvember 8, 2024 in Umræða
Efnisorð:

Ég held að ég hafi frekar innbyggða bólusetningu fyrir auglýsingum, er amk. ekki þessi hefðbundni móttækilegi neytandi.

En það er ekkert að marka mig, ég kann ekkert á auglýsingar og hef sjaldan getað auglýst nokkuð þannig að það skili árangri.

En getur verið að auglýsingar séu að verð stöðugt ágengari of frekari?

Fyrir utan það að sjónvarpsstöðvar, sem ég ég borga fyrir áskrift, koma varla þáttunum að fyrir auglýsingum.. og fyrir utan að það koma fjórtán auglýsingahlé í hverjum þætti, stundum sama auglýsingin tvisvar í sama hléi… þá.

Þá…

Þá… er ég algjörlega áttavilltur. Ég er kannski að horfa á einn þátt, það er gert hlé í miðju kafi og það kemur kynning á öðrum þætti og þulur segir mér, með nokkrum þjósti, að “horfa núna!” – á einhvern allt annan þátt.

Og eins og það sé ekki nægilega ruglingslegt, þá kemur kannski önnur auglýsing, fyrir annan þátt, og aftur skipar þulurinn mér að “horfa núna!” með engu minna þjósti og yfirlæti en í fyrra skiptið!

Evrópusambandið, Ísland

Posted: nóvember 6, 2024 in Ísland, Samfélag, Umræða
Efnisorð:,

Ég hef þvælst svolítið í hringi varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu síðustu ár, áratugi.

Kannski ekki stóra hringi, aldrei verið alveg fráhverfur stundum verið á báðum áttum, oftar en ekki nokkuð jákvæður án þess að vera alveg sannfærður.

Mér sýnast vera sterk rök fyrir að aðild sé mjög góður kostur efnahagslega, stöðugleiki og sterkari gjaldmiðill. En efnahagur er ekki allt sem telur. Og ég veit að það eru ekki allir sammála og ég veit að það eru marktæk rök á móti.. mér finnast hin vega þyngra. Hvort sem er, efnahagsmál eru ekki allt og ekki það eina sem skiptir máli.

Síðustu árin hefur verið mikið bakslag í mannréttindum víða um heim, gömlu stórveldin eru orðin gróðrarstía fordóma, fáfræði, haturs og mannfyrirlitningar.

Á meðan hefur Evrópa ekki bara staðið vörð um mannréttindi heldur hefur Evrópa dregið vagninn í þróun mannréttinda.

Fullkomin? Nei, fjarri því.

En þetta er orðið miklu stærri ákvörðun en bara efnahagur – sterk Evrópa er besta von okkar um betri framtíð.

Í ljósi síðustu breytinga á heimsvísu er kominn tími til að taka af skarið, klára málið og ganga í Evrópusambandið.

þá er nokkuð ljóst að það er eitthvað mikið að.

Ræfillinn, drullusokkurinn og auminginn (ég nenni ekki að skýra frekar, það yrði allt of langur lestur) sem sat á forsetastóli 2016-2020 og tapaði síðustu kosningum afdráttarlaust, virðist eiga þokkalega möguleika á að vinna.

Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna það kemur yfirleitt til greina að kjósa hann, mannfyrirlitningin, fáfræðin, heimskan, fordómarnir, getuleysið, stanslaus lygaþvælan, ofbeldið og svo mætti lengi telja.

En ekki síður aumingjaskapur og getuleysi réttar- og dómskerfisins við að koma honum á bak við lás og slá eftir augljósa og ítrekaði glæpi er svo enn frekar til marks um að það er eitthvað mikið að vestanhafs. [jú, ég veit að hann var búinn að planta útsendurum í lykilstöður í réttarkerfinu, en samt].

Enda hvernig sem fer, kannski er þetta stórveldi komið á endastöð og fall yfirvofandi.

Ég er ekki svo viss um að það sé endilega svo slæmt svona til lengri tíma litið. Stórveldi liðast gjarnan í sundur.

En auðvitað vona ég bæði vegna vina og kunningja sem búa þarna – og líka vegna þess að þarna er fullt af góðu fólki – að kosningarnar fari vel og við taki almennar breytingar sem skilji mannfyrirlitningu, fasisma, fordóma og fáfræði eftir. En það verður erfitt.