Ég er að gefast upp á að horfa á íslenska boltann.
Ég geri mér grein fyrir að störf dómara eru erfið og hafa aldrei verið erfiðari. Leikurinn er hraðari, leikmenn orðnir nokkuð útsmognir í að leika á dómara og sífellt meira í húfi.
Hvers vegna í dauðanum er dómurum neitað um ódýrara, einfalda aðstoð í formi aðstoðar með myndavélum, VAR?
Þetta þarf ekki að vera flókið og þetta þarf ekki að taka tíma – það er einfaldlega spurning um hvernig þetta er gert.
Nei, nei, þetta er ekki fullkomið – en kostirnir eru miklu fleiri en gallarnir. Enda dettur varla nokkrum manni í hug að hætta að nota þetta erlendis.
Og fyrir alla muni hlífið mér við þessum bábiljum að þetta “jafnist út”. Það er nægilega góð tölfræði sem staðfestir að þetta getur skipt sköpum. Enda hvernig á það að “jafnast út”, segjum í lokin á (undan eða-) úrslitaleik á stórmóti, ef dómari gerir afdrifarík mistök sem milljónir áhorfenda sjá? Hvernig jafnast það út? [„þetta er allt í lagi góði, þetta jafnast út, þú verður örugglega heimsmeistari í næsta lífi í boði dómaramistaka!“].
Stundum er bent á að leikmenn geri fleiri mistök en dómarar, sem er rétt, en auðvitað rökleysea í þessu samhengi, mistök leikmanna bitna á þeim og liðum þeirra.. mistök dómara bitna á öðrum.
Tímabilið hér heima var einstaklega þreytandi í fyrra að þessu leyti. Það er auðvitað lítið hægt að fullyrða um hvernig leikir hefðu þróast ef mistök dómara hefðu verið leiðrétt en það eru nú góðar líkur á að stigataflan í mótslok hefði verið öðru vísi – og auðvitað enginn úrslitaleikur, nægilega mörg stig fengu þáverandi Íslandsmeistarar í boði augljósra dómaramistaka.
Og nú í sumar erum við aftur að horfa á mistök sem auðvelt hefði verið að leiðrétta, ódýrt og einfalt kerfi, sem þarf ekki að taka meiri tíma en þegar dómarar þurftu stöku sinnum að ráðfæra sig við gömlu línuverðina og kemur í veg fyrir stærstu mistökin.
Það er ekki við dómara að sakast – jú, kannski þegar þeir taka ákvarðanir út frá því þegar annað liðið kvartar og dæma eitthvað sem þeir sáu ekki – en svona almennt þá er þetta erfitt hlutverk og mikil þörf á góðri aðstoð.
Þá er farið að koma fyrir að íslensku liðin eru einfaldlega ekki með þessa reynslu í Evrópukeppnum.
Þannig að ég er alvarlega að velta fyrir mér að taka frí frá íslenska boltanum þar til starfsumhverfi dómara verður orðið boðlegt, Það hlýtur að vera stutt í þetta.. erum við ekki síðasta deildin sem enn keppir á fornöld?
En sennilega felst mesta virðið í betri dómgæslu er að hún hefur breytt leiknum verulega, dýfur og lúmsk brot í trausti þess að dómarar sjái ekki – eru nánast að hverfa.
[uppfært í ágúst 2025]