Sarpur fyrir október, 2024

Jöfnunarmenn

Posted: október 30, 2024 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Eitt kem ég seint til með að skilja, ja, reyndar ansi margt.

En í þetta skipti er ég að hugsa um hvers vegna í ósköpunum er ekki búið að fjölga jöfnunarmönnum í kosningum til Alþingis.

Þetta er einföld aðgerð, snýst ekki um neitt annað en sanngirni, þeas. að styrkur framboða á þingi endurspegli hversu mörg atkvæði þau fá greitt í þingkosningum.

Það væri nauðsynlegt að fjölga um amk. einn í hverju kjördæmi, best að allir þingmenn væru jöfnunarmenn og enn betra að endurskoða kosningakerfið frá grunni.

En þetta hefði verið algjört lágmark.. það er ekkert sem mælir á móti, nema einhverjir þingflokkir skilji kerfið ekki betur en svo að halda að þó framboð þeirra hafi grætt á því að hafa fáa jöfnunarmenn í síðustu kosningum, þá komi það til með að þýða að þeir haldi áfram að fá þingsæti umfram fjölda atkvæða í kosningum.

Breiðablik, til hamingju!

Posted: október 28, 2024 in Fótbolti
Efnisorð:,

Ég hef stundum sagt að ég hafi meiri áhuga á að liðin sem ég styð í fótbolta spili góðan og skemmtilegan fótbolta en að þau vinni titla.

En ég ætla nú ekki að fara að neita því að það var frábært að fagna Íslandsmeistaratitil með Breiðablik í gær – Íslandsmeistarar bæði í karla- og kvennaflokki.

Ekki síst vegna þess að þetta var verðskuldaður sigur í erfiðri deild með mörgum mjög góðum liðum.

En aðallega vegna þess að þetta er engin tilviljun, þetta árangurinn af áratuga starfi.

Til hamingju Blikar, bæði þeir sem voru í framlínunni í sumar en líka þeir sem hafa lagt grunninn með frábæru starfi.

Lokaleikur, miðar

Posted: október 24, 2024 in Fótbolti
Efnisorð:,

Ég held að ég sé ekkert sérstaklega að sækja eftir miða á lokaleikinn á Íslandsmóti karla í fótbolta, það er eitt og annað sem kemur til:

  • ég er ekkert sérstaklega spenntur fyrir leiknum, er sannfærður um að Blikar vinna öruggan sigur
  • það eru margir Blikar duglegri en ég að láta heyra í sér
  • og flestir hafa mætt á fleiri leiki en ég á árinu
    • ég held reyndar að starfsmaður mótanefndar taki mið af því að setja leiki á tíma þegar ég kemst ekki, hefur örugglega “hakkað” sig inn á dagatalið mitt
  • það verður örugglega hvort sem er skemmtilegra að vera í Smáranum, ef ég kemst
  • ég veit svo sem að allt getur gerst en þó svo að "illa fari" þá er ég mjög sáttur við tímabilið hjá Blikum, hafa verið langbesta liðið og það telur miklu meira fyrir mig en titlar (já, ég geri mér grein fyrir að þetta eru klár ellimerki)
  • þessi úrslitakeppni fer rosalega í taugarnir á mér, að mínu viti mikill misskilningur og ósanngjarnt fyrirkomulag
  • óboðlegt starfsumhverfi dómara hefur skilað óvenju mörgum slæmum mistökum á þessu tímabili og það hefur verið verulegur halli á því hvernig þau hafa dreifst, Blikar væru fyrir löngu staðfestir meistarar ef við notuðum tæknistuðning (VAR) við dómgæslu
    • þetta er eiginlega búið að vera svo slæmt að ég stend mig að missa áhuga á að fylgjast með mótinu, löngu áður en ljóst var hversu furðulega þetta hefur dreifst
    • ég veit að stuðningsmenn annarra liði hafa aðrar skoðanir, kann ekki við að segja að þeir séu “í afneitun” en er klárlega að hugsa Smile
    • nei, mig langar ekkert að eyða næstu vikum í að þrasa um þetta

Ekkert VAR, enginn ég

Posted: október 22, 2024 in Umræða
Efnisorð:

Ég er að gefast upp á að horfa á íslenska boltann.

Ég geri mér grein fyrir að störf dómara eru erfið og hafa aldrei verið erfiðari. Leikurinn er hraðari, leikmenn orðnir nokkuð útsmognir í að leika á dómara og sífellt meira í húfi.

Hvers vegna í dauðanum er dómurum neitað um ódýrara, einfalda aðstoð í formi aðstoðar með myndavélum, VAR?

Þetta þarf ekki að vera flókið og þetta þarf ekki að taka tíma – það er einfaldlega spurning um hvernig þetta er gert.

Nei, nei, þetta er ekki fullkomið – en kostirnir eru miklu fleiri en gallarnir. Enda dettur varla nokkrum manni í hug að hætta að nota þetta erlendis.

Og fyrir alla muni hlífið mér við þessum bábiljum að þetta “jafnist út”. Það er nægilega góð tölfræði sem staðfestir að þetta getur skipt sköpum. Enda hvernig á það að “jafnast út”, segjum í lokin á (undan eða-) úrslitaleik á stórmóti, ef dómari gerir afdrifarík mistök sem milljónir áhorfenda sjá? Hvernig jafnast það út? [„þetta er allt í lagi góði, þetta jafnast út, þú verður örugglega heimsmeistari í næsta lífi í boði dómaramistaka!“].

Stundum er bent á að leikmenn geri fleiri mistök en dómarar, sem er rétt, en auðvitað rökleysea í þessu samhengi, mistök leikmanna bitna á þeim og liðum þeirra.. mistök dómara bitna á öðrum.

Tímabilið hér heima var einstaklega þreytandi í fyrra að þessu leyti. Það er auðvitað lítið hægt að fullyrða um hvernig leikir hefðu þróast ef mistök dómara hefðu verið leiðrétt en það eru nú góðar líkur á að stigataflan í mótslok hefði verið öðru vísi – og auðvitað enginn úrslitaleikur, nægilega mörg stig fengu þáverandi Íslandsmeistarar í boði augljósra dómaramistaka.

Og nú í sumar erum við aftur að horfa á mistök sem auðvelt hefði verið að leiðrétta, ódýrt og einfalt kerfi, sem þarf ekki að taka meiri tíma en þegar dómarar þurftu stöku sinnum að ráðfæra sig við gömlu línuverðina og kemur í veg fyrir stærstu mistökin.

Það er ekki við dómara að sakast – jú, kannski þegar þeir taka ákvarðanir út frá því þegar annað liðið kvartar og dæma eitthvað sem þeir sáu ekki – en svona almennt þá er þetta erfitt hlutverk og mikil þörf á góðri aðstoð.

Þá er farið að koma fyrir að íslensku liðin eru einfaldlega ekki með þessa reynslu í Evrópukeppnum.

Þannig að ég er alvarlega að velta fyrir mér að taka frí frá íslenska boltanum þar til starfsumhverfi dómara verður orðið boðlegt, Það hlýtur að vera stutt í þetta.. erum við ekki síðasta deildin sem enn keppir á fornöld?

En sennilega felst mesta virðið í betri dómgæslu er að hún hefur breytt leiknum verulega, dýfur og lúmsk brot í trausti þess að dómarar sjái ekki – eru nánast að hverfa.

[uppfært í ágúst 2025]