Skattalækkanir

Posted: apríl 7, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ein ástæða þess að ég rekst hvergi almennilega í stjórnmálaflokki er að mínar skoðanir ganga þvert á flokka og framboð.

Ég er til dæmis á því að skattalækkanir, bæði á fyrirtæki og einstaklinga, séu eitt mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar þegar kemur að efnahagsmálum. Einföldun skattkerfisins skiptir líka máli. Og það að lækka vexti. Sem stangast á við skoðanir skoðanabræðra og systra í mörgum öðum mikilvægum málum.

Umræðum um skattakerfið og skattprósentu hefur að mörgu leyti verið byggð á misnotkun á tölfræði. Bent er á að skatthlutfall sé ekki svo hátt í samanburði við nágrannalöndin. Það gleymist hins vegar að nefna hvað við fáum fyrir skattpeningana. Það kostar talsvert fyrir hvern nemanda að mæta í skóla, reynið að bjóða norðmönnum upp á þetta. Hver heimsókn á heilbrigðisstofnun kostar meira en þekkist í sömu löndum. Svo má ekki gleyma að við erum ekki með há útgjöld til varnamála..

En svo því sé haldið til haga þá er ekki þar með sagt að ég fordæmi verk núverandi ríkisstjórnar af sama krafti og margir andstæðingar hennar. Það ber að virða að þau tóku við hrikalega erfiðu verkefni, og þó ég hefði mælt með öðrum leiðum – sem enginn veit hvernig hefðu farið – þá má ekki gleyma að þau fylgdu sinni sannfæringu, gengu heiðarlega í verkið og náðu betri árangri en flestir þorðu að vona.

En það er kominn tími til að lækka skatta og einfalda skattkerfið. Ég hef ekki endanlegt svar við hversu mikið. En gott dæmi, þó ekki sé stórt, eru háar álögur á fyrirtæki. Tekjurnar af þeim eru svo notaðar til að styrkja nýsköpun. Er ekki einfaldara að halda peningunum innan fyrirækjanna og leyfa þeim að vinna að nýsköpun?

Lækkun skatthlutfalls þýðir ekki að peningar hverfi úr hagkerfinu. Það þýðir að neytendur geta notað peningana. Það skapar fleiri störf. Sem aftur lækkar útgjöld, til dæmis, vegna atvinnuleysis. Ég ætla ekki að láta eins og þetta sé einföld jafna eða töfralausn að fara í kúvendingu, en núverandi skatthlutfall er of hátt.

Hækkun skattleysismarka, ein skattprósenta og lægri aukaskattar, svo sem tryggingagjald… væru fyrstu skrefin.

[PS. gerði minni háttar lagfæringar á upphaflegri færslu]

Athugasemdir
 1. Við sáum hvað það gekk vel í Bandaríkjunum hjá Reagan og Bushunum tveimur að reka efnahagsstefnu byggða á skattalækkunum.

 2. Hjá Reagan var farið úr tæpum 80% í 30% (um það bil, muni ég rétt) – ég er ekki að tala um neitt nálægt því – skattalækkun Kennedy, sem var mun hóflegri, skilaði td. árangri.

  Og (eins og ég sagði) þá er þetta er ekkert einfalt.

 3. Rökin, hólmsteinskan, um að skattalækkanir auki veltu, skapi ný störf og aftur meiri skatttekjur tel ég hæpna hagfræði, amk. eins og nú háttar til.. Þetta er bara önnur hlið jöfnunnar. Minni tekjur hjá ríkinu þýðir að öðru jöfnu minni kaup þess á vörum og þjónustu og færri störf. Reyndar hafa skattahækkanir eftir hrun farið í að stoppa upp í hrikalegan halla ríkissjóðs og þar með þjóðarbúsins. Skattalækkanir nú þýða því einfaldlega meiri halla eða minni þjónustu hins opinbera. Við erum í þeirri vöndu stöðu að við eigum ekki fyrir „aukinni veltu“ í hagkerfinu. Hún skilar sér að lokum í auknum halla á utanríkisviðskiptum og þann gjaldeyri eigum við ekki. Ég sé amk. ekki hvaðan hann geti komið í bráð. Það þýðir þá væntanlega meira hrun okkar vesælu krónu. Staðreyndin er sú að eftir mikið neyslufyllirí stórs hluta þjóðarinnar erum við með afar erfiða timburmenn. Ég kann ekki lausnina, aðra en þá að þrengja beltisólina, amk. slaka ekki á henni!

  • En eins og kom fram í færslunni þá geri ég ekki lítið úr erfiðum aðstæðum síðustu ára.

   Það er rétt að skattalækkanir skila sér í minni kaupum ríkisins á vörum og þjónustu, en á móti kemur að þetta skilar sér í meiri kaupum hjá fyrirtækjum og einstaklingum, einmitt á vörum og þjónustu – þar sem ég tel þessu betur stýrt. Skattbyrðin á fyrirtækin er það há að það er erfitt að hefja rekstur og smáfyrirtæki eiga mörg hver erfitt uppdráttar, sérstaklega þar sem taka þarf áhættu. Þessu er að einhverju leyti mætt með styrkjum, en aftur tel ég miklu skynsamlegra að leyfa fyrirtækjunum sjálfum að ráða ferðinni.

   Þá er engan veginn sjálfgefið að aukin velta skili sér í auknum gjaldeyrishalla, þvert á móti er mjög mikilvægt að auka starfsemi innanlands, það gefur færi á útflutningi sem aftur skilar sé í auknum gjaldeyristekjum. Lykillinn er að fjölga stöfum og auka verðmætasköpun hér innanlands.. það skilar sér í minni innflutningi og/eða meiri útflutningi.

   Tengt þessu – en efni í aðra færslu – er hversu fráleitt það er að láta stóran hóp sitja atvinnulausan á meðan við kaupum þjónustu og vörur að utan…

   PS. ég væri reyndar til í að ræða þetta án stimpla eins og „hólmsteinskan“..

 4. Matti skrifar:

  > “ þvert á móti er mjög mikilvægt að auka starfsemi innanlands“

  Það er nokkuð fast hlutfall af eyðslu landsmanna sem fer í að kaupa innfluttar vörur eða þjónustu. Með einföldun má segja að x prósent af hverri krónu sem heimilin fá aukalega fer beint til útlanda. Það er mjög erfitt að koma í veg fyrir það nema með enn frekari höftum.

  • Ég get ekki með nokkru móti séð að þetta þurfi að vera eitthvert náttúrulögmál, og hef amk. ekki séð nein rök fyrir því eða upplýsingar sem styðja þetta. Þetta hefur verið mjög breytilegt til lengri tíma og er mjög breytilegt milli þjóða. Bara síðustu árin hefur hlutfall innflutnings aukist verulega (fór yfir 51% 2011) http://data.worldbank.org/indicator/NE.IMP.GNFS.ZS

   Það þarf ekki höft ef hægt er að framleiða vöru hér á samkeppnishæfu verði. Sama gildir um útflutning. Það er ekkert sem segir að við getum ekki nýtt þá sem eru atvinnulausir.

 5. Matti skrifar:

  Afskaplega stór hluti af vörum er alls ekki er hægt að framleiða innanlands, sbr: næstum allar tæknivörur (tölvur, sjónvörp, símar…), bílar, skip, ferðalög til útlanda… við höfum bara ekki forsendurnar til að framleiða þetta á samkeppnishæfu verði (eða yfirleitt).

  Þetta er ekki náttúrulögmál, en því sem næst og við getum ekki nýtt atvinnulausa til að breyta því.

 6. Ég geri mér grein fyrir því að við framleiðum seint allt innanlands, en við erum samt að flytja inn hluti sem við getum framleitt, nýlegt dæmi um sement úr fréttum (ef ég leyfi mér að nefna það fyrsta sem mér dettur í hug og sleppi því að leggjast í rannsóknarvinnu). Það þarf ekki mörg prósent eða mikla sveiflu til að telja talsvert. Bara þær sveiflur sem orðið hafa síðustu ár eru talsvert mikils virði. Og við getum nýtt atvinnulausa í þróunarverkefni sem mögulega skila tekjum, jafnvel lítið brot er meira virði en að láta fólk sitja atvinnulaust…