Posts Tagged ‘HM’

Og ekkert HM í fótbolta á næsta ári

Posted: desember 5, 2025 in Fótbolti
Efnisorð:,

Upp á síðkastið hef ég verið að (reyna að) minnka fótbolta áhorf og tíma sem ég tek í að fylgjast með fréttum og umræðu. Það gengur kannski ekkert sérstaklega vel en mjakast.

Ekki hafði ég hugsað mér að fylgja mikið með HM karla í fótbolta á næsta ári, sérstaklega ekki leikjum sem spilaðir verða í Ríkjasambandi Ameríku – og eftir að íslenska liðið missti af þátttöku varð þetta nú enn minna spursmál.

Ég lét mig hafa það að horfa á HM 2022 í Katar með “óbragð í augum og eyrum”. Mér fannst vesaldómur stjórnenda FIFA ekki mega eyðileggja þessa hátíð, einhverjar leifar voru enn af þeirri hugmynd – sem var staglast á þegar ég var yngri – að fótboltinn væri utan við pólitík. Og að þarna hefðu verið gerð gróf mistök sem erfitt hefði verið að bakka út úr – og yrðu í það minnsta ekki endurtekin. Ég var að reyna sýna lit og forðast að styrkja helstu stuðningsaðila mótsins, en komst fljótt að því að ég keypti aldrei neitt frá þeim hvort sem var!

Í öllu falli, FIFA beit heldur betur höfuðið af skömminni og ég hef ekki geð í mér að horfa á þetta.

HM, RÚV og heimamenn – áskorun

Posted: nóvember 17, 2022 in Íþróttir, Umræða
Efnisorð:

Það er óneitanlega ömurlegt að fylgjast með hvernig HM í knattspyrnu karla fer fram þetta árið.

Margir ætla, kannski eðlilega, sleppa því að horfa á keppnina í sjónvarpi. Ég er ekki alveg að átta mig á því hvort það breytir miklu úr þessu, heimamenn eru væntanlega búnir að fá það sem þeir ætluðu sér.

En svona til að létta okkur áhorfið sem erum enn að hugsa um að horfa.. þá vil ég skora á RÚV að nefna ekki mótsstaðinn, hvorki borgir né land einu orði allt mótið og sleppa öllu kynningarefni frá mótshöldurum.

Neymar lærdómur

Posted: júlí 5, 2014 in Fótbolti
Efnisorð:, , ,

Sennilega er HM 2014 í fótbolta eitthvert besta stórmót sem haldið hefur verið í fótbolta. Til þess að gera fáir dauðir leikir, mikið af mörkum, enn meira af næstum því mörkum að ógleymdum frábærum markvörslum og mikilli „dramatík“.

En ég er samt að hafa áhyggjur af því hvert fótboltinn stefnir.

Brassarnir voru „sparkaðir niður“ í fyrstu leikjunum. Þeir mættu í gær og spörkuðu leikmenn Kólumbíu niður. Sem aftur svöruðu fyrir sig með því að stórslasa einn besta leikmann heims, sem missir í kjölfarið af þeim leikjum sem eftir eru í mótinu. Og við missum af honum.

Það hefur verið bent á í kjölfar bitsins hjá Suarez að það séu nú fleiri dæmi um grófa og stórhættulega hegðun, sem menn komist upp með án mikilla refsinga. Þetta hefur verið sagt Suarez til varnar og sem rök fyrir því að hans bann fyrir ítrekuð brot hafi verið of langt. Þetta er auðvitað kjaftæði, hann átti sitt bann skilið og jafnvel lengra. Hitt er svo annað mál að miklu fleiri leikmenn eiga skilið að fá gott frí frá fótbolta.

Ég veit að fótbolti er leikur með snertingu. En hvaða snertingar eru leyfðar og hvernig er ágætlega vel skilgreint.

Í leik Brasilíu og Kólumbíu í gær flautaði dómarinn á svona um það bil fimmta hvert brot. Hann var samt stöðugt flautandi og leikurinn hvað eftir annað stopp. Á endanum var einn leikmanna stórslasaður. Viljandi. Einn sá besti í heimi.

Það er stöðugt verið að halda í leikmenn, toga í peysur, fara örlítið utan í, grípa í, setja úr jafnvægi, sparka aðeins í leikmann, smá snerting við boltann um leið og andstæðingurinn er straujaður, klipið, kýlt.. og svo á hinn bóginn verið að þykjast detta eða meiða sig til að fá eitthvað frá dómaranum.

Það er einfalt að hreinsa fótboltann af þessum sóðaskap. Fyrir það fyrsta á að aðstoða dómara við að grípa öll tilfelli með myndavélum. Gult spjalt og 10 mínútur af leikvelli fyrir hvert brot þar sem farið er í leikmann í stað bolta.. mögulega ein aðvörun fyrir fyrsta brot ef saklaust. Kannski mætti á móti bíða með rautt spjald eftir þriðja gula spjaldinu. Og leikmaður á ekki að komast upp með að þykjast vera að reyna að fara í boltann, það er hans ábyrgð að snertingin við andstæðinginn sé leyfileg. Sama gildir um hvers kyns leikaraskap og óheiðarleika.

Myndum við fá sjö rauð spjöld í hverjum leik? Nei, leikmenn læra strax..það tekur ekki langan tíma að hreinsa fótboltann. Og ef það verður gert þá sjáum við bestu leikmenn heims óáreitta og óslasaða – leikurinn flæðir og að minnsta kosti fyrir minn smekk verður hann miklu skemmtilegri.